Ferill 478. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 478 . mál.


Sþ.

847. Skýrsla



um norrænt samstarf frá mars 1988 til mars 1989.

Frá Íslandsdeild Norðurlandaráðs.



1. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
1.1. Kjör fulltrúa í Íslandsdeild og í fastanefndir Norðurlandaráðs.
    Kjör fulltrúa í Íslandsdeild Norðurlandaráðs fer fram í sameinuðu Alþingi og gildir frá kjördegi og þar til ný kosning hefur farið fram á næsta reglulega Alþingi. Þann 3. nóvember 1987 voru eftirtaldir þingmenn kosnir til setu í Norðurlandaráði: Ólafur G. Einarsson, Guðrún Helgadóttir, Páll Pétursson, Eiður Guðnason, Óli Þ. Guðbjartsson, Sverrir Hermannsson og Valgerður Sverrisdóttir. Varamenn voru þá kjörnir Friðjón Þórðarson, Guðrún Agnarsdóttir, Alexander Stefánsson, Árni Gunnarsson, Hjörleifur Guttormsson, Salome Þorkelsdóttir og Guðni Ágústsson.
    Á fundi sama dag skipti Íslandsdeild þannig með sér verkum að Ólafur G. Einarsson var endurkjörinn formaður deildarinnar og fulltrúi í fjárlaga- og eftirlitsnefnd ráðsins. Hann var auk þess tilnefndur í forsætisnefnd. Páll Pétursson var endurkjörinn varaformaður deildarinnar og fulltrúi í efnahagsmálanefnd og tilnefndur í forsætisnefnd. Guðrún Helgadóttir var kjörin í efnahagsmálanefnd og tilnefnd í ritstjórnarnefnd tímaritsins Nordisk Kontakt. Eiður Guðnason var endurkjörinn í menningarmálanefnd og á auk þess sæti í fjárlaga- og eftirlitsnefnd sem formaður menningarmálanefndar. Óli Þ. Guðbjartsson var kjörinn í samgöngumálanefnd, Sverrir Hermannsson í laganefnd og Valgerður Sverrisdóttir í félags- og umhverfismálanefnd auk þess sem hún var tilnefnd í ritstjórnarnefnd tímaritsins Nordisk Kontakt. Eiður Guðnason var tilnefndur aðalmaður í stjórn Norræna menningarmálasjóðsins 1989–1990 og Guðrún Helgadóttir varamaður.
    Að tillögu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs kaus 36. þing Norðurlandaráðs Ólaf G. Einarsson og Pál Pétursson í forsætisnefnd, Guðrúnu Helgadóttur og Valgerði Sverrisdóttur í ritstjórnarnefnd tímaritsins Nordisk Kontakt og Eið Guðnason sem aðalmann og Guðrúnu Helgadóttur sem varamann í stjórn Norræna menningarmálasjóðsins 1988 til 1989.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs ákvað á fundi 2. mars 1988 að Eiður Guðnason tæki sæti í laganefnd Norðurlandaráðs strax að loknu 36. þingi ráðsins, en Íslendingar áttu þá að taka við formennsku í nefndinni. Jafnframt var ákveðið að Sverrir Hermannsson tæki sæti Eiðs í menningarmálanefnd. Á fundi Íslandsdeildar 8. mars 1988 var nefndaskipan á ný á dagskrá og var þá ákveðið að Sverrir Hermannsson tæki sæti í félags- og umhverfismálanefnd og Valgerður Sverrisdóttir í menningarmálanefnd.
    Sverrir Hermannsson sagði af sér þingmennsku vorið 1988 og tók þá Friðjón Þórðarson við störfum hans í Norðurlandaráði.
    Þann 16. desember 1988 fór á ný fram í sameinuðu Alþingi kjör fulltrúa í Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Eftirtaldir þingmenn hlutu kosningu: Páll Pétursson, Ólafur G. Einarsson, Eiður Guðnason, Þorsteinn Pálsson, Hjörleifur Guttormsson, Óli Þ. Guðbjartsson og Valgerður Sverrisdóttir. Varamenn voru þá kjörnir Guðni Ágústsson, Friðrik Sophusson, Árni Gunnarsson, Friðjón Þórðarson, Guðrún Helgadóttir, Guðrún Agnarsdóttir og Jón Kristjánsson. Á fundi sama dag að loknu kjöri skipti Íslandsdeild þannig með sér verkum að Ólafur G. Einarsson var endurkjörinn formaður deildarinnar fram yfir lok 37. þings Norðurlandaráðs og Páll Pétursson endurkjörinn varaformaður til sama tíma. Ólafur G. Einarsson var jafnframt endurkjörinn í fjárlaga- og eftirlitsnefnd ráðsins og tilnefndur í forsætisnefnd á ný. Páll Pétursson var kjörinn í félags- og umhverfismálanefnd ráðsins og tilnefndur í forsætisnefnd á ný. Eiður Guðnason var endurkjörinn í laganefnd og hélt auk þess sem formaður laganefndar sæti sínu í fjárlaga- og eftirlitsnefnd. Þorsteinn Pálsson og Hjörleifur Guttormsson voru kjörnir í efnahagsmálanefnd og Hjörleifur auk þess tilnefndur í ritstjórnarnefnd tímaritsins Nordisk Kontakt. Óli Þ. Guðbjartsson var endurkjörinn í samgöngumálanefnd og tilnefndur í ritstjórnarnefnd tímaritsins Nordisk Kontakt. Valgerður Sverrisdóttir var endurkjörin í menningarmálanefnd þar sem hún gegnir varaformennsku. Í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans 1989 til 1991 var Ólafur G. Einarsson tilnefndur.
    Að tillögu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs kaus 37. þing Norðurlandaráðs Pál Pétursson og Ólaf G. Einarsson í forsætisnefnd, Hjörleif Guttormsson og Óla Þ. Guðbjartsson í ritstjórnarnefnd tímaritsins Nordisk Kontakt og Ólaf G. Einarsson í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans.

