Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 3 . mál.


Nd.

3. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 86/1985, um viðskiptabanka, og breytingu á lögum nr. 87/1985, um sparisjóði.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988.)



I. KAFLI

Breyting á lögum nr. 86/1985, um viðskiptabanka.

1. gr.

    Í 28. gr. laganna kemur ný málsgrein er verður 3. mgr.:
    Viðskiptabanka er heimilt þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. þessarar greinar að starfrækja verðbréfafyrirtæki er starfar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði.
    3. mgr. laganna verður 4. mgr. og orðast svo:
    Að öðru leyti en um getur í þessari grein má viðskiptabanki ekki á neinn hátt bera ábyrgð sem þátttakandi eða meðeigandi í rekstri annarra félaga.

II. KAFLI

Breyting á lögum nr. 87/1985, um sparisjóði.

2. gr.

    Í 32. gr. laganna kemur ný málsgrein er verður 3. mgr.:
    Sparisjóði er heimilt þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. þessarar greinar að starfrækja verðbréfafyrirtæki er starfar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði.
    3. mgr. laganna verður 4. mgr. og orðast svo:
    Að öðru leyti en um getur í þessari grein má sparisjóður ekki á neinn hátt bera ábyrgð sem þátttakandi eða meðeigandi í rekstri annarra félaga, sbr. þó 33. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp það, er hér liggur fyrir, er samið í tengslum við frumvarp til laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði.
    Samkvæmt því frumvarpi er gert ráð fyrir að sérstök verðbréfafyrirtæki geri rekstrarsamninga við verðbréfasjóði til að annast rekstur sjóðanna og sinna verðbréfamiðlun í tengslum við þá. Nefnd sú, er samið hefur frumvarpið, telur æskilegt, m.a. með hliðsjón af ákvæði 2. gr. um innherjaviðskipti, að rekstur verðbréfasjóða fari fram á vegum sjálfstæðra verðbréfafyrirtækja eins og nánar greinir í því frumvarpi. Í 11. gr. frumvarpsins um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði kemur fram að bönkum og sparisjóðum verði heimil verðbréfamiðlun sem telja verður eðlilegan þátt í viðskiptabanka- og sparisjóðastarfsemi.
    Rekstur verðbréfasjóða er nýjung á íslenskum fjármagnsmarkaði sem eðlilegt er að bankar og sparisjóðir geti sinnt. Til þess að svo megi vera, og jafnframt til þess að ekki komi til vandkvæða vegna 2. gr. í áðurnefndu frumvarpi til laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði, þykir rétt að breyta ákvæði 28. gr. laga nr. 86/1985, um viðskiptabanka, og ákvæði 32. gr. laga nr. 87/1985, um sparisjóði, á þann veg sem hér er lagt til í 1. og 2. gr. frumvarpsins.
    Viðskiptabönkum og sparisjóðum er með því móti gert kleift að eiga verðbréfafyrirtæki sem annast rekstur verðbréfasjóða.
    Slík verðbréfafyrirtæki á vegum banka og sparisjóða hefðu á að skipa sérstakri stjórn og starfsmönnum sem geta gætt ákvæða 2. gr. um innherjaviðskipti án þess að til árekstra komi vegna annarra starfa þeirra í þágu innlánsstofnunarinnar ef starfsemin væri ekki aðgreind frá öðrum rekstri. Jafnframt er slíkum rekstri verðbréfasjóða á vegum viðskiptabanka og sparisjóða skipað undir þá löggjöf sem frumvarpið um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði gerir ráð fyrir að gildi um þessa starfsemi.
    Að öðru leyti þarfnast frumvarp þetta ekki skýringa.