Albert Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Stefnuyfirlýsingar eru nú ekki margar á hverju kjörtímabili, hvað þá maður geti átt von á þeim bæði í jólagjöf og í eftirmat með jólunum, en hæstv. forsrh. sá tilefni til að gefa út nýja stefnuyfirlýsingu þó að ekki séu liðnir nema um það bil fjórir mánuðir síðan ríkisstjórnin kom saman. Sú sem hann gaf út þá var að vísu prentuð þannig að þingmenn gátu farið yfir hana eins og venja er ekki seinna en um það bil sem hún var flutt á Alþingi og er mikið hagræði í því að þingmenn fái sendar stefnuyfirlýsingar. Forsrh. hafði gefið út góðar tilkynningar og skilmerkilegar í fjölmiðlum um að það væri von á nýrri stefnuyfirlýsingu með lækningu við öllu þjóðarmeini í efnahagsmálum okkar svo að ég hefði búist við eftir þær auglýsingar að hv. þm. fengju á borð hjá sér stefnuyfirlýsinguna til þess a.m.k. að fylgjast með því sem var lesið upp af svo miklu tilfinningaleysi að það var eins og forsrh. hefði ekki lesið yfir gagnið sem hann var með fyrir framan sig. Það er sannfæringarlaust, áherslulaust og engin furða þó að þingmenn muni ekki nokkurn skapaðan hlut úr viðkomandi ræðu og ég fyrir mína parta var eins ruglaður og ríkisstjórnin eftir að hafa hlustað á því að ég gat ekki með nokkru móti greint neitt nýtt til lausnar í efnahagsvanda þeim sem við erum í eftir að hafa hlustað á ræðuna. Það var að vísu vitnað í óafgreidd mál sem liggja fyrir Alþingi og ég skal fara rólega yfir það á eftir því að mér liggur ekkert á núna, fara yfir það og sýna fram á hvers lags endaleysa þær aðgerðir í efnahagsmálum sem lagðar voru fram fyrir jól eru. Og að bæta þessari súpu, sem ég kalla, við þær ráðstafanir er svo sannarlega að bæta gráu ofan á svart.
    Í 60 mínútur hélt þetta áfram. Það var stefnt að þessu, stefnt skal að hinu og farið í hringi og kerfið sem við höfum þó notast við í áratugi ruglað enn þá meira en þegar er.
    Mér skildist á forsrh. að núna eftir mánaðar hlé til að tala við Borgfl. um stjórnarmyndun væri hann svo þreyttur að hann hefði ekki getað talað við þá aftur í kvöld í klukkutíma. En í þessari ræðu voru engin loforð um betri tíma, engin niðurstaða, engin fyrirheit, ekkert sem getur gefið fólkinu í landinu von um að breytingar verði til hins betra.
    Ég hugsaði þá og hugsa enn að okkar ágæti vinur og félagi, fyrrv. þingmaður Björn Pálsson, hefði líklega sagt við mig hefði hann séð hvað ég var að hugsa: Vertu nú ekki að stríða strákagreyjunum. Það er kalt úti og það snjóar. Það er erfitt að framkvæma nokkurn skapaðan hlut. Menn verða latir þegar það er kalt úti og þurfa að hanga inni í heitu húsi. --- Ég hugsa að það sé rétt. En það er ekki letin ein. Ég undirstrika að ríkisstjórnin er, því miður fyrir okkur öll, komin á leiðarenda í hugmyndum að lausnum á efnahagsvanda þjóðarinnar. Og ef einhver getur fundið einhverja aðra skýringu á þessum hringlandahætti, ég veit ekki hvort á að kalla þetta efnahagsaðgerðir, hlýtur það að vera eina skýringin að menn eru komnir á leiðarenda í hugmyndum um hvað eigi að gera. Það

fer ekki milli mála.