1.2. Fundir Íslandsdeildar og störf.
    Ársskýrsla Íslandsdeildar Norðurlandaráðs var, þar til í fyrra, lögð fram í sameinuðu Alþingi með skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál. Í fyrra lagði samstarfsráðherra í fyrsta sinn fram sérstaka skýrslu um Norðurlandasamstarfið og var skýrsla Íslandsdeildar Norðurlandaráðs þá lögð fram með henni. Umræður fóru ekki fram um skýrslurnar á Alþingi þar sem komið var að þingslitum er hún var lögð fram. Markmið þessarar nýskipunar er að árlega verði á Alþingi sérstakar umræður um norrænt samstarf.
    Á tímabilinu frá lokum 36. þings Norðurlandaráðs og til loka 37. þings þess hélt Íslandsdeild Norðurlandaráðs 15 reglulega fundi, einn fund með samstarfsráðherra Norðurlanda, einn fund með sérfræðingum um mengunarmál, sjávarlíffræði o.fl. og þrjá fréttamannafundi.
    Þegar á fyrsta fundi Íslandsdeildar að loknu 36. þingi Norðurlandaráðs varð ljóst að óvíst væri hvort unnt yrði að halda 38. þing ráðsins, sem haldið verður í Reykjavík 26. febrúar til 2. mars 1990, í Þjóðleikhúsinu vegna fyrirhugaðra viðgerða. Skrifstofustjóra Íslandsdeildar var því falið að kanna í samráði við formann deildarinnar möguleika á að leigja annað húsnæði og gera kostnaðarsamanburð. Kannaðir hafa verið möguleikar á að halda þingið í Háskólabíói og nýja Borgarleikhúsinu sem er í byggingu. Þegar skýrsla þessi er skrifuð er þeirri könnun ekki lokið, en líklegt að bæði húsin uppfylli nauðsynlegar kröfur. Ákvörðun byggð m.a. á samanburði áætlaðs kostnaðar verður væntanlega tekin í apríl.
    Að tillögu Íslandsdeildar hlutu fréttamennirnir Elías Snæland Jónsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Ólafur K. Magnússon, Fríða Björnsdóttir, Björn Vignir Sigurpálsson, Óðinn Jónsson og Axel Ammendrup fréttamannastyrki Norðurlandaráðs 1988. Upphæðinni, 50.000 sænskum krónum, sem kom í hlut Íslands var skipt jafnt milli þeirra. Þeim var tilkynnt þessi ákvörðun á fundi með Íslandsdeild 12. maí 1988.
    Við umfjöllun Íslandsdeildar um starfsemi tímaritsins Nordisk Kontakt kom fram ánægja með ritið en einnig óskir um að nánar yrði fjallað þar um löggjafarstörf þjóðþinganna á Norðurlöndum og að þingmenn væru í ríkari mæli fengnir til að skrifa í blaðið. Ákveðið var að senda tímaritið til bókasafna, héraðsblaða auk dagblaða, heilsugæslustöðva og framhaldsskóla í landinu. Einnig var ákveðið að senda til allra áskrifenda fyrirspurn um það hvort þeir óskuðu eftir áframhaldandi áskrift, en áskriftin er ókeypis. Þetta var gert haustið 1988. Kom þá í ljós að um 60% óskuðu eftir áframhaldandi áskrift. Tímaritið er nú sent til um 350 aðila hér á landi.
    Deildin fjallaði um dreifingu á bæklingnum „Att flytta inom Norden“ sem gefinn var út til reynslu af ráðherranefnd Norðurlanda. Talin var þörf á dreifingu slíks kynningarefnis víða innan lands, m.a. á flugvöllum, ferðaskrifstofum og hjá lögreglustjóraembættum.
    Fjallað var um það hvort greiða ætti af fjárveitingu til Íslandsdeildar ferða- og dvalarkostnað íslenskra fulltrúa sem sækja ráðstefnur haldnar af flokkahópunum fyrir flokksmenn eingöngu. Það var skoðun deildarinnar að svo ætti ekki að vera heldur ætti að vinna að því að fjárveitingar af sameiginlegum fjárlögum Norðurlandaráðs yrðu auknar, þannig að flokkahóparnir geti kostað þessa starfsemi sjálfir. Þessu var komið á framfæri og voru fjárveitingar til flokkahópanna rúmlega tvöfaldaðar með ákvörðun forsætisnefndar þann 21. október 1988 og eru samtals 2 milljónir sænskra króna fyrir árið 1989.
    Á þingi Norðurlandaráðs 1988 var samþykkt þingmannatillaga frá Guðrúnu Helgadóttur um norræna samstarfsáætlun gegn mengun sjávar. Í tilefni af tillögum ráðherranefndar Norðurlanda um samstarfsáætlanir um umhverfismál og varnir gegn mengun sjávar, sem lagðar voru fram haustið 1988, boðaði Íslandsdeild til þriggja funda með sérfræðingum til að ræða um áætlanirnar, tilgang þeirra og hagsmuni Íslands af því að koma að breytingum á þeim. Þeir sem komu til funda með deildinni voru Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneyti, Magnús Jóhannesson siglingamálastjóri, Gunnar Ágústsson, deildarstjóri í Siglingamálastofnun, Ólafur Pétursson, forstöðumaður Hollustuverndar ríkisins, Sigurður Magnússon, forstöðumaður Geislavarna ríkisins, og Ragnhildur Hjaltadóttir, skrifstofustjóri í samgönguráðuneyti. Íslandsdeild ákvað að loknum þessum fundum að fela íslenska fulltrúanum í félags- og umhverfismálanefnd að koma sjónarmiðum deildarinnar á framfæri. Hann bar því fram tilmæli um, að í samstarfsáætluninni um varnir gegn mengun sjávar verði kveðið ákveðnar að orði um aðgerðir gegn mengun sjávar af geislavirkum efnum m.a. vegna flutninga þeirra með skipum um norðlæg hafsvæði; inn í hana verði bætt ákvæðum um að þeir, sem losa úrgangsefni í sjó, verði að sanna að frá þeim stafi ekki mengun; ákvæði um að brennsla mengandi efna úti á rúmsjó verði alfarið bönnuð; ákvæði um að það verði gert að skilyrði fyrir starfsleyfi nýrra atvinnufyrirtækja, að ekki verði leyfð nein losun lífrænna efna eða þungmálma í sjó, og með vísan til skýrslu Brundtlandsnefndarinnar verði komið inn í samstarfsáætlunina ábendingu um að sem flestar þjóðir staðfesti Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna eins fljótt og unnt er. Í þessu sambandi er rétt að benda á að Guðrún Helgadóttir hafði á 36. þingi
Norðurlandaráðs borið fram fyrirspurn til ríkisstjórna Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um ástæður þess að þessi ríki hefðu ekki staðfest Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Farið var og fram á að kannaðir yrðu möguleikar á notkun gervihnatta til að fylgjast með að banni við losun úrgangsefna verði framfylgt.
    Inn í samstarfsáætlunina um umhverfisvernd óskaði deildin eftir að bætt yrði tilmælum um að Norræni fjárfestingarbankinn láni eingöngu til verkefna sem hafi ekki umhverfismengandi áhrif umfram það sem eðlilegt getur talist; tilmælum um að löndin auki sameiginlegar rannsóknir á áhrifum tölva á fólk sem vinnur að staðaldri við þær; og að kröfur þær, sem settar verða fram í áætluninni um minnkaða notkun ósoneyðandi efna, gangi í engu skemur en kröfurnar í þeirri samnorrænu áætlun um þetta sem samþykkt var af umhverfisráðherrum 1987. Tillögur deildarinnar voru í stórum dráttum teknar til greina.
    Deildin ræddi um það hvort vinna ætti að því að Íslendingar gætu talað íslensku á þingum og fundum Norðurlandaráðs. Fulltrúar í deildinni voru ekki á eitt sáttir og er umfjöllun um það mál ekki lokið.
    Eins og fjallað er um í 2. kafla um störf forsætisnefndar skipaði hún sérstaka nefnd 9. des. 1987 til að kanna og gera tillögur um þróun norræns samstarfs á alþjóðavettvangi. Í henni sitja af hálfu Íslands Ólafur G. Einarsson og Páll Pétursson. Nefndin lauk störfum og skilaði lokaskýrslu 9. desember 1989. Stórum hluta tillagna nefndarinnar var fylgt eftir með tveimur þingmannatillögum A867/j um aukið norrænt samstarf um alþjóðamál og A866/e um að skipuð verði ný fastanefnd hjá Norðurlandaráði til að fjalla um alþjóðamál. Þessum tillögum var vísað til landsdeildanna til umsagnar og Íslandsdeild studdi þær báðar.
    Eiður Guðnason kynnti á fundi deildarinnar tillögu, sem hann var fyrsti flutningsmaður að, um jafnréttismál. Hún hefur enn ekki hlotið afgreiðslu ráðsins.

