Afstaða Íslands á fundi EFTA-landanna
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Kjartan Jóhannsson:
    Frú forseti. Ég væri í sjálfu sér alveg reiðubúinn að nota hluta af ræðutíma síðasta ræðumanns ef það væri mögulegt. En því háttar einu sinni þannig að það er ekki mögulegt að nota tíma sem þegar hefur verið nýttur.
    Ég tók eftir því í málflutningi síðasta ræðumanns að undir lok ræðu sinnar lagði hann áherslu á að ekki mætti halda svo á málum í þessum efnum að það leiddi til þjóðhagslegs tjóns. Ég held að það sé ekki á stefnu nokkurs þingmanns að halda svo á málum að við verðum fyrir þjóðhagslegu tjóni. Ég ætla að leyfa mér að halda að allir þingmenn hafi áhuga á því að hafa hag af þeim samskiptum, þeim samræðum, þeim samningum sem fram undan eru í þessum efnum.
    Hv. þm. sagði líka að þeir sem hefðu verið í Evrópustefnunefnd hefðu haft betra tækifæri til að skoða þessi mál en aðrir og vissulega er það svo. Og hann sagði líka að umræðan um þetta væri rétt að byrja. Mér verður stundum hugsað til þess að þegar ég flutti hér þáltill. fyrir einu ári um að þessi nefnd yrði sett á fót var engin umræða um þessi mál hér á landi, nánast engin. Nú er umræðan þó hafin. Hvort starf nefndarinnar hefur átt einhvern þátt í því skal ég ekkert um segja, en ég vona að hann hafi verið einhver og að starf hennar hafi orðið til þess að menn hafi frekar farið að hyggja að þessum málum.
    En þá ætla ég líka að koma að öðru atriði sem ég taldi markmið þegar þessi nefnd var sett á fót og það var það að um þessi mál gæti þá farið fram málefnaleg umræða, byggð á vitsmunum, byggð á þekkingu. Og ég vara menn við því að setja sig nú í einhverjar æsingarstellingar út af ímyndaðri hættu, ímynduðu afsali á þjóðréttindum eða ímyndaðri hættu á því að hagur þjóðarinnar verði fyrir borð borinn. Ég tel nefnilega að það sé mjög nauðsynlegt í umfjöllun um þetta mál að menn fari um það orðum af yfirvegun og með því að kynna sér málin og vera tilbúnir að skoða á því allar hliðar.
    Það er auðvitað gífurleg þróun sem er að eiga sér stað í kringum okkur í Evrópu. En við skulum horfa á að þó að mikið sé talað um ártalið 1992 um þessar mundir og það sem eigi að gera fyrir þann tíð er þetta framhald á þróun sem við getum rakið allt frá stríðslokum, að menn hafa verið að brjóta niður múrana milli þjóðanna. Það var bent á það hér að það hafi verið gert varðandi vöruviðskipti á fyrri hluta þessa tímabils, en við vorum þátttakendur í því í kringum 1970. En síðan hefur þetta verið að þróast stig af stigi og það sem á að gerast innan Evrópubandalagsins 1992 er bara eitt skref í viðbót á þessari þróun. Þeir hafa sett tímatakmörk um hvenær þeir ætli að ná þeim áfanga, en þar að auki mun þróuninni ekki ljúka einmitt á þeim tímapunkti.
    Ég minni á að við vorum sein til að tileinka okkur þá þróun sem hér var á ferðinni. Ef ég minni á viðreisnina og þá opnun og það frjálsræði í viðskiptum sem tekið var upp í kringum 1960 vorum við áratug á eftir öðrum þjóðum í Evrópu. Það var blessunarrík ákvörðun, það frjálsræði sem við

innleiddum þá í vöruviðskiptum. Samningarnir við Evrópubandalagið og samningar okkar með þátttöku í EFTA leiddu líka af sér ánægjulega þróun. En við vorum alltaf heldur á eftir hinum. Það sem nú er fram undan er bara næsta skref og þegar menn hugsa um það og mikla fyrir sér hættuna af þessu skrefi ættu menn að horfa til baka og skoða umræðuna sem var hér þegar menn stigu hin skrefin og skoða það síðan í ljósi þess að menn hafa haft upp úr því góða hluti, ánægjulega framvindu. Menn mega ekki vera allt of hræddir við breytingar og menn mega heldur ekki halda að árið 1992 skelli hurð á hæla, þá sé allri þróun lokið. Það er ekki svo.