    Ég ætla að gera það af tillitssemi við hæstv. forsrh., kannski breyta frá venjunni, að ég ætla að biðja hann í guðanna bænum að reyna ekki að skýra þetta aftur út, að reyna ekki að gefa nánari skýringar. Ég óska a.m.k. ekki eftir nánari skýringum vegna þess að menn geta dottið og meitt sig ef þeir fara of mikið í hringi. Það er best að tala sem minnst um það sem liggur fyrir óafgreitt í efnahagsmálum og eins það sem ríkisstjórnin virðist hafa í huga, enda hvernig á annað að vera en að menn eigi erfitt með að kynna lausnir í vandasömum málum þegar það er upplýst í fjölmiðlum í kvöld í matarhléinu að ríkisstjórnin hafi setið á fundi frá því snemma í morgun þangað til hálftíma fyrir fund í dag við að reyna að ná saman um þessar tillögur. ( Forsrh.: Þetta er hrein endaleysa.) Það veit ég ekki. Ég hlusta á ríkisfjölmiðlana og ríkisstjórnin stjórnar ríkisfjölmiðlunum. ( Forsrh.: Þú trúir fjölmiðlum vonandi.) Ég trúi þeim, ég hlusta svo oft á forráðamenn þjóðarinnar í fjölmiðlum. Ekki vil ég segja að þeir segi ósatt.
    Ég hefði gjarnan viljað fá skýringar hjá hæstv. forsrh. án þess að hann komi að efnahagsmálunum sem hann er að leita að. En hvað gaf honum tilefni til þess að láta þau orð sem hann lét falla um Borgfl. falla eins og hann gerði? Er Borgfl. kominn undir verndarvæng og stjórn forsrh. eða höfum við formann enn þá? Ég ætlast til þess jafnvel þó að Borgfl. færi í stjórnarsamvinnu, sem ég sé nú ekki að hann geti eftir það sem á undan er gengið, að hann verði áfram undir stjórn þess formanns sem flokkurinn kýs sér og hann verði talsmaður fyrir Borgfl. og fyrir það sem Borgfl. er að reyna að gera en ekki neinn annar.
    Það er mánuður síðan við fórum í jólafrí. Rétt fyrir jólafrí voru afgreidd hér skattalög. Skattalög voru afgreidd með aðstoð hluta af Borgfl. og það fylgdi, að mér var tjáð, að fyrirhugað væri að taka upp stjórnarmyndunarviðræður við Borgfl. strax eftir að jólafríið væri skollið á. Jólafríið er búið og viðræðurnar hafa verið mjög fáar. Þeir sem hafa verið í viðræðunefnd hafa harla lítið séð af viðmælendum. Það getur vel verið að einhver leynifundur hafi átt sér stað. En ég veit ekkert um það. Það er nú
ekki nema um hálft annað ár síðan ég stofnaði þennan flokk. Ég harma að það skuli ekki hafa unnist tími til að ræða við Borgfl. og komast að niðurstöðu. Er verið að leika sér að þingmönnum eða leika sér að heilum þingflokki? Er verið að gera grín að Borgfl.? Hvað er að ske? Á að nota fólk eins og saklausa einfeldninga? Hvað á þetta að þýða? Það er orðið aumkunarvert að horfa á þetta. Í gær segir formaðurinn: Ég er að koma af fundi forsrh. Og hnefann í borðið: Kl. 2 á morgun verður komin ríkisstjórn eða við förum ekkert í neina stjórn. Hvað svo? Svo skeður það að í þessum ræðustól fyrr í kvöld á þessum sama fundi segir sami formaður: Það verður að ganga frá þessu í dag, ekki seinna en á morgun eða innan fárra daga. Mér datt í hug: Ætli hann vilji ekki bara ganga frá þessu einhvern tíma fyrir kosningar? Hvað á svona fíflagangur að þýða?

    Ég er á móti því að fara í þessa stjórn, en ég er enn þá meira á móti því að hafa félaga mína að fíflum. Ég stofnaði ekki þennan flokk til þess.
    En ég skil þörfina fyrir Borgfl. Ég skil hana. Hann er með mannlega stefnu. Honum er ekki sama hvernig fer um fólk. Þess vegna má ekki undir neinum kringumstæðum skemma það sem byrjar vel með einhverjum refsskap gamalla stjórnmálamanna. Formaður flokksins talaði áðan, og er þá í stjórnarandstöðu, sem gaf ekkert tilefni til þess að ætla að Borgfl. væri á leið inn í ríkisstjórn, talar um fulltrúa gömlu flokkanna með fyrirlitningu. Það er kannski hægt að segja: Hvernig er með gömlu fulltrúa nýju flokkanna? Er einhver munur? Fer það eftir aldri mannanna eða aldri flokkanna hvort það er tekið mark á þeim eða ekki mark á þeim?