2. Forsætisnefnd Norðurlan daráðs.
2.1.
    Á 36. þingi Norðurlandaráðs þann 7. mars 1988 í Ósló var norski þingmaðurinn Jan P. Syse kjörinn forseti ráðsins. Aðrir fulltrúar í forsætisnefnd voru kjörnir dönsku þingmennirnir Margrete Auken og Anker Jørgensen, finnsku þingmennirnir Ilkka-Christian Björklund og Elsi Hetemäki-Olander, íslensku þingmennirnir Ólafur G. Einarsson og Páll
Pétursson, norski þingmaðurinn Kjell Magne Fredheim og sænsku þingmennirnir Grethe Lundblad og Karin Söder.
    Á árinu 1988 hélt forsætisnefnd 12 fundi. Auk þess hélt hún einn fund með formönnum fastanefnda ráðsins, einn fund með samstarfsráðherrum Norðurlanda og tvo sameiginlega fundi með samstarfsráðherrum og umhverfismálaráðherrum.
    Á fundi forsætisnefndar með formönnum fastanefndanna var m.a. til umræðu skipulag og framkvæmd 37. þings ráðsins, túlkun á fundum og þingum ráðsins, málefni nefndanna og samskipti þeirra við alþjóðastofnanir.
    Á fundi forsætisnefndar með samstarfsráðherrum voru m.a. eftirgreind mál til umræðu: ráðherranefndartillögur, sem lagðar yrðu fyrir 37. þing ráðsins, samstarf þjóðanna um þróunarmál, norræna menningarmálaáætlunin, norrænt samstarf stéttarfélaga, ferða- og samgöngumál, hagræðing samstarfsins, Evrópubandalagið og Norðurlönd, auk fyrirhugaðrar ráðstefnu um mengun sjávar.
    Á fundi forsætisnefndar með samstarfs- og umhverfisráðherrum voru eingöngu rædd umhverfismál og aukaþing ráðsins í nóvember 1988.

2.2.
    Eins og minnst var á í kafla 1.2. skilaði nefnd sú, sem forsætisnefnd skipaði til að kanna og gera tillögur um þróun norræns samstarfs á alþjóðavettvangi, lokaskýrslu til forsætisnefndar 9. desember sl. Hún lagði m.a. til að stofnuð yrði sérstök ráðherranefnd utanríkisviðskiptaráðherra Norðurlanda og ný fastanefnd til að fjalla um utanríkismál. Nefnd Norðurlandaráðs um alþjóðamál lagði höfuðáherslu á mál er vörðuðu þróunina í Evrópu. Það er álit hennar að samræming á sem flestum sviðum á Norðurlöndum styrki þau í samskiptum við aðrar þjóðir í Vestur-Evrópu. Það er yfirlýst stefna allra norrænu ríkjanna að samskipti þeirra við Evrópubandalagið skuli í fyrsta lagi fara fram á vettvangi EFTA, í öðru lagi skuli Norðurlandaríkin koma fram sameiginlega gagnvart Evrópubandalaginu og í þriðju lagi skuli koma til tvíhliða samninga. Nefnd Norðurlandaráðs um alþjóðamál leggur höfuðáherslu á að Norðurlandaríkin búi sig undir að geta hafið samstarf við Evrópubandalagið um afmörkuð málefni þegar forsendur eru fyrir hendi. Sem dæmi um slík málefni nefnir hún í lokaskýrslu sinni samstarfsáætlun Evrópubandalagsins um rannsóknir, nemenda- og kennaraskiptaáætlunina og stöðlunarstarf Evrópubandalagsins auk starfs þess á sviði neytendamála.
    Nefndin um alþjóðamál gerði víðtæka könnun á norrænu samstarfi í alþjóðastofnunum. Þar kom fram að samstarf norrænna fulltrúa í alþjóðastofnunum er lengst á veg komið í GATT og UNESCO. Nefndin um alþjóðamál
lagði til að staða samstarfsráðherra Norðurlanda og staðgengla þeirra yrði styrkt til muna.
     Formaður nefndarinnar var Karin Söder og fulltrúar Íslands, eins og áður sagði, þeir Ólafur G. Einarsson og Páll Pétursson.

3. Fastanefndir Norðurlandaráðs.
3.1. Laganefnd.
    Laganefnd hélt níu fundi á tímabilinu frá lokum 36. þings Norðurlandaráðs til upphafs þess 37. Þrír þessara funda voru með ráðherranefnd Norðurlanda, einn með ráðherrum þeim sem fara með málefni flóttamanna, annar með dómsmálaráðherrum Norðurlanda og sá þriðji með ráðherrum þeim sem fara með jafnréttismál.
    Formaður nefndarinnar var Eiður Guðnason alþm. og varaformaður Hagen Hagensen og frá 21. júní 1988 Helge Adam Møller.
    Á 36. þingi Norðurlandaráðs var samþykkt tillaga laganefndar um nýja norræna áætlun um samstarf um löggjafarmálefni. Í áætluninni eru m.a. almennar tillögur um löggjafarstarfið, tillögur á sviði persónu-, fjölskyldu- og erfðaréttar, á sviði fjármunaréttar, samgangna, skaðabótaréttar, tölvumálefna, vinnuréttar og opinbers réttar.
    Í samræmi við tilmæli til ráðherranefndar Norðurlanda, sem samþykkt voru á 35. þingi Norðurlandaráðs, hélt ráðherranefndin í samstarfi við forsætisnefnd Norðurlandaráðs norræna kvennaráðstefnu - Nordisk Forum - í Ósló sumarið 1988. Fulltrúi laganefndar ásamt ritara nefndarinnar tóku þátt í undirbúningi og skipulagningu Nordisk Forum.
    Ráðstefnan stóð í átta daga og fjöldi þátttakenda var 10.000. Á ráðstefnunni var fjallað um margvísleg efni, svo sem friðar- og öryggismál, umhverfis- og húsnæðismál, stöðu kvenna í stjórnmálum og á vinnumarkaðnum, heilsu kvenna og völd þeirra. Samhliða ráðstefnu þessari var haldin opinber jafnréttisráðstefna. Að henni stóðu jafnréttisnefnd Norrænu ráðherranefndarinnar og laganefnd. Þá ráðstefnu sóttu m.a. ráðherrar þeir sem fara með jafnréttismál, fulltrúar Norðurlandaráðs, þjóðþinganna á Norðurlöndum, aðila vinnumarkaðarins, kvenfélaga o.fl. Gefin var út skýrsla um ráðstefnuna.
    Sjö þingmannatillögum var vísað til laganefndar og fjölluðu þær um málefni flóttamanna, vegabréfaskyldu erlendra borgara á Norðurlöndum, eftirlit með því að viðskiptabanni á Suður Afríku sé fylgt eftir, skipulag samstarfsins, stofnun alþjóðanefndar, aðild Eystrasaltsríkjanna að Norðurlandaráði,
takmörkun útflutnings hættulegs varnings sem ekki er leyfð sala á á Norðurlöndum og jafnréttismál á alþjóðavettvangi. Var Eiður Guðnason fyrsti flutningsmaður tveggja síðastnefndu tillagnanna. Tillagan um takmörkun útflutnings hættulegs varnings var samþykkt á 37. þingi ráðsins en sú um jafnréttismál á alþjóðavettvangi kemur til atkvæða á næsta þingi.
    Á sviði nefndarinnar voru samþykktar þrjár ráðherranefndartillögur. Þær voru um samstarfsáætlun um neytendamál, samstarfsáætlun um jafnréttismál og um gerð norræns milliríkjasamnings um þjóðskrá. Grundvöllur þeirra breytinga, sem milliríkjasamningurinn um þjóðskrá felur í sér, var lagður í þingmannatillögu frá Guðrúnu Helgadóttur sem samþykkt var á þingi Norðurlandaráðs 1986.

