Ferill 344. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 344 . mál.


Nd.

1035. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 86/1988, sbr. l. nr. 109/1988.

Frá 3. minni hl. félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið á nokkrum fundum en frumvarpið var til 1. umr. í neðri deild 17. mars sl.
    Um fá mál hafa komið fram jafnmiklar og víðtækar efasemdir og athugasemdir og um þetta frumvarp. Sérkennilegt er einnig að svör um hvaða áhrif „húsbréf“ samkvæmt frumvarpinu kynnu að hafa t.d. á peningamarkað, húsnæðismarkað, þenslu, greiðslubyrði o.s.frv. fást ekki nema í því formi að ekki sé hægt að meta þessi áhrif.
    Ekki fást heldur upplýsingar um núverandi húsnæðiskerfi, hvernig hin svokallaða „biðröð“ er samsett. Húsnæðisstjórn er gerð óvirk sem heild um svör og rök í málinu og lætur frá sér fara stutt svar: „Getum ekki komið okkur saman um greinargerð eða álit um málið.“ Hins vegar senda fimm stjórnarmenn frá sér ítarlega greinargerð og mæla gegn húsbréfafrumvarpinu. Þeir fullyrða að núverandi kerfi sé smátt og smátt að ná jafnvægi.
    Þessum fulltrúum, kosnum af Alþingi í stjórn stofnunarinnar, svarar ráðherra í fjölmiðlum með skætingi, þeir séu einstaklingar úti í bæ sem þekki ekki málið, séu með annarleg sjónarmið.
    Þetta mál er knúið fram með sérstæðum hætti. Ráðherra hótar afsögn ef hann fái ekki að leggja málið fram á Alþingi, þrátt fyrir minni hluta stjórnarsinna í neðri deild, og leggur málið fram sem stjórnarfrumvarp og hótar enn afsögn ef þingið samþykki það ekki.
    Allur þessi þrýstingur er algjört virðingarleysi við Alþingi og andstætt þingvenju og lýðræði. Samkomulag þvingað fram, eins og raun ber vitni, er málinu til tjóns og Alþingi til vanvirðu þar sem augljóst er að breyta verður væntanlegum lögum áður en þau taka gildi vegna formgalla og neikvæðra áhrifa á efnahagskerfið í heild.
    Það er hægt að vitna til umsagna og samþykkta ASÍ og ýmissa fleiri aðila vinnumarkaðarins, álits fimm stjórnarmanna í Húsnæðisstofnun og álits Fasteignamats ríkisins, en þar segir m.a.:
    „Með tilkomu húsbréfa munu reglur Byggingarsjóðs um skilyrði fyrir ábyrgðum og lánafyrirgreiðslum víkka verulega frá því sem nú er. Skilyrði umsækjenda munu eingöngu miðast við veðhæfni viðkomandi íbúðar og greiðslugetu. Þá verða engin ytri mörk á heildarmagni ábyrgða á skuldabréfum og þar með því fjármagni sem trygging er gefin fyrir.
    Þessi rýmkun á reglum mun verka gagnvart fasteignamarkaði sem veruleg aukning á lánsfé. Reynslunni samkvæmt mun þetta valda verðhækkunum á eldri íbúðum og aukinni eftirspurn eftir nýbyggingum og þar með verðhækkun á þeim. Þá mun hækkun á heimildum á ábyrgðum skuldabréfa einkum auka lánshæfni stærri og dýrari íbúða og því að öllum líkindum leiða til aukninnar eftirspurnar og verðhækkunar á þeim.“
    Þjóðhagsstofnun segir m.a. að árleg greiðslubyrði af fasteignaveðláni (sem skipt er fyrir húsbréf) sé mun hærri en af núverandi húsnæðislánum.
    Þá bendir Þjóðhagsstofnun á að upplýsingar um ýmsar hliðar fjármagnsmarkaðar, og þá ekki síst hvað eignir heimilanna varðar, eru mjög takmarkaðar og telur því ákaflega erfitt að meta í tölum áhrif af húsbréfakerfi á ýmsa mikilvæga þætti fjármagnsmarkaðar.
    Frumvarpinu fylgir engin greinargerð um áhrif húsbréfanna á fjármagnsmarkaðinn og upplýst var í nefndinni að Seðlabankinn hefur við ndirbúning málsins aldrei verið beðinn um neina greinargerð um áhrif húsbréfakerfis á peningamagn og peningastjórn.
    Hins vegar hefur komið fram í viðtölum við Pétur Blöndal að með þessu kerfi muni húsnæðiskostnaður aukast um 35–40% og þar með greiðslubyrði.
    Jóhann Rúnar Björgvinsson hagfræðingur segir svo um efnahagsleg áhrif húsbréfa:
    „1. Húsbréfin hafa flesta eiginleika peninga. Þau eru ríkistryggð, hafa mikla innbyrðis samsvörun, hafa þekkt verðgildi og ljúka viðskiptum. Þau hafa því alla burði til þess að verða peningar í hagkerfinu. Útgáfa þeirra getur því magnað verðbólguna ef ekki er rétt að málum staðið. Þá geta þau fengið víðtækara gjaldmiðilshlutverk en á fasteignamarkaðnum.
