Ferill 242. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 242 . mál.


Ed.

661. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 86/1985, um viðskiptabanka.

Frá 2. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Annar minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar leggur til að frumvarp þetta sé fellt. Fyrir því liggja augljósar ástæður. Annars vegar fela greinarnar í sér óverulegar breytingar frá núgildandi lögum en hins vegar eru sum ákvæði frumvarpsins beinlínis skaðleg og miða að því að færa verksvið og starfshætti bankaráða aftur í tímann og hverfa þannig frá þeim nútímalegu viðhorfum sem smátt og smátt hafa verið að ryðja sér rúms í bankastarfsemi hér á landi.
    Höfuðefnisbreyting frumvarpsins felst í breytingartillögu við 4. mgr. 21. gr. laganna þar sem lagt er til að vextir banka og þjónustugjöld skuli ákveðin af bankaráðum, og hefur bankaeftirlitið túlkað frumvarpstextann svo að ef að lögum yrði yrðu bankaráð að bókfæra allar breytingar á vöxtum og þjónustugjöldum, hversu smávægilegar sem þær væru. Þessi breyting hefði það í för með sér að bankaráð yrði að koma saman eigi sjaldnar en þrisvar í mánuði til þess að taka ákvarðanir sem í raun eru á verksviði bankastjórnar og geta undir engum kringumstæðum talist svo stefnumarkandi að þær eigi að vera í höndum bankaráða. Slík skipan brýtur gegn víðtekinni verkaskiptingu stjórnar og framkvæmdastjórnar í stórum fyrirtækjum og er í beinni andstöðu við nútíma stjórnunaraðferðir og það eftirlitshlutverk sem bankaráðum ríkisbankanna er sérstaklega ætlað lögum samkvæmt.
    Í umsögn sem nefndinni barst frá Sambandi ísl. viðskiptabanka segir enn fremur um þessa grein:
    „Auk þeirra breytinga á framkvæmdastjórn banka, sem ákvæðið gerir ráð fyrir, hefur það að geyma tillögu um að lögbinda þá viðmiðun sem bönkum verður heimilt að nota þegar þeir ákveða ávöxtunarkröfu sína gagnvart viðskiptavíxlum og viðskiptaskuldabréfum. Tillaga þessi er ekki rökstudd einu orði í athugasemdum enda hefur hún augljósa galla.
    Í fyrsta lagi er hér um að ræða þau verðbréf sem einmitt geta gengið kaupum og sölum á verðbréfamarkaði utan innlánsstofnana. Íhlutun um vexti banka af þessum bréfum með þeim hætti, sem tillagan gerir ráð fyrir, mun því
vafalaust leiða til að kaup banka á bréfunum minnka. Það mun leiða til vaxandi framboðs þeirra á verðbréfamarkaði sem hefur í för með sér hækkandi ávöxtunarkröfu á markaðnum. Tillagan mun því ekki vernda seljendur viðskiptabréfa eins og stefnt virðist að.
    Í öðru lagi gerir tillagan ekki ráð fyrir að mismunandi kostnaður fylgi hinum ýmsu flokkum útlána. Nafnverð einstakra viðskiptabréfa er yfirleitt lágt en þau krefjast tiltölulega mikillar vinnu bæði við kaupin sjálf og innheimtu. Þessar staðreyndir hljóta að endurspeglast í ávöxtunarkröfu bankanna en tillagan gerir einungis ráð fyrir að ávöxtunarkrafan sé sambærileg við almenn útlán bankanna í hliðstæðum áhættuflokkum.“
    Að öðru leyti gefur frumvarpið ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar. Þó er rétt að benda á að í 4. gr. frumvarpsins er ákvæði um að endurskoðun hjá ríkisviðskiptabönkum skuli framkvæmd af Ríkisendurskoðun og skoðunarmanni sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn og skuli hann vera löggiltur endurskoðandi. Ákvæði þetta virðist vanhugsað og verður ekki annað séð en aðild Ríkisendurskoðunar að endurskoðuninni með þeim hætti, sem hér er lagt til, kalli á frekari breytingar á texta gildandi laga um viðskiptabanka eins og fram kemur í áliti Sambands íslenskra viðskiptabanka.
    Að svo miklu leyti sem frumvarp þetta hefur þýðingu færir það gildandi lög um viðskiptabanka til verri vegar og er því einsýnt að greiða atkvæði gegn því. Annar minni hl. ítrekar þó að sum ákvæði frumvarpsins eru skaðlaus og mætti jafnvel segja að þau horfðu til bóta en eru svo veigalítil að ekki tekur því að breyta lögum eingöngu þeirra vegna.
    Eyjólfur Konráð Jónsson var fjarverandi afgreiðslu málsins þar sem hann er erlendis.

Alþingi, 21. mars 1989.


Halldór Blöndal.