Ferill 68. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 68 . mál.


Sþ.

1148. Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Ágústssonar um raunvaxtamun í bankakerfinu.

1.      Hvernig hefur raunvaxtamunur heildarinnlána og heildarútlána bankakerfisins þróast frá árinu 1960? Átt er við heildartekjur bankakerfisins af vöxtum, hverju nafni sem þeir nefnast, í samanburði við heildargjöld vegna allra innlána bankakerfisins umrætt tímabil. Raunvextir eru hér skilgreindir sem nafnvextir umfram hækkun lánskjaravísitölu milli janúargilda.
    Á fylgiskjali I er sýnt hvernig nafnvaxta- og raunvaxtamunur inn- og útlána (að erlendum endurlánum undanskildum) í viðskiptabönkum og sparisjóðum hefur þróast frá árinu 1972. Fylgiskjal I er byggt á upplýsingum úr rekstrarreikningum bankakerfisins og er ekki með góðu móti unnt að fara lengra aftur en til ársins 1972 vegna breytinga á reikningsskilavenjum. Nafnvextir innlána eru fundnir sem hlutfallið milli heildarvaxtagjalda og meðalstöðu heildarinnlána á hverjum mánaðamótum og er farið eins að með nafnvexti útlána. Nafnvaxtamunur inn- og útlána er beinn mismunur nafnvaxta útlána annars vegar og innlána hins vegar sem hafa verið fundnir með þessum hætti. Raunvextir inn- og útlána eru tilsvarandi nafnvextir leiðréttir með tilliti til breytinga á lánskjaravísitölu.
    Raunvaxtamunur inn- og útlána í viðskiptabönkum og sparisjóðum virðist hafa verið á bilinu 3–4 1 / 2 % á árunum 1972–1979. Hann lækkaði í 2–2 1 / 2 % á árunum 1980–1981 en hækkaði eftir það og var á bilinu 4 1 / 2 –6 1 / 2 % á árunum 1982–1988. Raunvaxtamunurinn virðist því ótvírætt hærri í lok tímabilsins en við upphaf þess.
    Hækkunin hefur þó ekki verið jöfn. Raunvaxtamunurinn var tiltölulega stöðugur á árunum 1972–1979 en hefur verið mun óstöðugri síðan og heldur farið hækkandi.


2.      Hver er raunvaxtamunur á sama tímabili í bankakerfi annarra Norðurlandaþjóða? Hafa orðið breytingar til hækkunar eða lækkunar í samræmi við það sem átt hefur sér stað hér á landi?
    Ekki eru tiltækar upplýsingar um raunvaxtamun á Norðurlöndunum fyrir tímabilið 1972–1988 og er raunar verulegum erfiðleikum bundið að bera saman raunvaxtamun milli landa. Á vegum OECD hefur verið lögð nokkur vinna í að setja fram á sambærilegan hátt reikninga bankakerfa ýmissa ríkja, þar á meðal Norðurlanda. Úr þeim gögnum má fá vísbendingu um hver vaxtamunur hefur verið á Norðurlöndum á undanförnum árum. Þessi gögn hafa verið dregin saman í fylgiskjali II sem sýnir heildarvaxtamun viðskiptabanka og sparisjóða á Norðurlöndum á árunum 1982–1986 og til samanburðar á Íslandi á árunum 1984–1986. Þetta vaxtamunarhugtak er frábrugðið því sem notað er í svari við 1. spurningu. Hér er um að ræða mismun heildarvaxtatekna og heildarvaxtagjalda sem hlutfall af meðaltali heildareigna yfir árið. Fyrir Norðurlönd sýnir þessi heildarvaxtamunur nafnvaxtamun en ígildi raunvaxtamunar fyrir Ísland þar sem verðbreytingafærslu hefur verið beitt við reikningsskil fyrir íslensku innlánsstofnanirnar en ekki fyrir þær norrænu. Þetta kemur þó ekki mjög að sök þar sem munurinn á nafnvaxtamun og raunvaxtamun fer eftir verðbólgu og er þeim mun meiri sem verðbólgan er örari.
    Af tölunum í fylgiskjali II er ekki hægt að draga einhlítar ályktanir um það hvernig vaxtamunur hefur þróast á Norðurlöndum litið yfir nokkurt árabil. Hann virðist þó hafa verið tiltölulega stöðugur, að minnsta kosti í samanburði við vaxtamun í íslenska bankakerfinu. Heildarvaxtamunur í viðskiptabönkum og sparisjóðum á Norðurlöndum virðist að jafnaði hafa verið á bilinu 1 1 / 2 –4 1 / 2 % á árunum 1982–1986. Þetta er mun minni vaxtamunur en var í íslenska bankakerfinu á árunum 1984–1988 en þar var hann 4 1 / 2 –7 1 / 2 % og mun hærri í sparisjóðunum en í viðskiptabönkunum.


3.      Komi í ljós að raunvaxtamunur hafi hækkað undanfarin ár, og enn fremur að sama þróun hafi ekki orðið annars staðar á Norðurlöndum, hverjar eru þá skýringarnar að mati ráðherra?
4.      Er hugsanlegt að vísitölubinding inn- og útlána hafi stuðlað að aukningu raunvaxtamunar?
    Fyrri spurningunni hér er ekki hægt að svara þar sem ekki liggur fyrir samanburður á þróun raunvaxtamunar hér á landi og á Norðurlöndum. Hins vegar er hægt að velta vöngum yfir ástæðunum fyrir því að raunvaxtamunur hér á landi hafi aukist á undanförnum árum.
    Í fljótu bragði virðist ólíklegt að verðtrygging inn- og útlána hafi í
sjálfri sér stuðlað að auknum raunvaxtamun. Tilkoma verðtryggingarinnar virðist raunar fyrst í stað hafa stuðlað að minnkun raunvaxtamunar eins og kemur fram í fylgiskjali I. Verðtryggingin gæti hins vegar óbeint hafa átt þátt í því að óstöðugleiki raunvaxtamunar í bankakerfinu hafi aukist. Þetta má rekja til skiptikjaranna sem sparifjáreigendur hafa getað notfært sér frá því verðtryggingin var tekin upp, fyrst með óformlegum hætti en síðan formlega með tilkomu skiptikjarareikninganna. Skiptikjarareikningar skapa ákveðna áhættu í bankarekstri þar sem það getur verið hendingu háð hvort verðtryggðar eignir og skuldir og óverðtryggðar eignir og skuldir standist á.
    Þótt verðtryggingin hafi að öllum líkindum átt lítinn þátt í auknum raunvaxtamun í íslenska bankakerfinu síðustu ár er hugsanlegt að aukið frelsi innlánsstofnana til að ákveða vexti í lánsviðskiptum sínum hafi stuðlað að auknum raunvaxtamun. Á íslenska fjármagnsmarkaðnum er mikil samkeppni á innlánahlið en lítil á útlánahlið og þar er einnig því sem næst ótakmörkuð eftirspurn eftir lánsfé. Þessar aðstæður gætu hafa leitt til aukningar á raunvaxtamun í bankakerfinu við aukið frjálsræði bankastofnana til að ákveða vaxtakjör í lánsviðskiptum sínum.
    Þá má nefna að í ársbyrjun 1986 tóku gildi lög um viðskiptabanka og sparisjóði sem m.a. kveða á um lágmark eigin fjár þessara stofnana. Af eðlilegum ástæðum kappkosta þær að virða þessi ákvæði laganna og kann það að hafa átt einhvern þátt í auknum vaxtamun.



Fylgiskjal I.

    REPRÓ



Fylgiskjal II.

    REPRÓ