    2. Sparnaðarhneigðin í þjóðfélaginu setur húsbréfakerfinu skorður því ekki er hægt að gefa út fleiri húsbréf en sparnaðareftirspurn bréfanna gefur tilefni til, nema það hafi áhrif á raunvirði þeirra til lækkunar. Áhrifin eru að færri lán verða afgreidd en áður, ef gert er ráð fyrir hærra lánsfjárhlutfalli til fasteignakaupenda en í fyrra kerfi.
    3. Ef um offramboð húsbréfa verður að ræða hefur það víðtæk áhrif á vaxtastigið í þjóðfélaginu. Sömuleiðis hefur það mjög verðbólguhvetjandi áhrif, bæði almennt og á fasteignamarkaðinn.
    4. Tilkoma húsbréfakerfisins mun skerða verulega getu Seðlabankans til að sinna því hlutverki í hagkerfinu sem honum er ætlað, þ.e. að stjórna peningamagni hagkerfisins og að vinna að stöðugu verðgildi krónunnar.
    5. Fullyrðingar um að húsbréfakerfið muni bæði auka innri fjármögnun á fasteignamarkaðnum og lækka útborgunarhlutfallið eru á misskilningi byggðar.“
    Enn er allt á huldu um áhrif vaxtabótaþáttar sem er í raun óaðskiljanlegur hluti þessa máls því að fullir markaðsvextir húsnæðislána er það sem húsbréfakerfið byggist á samkvæmt frumvarpinu. Gagnvart stórum hópum fólks fær slíkt form ekki staðist án þess að ljóst sé hvaða vaxtabætur komi á móti og hvernig þær verka í skattakerfinu.
    Verðbréfafyrirtæki hafa blómstrað og hafa keyrt upp hættulega þróun í viðskiptum, sbr. ýmsan verslunarrekstur. Afleiðingarnar: Dæmið um Ávöxtun sem auglýsti í fjölmiðlum ágæti sitt, safnaði til sín fjármunum almennings með auglýsingum um hæstu ávöxtun, traustleika og heiðarleika. Niðurstaða: Hreinn þjófnaður og gjaldþrot, ekki aðeins fyrirtækja heldur fjölda einstaklinga og heimila í landinu sem trúðu þessum aðilum.
    Eru þetta ekki víti til varnaðar? Menn skyldu ætla að svo verði. Ný lög voru sett og allir sammála. En undirritaður verður að lýsa furðu sinni á því að nú skuli sumir forustumenn stjórnmálaflokka, sem telja sig verndara launþega, samþykkja að fela verðbréfafyrirtækjum og fasteignasölum að sjá um framkvæmd viðkvæmustu þátta húsnæðismála og vilja samþykkja tafarlaust markaðsvexti á útlán, húsbréf sem eiga að lúta markaðsgengi á hverjum tíma, þurrka út forgang ýmissa hópa til að fá sérstaka lánafyrirgreiðslu, sérstöðu unga fólksins, fólks með sérþarfir o.s.frv. Með slíkum breytingum gildir aðeins kaupsamningur og mat á því hvort handhafi kaupsamnings getur staðið í skilum. Þeir, sem nú hafa ekki möguleika til lána úr Byggingarsjóði ríkisins vegna stóreigna, fá frjálsan aðgang gegnum markaðinn, bréf með ríkisábyrgð. Úti um land á að gilda markaðsgengi sem ræður upphæð lána, ekki verður lengur viðmiðun við brunabótamat.
    Undirritaður óttast afleiðingar þess að þurrka félagslegt gildi húsnæðismála út með slíkum aðgerðum sem þýða hækkun húsnæðis- og fjármagnskostnaðar um 35–40% og því miður verður staðreynd. Ekki notum við sama fjármagn nema einu sinni í slíkum viðskiptum. Verðbréf krefjast peninga og affalla þrátt fyrir ríkisbyrgð.
    Flokksþing og miðstjórn Framsóknarflokksins samþykkti að þegar núverandi kerfi yrði endurskoðað yrði það gert m.a. í samráði og samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Slík heildarendurskoðun þarf að taka til allra þátta húsnæðismála og sjálfsagt er að nýta reynslu annarra þjóða.
    Við þurfum að gera okkur grein fyrir hvert við stefnum í þessum málum, hver er framtíðarþörf fyrir aukið húsnæði. Offjárfesting, án slíkrar heildarendurskoðunar, getur verkað neikvætt.
    Skynsamlegast hefði verið að skoða þessi mál vel og vandlega, í rólegheitum, með farsæla framtíðarlausn á húsnæðiskerfi þjóðarinnar að leiðarljósi.
    Fullyrðingar félagsmálaráðherra um að frestun á þessu frumvarpi, með alla enda lausa, muni kosta þjóðfélagið 5 milljarða króna eru fáránlega vitlausar og ráðherra til vanvirðu. Ráðherra hefði verið nær að leita samkomulags á breiðum grundvelli til að skoða fleiri valkosti til að ná fram meiri hagkvæmni í húsnæðismálum þjóðarinnar til framtíðar í samráði við aðila vinnumarkaðarins, banka og lífeyrissjóði.
    Að framansögðu er ljóst að 3. minni hl. telur að samþykkt þessa frumvarps sé hættuleg fyrir húsnæðiskerfið í heild og muni valda þenslu og verðbólgu og jafnframt auka ójöfnuð fyrir fólkið í landinu. Undirritaður mun því styðja tillögu um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar. Nái hún ekki fram að ganga greiðir hann atkvæði gegn frumvarpinu.

Alþingi, 3. maí 1989.


Alexander Stefánsson.