    Markmið Evrópubandalagsins um óskiptan innri markað eru náttúrlega langtum eldri en hvítbókin. Þau koma fram þegar í Rómarsáttmálanum. En það er með hvítbókinni sem þeir setja sér tímaplan um ákveðinn áfanga í þessum efnum.
    Samskipti EFTA og EB hafa líka verið að þróast í samræmi við þetta. Þetta hefur þýtt að EFTA hefur verið að þróast úr því að vera hin þröngu fríverslunarsamtök í það að vera vettvangur þar sem fjallað væri um ný málasvið. Ég er ekki í neinum vafa um að sú þróun mun halda áfram og ég er reyndar sannfærður um að árið 1989 verður afdrifaríkt í þessum efnum. Þetta þýðir að EFTA er að fá nýtt hlutverk og það krefst þess sem menn hafa gjarnan kallað óskilgreint styrkingu á EFTA. En það má segja að ræða Delors hafi þýtt að menn færu að reyna að skýra það fyrir sjálfum sér hvað það þýddi að það ætti að styrkja EFTA. Ég skal koma að því síðar.
    En grundvallaratriðið sem verður að hafa í huga í þessu sambandi er það að öllum er það mjög í mun, okkur Íslendingum, öðrum þjóðum í Evrópu að þróunin leiði ekki til þess að Evrópa klofni í tvær heildir og ef það er markmið okkar verðum við eitthvað á okkur að leggja til þess að samstarf geti tekist milli EFTA-þjóðanna og Evrópubandalagsins, þar á meðal að skoða uppbygginguna á EFTA.
    Það er kannski rétt að minna á að það er ekki í stefnu okkar að gerast aðilar að Evrópubandalaginu. Við viljum vinna sem mest í gegnum EFTA, en þá verðum við líka að vera reiðubúin að axla ábyrgðina á því að vera þar þátttakendur og taka þátt í þeim ákvörðunum sem þarf að taka.
    Varðandi styrkinguna á EFTA vil ég segja að ef menn horfa á hvernig EFTA vinnur núna eru teknir fyrir litlir hlutir í einu, mjög afmörkuð málasvið og
vinnubrögðin eru þau að það eru settir niður sérfræðingahópar til að fjalla um þau. Það sem menn eru nú að tala um er að hin pólitíska stefnumörkun komi á undan. Menn geta kallað það valdaframsal ef þeir vilja, en það er ekki meira valdaframsal en menn vilja. Þetta er spurningin um vinnubrögð, að pólitíkusarnir verði í rauninni virkari í stefnumörkuninni og að þeir sem vinna að útfærslunni hafi umboð til þess að vinna að málum.
    Menn tala líka um samskiptin við Evrópubandalagið og ég tók eftir því að frummælandi, hv. þm. Kristín Einarsdóttir, talaði um það í

einhverjum vandlætingartón að það ætti að koma upp sameiginlegri stofnun um ákvarðanatöku, það hafi komið fram í ræðu Delors. En hvað felst í þessu? Það felst í þessu að menn eru ekki ánægðir með hvernig samskiptin eru milli EB og EFTA og menn eru að ræða um að koma sér upp nefnd sem skipuleggi í rauninni hvernig eigi að taka málasviðin fyrir, hvað skuli hafa forgang, geri hugsanlega tímaáætlanir um hvernig skuli að þessu vinna. Í þessu felst ekkert meira valdaframsal en menn vilja. Það eina sem menn eru að fjalla um núna er það hvort menn eigi að ræða um þessi mál. Mín skoðun er sú að menn eigi að ræða þau vegna þess að þetta er vandamál og það þarf að finna betri farveg til að halda uppi þessum samskiptum milli EFTA og EB og það er okkur mikilvægt af því að við erum í EFTA og ætlum að vinna á þeim vettvangi.