3.2. Menningarmálanefnd.
    Menningarmálanefnd hélt átta fundi á tímabilinu frá lokum 36. þings Norðurlandaráðs og til upphafs þess 37. Einn þessara funda var með menningar- og menntamálaráðherrum landanna.
    Formaður nefndarinnar til 8. júní var danski þingmaðurinn Bernhard Tastesen, en þá tók danski þingmaðurinn J.K. Hansen við formennsku. Varaformaður var Valgerður Sverrisdóttir alþingismaður.
    Nefndin lagði í starfi sínu höfuðáherslu á framkvæmd norrænu samstarfsáætlunarinnar um menningarmál, aukið samstarf við Evrópubandalagið á sviði æðri menntunar og uppbyggingu sjónvarpssamstarfs á Norðurlöndum. NORDPLUS-áætlunin hefur verið til umfjöllunar og rætt var um hana við menntamálaráðherra landanna, við samtök stúdenta á Norðurlöndum og við þann embættismannahóp sem hefur með mál þetta að gera. Í nefndinni gætti óánægju með að fjárveitingar til menningarmála á norrænu fjárlögunum dygðu skammt til að ná markmiðum norrænu samstarfsáætlunarinnar um menningarmál.
    Aukin samskipti á sviði æðri menntunar við ríkin á meginlandi Evrópu var efni námsstefnu sem menningarmálanefnd efndi til 26.–28. sept. 1988 í Sønderborg á Jótlandi.
    Það var álit nefndarinnar að vinna bæri að því að Norðurlandaþjóðirnar gætu fylgst með sjónvarpssendingum hver frá annarri, en auk þess ætti að stofna sérstakan sjóð til að fjármagna gerð norræns sjónvarpsefnis.
    Meðal þingmannatillagna, sem nefndin fjallaði um á árinu, var tillaga um að NORDJOBB-samstarfinu yrði tryggður grundvöllur, en markmið þess er að gera ungu fólki kleift að stunda sumarvinnu annars staðar á Norðurlöndum en í heimalandi sínu. Aðrar tillögur, sem nefndin fjallaði um, eru m.a. um notkun tölvutækni við verkfræði- og tækninám og um aukið samstarf milli ríkjanna um starfsþjálfun.

3.3. Félags- og umhverfismálanefnd.
    Félags- og umhverfismálanefnd hélt frá lokum 36. þings Norðurlandaráðs og til upphafs þess 37. átta fundi og voru tveir þeirra með ráðherranefnd Norðurlanda, annar með ráðherrum þeim sem fara með umhverfismál og hinn með þeim sem fara með mál varðandi aðbúnað á vinnustöðum og vinnuvernd.
    Formaður nefndarinnar var finnski þingmaðurinn Marjatta Väänänen og varaformaður norski þingmaðurinn Svein Alsaker.
    Á aukaþingi því, sem Norðurlandaráð hélt 16. nóvember sl. á Helsingjaeyri, voru öll mál, sem á dagskrá voru, á sviði félags- og umhverfisnefndar, þrjár þingmannatillögur og tvær ráðherranefndartillögur auk fjárlaga ráðherranefndar Norðurlanda. Þetta voru norræna samstarfsáætlunin um umhverfismál, norræna samstarfsáætlunin gegn mengun sjávar og þingmannatillaga um stefnu Norðurlandaþjóðanna í umhverfismálum á alþjóðavettvangi. Í 4. kafla verður fjallað sérstaklega um aukaþingið.
    Á árinu hafa, auk þessara þriggja umhverfisverndarmála, m.a. verið á dagskrá nefndarinnar norræn samstarfsáætlun gegn krabbameini, ráðherranefndartillaga um norrænan milliríkjasamning um aðbúnað á vinnustöðum og vinnuvernd, þingmannatillaga um menntun og starfsleyfi kírópraktora, um norrænan vinnumarkað fyrir landmælingamenn, um aðgerðir til að vinna gegn misnotkun áfengis, um norrænt giktarár 1991 og um norrænt líffræðiár 1990.

3.4. Samgöngumálanefnd.
    Samgöngumálanefnd hélt sex fundi frá lokum 36. þings Norðurlandaráðs og til upphafs 37. þings þess. Einn þessara funda var haldinn með samgöngumálaráðherrum og þeim ráðherrum sem fara með umferðaröryggismál.
    Formaður nefndarinnar var sænski þingmaðurinn Elver Jonsson og varaformaður finnski þingmaðurinn Sakari Knuuttila.
    Meðal þeirra átta þingmannatillagna, sem nefndin fjallaði um, voru tillögur um norrænan gagnabanka sem Óli Þ. Guðbjartsson og Guðrún Helgadóttir fluttu, um norrænt ferðakort fyrir ungt fólk, um norrænt samstarf um ferðamál, um norrænan ökukennaraskóla og um skattfrjálsa sölu áfengis o.fl. til flugfarþega á Norðurlöndum. Tillaga Óla Þ. Guðbjartssonar og Guðrúnar Helgadóttur var samþykkt á 37. þingi ráðsins. Markmið hennar er m.a. að kannaðir verði möguleikar á samnýtingu þeirra gagnabanka sem fyrir eru, að kannaðar verði forsendur stofnunar nýrra gagnabanka um afmörkuð svið, t.d. umhverfismál, ferðamál og umferðaröryggismál.
    Formaður og varaformaður nefndarinnar heimsóttu ásamt ritara hennar eftirtaldar alþjóðastofnanir á árinu: Höfuðstöðvar EFTA í Genf, ECE (Efnahagsmálastofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu), samgöngumálanefnd Evrópuþingsins og höfuðstöðvar OECD.

