Ferill 243. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 243 . mál.


Nd.

542. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 56 16. maí 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti.

Frá minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Minni hl. gerir ekki athugasemdir við 1. og 2. gr. frumvarpsins en leggur til að 3. gr. frumvarpsins verði felld.
    Það er skref aftur á bak að fela verðlagsyfirvöldum að fjalla um gjaldskrár orkuvinnslufyrirtækja og dreifiveitna. Vísað er til fylgiskjala með nefndaráliti þessu en í þeim koma röksemdir gegn greininni.
    Auðvelt er að sýna fram á að verð orku hefur á undanförnum árum hækkað minna en sem nemur hækkun framfærsluvísitölunnar. Afskipti verðlagsyfirvalda gætu leitt til sömu vandræða og árið 1983 þegar verðsprenging varð í kjölfar of lítilla hækkana árin á undan.
    Fái orkufyrirtækin ekki eðlilega gjaldskrá aukast erlendar skuldir þeirra og þar með skuldir þjóðarbúsins.
    Samkvæmt framansögðu er 3. gr. frumvarpsins til óþurftar og leggur minni hl. til að hún verði felld.

Alþingi, 22. febr. 1989.



Matthías Bjarnason,

Hreggviður Jónsson.


frsm.







Fylgiskjal I.


Umsögn Sambands íslenskra hitaveitna.


(15. febrúar. 1989.)



    Í þessu frumvarpi er m.a. lagt til að verðlagning á orku frá orkuvinnslufyrirtækjum og dreifiveitum falli undir lögin tímabundið frá því að verðstöðvun lýkur 28. febrúar til 1. september næstkomandi. Þetta þýðir að beiðnir um hækkanir á gjaldskrám hitaveitna þarf að leggja fyrir Verðlagsráð.
    Hitaveitur eru reknar sem þjónustufyrirtæki með lágmarkstilkostnaði. Þær eru almenningsfyrirtæki í eigu viðkomandi sveitarfélaga og þeim er stjórnað af kjörnum fulltrúum. Þessar stjórnir ákvarða nauðsynlegar hækkanir á gjaldskrám og tilkynna iðnaðarráðuneytinu þær, og má fyllilega treysta þeim til að gæta hagsmuna notenda.
    Margar hitaveitur eiga í verulegum fjárhagserfiðleikum og hafa fengið fjárhagsaðstoð frá ríkinu. Aðstoðin hefur verið veitt með því skilyrði að veiturnar létu gjaldskrár í framtíðinni fylgja verðlagi. Nú hefur verðstöðvun verið í rúmlega fimm mánuði og á sama tíma hefur byggingarvísitala hækkað um 4,18%, dollarinn um 8,77% og SDR um 11,96%.
    Þær hitaveitur sem eiga í fjárhagserfiðleikum hafa flestar stóran hluta af sínum skuldum í erlendum lánum og hefur skuldabyrðin því hækkað verulega á þessum tíma á meðan gjaldskrár hafa staðið í stað. Því má búast við að áður en langt um líður þurfi þessar sömu veitur að leita aftur á náðir ríkisins.
    Hitaveitur leggja ríka áherslu á að gjaldskrárákvarðanir verði ekki fluttar frá stjórnum fyrirtækjanna til Verðlagsráðs. Ákvarðanataka og fjárhagsleg ábyrgð verða að fara saman. Því leggst stjórn Sambands íslenskra hitaveitna eindregið gegn samþykkt frumvarpsins.

Virðingarfyllst,


f.h. stjórnar Sambands ísl. hitaveitna,


María J. Gunnarsdóttir


framkvæmdastjóri.






Fylgiskjal II.


Umsögn Sambands íslenskra rafveitna.


(15. febrúar 1989.)



    Með stjórnarfrumvarpi þessu er gert ráð fyrir þeirri breytingu á lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti að þau taki einnig til orkuvinnslufyrirtækja og dreifiveitna á tímabilinu 1. mars til 1. sept. 1989.
    Þessu mótmælir Samband íslenskra rafveitna. Telur SÍR tillöguna óráðlega og færir hér með rök fram skoðun sinni til stuðnings.
    Menn gera sér almennt ekki grein fyrir þeim skyldum sem lagðar eru á raforkuveitur landsins. Þeim er gert að framleiða og dreifa raforku sem fullnægi ýtrustu kröfum tæknisamfélags um gæði, að nóg sé til af orku hvernig sem á stendur og að hún sé ódýr. Allt hefur þetta tekist. Roftími er hér skammur og gæði raforku á borð við hið besta sem gerist.
    Nýlega voru birtar töflur sem sýna að raforkuverð er hér hvað lægst í veröldinni þrátt fyrir erfiða landshætti og fámenni. Athuganir sýna að raforkukostnaður mikilvægra atvinnugreina landsins er innan við 2% af útgjöldum að meðtöldum sköttum. Raforka til almennra nota er 1,3% framfærsluvísitölunnar.
    Þá má enn minna á að á tímabilinu 1984–1988 lækkaði rafmagnsverð í samanburði við ýmsa aðra þætti. Orkuverð Rafmagnsveitna ríkisins, Rafmagnsveitu Reykjavíkur, Landsvirkjunar og fleiri raforkuveitna hækkaði þá um 64,5–75,5% á sama tíma og framfærsluvísitala, vísitala byggingarkostnaðar og lánskjaravísitala hækkaði um 157–177%. Raunverð raforku frá fyrirtækjunum lækkaði um 30–39% á þessu skeiði.
    Raforkuveitur eru undir stjórn kjörinna fulltrúa eigenda/raforkunotenda. Veitustjórnir eru, eins og málum er nú fyrir komið, aðhaldssamar og tregar til hækkunar nema skýr rök mæli með.
    Samkvæmt því sem hér hefur verið greint frá verður að telja að núverandi eftirlit kjörinna fulltrúa með raforkuverði sé fullnægjandi og hafi reynst
vel. Því er ekki tilefni til að taka upp frekara verðlagseftirlit eins og stefnt er að með ofannefndu frumvarpi.

Virðingarfyllst,


f.h. Sambands íslenskra rafveitna,


Eggert Ásgeirsson


skrifstofustjóri.





Línutit (eða myndir 3, 4 og 7)– Repró í Gutenberg.