    Ég verð að taka undir það, sem kom fram í efnahagsumræðum fyrr í kvöld og ég er innilega sannfærður um, að það er vel sagt og það er rétt sagt og menn ættu að hlusta á þau orð sem hv. 7. þm. Reykn. lét falla þegar hann sagði: Menn ættu að tala minna og gera meira. Mikið vildi ég að hann hefði gert það sjálfur þegar við greiddum atkvæði um skattafrv. fyrir jólin. Ég er innilega sammála og hefði kannski verið betra ef einhverjir fleiri hefðu gert það. Sumir hefðu mátt gera minna og tala meira, en það er sjaldan sem maður óskar eftir því. Það er afar sjaldan sem maður óskar eftir því, en það skemmir ekki stundum. Og þá var ekki verið að hugsa um afkomu hinna smáu. Þá var ekki verið að hugsa um litla fólkið. Það er ekki verið hugsa um láglaunafólkið. Það er ekki verið að hugsa um það þegar skattarnir eru settir á hvaða nafni sem þeir eru nefndir. Það er aukaatriði hvort það eru tollar, vörugjald, tekjuskattar, eignarskattar eða annað. Það eru skattar. Haldið þið að þið séuð, kæru ríkisstjórnarmeðlimir, að gera einhverjar ráðstafanir fyrir láglaunafólkið með því að koma nú með gengislækkun? Ísland er farið að skulda svo mikið að það er orðið einfalt barnaskóladæmi að margfalda skuldina með gengislækkuninni og sjá hvað við höfum upp úr því og hvað við fáum til baka í hagnað af þjóðarframleiðslu okkar. Það er orðið einfaldasta reikningsdæmi að sjá að við stórtöpum á gengislækkunum. En það er haldið áfram að lækka gengið og gera alls konar kúnstir sem eiga kannski rétt á sér við eðlilegar aðstæður en eru eins rangar og hægt er að hafa nokkuð rangt þegar aðstæðurnar leyfa ekki. Það eru ekki alltaf sömu aðstæður.
    Svo er talað um að það þurfi að hugsa um afkomu fyrirtækjanna, það þurfi að hugsa um afkomu fólksins. Það þarf að hugsa um hvort tveggja vegna þess að það er þjóðarhagur. Þjóðfélagið gengur ekki nema vinnumarkaðurinn og fólkið sé sátt og gangi í takt. Umræðan sem fer fram er um þjóðina, um bæði hið svokallaða litla fólk, stóra fólk, fyrirtæki smá og stór, hlutafélög, samvinnufélög o.fl. Við skiljum ekki einn þáttinn frá öðrum.
    En ég vil gjarnan fá skýringu á því hvernig á því stendur að forsrh. leyfir sér að tala fyrir hönd Borgfl. eins og hann gerði áðan. Jafnvel þó það væri komið

samkomulag við þá nefnd sem er í gangi þá á stjórn flokksins og stjórn þingflokksins eftir að fjalla um málið og það segir enginn að þessir aðilar átti sig ekki á því hvað er að ske. ( Forsrh.: Sagði ég það?) Ég hlusta ekki á allt sem hæstv. forsrh. segir. Hann hlýtur að vita sjálfur hvað hann hefur sagt og hvað hann hefur ekki sagt. Ég veit ekki um hvað forsrh. talar upp úr svefni eða vakandi.
    Eitt af því sem kom fram áðan og var hluti af efnahagsumræðunum var hvað fjvn. úthlutar smáum upphæðum. Það er alveg rétt. Ég gerði tilraunir þegar ég var fjmrh. til að sleppa öllum upphæðum sem voru undir 100 þús. kr., síðan reyndi ég að sleppa öllum upphæðum sem voru undir 50 þús. kr. og hæstv. heilbr.- og trmrh., sem var í þessari vinnu með mér sem fjmrh., endaði með því að reyna að standa með mér um að sleppa 10 þús. kr. upphæðum. Það var ekki hægt. Það var ekki hægt vegna þess að fólkið úti á landi munaði um 5 og 10 þús. kr. í smáátök í þessu eða hinu, viðgerð á þessu eða hinu, á stórum mannvirkjum. Það er ekki alltaf miðandi við hvað mannvirkin eru dýr sem þarf að gera við. En það hefði verið gott að sleppa þessum litlu upphæðum.
