Efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá að koma inn í miðja atkvæðagreiðslu, en það er vegna þess að ég tók ekki eftir því fyrr, forseti fór svo hratt yfir, að tillögur á þskj. 301, sem hafa verið settar fram eftir að hafa verið kynntar í þingflokki Borgfl. og fluttar af einum þingmanni Borgfl. og þar með með samþykki flokksins, hafa verið dregnar allar til baka af honum. Ég óska eftir að taka upp þær tillögur sem eftir eru og þær sem þegar hafa verið kallaðar aftur óska ég eftir að komi fram til atkvæðagreiðslu við 3. umr. Ég óska eftir að taka upp og gera að mínum tillögum þær tillögur sem eftir eru á þessu plaggi. Ef einhver vafi er að það sé þingskapalega rétt eða hægt óska ég eftir því að skrifstofustjóri verði kallaður til og hann látinn skera úr um hvort þingsköp leyfa að ég taki upp tillögu sem annar maður fellur frá.