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir talaði líka í einhverjum vandlætingartón um að menn afsali sér lögsögu. Þetta var kannski ekki vel skiljanlegt, en ég held helst að það sem hún hafi verið að höfða til sé það vandamál að við Norðurlandaþjóðirnar í EFTA gerum alþjóðasamninga sem hafa ekkert lagagildi í okkar löndum. Þeir hafa hins vegar lagagildi í hinum EFTA-löndunum, í Alparíkjunum, Sviss og Austurríki. Þetta er vandamál sem menn verða að taka á.
    Ég vil nota þetta tækifæri, og held að það sé gagnlegt að gera það, til að benda á nokkur atriði sem við verðum að vera tilbúin að taka afstöðu til í náinni framtíð vegna þess að þau munu verða á dagskrá innan EFTA og í samskiptum EFTA og EB. Ég ætti kannski fyrst að nefna fríverslun á fiski. Það tók að vísu tvö ár að koma því í gegnum þingmannanefnd EFTA, það tók eitt ár til viðbótar að koma því í gegnum ráðgjafarnefndina og ég hef alltaf gert ráð fyrir því að það tæki nokkur ár að koma því endanlega í höfn, en ég er nú allsannfærður um að það muni takast. Ef það hins vegar ekki tekst er það mjög alvarlegt mál fyrir okkur og það er hinum EFTA-löndunum og yfirstjórn EFTA mjög vel ljóst. Ég vona að við þurfum ekki að setja okkur í þær stellingar að það takist ekki.
    Ég minntist aðeins á styrkingu EFTA. Ég vil minna á eitt atriði til viðbótar því sem ég minntist á þar. Það snýr að lagahliðinni. Það snýr að því hvernig eigi að skera úr deilumálum. Staðan er í rauninni þannig nú að við Íslendingar höfum meiri rétt í samskiptum okkar við EB en í viðskiptum við önnur EFTA-lönd af þeirri einföldu ástæðu að ef einhver íslenskur aðili telur á sér brotið gagnvart samningum við EB getur hann skotið máli sínu til Evrópudómstólsins ef það er EB-land sem á í hlut. En ef það væri eitthvert EFTA-landið sem ætti í hlut getum við það ekki. Þetta er vandamál sem EB sér líka. Auðvitað kemur þetta mál upp á borðið um mismunandi réttarstöðu og hvernig eigi að leysa úr þessu. Þetta er íhugunarefni, þetta er til úrlausnar og það þýðir ekkert að tala um það í neinum æsingi. þetta er bara svona.
    Kannski ætti ég að segja fáein orð um það þegar menn tala hér af miklum móð um valdaframsal. Þá

segja sumir: Á EFTA þá að verða sams konar stofnun og EB? Það er fáránlegt vegna þess að ef EFTA ætti að verða sams konar stofnun og EB hefðu EFTA-ríkin ekkert með það að gera að vera í EFTA. Þá ættu þau að ganga í EB. En ég get líka sagt í leiðinni að þegar menn eru að ræða um að aðrar þjóðir, Norðmenn, Austurríkismenn, muni ganga í EB ættu menn að horfa til þess að jafnvel þó þær legðu fram umsóknir næstu þrjú árin eða eitthvað slíkt mundu þau ekki vera komin inn í EB fyrr en eftir sjö ár eða eitthvað því um líkt þannig að við stöndum alla vega frammi fyrir því að þær EFTA-þjóðir sem nú eru í EFTA munu vera þar áfram í um það bil sjö ár. Það þýðir líka að það þýðir ekkert að vera að velta því fyrir sér, EFTA verður að rísa undir hlutverki sínu a.m.k. í þessi sjö ár.
