Ferill 107. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 107 . mál.


Sþ.

161. Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Óla Þ. Guðbjartssonar um skiptingu gjaldeyristekna þjóðarinnar eftir kjördæmum.

    Spurt er um skiptingu gjaldeyristekna þjóðarinnar eftir kjördæmum árin 1984, 1985, 1986 og 1987.
    Á þeim árum, sem hér um ræðir, hafa gjaldeyristekjur þjóðarinnar í heild verið sem hér segir (í millj. kr.):

         1984    1985    1986    1987
Vöruútflutningur alls ...............         23.557    33.750    44.968    53.053
þar af sjávarafurðir ..............         15.833    25.232    34.627    40.322
Þjónustuútflutningur ................         10.738    16.069    18.157    20.413
Útflutningur vöru og þjónustu alls ..         34.295    49.819    63.125    73.466

Hlutur sjávarútvegs af
a. vöruútflutningi ................         67,2%    74,8%    77,0%    76,0%
b. útflutningi vöru og þjónustu ...         46,2%    50,6%    54,9%    54,9%

    Þegar komið er að skiptingu framangreindra heildarstærða eftir kjördæmum vandast málið. Þetta á bæði við um vöruútflutning og þjónustuútflutning. Ef frá er talinn útflutningur kísiljárns sem verið hefur 3–4% af vöruútflutningi þessi ár og útflutningur á áli sem verið hefur 9–10% undanfarin þrjú ár en var 14,5% á árinu 1984 má segja að öruggar heimildir séu ekki til um gjaldeyristekjur eftir kjördæmum.
    Hins vegar má fá nokkra vísbendingu um skiptingu sjávarafurðaframleiðslunnar eftir kjördæmum með því að líta á hlutfallslega skiptingu aflaverðmætis eftir kjördæmum. Fiskifélag Íslands safnar reglulega skýrslum um móttekinn afla einstakra vinnslustöðva og birtir mjög ítarlegar upplýsingar um þetta efni í riti sínu Útvegur. Nýjustu upplýsingar er að finna í Útvegi 1987 sem út kom í júní 1988. Þar eru birtar tölur um árið 1987 en
sambærilegar tölur um fyrri ár er að finna í fyrri árgöngum þess rits. Eftirfarandi tölur um hlutfallslega skiptingu aflaverðmætis eftir landshlutum koma þar fram.

              1984    1985    1986    1987
    Suðurland .................         11,6%    9,8%    7,8%    8,4%
    Reykjavík, Reykjanes ......         20,3%    17,3%    17,8%    19,6%
    Vesturland ................         9,6%    8,7%    8,5%    8,6%
    Vestfirðir ................         12,9%    10,0%    10,3%    9,2%
    Norðurland vestra .........         7,5%    7,9%    8,2%    8,6%
    Norðurland eystra .........         12,6%    13,2%    13,1%    14,6%
    Austurland ................         14,9%    14,9%    11,5%    10,7%
    Erlendis ..................         10,6%    18,2%    22,9%    20,3%

    Landshlutaskiptingin, sem hér er fylgt, fellur ekki að kjördæmaskiptingunni eins og um er beðið í fyrirspurninni. Sú afmörkun landshluta, sem Fiskifélagið fylgir, er sem hér segir:

         Suðurland: Vestmannaeyjar til og með Þorlákshöfn.
         Reykjavík og Reykjanes: Grindavík til og með Reykjavík.
         Vesturland: Akranes til og með Búðardal.
         Vestfirðir: Barðaströnd til og með Veiðileysu.
         Norðurland vestra: Strandir til og með Siglufirði.
         Norðurland eystra: Ólafsfjörður til og með Vopnafirði.
         Austurland: Bakkafjörður til og með Hornafriði.

    Ekki er að finna frekari upplýsingar en nú hafa verið raktar um skiptingu gjaldeyristekna eftir kjördæmum. Ræður þar mestu að skipulagning skýrslugerðarinnar um útflutning er ekki með þeim hætti að þessar upplýsingar séu tiltækar fyrirhafnarlítið. Útflutningsskýrslur greina aðeins frá nafni útflytjenda en ekki framleiðanda vöru og þyrfti því að safna þeim upplýsingum sérstaklega. Einnig þyrfti að tilgreina framleiðslustað ef framleiðandi starfar á fleiri en einum stað. Einnig koma upp álitamál um staðsetningu fiskiskipaútgerða, samgöngufyrirtækja og margt fleira mætti nefna.
    Vissulega er unnt að höggva á slíka hnúta og gefa sér ýmsar forsendur sem einfalda málið. En jafnvel þótt slíkt sé gert vakna upp spurningar um kostnað
við þessa skýrslugerð með hliðsjón af gagnsemi þeirra upplýsinga sem þannig fengjust. Ef ætlunin er að nota mælikvarða af þessu tagi til þess að meta mikilvægi hvers kjördæmis fyrir þjóðarheildina þá er sitthvað við þann mælikvarða að athuga. Nefna má í þessu sambandi að tilkostnaður fylgir útflutningsstarfseminni eins og hverri annarri atvinnustarfsemi og hluti þessa tilkostnaðar er kaup á innfluttum rekstrarnauðsynjum. Einnig má nefna að iðnaður eða hver sú atvinnustarfsemi, sem sinnir heimamarkaði og er í heilbrigðri samkeppni við innfluttan varning, sparar gjaldeyri og hefur því í raun hliðstæð áhrif á gjaldeyrisstöðuna og útflutninginn. Að öllu samanlögðu er athygli vakin á því að þessar tölur um skiptingu gjaldeyristekna þjóðarinnar segja takmarkaða sögu um mikilvægi hvers kjördæmis fyrir þjóðarbúið.