    Það er alveg satt og staðreynd að við reyndum á sínum tíma að einfalda þetta svokallaða kerfi. Það var ekki hægt. En nú er búið að gera það svo flókið að einstaklingurinn, jafnvel þó að hann sé verslunarskólagenginn, getur ekki gert
sína eigin skattaskýrslu skammlaust. Hann þarf að fá aðstoð sérfræðinga til þess. Þjóðfélagið er orðið þannig að fólkið getur ekki sinnt þeim skyldum sem á því hvíla frá því opinbera. Það kostar stórfé. Það er heil atvinnugrein sem gerir ekkert annað en að hjálpa almenningi með að reyna að halda sér innan ramma þess sem er krafist af þeim af því opinbera. Þetta gengur ekki. Og til upplýsingar fyrir minn ágæta formann, hv. 7. þm. Reykn., af því að hann talaði um iðnað, hefur það margkomið fram og hlýtur að hafa komið fram á iðnaðarráðstefnum þar sem hann hefur sjálfur setið, hann situr svo mikið af þeim, að ef iðnaðurinn í Evrópu eða í heiminum færist til færist hann frá suðrinu norður eftir vegna þess að orkan er öruggari í norðrinu en suðrinu. Orkan, olían og fleira er ekki lind sem endalaust er hægt að ausa úr. Vatnsorkan er talin munu endast lengur og því er það að vísindamenn framtíðarinnar sjá tilflutning á iðnaði frá suðrinu til norðursins. Það er ein af þeim hættum sem blasa við okkur í norðrinu, ekki bara Íslandi heldur Norðurlöndunum sérstaklega, að Norðurlöndin verði eins konar iðnaðarhverfi veraldarinnar. Það er öfugt við það sem hann sagði áðan. Við skulum frekar búa okkur undir þau ósköp en að það verði öfugt.
    En eins og formaðurinn, hv. 7. þm. Reykn., talaði áðan var hann í stjórnarandstöðu og ekki útlit fyrir að Borgfl. væri á leiðinni í ríkisstjórn á sama tíma sem hæstv. forsrh. fullyrðir það. Þetta er svo furðulegt að það er eiginlega ekki hægt að tala um málin eins og þau eru. Það er ekki hægt. Það er talað um að mynda nýja ríkisstjórn næstu klukkutímana. Á sama tíma

kemur hæstv. forsrh. og kynnir efnahagsráðstafanir sem hinn nýi flokkur í ríkisstjórn á að samþykkja, standa að og standa með, en hefur ekkert um það að segja hverjar þær eru. Mér finnst þetta vera svo mikil móðgun, ekki bara við félaga mína heldur við flokkinn minn sem ég er tiltölulega nýbúinn að stofna, að mér finnst það ekki ná nokkurri átt og það nær heldur ekki nokkurri átt og geta ekki verið mannasiðir að hefja viðræður um stjórnarmyndun bak við formenn flokka eins og var gert við mig. Þetta er furðulegt mál allt saman. Og koma svo fram fyrir alþjóð og segja af sakleysi sínu: Við erum að ná saman um ríkisstjórn. Það er alveg furðulegt.
    En að bjóða upp á það að koma í dag með efnahagsráðstafanir sem Borgfl. á að standa að, ef hann fer í ríkisstjórn í kvöld eða á morgun eða næstu dagana, en hann hefur ekki haft aðild að á einn eða annan hátt, er dónaskapur. Ég trúi því ekki að Borgfl. leggist svo lágt að láta bjóða sér það. Eitthvert stolt hlýtur að vera eftir.
    Hér úr þessum ræðustól var sagt áðan: Úrslit í stjórnarsamstarfið verða að koma í dag eða næstu daga. Í gær var það: Það verður að koma fyrir kl. 2. Þá kemur Alþingi saman. Þá verður að vera búið að stokka upp stjórnina. Hvorki ný ríkisstjórn né heldur þátttaka þessa nýja stjórnarflokks í efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar eru sjáanleg enn þá. En ég vil að það sé alveg á hreinu að ég mun beita mér fyrir því að það verði nýr þingflokkur þeirra sem ekki sætta sig við að koma inn í ríkisstjórnina með því einu að fá brot af matarskatti felldan niður kannski og alls ekki strax, eins og um var talað í flokknum að fara fram á, heldur kannski að hluta til einhvern tíma seinna og er augljóst að þá á að nota matarskattinn sem var settur á vegna þess að vörugjald var fellt niður, en vörugjaldið svo aftur sett á til viðbótar, það á að nota hann í kjarasamningum til að selja launþegum það sem þeir eiga rétt á. Það er alveg furðuleg hringekja sem ríkisstjórnin er í. Hún snýst og spilakassinn spilar eins og menn þekkja sem hafa búið einhvern tíma erlendis. Og það spilar og það spilar og það spinnur og það spinnur.