    Þetta er um það hvaða málefni ég tel að muni koma upp á borðið varðandi starfsemi EFTA. En síðan eilítið um málefnasvið. Þau hafa í rauninni verið auðveld hingað til, en það er ýmislegt á leiðinni. Við höfum uppgötvað að það er verið að takmarka aðgang Íslendinga að menntastofnunum innan EB. Við eigum að beita okkur innan EFTA til að fá EFTA til að taka það upp sem sérstakt mál gagnvart EB að ekki sé mismunað. Ef menn eru að tala um að það eigi að vera til einhver sameiginleg Evrópa og hún eigi ekki að klofna í tvennt er þetta grundvallaratriði og skiptir mjög miklu fyrir okkur Íslendinga. Þetta er kröfumál sem við eigum að setja upp.
    Ég get ekki drepið á allt, en ég minni á samgöngumálin. Flugsamgöngur eru okkur mjög mikilvægar. Á því sviði er að eiga sér stað þróun í að afnema allar takmarkanir innan EB. Hvaða áhrif mundi slíkt hugsanlega hafa fyrir okkar aðalflugfélag, Flugleiðir, eða fyrir flugsamgöngur okkar yfirleitt? Þarna
þurfum við greinilega að undirbúa okkur vel og fylgjast vel með.
    Það hefur verið minnst á aðra hluti eins og frelsi í fjármagnsflutningum, samræmingu á reglum varðandi bankastarfsemi, gagnkvæman rétt til rekstrar á fjármagnsstofnunum eins og bönkum og rétt til þátttöku í atvinnurekstri, þ.e. erlenda eignaraðild í fyrirtækjum. Þetta kemur allt upp á borðið hvort sem okkur líkar betur eða verr og við verðum þess vegna að undirbúa okkur undir ákvarðanatöku og stefnumörkun í þessum efnum. Við skulum bara horfa til þess að grannþjóðir okkar, frændþjóðir okkar á Norðurlöndum sem hafa verið með ýmiss konar takmarkanir í þessum efnum, eru að fleygja þeim burt af þeirri einföldu ástæðu að þær telja þessar takmarkanir ekki vera þess virði að vera að halda í þær og að takmarkanirnar geti þýtt að þær einangrist. Ef þær einangrast dragast þær aftur úr og það væri ekki þjóðhagslega hagkvæmt.
    Ég veit að Íslendingar óttast mjög um hluti eins og þessa. En við verðum samt að meta þá af raunsæi. Það er sjálfsagt að taka upp hinn flötinn á þessu máli. Við höfum horft til þess í hálfgerðri örvæntingu að það yrði ekki nein iðnþróun á Íslandi. En það má þá

spyrja þeirrar spurningar: Getur verið að það sé vegna þess að við höfum verið með svo miklar takmarkanir að því er varðar hugsanleg samskipti, samvinnu og eignarhlutdeild erlendra aðila í íslenskum fyrirtækjum? Mér finnst rétt að menn velti því fyrir sér.
    Tökum eina hlið á fjármagnsflutningunum. Þingmenn sitja hér á hverju ári og hafa mjög mikið fyrir því að samþykkja aðhald í peningamálum og samþykkja lánsfjárlög með alls konar takmörkunum. En hver er útkoman? Það er ekkert að marka lánsfjáráætlun. Það er allt saman langt fram úr. Við höldum að við séum með einhvers konar lokað kerfi og setjum dyraverði hér og hvar sem eiga að hleypa inn, en þessir dyraverðir eru greinilega nákvæmlega sömu gerðar og dyraverðirnir í samkomuhúsunum. Þeir hleypa alltaf langtum meiru inn en húsið tekur. Og til hvers er þá að vera með þá? Hefur þetta einhver áhrif? Ég held að það sé mikið íhugunarefni hvort þær takmarkanir sem menn hafa komið sér upp í þessum efnum skili þeim árangri sem menn halda. Ég held að þær geri það ekki. Og ég held meira að segja að þær verði til þess að þetta fjármagnsflæði verði í rauninni meira en það væri ef menn settu dyraverðina af og takmarkanirnar og leyfðu þessu að vera frjálslegra en það er núna.