3.5. Efnahagsmálanefnd.
    Efnahagsmálanefnd hélt fjóra fundi frá lokum 36. þings Norðurlandaráðs og til upphafs þess 37. Hún hélt auk þess tvo fundi með ráðherranefnd Norðurlanda, annan með fjármálaráðherrum landanna og hinn með orkuráðherrum.
    Formaður nefndarinnar var norski þingmaðurinn Anders Talleraas og varaformaður sænski þingmaðurinn Arne Gadd. Nefndin fjallaði á starfsárinu m.a. um þingmannatillögur um norrænt samstarf stéttarfélaga í fjölþjóðlegum fyrirtækjum, um norrænt samstarf og heimamarkað Evrópubandalagsins og norrænt samstarf um alþjóðleg málefni. Nefndin hafði til meðferðar ráðherranefndartillögur um samstarfsáætlanir á sviði orkumála, sjávarútvegs- og efnahagsmála.
    Á fundi nefndarinnar með fjármálaráðherrum var norræna samstarfsáætlunin um efnahagsmál sérstaklega til umræðu. Hún gildir fyrir árin 1989 til 1992 og fjárveitingar til starfsemi samkvæmt henni verða 250 millj. danskra króna yfir tímabilið. Hluti þeirra aðgerða, sem framkvæma á samkvæmt áætlunni, er þó ekki verðsettur, t.d. fyrirhugaðar breytingar á fjármagnsmarkaði ríkjanna.
    Á vegum nefndarinnar verður í september námsstefna á Gotlandi um þróunina í Evrópubandalaginu.
    Á fundi nefndarinnar með orkuráðherrum var norræna samstarfsáætlunin um orkumál rædd sérstaklega, fjármögnun starfsemi Norrænu kjarnorkumálastofnunarinnar og notkun kjarnorku á Norðurlöndum og hvernig dregið verði úr notkun hennar.

3.6. Fjárlaga- og eftirlitsnefnd.
    Fjárlaga- og eftirlitsnefnd hélt á árinu 1988 átta fundi og þeir níu fulltrúar í nefndinni, sem ekki eiga sæti í öðrum nefndum, héldu auk þess sex fundi.
    Formaður nefndarinnar var danski þingmaðurinn Ivar Hansen og varaformaður fram til september sænski þingmaðurinn Ingrid Sundberg og frá 14. nóvember sænski þingmaðurinn Wiggo Komstedt.
    Nefndin fjallaði á starfsárinu um tvær tillögur frá ráðherranefnd Norðurlanda, annars vegar ársskýrsluna um starfsáætlun næsta árs og hins vegar um fjárlög ráðherranefndarinnar.
    Ráðherranefndin reiknar með 3% árlegri raunaukningu fjárlaganna og nefndin er sátt við þá aukningu að því tilskildu að vikið verði frá henni ef á daginn kemur að mikilvæg verkefni verða ekki fjármögnuð innan þessa ramma.
    Á aukaþingi því, sem Norðurlandaráð boðaði til 16. nóvember til að fjalla um umhverfismál, var tekin afstaða til fjárlaga ársins 1989. Er það undantekning að fjallað sé um fjárlagatillögurnar á þingi Norðurlandaráðs, enda gerir nýskipan sú, sem tók gildi við meðferð fjárlaga ársins 1988, ekki ráð fyrir því, heldur taki forsætisnefnd, fyrir hönd þingsins, sem venjulega situr ekki á þessum tíma, lokaafstöðu til fjárlaganna.
    Fjárlög ráðherranefndar Norðurlanda fyrir árið 1989 eru 610.868.000 danskar krónur.
    Þeir níu fulltrúar í fjárlaga- og eftirlitsnefnd, sem ekki eiga sæti í öðrum nefndum, hafa á starfsárinu sinnt þremur eftirlitsverkefnum. Gerð var úttekt á starfsemi Norræna hússins í Reykjavík og Norðurlandahússins í Færeyjum, á starfsemi Nordtest og Norræna iðntæknisjóðsins og starfsemi NIOM (Norrænu rannsóknastofnunarinnar um efni sem notuð eru til tannviðgerða). Niðurstöðurnar birtust sem fylgirit með ársskýrslu forsætisnefndar 1989.

4. Aukaþing Norðurlandaráðs á Helsingjaeyri 16. nóvember 1989.
    Eins og skýrt hefur verið frá fyrr í skýrslu þessari lágu fyrir aukaþinginu ráðherranefndartillögur um umhverfismál og varnir gegn mengun sjávar, þrjár þingmannatillögur um umhverfismál og fjárlagatillögur ársins 1989.
    Um þingmannatillögurnar þrjár fjallaði félags- og umhverfismálanefnd í sama nefndaráliti og ráðherranefndartillöguna um umhverfismál. Ekki var ágreiningur um tillögur þessar og var því nefndarálitið samþykkt með 75 atkvæðum gegn 2, en 5 fulltrúar sátu hjá.
    Um ráðherranefndartillöguna um samstarfsáætlun gegn mengun sjávar var hins vegar töluverður ágreiningur. Félags- og umhverfismálanefnd hafði lagt til að þeim tilmælum yrði beint til ráðherranefndarinnar að samþykkja ekki drögin að samstarfsáætlun, heldur leggja fram nýja markvissari áætlun fyrir 37. þing ráðsins. Þessari afstöðu sinni breytti meiri hluti nefndarinnar ekki þó að ráðherranefndin legði fram breytingartillögu við upphaf aukaþingsins þar sem m.a. var boðið að lögð yrði fram endurskoðuð tillaga á þingi Norðurlandaráðs 1990. Aukaþingið felldi í atkvæðagreiðslu tillögu meiri hluta félags- og umhverfismálanefndar með 45 atkvæðum gegn 39 og féllst á tillögu minni hluta nefndarinnar um að beina þeim tilmælum til ráðherranefndarinnar að staðfesta
ráðherranefndartillöguna ásamt fram lagðri breytingartillögu. Um ráðherranefndartillöguna um umhverfismál tóku til máls Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra og alþingismennirnir Friðjón Þórðarson og Óli Þ. Guðbjartsson.
    Í máli Jóhönnu Sigurðardóttur kom m.a. fram að ákveðið hafi verið að Íslendingar gerðust aðilar að Vínarsáttmálanum um verndun ósonlagsins og gætu að því loknu einnig undirritað Montreal-bókunina um takmörkun framleiðslu ósoneyðandi efna. Fram kom í máli hennar að í undirbúningi er aðild Íslendinga að Kaupmannahafnarsáttmálanum og einnig er áhugi á aðild að samningi Dana, Finna, Norðmanna og Svía frá 1976 um umhverfismál. Ósk um aðild að síðastnefnda samningnum verður því lögð fram. Ráðherrann lýsti vonbrigðum yfir að hvergi í ráðherranefndartillögunni um umhverfismál væri getið mikilvægi þess að norrænu ríkin staðfestu hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ráðherrann lagði og ríka áherslu á að það væri ein aðalforsenda fyrir tilvist íslensku þjóðarinnar að hafið umhverfis Ísland væri hreint og ómengað.
     Friðjón Þórðarson lýsti þeim aukna skilningi sem orðið hefði á umhverfismálum á síðastu árum á Íslandi, ekki síst vegna þess hve háðir Íslendingar væru fiskveiðum. Hann gerði grein fyrir sjónarmiðum Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um æskileg áhersluatriði á sviði umhverfismála og óskum deildarinnar um að lögð yrði fram norræn samstarfsáætlun um náttúruvernd. Hann minnti og á hættu þá sem kjarnorkuslys til sjós mundi hafa á lífríki sjávar og á óskir Íslandsdeildar um að brennslu úrgangsefna á hafi úti yrði alfarið hætt fyrir 1990.
     Óli Þ. Guðbjartsson fjallaði í ræðu sinni m.a. um það hve íslenskt efnahagslíf væri háð sjávarfangi og minnti á að 80% af útflutningstekjum Íslendinga væru af fiski og fiskafurðum. Kjarnorkuslys á norðurslóðum gæti því valdið óbætanlegu tjóni. Að lokum lagði hann áherslu á að Norðurlandaþjóðirnar ynnu ötullega gegn notkun ósoneyðandi efna.
    Um ráðherranefndartillöguna um varnir gegn mengun sjávar tóku til máls Jón Sigurðsson samstarfsráðherra Norðurlanda og Steingrímur J. Sigfússon, landbúnaðar- og samgönguráðherra.
     Jón Sigurðsson hélt í máli sínu fram mikilvægi þess að Norðurlandaþjóðirnar stæðu á alþjóðavettvangi saman um umhverfismál og kvað samþykkt tillögunnar um varnir gegn mengun sjávar mikilvægan þátt í því. Samþykkt hennar mætti því ekki dragast. Hann minnti á að ef þessi áætlun yrði samþykkt yrði endurskoðuð áætlun lögð fram á þingi Norðurlandaráðs í
Reykjavík 1990 og væri það tilhlökkunarefni. Hann hélt fram mikilvægi þess að öll norrænu ríkin staðfestu hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem væri afar mikilvægur í baráttunni gegn mengun sjávar.
    Hann kvað norrænu þjóðirnar síðastliðna áratugi hafa barist ötullega gegn þeirri mengun sem sýnileg væri, en nú væri sú mengun, sem ekki væri sýnileg, stærsta vandamálið.
     Steingrímur J. Sigfússon kvað það óraunhæft að búast við að unnt væri að leggja fram endurskoðaða áætlun fyrir Norðurlandaráðsþingið 1989 en vel mögulegt fyrir þingið í Reykjavík 1990. Hann kvað fyrirliggjandi áætlun mikilvægt tæki til að ná sameiginlegri norrænni stefnu í umhverfismálum. Hann taldi eins og fleiri Íslendingar að önnur norræn ríki ættu að staðfesta hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem hann væri án efa ein mikilvægasta alþjóðasamþykkt sem gerð hefði verið um verndun hafsins. Ráðherrann vakti athygli á þeim hugmyndum bresku ríkisstjórnarinnar að draga úr loftmengun á Bretlandseyjum með því að minnka notkun kola og olíu en auka í stað þess notkun kjarnorku. Í ljósi þess að allar nýjar hugmyndir um losun kjarnorkuúrgangs beindust að hafinu væri hugmyndin greinilega að minnka loftmengun en auka þess í stað hættu á mengun hafsins, sagði ráðherrann.