    Hæstv. forsrh. flutti sína ræðu sem var ekki boðskapur á einn eða annan hátt því ef hann hefur kallað það einhverja nýjung við lausn vandamála er megnið af því komið fram í ræðum hjá hæstv. forsrh. og hjá öðrum ráðherrum fyrir áramótin þegar efnahagsaðgerðir voru kynntar, efnahagsaðgerðir sem ég verð að segja alveg eins og er að eru fráleitar. Það er alveg sama hvort það eru aðgerðir í efnahagsmálum eða aðgerðir um efnahagsmál og hvernig allt það sem þar á að gera er fjármagnað. Það er allt fengið með láni hér og láni þar. Það er yfirdráttur í Seðlabankanum gegnum ríkissjóð. Það er skylda Seðlabankans að taka lán, ef ekki innan lands þá erlendis. Og þetta eru engar smáupphæðir. Þetta er upp á þúsundir milljóna. Það var a.m.k. altalað fyrir jólin að yfirdrátturinn í Seðlabankanum væri kominn á annan milljarðatug. Stundum var talað um 11 milljarða og ég heyrði allt upp í 15 milljarða. Og

áfram er haldið að draga á Seðlabankann, annaðhvort beint á hann eða á erlend lán, þannig að þessi atvinnumálakafli er hrein geðveiki ef menn höguðu sér svona í einkafyrirtækjum.
    Hæstv. forsrh. hafði svo vit á því að hlaupa yfir þennan kafla. En hann gerði meira að umtalsefni þann hlutafjársjóð og þar er, held ég, stjórnarandstaðan sammála. Ég efast um að hún hafi hugmynd um það sjálf, stjórnarandstaðan, frekar en ríkisstjórnin hvað hún er að samþykkja. Það á að stofna sjóð, sem er í upphafi 600 millj. kr., með því að selja hlutdeildarskírteini. Það er búinn til sjóður, við getum kallað það hvað sem
er, við getum kallað það smásöluverslun á bréfum sem hafa ekki meira verðgildi en prentsvertuna sem sett er á þau, og það á að selja þessi hlutdeildarskírteini sem verðmæti og mynda úr því hlutafjársjóð sem á svo að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum sem engin hafa gefið af sér. Þess vegna verður að hjálpa þeim. Og þessi hlutabréf og hlutdeildarbréf sem eiga að mynda þennan sjóð eru vaxtalaus bréf í fyrirtækjum sem eru á hausnum en bera þó verðtryggingu. Og hver er ábyrgur? Það er ríkissjóður. Er hægt að gera hlutina mikið vitlausari en þetta? Og hvað er svo bak við þetta? Ríkissjóður, sagði ég. Og hvað þýðir það? Það þýðir ekkert annað en Seðlabankinn eða það sem ríkisstjórnin hefur gripið inn í vegna þess að Seðlabankinn og erlendar lántökur eru ekki lengur aðgengilegar. Það eru bara hækkandi skattar.
    Þetta eru efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar sem hún flaggar helst með aftur núna til viðbótar við það að hún komst í gegnum Alþingi á milli umræðna um þessa hringavitleysu þegar hún kynnti þetta fyrst. Þetta er alveg stórkostlegt. En þetta stendur allt saman í þessu plaggi og hv. þm. geta lesið það ef þeir vilja leggja sig fram um að fylgja vegferð fjármagnsins í hugsuninni í þessu frv. Fylgið fjármagninu eftir, hvernig það myndast, hvaðan það kemur og hvernig það er notað og hvar það endar. Þetta er alveg furðulegt plagg.
