Tilhögun þingfunda
Miðvikudaginn 08. mars 1989

     Forseti (Kjartan Jóhannsson):
    Áður en gengið verður til dagskrár vil ég gera grein fyrir hugmyndum um starf og vinnubrögð í deildinni. Forseti þessarar deildar hefur haft í huga um nokkurn tíma að til hagræðis gæti verið að koma á nokkuð ákveðnara verklagi í starfi deildarinnar þegar og eftir því sem við verður komið. Á ég þá við að frá slíku verklagi gæti þurft að bregða í einhverjum tilvikum og einhverjum greinum við sérstakar aðstæður og þá einkanlega þegar annir eru miklar í deildinni. Engu að síður er það skoðun mín að öllu ákveðnara verklag sem fylgt væri að öllu jöfnu mundi vera til bóta. Þess vegna hef ég í hyggju að kynna deildinni hugmyndir um verklag eða eins konar verklagsreglur sem leitast væri við að fylgja í sem flestum greinum. Tilgangurinn er vitaskuld að auðvelda störf deildarinnar og þá af mínum sjónarhóli ekki síður störf þingmanna og starfsfólks en forsetanna.
    Þessar verklagsreglur varða fundartíma, tímasetningu atkvæðagreiðslna, nærveru ráðherra, skipulag dagskrár og fleira. Um þær verður að segja að varðandi fundartíma og atkvæðagreiðslur eiga þær aðeins við þegar annir eru ekki mjög miklar en að öðru leyti eru þær þessar:
    Að fundartími sé eftirfarandi nema nauðsyn beri til annars: Á þriðjudögum ljúki fundi um það bil kl. 17 eftir því sem við verður komið, en annars ekki seinna en undir kl. 19. Á miðvikudögum ljúki fundi kl. 16 og reynt verði að komast hjá fundum eftir þann tíma. Fyrirhuguð eða hugsanleg frávik frá þessum tíma verði kynnt úr forsetastóli við upphaf hvers fundar þannig að það megi þá liggja fyrir.
    Um atkvæðagreiðslur gildi eftirfarandi nema nauðsyn beri til annars, nefnilega að fastir atkvæðagreiðslutímar, ef ég má orða það svo, verði þessir:
    1. Í upphafi funda.
    2. Um það bil kl. 17 á þriðjudögum.
    3. Skömmu fyrir kl. 16 á miðvikudögum.
    Það fylgir þá að fyrirhuguð eða líkleg frávik, þannig að fleiri atkvæðagreiðslur muni eiga sér stað, verði tilkynnt eftir því sem við verður komið úr forsetastóli við upphaf hvers fundar.
    Í þriðja lagi varðandi óskir um nærveru ráðherra: Um það vill forseti að gildi að þingmenn tilkynni forseta við upphaf hvers fundar vegna þeirra mála sem á dagskrá eru, þ.e. innan 15 mínútna frá fundarsetningu, ef þm. óska nærveru annarra ráðherra eða annars ráðherra en þess sem er framsögumaður viðkomandi þingmáls. Jafnframt er þá ætlast til að síðar fram komnar óskir um nærveru viðkomandi ráðherra verði ekki til þess að tefja eða fresta umræðu þótt leitast verði við að verða við slíkum óskum.
    Það sem hér hefur verið talið þýðir þá um leið að forseti vill leggja áherslu á að þingmenn kappkosti alveg sérstaklega að vera nærstaddir setningu funda, enda er þá tilkynnt um fundarhald og á atkvæðagreiðslutímum eins og þeir hafa hér verið kynntir.

    Í fjórða lagi er þá það sem ég nefni skipulag dagskrár, en varðandi skipulag dagskrár og fundahalda er ósk forseta að hafa samráð við aðila úr öllum þingflokkum, og hlutverk þessara samráðsaðila sé að meta með forseta hvað ætla megi að taka megi á dagskrá hverju sinni þannig að dagskráin sé í samræmi við áætlaðan fundartíma, og í annan stað að stuðla að því að þingmenn aðlagi starf sitt að þessum verklagsreglum og í þriðja lagi að vera reiðubúnir til þess að mæta á fundum með forseta sem hann boðar til um skipulag starfsins í deildinni.
    Um nefndastörf áskilur forseti sér að höfðu samráði við viðkomandi nefndarformann og samráðshóp þann sem áður er nefndur að áætla eða tiltaka eftir eðli máls og umfangi og öðrum þeim aðstæðum sem forseti metur gildar hver sé hæfilegur umfjöllunartími nefndar um einstök mál. Jafnframt er nefndarmönnum og sérstaklega nefndarformönnum ætlað að kappkosta að fylgja slíkri ákvörðun. Það er ósk mín að með þessum verklagsreglum megi starf í deildinni verða auðveldara.
    Þessar verklagsreglur gilda þar til annað verður ákveðið og jafnframt er það í valdi þingmanna hvort þær fái staðist. Í öðru lagi verður að hafa þann fyrirvara að þær verði endurskoðaðar í ljósi reynslunnar. Loks verður að áskilja að frávik frá þeim séu í valdi forseta þegar hann telur nauðsyn til bera hvernig sem hann metur þá nauðsyn, svo sem til að tryggja afgreiðslu mála sem að hans dómi er nauðsynlegt að fái afgreiðslu sem fyrst.
    Það er rétt, að því er varðar samráð forseta við aðila úr öllum flokkum um skipulag dagskrár og fleira, að fram komi að allt frá því að þetta löggjafarþing hófst og ég tók hér við forsetastarfi hef ég notið slíks samráðs með óformlegum hætti við aðila úr öllum þingflokkum. Mér finnst að þetta samráð hafi tekist vel og ég er þakklátur fyrir það og ég hef ekki í hyggju að breyta því og kýs að halda því áfram með sama hætti og verið hefur.