Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Forseti (Kjartan Jóhannsson):
    Í tilefni af fyrirspurn frá hv. 5. þm. Reykv. hefur forseti skoðað þetta mál og borið sig saman við nokkra aðila um það. Það er ótvírætt í þeim greinum sem hér um ræðir að valdið til lántökunnar er framselt fjmrh. í öllum tilvikum. Valdið er ævinlega hjá fjmrh. þótt tilgreint sé að hann skuli hafa samráð við aðra aðila áður en hann beitir valdi sínu. Það felur því ekki í sér breytingu á valdi ráðherrans til að taka ákvörðun um lánið þótt hér sé tilgreint að hann skuli hafa uppi samtöl við tiltekna aðila áður en til lántökunnar kemur. Það mál líta á þetta sem viðleitni til þess að þau samtöl geti farið fram sem menn telja eðlileg og tryggja það, en ekki ber að líta á þetta þannig að vald hafi verið tekið af fjmrh.