    Hv. 7. þm. Reykn. minntist á árið 1986 í ræðustól og hann gat þess að það hefði verið tekjuafgangur. Það er rétt. Það var lítið. Það voru 122 millj., ekki milljarðar. Það er ekki mikið. Og það var ekki talið nóg. Menn vildu meira. Og þá má kannski hæstv. sjútvrh. muna sinn fífil fegri því hann fékk þrátt fyrir þennan tekjuafgang 650 millj. endurgreiddar í uppsafnaðan söluskatt sjávarútvegsins í fyrsta sinn. Á sama tíma voru felldar niður 600 millj. af 2400 millj. tekjuskatti. En þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir niðurfellingu skatta þeirra sem voru að ljúka störfum vegna aldurs og þrátt fyrir að það voru engir tollar og engin gjöld tekin af tölvuvæðingunni sem þá flæddi yfir landið var tekjuafgangur. Þetta var ekki talið nóg. Hv. 7. þm. Reykn. ætlaði svo að gera lítið úr því að árið eftir, hjá næsta fjmrh., var hallinn orðinn 7 milljarðar. Þetta voru hans orð. En þrátt fyrir 7 milljarðana í halla sem núna fundust og tveir síðustu fjármálaráðherrar, þ.e. sá sem núna er og sá síðasti,

rífast um hver á hvað í þeim 7 milljörðum í halla, þá ætlar hann samt sem áður að leiða Borgfl. inn í þá hít sem hann er að benda mönnum á að varast. Er það furða þó að fólk segi: Alþingi er bara þannig saman sett að við höfum ekki möguleika á að vera með bestu menn í ríkisstjórn. Ég skal taka undir það. Við erum með bestu menn í ríkisstjórn. Þó enginn annar en þeir sjálfir viðurkenni það slepp ég líklega frá ræðu minni með því að taka undir það með þeim. En þetta eru staðreyndir sem tala sínu máli. Fulltrúar gömlu flokkanna eins og oft er sagt eru nefnilega ekkert betri en gömlu fulltrúar nýju flokkanna.
    Virðulegur forseti. (Gripið fram í.) Stundum er nú bankað í bjölluna ef einhver grípur fram í, en ég tek undir að þeir eru ekkert verri. Ég er ekkert að leggja mat á hvorir eru betri, gömlu fulltrúar nýju flokkanna eða öfugt. Mér er hjartanlega sama. En eitt get ég sagt af þeirri reynslu sem ég hef hér í Alþingi, að það vantar heilan aldursflokk til starfa í Alþingi. Það vantar nefnilega þá sem eru komnir yfir fimmtugt, helst yfir sextugt. Það verður að vera ákveðin blanda aldursflokka og reynslu til að gera eina góða heild. Það vantar þann aldursflokk sem stórþjóðirnar nota til forustu þegar mikið liggur við. Þegar þið horfið í kringum ykkur sjáið þið hvaða aldursflokkur það er sem tekur við völdum við nýjar kosningar. Það eru ungir menn, það eru ungar konur með. Og það getur verið að það sé því ungæðisháttur í ákvörðunum og hugsun sem endurspeglast í ,,afrekum`` okkar.
    Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra, virðulegur forseti, að þessu sinni. En mér finnst ákveðinn ungæðisháttur í allri framkomu ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna við Borgfl. Ég veit að Borgfl. hefur af heilum hug, bæði nú og fyrr, tekið þátt í stjórnarmyndunarviðræðum með góðu hugarfari um að gera vel, en hann hefur látið eyðileggja sig á því að vera dreginn á asnaeyrum, hreinlega dreginn á ódrengilegan hátt með svör hér og svör þar, fundi hér og fundi þar. Við sem höfum staðið í stjórnarmyndunarviðræðum áður með gömlu flokkunum vitum að það er sest niður og málið er klárað. Það er ekki haldinn fundur einu sinni í viku, eða jafnvel ekki það. Málin eru kláruð. Annaðhvort ná flokkarnir saman eða þeir ná ekki saman. Það er ekki hægt að draga svör eins og hefur verið gert. Ég væri ólíkur sjálfum mér, þó ég sé ekki lengur forustumaður þar er ég þó stofnandi flokksins, ef mér væri sama hvernig komið er fram við hann. Þetta eru góðir drengir og heiðarlegir sem tala við ykkur. Ég tel að þið hafið komið illa og óheiðarlega fram.