    Ef við lítum á fjármagnsþjónustuna, rétt manna til að leita sér fjármagnsþjónustu á víðari vettvangi, vitum við hver staðan er hérna núna. Það eru hér mjög háir vextir, langtum hærri en annars staðar. Þess vegna er m.a. ásókn í erlent lánsfé. Menn hafa verið að tala um það hér í fjölda ára að það þyrfti að endurskoða bankakerfið. Mín skoðun er sú að úr því að menn hafa ekki getað tekið pólitíska ákvörðun um það hingað til muni þeir heldur ekki geta það í framtíðinni. En ef það væri leyfð einhver samkeppni um bankaþjónustuna. Það skyldi þó ekki vera að þá mundi það knýja á um einhverja uppstokkun. Þessum rökum tel ég nauðsynlegt að menn haldi til haga. Ég er ekki að gefa hina endanlegu lausn á þessu máli. En það eru fleiri en ein hlið á málinu og við þurfum að hyggja að þeim öllum.
    Það er dýr fjármagnsþjónusta á Íslandi. Fyrirtæki með þessa dýru fjármagnsþjónustu eiga að keppa við fyrirtæki sem hafa ódýra fjármagnsþjónustu annars staðar. Auðvitað þýðir það að samkepnisstaða íslenskra fyrirtækja er langtum verri en hinna fyrirtækjanna. Það er líka flötur á þessu máli sem menn verða að skoða.
    Fáein orð um samskipti okkar beint við Evrópubandalagið. Við þurfum að fá aðgang að mörkuðum. Við þurfum að taka upp saltfisktollinn alveg sérstaklega. Það þýðir að við þurfum að fjalla um tollamálin. Þá fjöllum við um tollamálin sér. Það getur vel skeð að það sé eitthvað af tollum af vörum frá þeim sem við getum haft sem einhverja skiptimynt í samskiptum varðandi tollamálin. Við skulum þá skoða það. Við þurfum sérsamninga um menntamálin, við þurfum sérsamninga um samstarf á sviði rannsókna, m.a. hafrannsókna. Og hvort sem okkur líkar betur eða verr koma sjávarútvegsmálin og

fiskveiðarnar upp á borðið. Ekki af því að ég telji að Evrópubandalaginu sé ekki fyllilega ljóst að það eigi engan rétt í okkar lögsögu, geti ekki gert neinar kröfur. En þeir hafa haldið því til haga allan tímann að þeir vildu ræða þetta. Og vel að merkja: Ég tel líka að þeim sé fyllilega ljóst að við erum ekki til viðtals um að skipta á veiðiheimildum og viðskiptafríðindum, fyllilega ljóst að það þýði ekki að tala við okkur með þeim hætti. Menn mega alls ekki blanda því saman við viðræður um hugsanleg skipti á veiðiheimild fyrir veiðiheimild. Og ég hef sagt: Ef þeir vilja svoleiðis umræður skulum við spyrja þá hvað þeir hafa að bjóða og við skulum skoða hvað það er og taka síðan ákvörðun. Allt þetta tel ég að menn eigi að taka upp, öll samskiptin við EB í einum heildarviðræðum. Það er beðið um slíkar viðræður eða dialogue og við eigum að undirbúa okkur undir að fara í slíkan dialogue síðari hluta þessa árs.
    Um Oslóarfundinn að endingu vil ég segja að ég vona að hann verði árangursríkur. Ég vona að hann muni þýða að það verði opnaðar umræður um skipulag EFTA og um samskiptin við EB þannig að menn fari í að skoða það óbundnir en með það að markmiði að ná sem bestum árangri í því að EFTA valdi
hlutverki sínu og að Evrópa klofni ekki heldur verði samstæð heild.