5. 37. þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi 27. febrúar til 3. mars.
5.1. Almennar umræður.
    Umræður á þinginu hófust með stuttu ávarpi fráfarandi forseta, Jan P. Syse. Að lokinni kosningu í forsætisnefnd ráðsins ávarpaði nýkjörinn forseti, Karin Söder, þingið. Því næst fylgdi formaður ráðherranefndar Norðurlanda, Mats Hellström, úr hlaði skýrslum ráðherranefndarinnar um starfið á liðnu ári og starfsáætlun næsta árs, en skýrslur þessar liggja, ásamt ársskýrslu forsætisnefndar Norðurlandaráðs, til grundvallar almennum umræðum. Hann benti m.a. á í ræðu sinni að sú þróun, sem á sér stað innan Evrópubandalagsins, geri miklar kröfur til norræns samstarfs eigi norræna samstarfið að standa samstarfinu í Evrópubandalaginu jafnfætis eða á sumum sviðum vera feti framar. Því hefði starf ráðherranefndarinnar á liðnu ári að miklu leyti snúist um málefni þessu tengd. Hann benti í því sambandi á skýrslurnar „Norden i Europa“ I og II auk norrænu samstarfsáætlunarinnar um efnahagsmál, „Ett starkare Norden“, og fór orðum um þau svið sem mest áhersla yrði lögð á. Hann fjallaði um mikilvægi þess að Norðurlandabúar gætu flutt óhindrað milli norrænu ríkjanna og mikilvægi norræns og annars alþjóðlegs samstarfs um umhverfismál, um norrænu samstarfsáætlunina um menningarmál og samstarf við Evrópubandalagið um menntamál.
     Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra lagði í ræðu sinni höfuðáherslu á afstöðuna til Evrópubandalagsins og umhverfismál. Vegna sérstöðu Íslendinga kvað hann samstarf þeirra við Evrópubandalagið aðallega mundu takmarkast við samninga um fríverslun, samstarf á sviði vísinda, varnar- og öryggismála og í framtíðinni í auknum mæli um efnahagsmál, fjármagn og þjónustu. Hann kvað því þörf á að samræma íslenska stjórnsýslu þeirri þróun sem ætti sér stað í Vestur-Evrópu. Því væri höfuðáhersla lögð á samstarf við Norðurlönd og önnur EFTA-lönd. Forsætisráðherra kvað það hafa úrslitaþýðingu fyrir Íslendinga að fríverslun með fisk og fiskafurðir kæmist á. Ella hefðu þeir ekkert að gera í hinu vestur-evrópska fríverslunarbandalagi og gætu eins snúið sér eitthvað annað. Hann hvatti Finna til að fallast á fríverslun með fisk milli EFTA-ríkjanna. Hann lýsti áhyggjum vegna mengunarvandamála þeirra sem komið hafa upp vegna ofnotkunar ósoneyðandi efna og vegna eyðingar regnskóga Amasonsvæðisins. Í lok ræðu sinnar hvatti hann Norðurlandaþjóðirnar til að vera raunsæjar í afstöðu sinni gegn hvalveiðum Íslendinga, enda hefðu þeir fyrstir þjóða bannað hvalveiðar um 20 ára skeið í verndunarskyni og hefðu ekki síður en aðrir hag af verndun hvalastofnanna.
     Páll Pétursson fjallaði í ræðu sinni m.a. um aðdraganda aukaþings Norðurlandaráðs á Helsingjaeyri og kvað fulltrúa miðflokkanna í Norðurlandaráði hafa, á þingi Norðurlandaráðs í Ósló, lagt fram beiðni um aukaþing um umhverfismál. Á aukaþinginu hafi svo verið fjallað um samstarfsáætlanir ráðherranefndarinnar um umhverfismál og varnir gegn mengun sjávar. Hann taldi það miður að þingfulltrúar hefðu látið sér nægja þá samstarfsáætlun um varnir gegn mengun sjávar sem lögð var fram. Hann kvað það mikilvægt að markið yrði sett mun hærra en nú væri gert í þeirri endurskoðuðu áætlun sem lögð mundi verða fram á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík 1990. Hann kvaðst binda vonir við þá alþjóðlegu þingmannaráðstefnu sem Norðurlandaráð hefði boðað til næsta haust í Kaupmannahöfn og lýsti ánægju yfir samstarfsáætlun þeirri um sjávarútvegsmál sem lögð væri fram fyrir þetta þing. Hann kvað EFTA-þjóðirnar hafa of miklar áhyggjur af áhrifum þróunarinnar í Evrópu. Þjóðir Evrópubandalagsins mundu ekki sætta sig við þau miklu áhrif á þjóðleg einkenni sem henni fylgdu nema að vissu marki. Vegna þeirrar auknu áherslu, sem Evrópubandalagið mundi á næstunni leggja á her- og varnarmál, yrði ríkjum utan Atlantshafsbandalagsins ekki auðveld innganga. EFTA-ríkin ættu því að styrkja samstarf sitt.
     Jón Sigurðsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, fagnaði því að það viðfangsefni að bregðast við auknu samstarfi Evrópubandalagsríkjanna hefði reynst hvatning til endurnýjunar í norrænni samvinnu. Hann nefndi sérstaklega efnahagsáætlun Norðurlanda 1989–1992, „Ett starkare Norden“, og skýrslurnar tvær um Norðurlönd og Evrópu, „Norden i Europa“ I og II, og skýrslu „Söder-nefndarinnar“ um alþjóðamál. Hann nefndi m.a. að ríkisstjórn Íslands hefði nýlega ákveðið að endurskoða þær reglur sem giltu um flutninga fjármagns og fjármálaþjónustu milli Íslands og annarra landa. Þessar reglur yrðu smám saman gerðar frjálslegri, m.a. á grundvelli norrænu samstarfsáætlunarinnar, „Ett starkare Norden“, og með tilliti til hins íslenska efnahagskerfis. Hann benti á mikilvægi þess að á kæmist fríverslun með fisk og fiskafurðir í Evrópu. Fyrsta skref í þá átt væri slík fríverslun milli EFTA-ríkjanna, og því bæri að harma að ekki hefði fengist samþykki allra EFTA-ríkjanna fyrir henni. Ráðherrann kvað Ísland hafa sérstöðu hvað varðaði ónýtta vatnsorku og jarðhita, þetta væri grundvöllur hagvaxtar og iðnþróunar á komandi tímum. Samstarf á sviði iðnaðar við önnur norræn ríki, sem byggju við aðrar aðstæður á sviði orkumála, væri áhugavert.
    Ráðherra benti á að aukið samstarf við Evrópubandalagið krefðist skilvirkara starfs á norrænum vettvangi, jafnframt því sem markið hlyti að verða sett hærra á sviði menntunar og umhverfisverndar.
