Tilhögun þingfundar
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Forseti (Kjartan Jóhannsson):
    Áður en gengið er til dagskrár skal fram tekið að ætlun mín er sú að taka fyrst hér til umfjöllunar þau mál sem talin eru ágreiningslaus eða ágreiningslítil að bestu manna yfirsýn og ljúka umfjöllun og atkvæðagreiðslu um þau, setja síðan nýjan fund þar sem þau þeirra sem til 3. umr. stæðu gætu aftur komið fyrir þannig að okkur tækist að afgreiða til Ed. eins fljótt og verða mál þau mál sem þangað eiga að fara, enda lítur nú svo út að Ed. hafi heldur minna fyrir stafni en þessi deild, en síðan jafnframt þau mál önnur sem á dagskrá eru sem ekki höfðu verið tekin fyrir á hinum fyrra fundi. Ég bið menn þess vegna að vera viðbúna verulegum atkvæðagreiðslum nú næsta klukkutímann eða svo og jafnframt að vera við því búnir að atkvæðagreiðslur geti hér farið fram undir kl. 4 eða undir kl. 7 eftir því hvernig um semst um þingflokkatíma og jafnframt að hér geti orðið kvöldfundur.