Ferill 158. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 158 . mál.


Nd.

236. Nefndarálit



um frv. til l. um breyting á l. nr. 10/1988, um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum á árinu 1988.

Frá minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Undirritaðir nefndarmenn leggja til að frumvarpið verði fellt.
    Hér er um að ræða framhald skattlagningar á erlendar lántökur sem margyfirlýst er af stjórnvöldum að verði afnumin um næstu áramót. Við það fyrirheit ber að standa.
    Tilgangur þessarar skattlagningar var upphaflega að reyna að slá á þenslu í efnahagslífinu en kunnáttumenn sem kallaðir voru á fund nefndarinnar hermdu þó að skatturinn hefði haft lítil áhrif í þá átt. Þenslan hefur nú breyst í samdrátt og vinnur áframhaldandi skattlagning því gegn upphaflegu markmiði sínu. Hafi skatturinn hins vegar haft þau áhrif að fresta lántökum einhverra aðila um hríð er ljóst að slík áhrif munu hverfa verði hann gerður varanlegur.
    Við þetta er því að bæta að skattur sem þessi jafngildir í raun tvenns konar gengi, en tvöföld gengisskráning gengur gegn alþjóðlegum skuldbindingum Íslendinga.
    Vekur mikla furðu að ríkisstjórn, sem verður í orði tíðrætt um nauðsyn þess að undirbúa íslenskt efnahagslíf undir hinn sameinaða Evrópumarkað 1992, skuli í verki festa í sessi nýjar hindranir í gjaldeyrismálum. Augljóst er að slíkt breyting stefnir í þveröfuga átt við það sem er að gerast í Evrópu og gengur þvert gegn þeirri nauðsyn að afnema hindranir í gjaldeyrisviðskiptum Íslendinga og koma þar á auknu frjálsræði.

Alþingi, 14. des. 1988.



Geir H. Haarde,

Ingi Björn Albertsson,


frsm.

fundaskr.