Ferill 162. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 162 . mál.


Nd.

390. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald.

(Eftir 3. umr. í Ed., 22. des.)



    Samhljóða þskj. 345 með þessari breytingu:

    Ákvæði til bráðabirgða hljóða svo:

I.


    Allir þeir, sem stunda starfsemi sem skattskyld er samkvæmt lögum þessum og eru ekki skráðir á vörugjaldskrá við gildistöku laga þessara, skulu tilkynna fyrir 10. janúar 1989 um rekstur sinn og starfsemi til skattstjóra þar sem þeir eru heimilisfastir.

II.


    Af birgðum innfluttra gjaldskyldra vara samkvæmt lögum þessum, sem hlotið hafa fullnaðartollafgreiðslu fyrir gildistökudag laga þessara og vörugjald verið greitt af samkvæmt ákvæðum laga nr. 97/1987, skal eigi innheimta gjald samkvæmt lögum þessum. Frá og með gildistökudegi laga þessara skal hins vegar innheimta gjald samkvæmt ákvæðum þessara laga af vörum sem þá eru ótollafgreiddar.
    Af vörum sem afhentar hafa verið innflytjendum fyrir gildistöku laga þessara, með leyfi tollyfirvalda gegn eða án tryggingar fyrir greiðslu aðflutningsgjalda samkvæmt heimild í tollalögum eða heimildum í öðrum lögum, skal greiða vörugjald samkvæmt ákvæðum laga nr. 97/1987.

III.


    Hafi fyrir gildistöku laga þessara verið gerður samningur um afhendingu eða sölu vöru sem vörugjaldsskyld er, en afhending hins selda og greiðsla skyldi fara fram eftir gildistöku þeirra, skal kaupandi greiða viðbót við samningsgreiðsluna er svarar vörugjaldi, nema sannað sé að gjaldið hafi verið talið með í kaupverðinu við ákvörðun þess.

IV.


    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 4. gr. skal ekki greiða vörugjald af innlendri húsgagna- og innréttingaframleiðslu í tollskrárnúmerum 9401.1000 til 9404.9000 fyrr en frá og með 1. mars 1989.

V.


    Þrátt fyrir ákvæði 16. gr. bráðabirgðalaga nr. 83/1988, um efnahagsaðgerðir, og fyrirmæli stjórnvalda um stöðvun á hækkun verðs vöru og þjónustu má hækka verð vöru sem nemur álagningu gjalda samkvæmt lögum þessum.

VI.


    Lög þessi verði endurskoðuð fyrir 1. janúar 1991.