     S vavar Gestsson menntamálaráðherra fagnaði í ræðu sinni stofnun norræns kvikmynda- og sjónvarpssjóðs, en stofnun hans hafði verið hugmynd Eiðs Guðnasonar. Ráðherrann benti í ræðu sinni á mikilvægi samstarfs í menntamálum og þýðingu þess að íslenskir stúdentar njóti sömu möguleika til náms í norrænum háskólum og hingað til. Hann kvað raddir vera uppi um að stúdentum væri nú örðugra en oft áður að fá inngöngu í norræna háskóla. Það væri í ósamræmi við það markmið norrænu samstarfsáætlunarinnar um menningarmál að Norðurlönd verði sameiginlegt menntunarsvæði. Hann upplýsti að ráðherranefndin hefði í hyggju að leggja fram samstarfsáætlun um aukinn norrænan málskilning og minnti í því sambandi á þá kennslu í norrænum málum sem færi fram í íslenskum skólum. Hann fjallaði um kvennaráðstefnuna í Ósló í sumarið 1988, taldi hana hafa verið gagnlega og fagnaði ákvörðun ráðherra þeirra sem fara með jafnréttismál um að halda á ný slíka ráðstefnu. Hann lagði áherslu á að ríki Norðurlanda kæmu út á við fram sem ein heild og nefndi sem dæmi um framkomu stórveldis við smáríki beiðni Atlantshafsbandalagsins um að fram fari könnun á möguleikum þess að byggja varaflugvöll á Íslandi sem kostaði 11 miljarða íslenskra króna. Þannig væri smáríkis freistað á ógeðfelldan hátt með miklum fjármunum.
     Þorsteinn Pálsson benti í ræðu sinni á þá þróun sem á sér stað í Austur-Evrópu í átt að vestrænu efnahagskerfi og Vestur-Evrópu í átt að sameiginlegum markaði. Hann kvað Íslendinga nú hugleiða á hvern hátt skuli bregðast við þróuninni innan Evrópubandalagsins og taldi þá hugmynd njóta fylgis að reyna að láta samskipti við Evrópubandalagið fara fram í samstarfi við Norðurlandaríkin og EFTA. Þegar til samninga við Evrópubandalagið kæmi yrðu þeir þó tvíhliða, ekki síst gilti það um Ísland vegna sérstöðu þess. Hann kvað mikilvægt að samræma íslenskt efnahagskerfi því kerfi sem verið er að koma á í Evrópubandalaginu og koma á frjálsum fjármagnsmarkaði, enda mundu þessar breytingar skila sér í bættum lífskjörum og sterkari Evrópu. Þó að Íslendingar viðurkenndu þýðingu ríkjabandalaga vildu þeir aldrei sogast inn í yfirþjóðleg bandalög þar sem hætta væri á að þjóðleg séreinkenni, menning og saga yrðu lítils metin. Hann fjallaði og um mikilvægi norræns samstarfs á sviði sjávarútvegs og umhverfisverndar. Hann mótmælti því að hugmyndir um framtíð Evrópu takmörkuðust við þau 18 lönd sem tilheyra EFTA og Evrópubandalaginu. Markmiðið ætti frekar að vera að allar þjóðir Evrópu verði frjálsar.
     Hjörleifur Guttormsson alþingismaður kvað þrjú svið hafa skorið sig úr í starfsemi Norðurlandaráðs á liðnu ári, Evrópumálin, nefndarálit alþjóðanefndarinnar og aukaþing ráðsins á Helsingjaeyri um umhverfismál ásamt samstarfsáætluninni gegn mengun sjávar. Hann kvað þá athygli, sem umhverfismál nú hlytu, vera afar mikilvæga fyrir Íslendinga. Þjóðirnar þyrftu í sameiningu og hver fyrir sig að vernda náttúru landanna og nýta hana skynsamlega. Þetta gilti bæði um sjávarspendýr og fiskistofna, skóga og vötn. Rannsóknir hefðu hér úrslitaþýðingu. Kjarnorkan væri eitt af því sem ógnaði umhverfinu á Norðurlöndum. Sú staðreynd að afvopnunarsamningar hafa ekki tekið til flotastyrks skapar aukna hættu á kjarnorkuslysum á norrænum siglingaleiðum. Þetta á m.a. þátt í þeirri afstöðu norrænu þingmannanefndarinnar um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd að þörfin á að gera Norðurlönd að kjarnorkuvopnalausu svæði aukist stöðugt. Hann kvað Evrópumálin vera í brennidepli, bæði vegna áforma Evrópubandalagsins og EFTA um „evrópskt efnahagssvæði“ og vegna lýðræðislegrar þróunar í Austur-Evrópu. Hugmyndir um tollabandalag hefðu og komið fram í almennu umræðunum án þess að skýrt væri við hvað væri í raun átt. En afstaða stjórnvalda til alls þessa lýsti í senn von og efasemdum. Það væri vafalaust fyrst og fremst í þágu fjármagnsins og stórfyrirtækja sem verið væri að þróa fjármagnsmarkað Evrópubandalagsins, en félagslega hliðin skipti þar minna máli. Það sama væri uppi á teningnum hjá þeim sem vildu færa Norðurlönd nær Evrópubandalaginu og jafnvel sækja um inngöngu þar. Aðalmarkmið norræns samstarfs ætti hins vegar að vera að slá vörð um hið norræna velferðarsamfélag og lýðræðið.
     Eiður Guðnason alþingismaður minnti í ræðu sinni á að gagnstætt margra ára venju væri nú ekkert talað í almennu umræðunum um norræna sjónvarpshnetti, hvorki NORDSAT né TELE-X, enda væri það nú orðið um seinan, en þeim merka áfanga hefðu samstarfsráðherrar Norðurlanda náð að ákveða stofnun norræns sjónvarps- og kvikmyndasjóðs með stofnfé að upphæð 30 miljónum danskra króna.
    Hann benti á að íslenska þjóðin ætti allt sitt undir ómenguðu hafi og skynsamlegri nýtingu sjávarfangs. Hann styddi því heils hugar allar mengunarvarnir til lands og sjávar og aðrar aðgerðir sem stuðluðu að eðlilegu jafnvægi í náttúrunni. Vegna þess að Íslendingar lifa af fiskveiðum bentu allir þeir, sem tóku þátt í almennum umræðum, á mikilvægi fríverslunar með fisk og fiskafurðir.
    Eiður kvað marga ræðumenn hafa fjallað um hið norræna málsamfélag, en í raun tæki það eingöngu til norsku, dönsku og sænsku, ekki íslensku, finnsku, færeysku, grænlensku og samísku. Þó hefði verið gerður norrænn samningur til að auka á jafnrétti á þessu sviði. Hann minnti á að það væri forsenda þess að íslenskir stjórnmálamenn gætu verið virkir í norrænu samstarfi og tekið þátt í umræðum á þeim vettvangi að þeir kynnu dönsku, norsku, finnsku eða sænsku. Finnskir stjórnmálamenn gætu talað finnsku á Norðurlandaráðsþingum og fundum, og ræður þeirra væru þýddar jafnóðum. Hann kvað tíma kominn til að láta sama gilda um Íslendinga. Það væri auðvitað kostnaðarsamt, en þann kostnað yrðum við að greiða. Hann minnti að lokum á að á Evrópuþinginu gætu allir talað eigin tungu, það væri jafnrétti í raun.
     Óli Þ. Guðbjartsson alþingismaður minnti á að efnahagslegt samstarf ætti sér stað milli ríkja Norðurlanda þó að ekki hafi komið til stofnunar norræns efnahagsbandalags. Nú væri lögð fram norræn samstarfsáætlun um efnahagssamstarf sem sýndi að stöðugt væri unnið að nánara samstarfi á þessu sviði. Ekki mætti gleyma að grundvöllur alls norræns samstarfs væri menningarmálasamstarfið. Allt efnahagssamstarf hvíldi og á þeim grunni sem ómengað umhverfi væri. Þetta virtu allir, bæði einstaklingar og þjóðir. Verkefnin ykjust stöðugt og nú væri lögð fram samstarfsáætlun um sjávarútvegsmál sem kvæði m.a. á um sameiginlegar rannsóknir á lífríki sjávar og verndun fiskistofna sem væru í útrýmingarhættu. Þetta væri verkefni sem bæri að gefa forgang og skipti það höfuðmáli fyrir ríkin í útnorðri. Hann óskaði að lokum eftir stuðningi þingheims við samstarfsáætlunina um sjávarútvegsmál.

