Ferill 234. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 234 . mál.


Sþ.

498. Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Halldórs Blöndals um ríkisábyrgð á skuldbindingum Atvinnutryggingarsjóðs

    Á ríkisstjórnarfundi 12. janúar 1989 lagði viðskiptaráðherra fram álitsgerð um ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina. Ráðherra gat þess þá að álitsgerðin hefði að beiðni hans verið unnin af Birni Friðfinnssyni í samráði við Árna Kolbeinsson og Þorstein Geirsson. Ráðherra hafði ekki fengið álitsgerðina formlega afhenta, en taldi að hún væri fullfrágengin þótt undirskriftir vantaði. Síðar kom í ljós, sem ráðherra var þá ekki kunnugt, að álitsgerðinni var ekki endanlega lokið, en Björn hafði gert uppkast að álitsgerð þar eð hann var á förum til útlanda og sent til Þorsteins og Árna sem ekki höfðu farið yfir uppkastið. Eftir að þeir höfðu gert það og haft nánari samráð í síma við Björn var orðalagi álitsgerðarinnar breytt lítillega eins og síðar greinir. Í þeirri mynd var hin endanlega álitsgerð lögð fram á ríkisstjórnarfundi 17. janúar sl., en tekið skal fram að niðurstaða var hin sama og áður, þ.e. að sett yrðu ótvíræð ákvæði í lögin um ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina.
    Hjálagt fylgir texti uppkastsins frá 11. janúar, sem sýnt var 12. janúar, en breytingarnar, sem gerðar voru á því áður en það var endanlega lagt fram í ríkisstjórn, eru svohljóðandi:
1.     Orðalagi 7. mgr. var breytt þannig:
.      „Því hefur einnig verið haldið fram að ríkissjóður geti ekki undanskilið sig ábyrgð á skuldabréfaútgáfu sjóðsins nema með alveg ótvíræðu lagaákvæði. Atvinnutryggingarsjóður geti ekki sett meiri tryggingar fyrir skuldabréfaútgáfu sinni en eignir sjóðsins og síðasta setning 6. gr. segi ekki annað. Ef hins vegar reyni á tryggingar fyrir skuldabréfunum og eignir sjóðsins nægja ekki fyrir þeim, þannig að sjóðurinn komist í greiðsluþrot, þá taki við ábyrgð ríkissjóðs á Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina.“
2.     Í síðustu málsgrein var orðið „einfalda“ fellt brott.


Álitsgerð til viðskiptaráðherra


um ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina.

(11. jan. 1989.)



    Vísað er til álits ríkislögmanns, dags. 1. desember sl., um ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina.
    Eins og fram kemur í álitinu er sjóðurinn ótvírætt eign ríkissjóðs, enda stofnaður af stjórnvöldum í því skyni að leysa þau vandamál sem við er að etja hjá útflutningsgreinum og með stofnframlagi úr ríkissjóði.
    Í lögunum undanskilur ríkissjóður sig ekki ábyrgð á skuldbindingum Atvinnutryggingarsjóðs né heldur er þess getið að ríkissjóður beri ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins, eins og t.d. ótvírætt er mælt fyrir um í 2. gr. laga nr. 86/1985, en þar segir að ríkissjóður beri ábyrgð á öllum skuldbindingum ríkisviðskiptabanka.
    Almenna reglan er hins vegar sú að aðilar bera a.m.k. einfalda ábyrgð á skuldbindingum einkafyrirtækja sinna eða stofnana og gildir sú regla um stofnanir ríkissjóðs, nema sérstakar undanþágur séu í lögum. Þetta gildir um skuldbindingar Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina.
    Ríkislögmaður bendir hins vegar á 6. gr. laganna þar sem segir:
    „Atvinnutryggingarsjóði er heimilt að hafa milligöngu um skuldbreytingu á allt að 5000 milljónum króna af lausaskuldum útflutningsfyrirtækja. Í því skyni er sjóðnum heimilt að taka við skuldabréfum frá fyrirtækjum í útflutningsgreinum og gefa út skuldabréf til lánardrottna þeirra. Ber sjóðurinn ábyrgð á greiðslu þeirra skuldabréfa með eignum sínum.“
    Telur ríkislögmaður að síðasta setningin takmarki ábyrgð ríkissjóðs við eignir sjóðsins.
    Þá skoðun má hins vegar einnig rökstyðja að ríkissjóður geti ekki undanskilið sig ábyrgð á skuldabréfaútgáfu sjóðsins nema með ótvíræðu lagaákvæði. Atvinnutryggingarsjóður geti að sjálfsögðu ekki sett meiri tryggingar fyrir skuldabréfaútgáfu sinni en eignir sjóðsins og síðasta setning 6. gr. segi ekkert annað. Ef hins vegar reyni á tryggingar fyrir skuldabréfunum og eignir sjóðsins nægja ekki fyrir þeim, þannig að sjóðurinn komist í greiðsluþrot, þá hljóti að taka við einföld ábyrgð ríkissjóðs á Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina (sekundær ábyrgð). Eigendur skuldabréfa Atvinnutryggingarsjóðs, sem yrðu fyrir tjóni, gætu þá beint kröfum sínum að ríkissjóði.
    Hvor skoðunin er réttmætari skiptir e.t.v. ekki máli þar eð í frumvarpi til laga, sem flutt er til staðfestingar bráðabirgðalaganna sem um er fjallað, segir nú eftir 2. umr. í neðri deild, 21. desember sl., að Atvinnutryggingarsjóður verði gerður að sjálfstæðri deild, Atvinnutryggingardeild, við Byggðastofnun, og taki stofnunin þá við eignum og skuldum sjóðsins. Óumdeilt er að ríkissjóður ber eigendaábyrgð á skuldbindingum Byggðastofnunar og mundi sú ábyrgð þá væntanlega ná jafnt til skuldbindinga Atvinnutryggingardeildar.
    Þar eð deilur hafa komið upp um þetta atriði, sem verulega hafa dregið úr trausti á skuldabréfum sjóðsins á fjármagnsmarkaðnum, væri e.t.v. rétt að taka af öll tvímæli með því að setja ótvírætt ákvæði í lögin um að ríkissjóður beri ábyrgð á öllum skuldbindingum sjóðsins, sbr. 2. gr. laga nr. 86/1985, um viðskiptabanka.
    Mætti t.d. gera það með því að bæta eftirfarandi setningu við 3. gr. frumvarpsins: „Ríkissjóður ber einfalda ábyrgð á öllum skuldbindingum sjóðsins.“ Síðasta setning 6. gr. yrði hins vegar felld brott.