Ferill 335. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 335 . mál.


Nd.

604. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. lög nr. 90/1987, og um breytingu á lögum

Flm.: Sólveig Pétursdóttir, Þorsteinn Pálsson, Matthías Bjarnason,


Árni Gunnarsson, Guðmundur G. Þórarinsson, Ingi Björn Albertsson,


Kristín Halldórsdóttir, Ragnar Arnalds.



1. gr.

    Orðin „Vanskilafé og álagi skv. 28. gr. skal við skipti á þrotabúum og skuldafrágöngubúum skipað í skuldaröð skv. 82. gr. laga nr. 3/1878“ í 2. mgr. 29. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 14. gr. laga nr. 90/1987, falla brott.

2. gr.

    Orðin „Virðisaukaskatti og álagi ásamt endurheimtu of hárrar endurgreiðslu, sbr. 26. og 27. gr., skal við skipti á þrotabúum og skuldafrágöngubúum skipað í skuldaröð skv. 82. gr. laga nr. 3/1878“ í 2. mgr. 28. gr. laga nr. 50/1988 falla brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að felld verði úr lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um virðisaukaskatt ákvæði um forgang þeirra skattakrafna, sem lög þessi fjalla um, í þrotabúum og skuldafrágöngubúum.
    Með lögum nr. 32/1974 voru gerðar breytingar á ákvæðum skiptalaga, nr. 3/1878, um skuldaröð. Meðal þeirra breytinga, sem þá voru gerðar, var sú ekki veigaminnst að fella niður forgang skattakrafna í þrotabúum. Í athugasemdum með frumvarpi að lögum þessum sagði m.a. svo um þessar breytingar:
    „Eins og fyrr segir felast í tillögunni um hina nýju 84. gr. að felld er niður núgildandi regla um að skattakröfur séu forgangskröfur. Er þetta í samræmi við þær tillögur sem nú nýlega eru fram komnar í Danmörku og Noregi.
Um langt skeið þótti sjálfsagt að tryggja kröfur konungsins og annarra opinberra aðila sem best og að veita þeim forréttindi umfram aðra kröfuhafa. Það er vart lengur almennt viðhorf að kröfur opinberra aðila eigi að njóta sérréttinda. Að auki er þess að gæta að slíkar kröfur, fyrst og fremst skattakröfur, eru nú oft svo háar að forgangsréttindi þeirra rýra möguleika annarra kröfuhafa til að fá greiðslu upp í kröfur sínar. Má ætla að skattakröfurnar séu nú tiltölulega hærri í búum en áður var. Það getur vart skipt ríkissjóð eða aðra opinbera aðila meginmáli hvort skattakröfur eru forgangskröfur. Aðrir kröfuhafar geta hins vegar eins og fyrr segir beðið lítt þolanlegt tjón af að þurfa að standa að baki skattheimtumönnum. Er þetta ástæðan til þeirrar tillögugerðar sem í frumvarpinu felst um þetta atriði.“
    Þessara viðhorfa til skatta gætir beint í ákvæðum 82. gr. eftir breytinguna þar sem í 2. tölul. er tekið fram berum orðum að skiptagjöld í ríkissjóð skuli ekki vera meðal búskrafna sem njóti forgangs samkvæmt greininni. Er breyting þessi í anda löggjafarstefnu sem gætt hefur víðast hvar á Vesturlöndum og hefur í auknum mæli tekið tillit til sjónarmiða um jafnræði kröfuhafa, einkum með fækkun forgangskrafna.
    Þessi rök eru að sjálfsögðu enn í fullu gildi. Verður að ætla að þau hafi gleymst þegar forgangsréttarákvæðin „gengu aftur“ í lögum þeim sem hér er lögð til breyting á. Lagasetning þessi er ekki einungis í andstöðu við þau rök sem færð voru fyrir afnámi áður gildandi forgangsréttar fyrir opinber gjöld, sbr. framangreinda tilvitnun í greinargerð, heldur er hér að auki mælt fyrir um enn hærri stöðu gjaldkrafna ríkisins í skuldaröð en gilti eftir upphaflegum reglum VIII. kafla skiptalaganna. Er vandséð hverjar ástæður liggi þar að baki, ekki síst þegar litið er til þess að innheimtumenn opinberra gjalda og virðisaukaskatts hafa margvísleg lögákveðin úrræði til innheimtu fram yfir hinn almenna kröfuhafa. Hér er því um mikið réttlætismál að ræða, m.a. hvað varðar grundvöll kröfuréttinda almennt og réttarstöðu aðila í viðskiptum.
    Ekki verður heldur komist hjá því að benda á að tilvísun lagatextans til 82. gr. skiptalaga um hvar skipa eigi skattakröfum er mjög ónákvæm og veldur miklum vafa um hvar skipa eigi þessum kröfum í skuldaröð. Stafar þetta af því að kröfur skv. 82. gr. greinast í þrjá flokka sem eru misréttháir skv. 3. mgr. 83. gr. laganna. Með því að vísa í lagatexta til 82. gr. í heild skapast því óhjákvæmilega vafi um réttarstöðuna að þessu leyti. Hér ber því að taka af öll tvímæli og eyða slíkri réttaróvissu.
    Þess skal að lokum getið að það er mjög óheppilegt að dreifa ákvæðum um forgangsröð krafna í þrotabúum um löggjöfina vítt og breitt. Er æskilegt að
lagaákvæði um skuldaröð séu í skiptalögum og skiptalögum einum. Með þeim hætti er borgurum auðvelduð yfirsýn og skilningur á efni þessara lagareglna sem raunar eru sjálfsagt nægilega flóknar fyrir.