Ferill 298. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 298 . mál.


Ed.

546. Frumvarp til laga



um afnám ýmissa laga um iðnaðar- og orkumál.

(Lagt fram á Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1. gr.

    Eftirtalin lög eru felld úr gildi:
1.     Lög nr. 23 12. september 1917, um heimild handa bæjar- og sveitarstjórnum til að taka eignarnámi eða á leigu brauðgerðarhús o.fl.
2.     Lög nr. 22 13. janúar 1938, um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fyrirskipa blöndun á þurrmjólk í brauð í brauðgerðarhúsum og til þess að ákveða hámarksverð á brauði og þurrmjólk.
3.     Lög nr. 21 5. apríl 1971, um olíuhreinsunarstöð á Íslandi.
4.     Lög nr. 49 29. maí 1957, um Tunnuverksmiðjur ríkisins.
5.     Lög nr. 46 14. maí 1974, um stofnun undirbúningsfélags fiskkassaverksmiðju.
6.     Lög nr. 107 31. desember 1971, um undirbúning þörungavinnslu að Reykhólum.
7.     Lög nr. 107 27. desember 1973, um þörungavinnslu við Breiðafjörð, með breytingu gerðri með lögum nr. 14 23. maí 1975.
8.     Lög nr. 59 4. júní 1981, um stálbræðslu.
9.     Lög nr 45 30. júní 1942, um sérleyfi til þess að veita raforku frá Sogsvirkjuninni til Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyrar.
10.     Lög nr. 28 16. apríl 1971, um virkjun Svartár í Skagafirði.
11.     Lög nr. 105 31. desember 1974, um virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í iðnaðarráðuneytinu í því skyni að felld verði úr gildi ýmis lagaákvæði sem eigi eiga lengur við sökum breyttra aðstæðna.
    Er þar um að ræða lög sem aldrei hafa komið til framkvæmda eða sem hætt er að framkvæma. Annar flokkur laga eru svokölluð „einnota“ lög, það eru lög sem áttu við einstaka framkvæmd sem lokið er. Má þar nefna heimildarlög vegna lántöku, leigunáms á húsnæði, sölu eigna o.þ.h. Óþarft er að birta slík lög í Lagasafni þótt þau haldi áfram gildi sínu. Sem dæmi um þetta má nefna lög nr. 26 15. maí 1984, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja Lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði, lög nr. 125 31. desember 1984, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja Landssmiðjuna, lög nr. 24 23. apríl 1946, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka á leigu geymsluhús Tunnuverksmiðju Siglufjarðar sf., lög nr. 19 10. maí 1977, um heimild til að selja Húseiningum hf. húsnæði Tunnuverksmiðju ríkisins á Siglufirði, lög nr. 54 20. apríl 1963, um heimild til lántöku fyrir raforkusjóð, lög nr. 35 23. maí 1959, um viðauka við lög nr. 28 23. apríl 1946, um virkjun Sogsins, lög nr. 51 20. apríl 1963, um viðauka við lög nr. 28 23. apríl 1946, um virkjun Sogsins, lög nr. 45 30. júní 1942, um heimild handa landsstjórninni til framkvæmda á rannsóknum til undirbúnings virkjunar Sogsfossa, lög nr. 63 25. maí 1950, um heimild fyrir ríkisstjórnina til lánveitinga til Sogs- og Laxárvirkjana og til lántöku vegna sömu fyrirtækja, og lög nr. 74 25. nóvember 1952, um heimild fyrir ríkisstjórnina til lántöku í Alþjóðabankanum í Washington vegna Sogs og Laxárvirkjana. Sama er að segja um lög nr. 20 27. júní 1921, um eignarnám á vatnsréttindum í Andakílsá, lög nr. 92 5. júní 1947, um ný orkuver og nýjar orkuveitur rafmagnsveitna ríkisins, lög nr. 34 16. maí 1949, um ný orkuver og nýjar orkuveitur rafmagnsveitna ríkisins, lög nr. 12 9. febrúar 1951, um ný orkuver og nýja orkuveitu rafmagnsveitna ríkisins, og lög nr. 65 8. maí 1956, um ný orkuver og nýjar orkuveitur rafmagnsveitna ríkisins, ásamt lögum nr. 111 30. desember 1970, um virkjun Lagarfoss. Hætta má einnig birtingu í Lagasafni á lögum nr. 47 1976, um undirbúningsfélag saltverksmiðju á Reykjanesi, þar eð félaginu var slitið samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 3. gr. þeirra og það sameinað nýju félagi, sem stofnað var samkvæmt lögum nr. 62 frá 25. maí 1981, um sjóefnavinnslu á Reykjanesi, Sjóefnavinnslunni hf. Ríkissjóður hefur nú selt hlut sinn í því félagi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Um 1. tölul.
    Þessi lög voru sett vegna styrjaldarástandsins 1917 og hafa enga þýðingu lengur.

    Um 2. tölul.
    Lögum þessum hefur ekki verið beitt í áratugi og eru úrelt. Þar kemur m.a. fram að landbúnaðarráðherra er fengið vald til þess að kveða á um ýmis framkvæmdaratriði, en þegar lögin voru sett voru bæði landbúnaðar- og iðnaðarmál vistuð í atvinnu- og samgönguráðuneyti. Landbúnaðarráðuneytið hefur ekkert að athuga við brottfall laganna sem undanfarna áratugi hafa verið flokkuð með lögum um iðnaðarmál.

    Um 3. tölul.
    Lögin hafa enga þýðingu lengur. Frumathugun leiddi í ljós á sínum tíma að bygging olíuhreinsunarstöðvar hér á landi væri eigi hagkvæm og varð því ekkert af frekari framkvæmdum. Eðlilegt er að málið komi á ný til kasta Alþingis ef upp koma á ný hugmyndir um byggingu olíuhreinsunarstöðvar hér á landi.

    Um 4. tölul.
    Ríkissjóður hefur þegar hætt rekstri þeirra tunnuverksmiðja sem nefndar eru í lögunum og er ekki lengur þörf ríkisaðildar að slíkri framleiðslu.

    Um 5. tölul.
    Ekki er lengur þörf ríkisaðildar að framleiðslu fiskkassa hér á landi.

    Um 6. og 7. tölul.
    Þörungavinnslan hf. varð gjaldþrota og er ríkissjóður eigi lengur aðili að þurrkun þörunga að Reykhólum.

    Um 8. tölul.
    Hætt er við þær framkvæmdir sem lögin fjölluðu um. Eðlilegt er að málið komi aftur til kasta Alþingis ef það verður endurvakið.

    Um 9. tölul.
    Lögin virðast með öllu úrelt og er því rétt að fella þau formlega úr gildi.

    Um 10. tölul.
    Lög þessi hafa aldrei komið til framkvæmda og virðast úrelt. Að áliti Orkustofnunar mundi virkjun Svartár, ef til kemur, gerð með allt öðrum hætti en lögin gera ráð fyrir og yrði því að setja ný lög um hana.

    Um 11. tölul.
    Hér á hið sama við og segir um 10. lið. Lögin eru úrelt vegna breyttra aðstæðna frá því er þau voru sett. Sem stendur er ráðgert að virkja Bessastaðaá með Jökulsá í Fljótsdal, en heimild til virkjunar hennar er að finna í lögum nr. 60/1981, um raforkuver.
    Þótt horfið yrði að því að virkja Bessastaðaá sérstaklega, t.d. sem fyrsta áfanga samvirkjunar með Jökulsá í Fljótsdal, yrði sú virkjun að áliti Orkustofnunar með allt öðrum hætti en lögin frá 1974 gera ráð fyrir.

Um 2. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.