5.2. Fyrirspurnir.
    Á þinginu voru bornar fram 49 fyrirspurnir og voru 29 þeirra sendar inn þremur vikum fyrir þingið, en 20 lagðar fram á þinginu sjálfu.
    Íslensku þingmennirnir Ólafur G. Einarsson og Valgerður Sverrisdóttir voru meðal þeirra sem lögðu fram fyrirspurnir.
     Ólafur G. Einarsson alþingismaður spurði hvort ráðherranefnd Norðurlanda mundi vinna að því að norrænir stúdentar fengju sama rétt til náms í háskólum og þegnar þess ríkis þar sem viðkomandi háskóli er eða hvort ráðherranefndin mundi vinna að því að þeir fengju sama rétt og þeir erlendir borgarar sem samkvæmt þegar gerðum samningum nytu bestu kjara. Í svari Bertels Haarder, menntamálaráðherra Dana, kom m.a. fram að ráðherranefndin hefði mælst til þess árið 1977 að menntastofnanir, sem takmörkuðu aðgang stúdenta, veittu ákveðnum fjölda erlendra stúdenta inngöngu, þar á meðal norrænna, þó ekki fleirum en sem næmi 10%. Hann kvað það vera eitt af markmiðum samstarfsáætlunarinnar um menningarmál að gert yrði norrænt samkomulag um menntunarmál. Það væri eitt allra mikilvægasta verkefnið á menntunarmálasviðinu að gera norrænum stúdentum kleift að líta á Norðurlönd sem „heimamarkað“ þegar ákvörðun væri tekin um hvar háskólanám skyldi stundað. Ólafur G. Einarsson tók til máls á ný og vísaði þá til þess lokaskjals sem samþykkt var af Norðurlandaráði æskunnar í tengslum við þingið um að norrænir stúdentar ættu við umsókn um háskólavist að njóta sama réttar og innlendir stúdentar og kvað það skoðun sína að ráðherranefndin ætti að hafa þetta að leiðarljósi. Hann beindi og þeim tilmælum til dönsku ríkisstjórnarinnar að veita norrænum stúdentum til bráðabirgða sama rétt til náms í dönskum háskólum og stúdentum frá Evrópubandalagsríkjunum.
     Valgerður Sverrisdóttir alþingismaður spurði ríkisstjórnir Íslands og Noregs hvort það væri í samræmi við norræna sáttmálann um félagslegt öryggi að Íslendingur, sem flyttist frá Íslandi til Noregs, missti rétt til bóta frá tryggingastofnun fyrstu þrjú árin eftir búferlaflutninginn.
     Tove Strand Gerhardsen félagsmálaráðherra Noregs kvað rétt til ákveðinna bóta, t.d. mæðralauna, ekki verða til fyrr en eftir þriggja ára búsetu þar í landi. Þetta gilti jafnt um Norðmenn sem aðra og væri því ekki í ósamræmi við sáttmálann. Hins vegar væri ráðherrann sammála Valgerði um að ástæða væri til að endurskoða þessar reglur.

5.3. Málafjöldi og afgreiðsla.
    Að loknum almennum umræðum fóru fram umræður um málefni fastanefndanna og afgreiðsla tillagna.
    Fyrir þingið voru lagðar 39 þingmannatillögur og 10 ráðherranefndartillögur. Þingið samþykkti allar ráðherranefndartillögurnar og 29 þingmannatillögur.
    Skrifstofa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sendi 37 þingmannatillagnanna til umsagnar íslenskra aðila. Fjöldi þeirra umsagnaraðila, sem fékk hverja tillögu, var á bilinu 1 til 8, en í allt voru umsagnarbeiðnirnar 130 og svörin 60. Svörin voru öll þýdd á skrifstofu deildarinnar og send viðkomandi nefndum.