Ferill 312. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 312 . mál.


Nd.

1165. Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið á mörgum fundum. Til viðræðu um málið komu eftirtaldir á fund nefndarinnar: Halldór Kristjánsson frá iðnaðarráðuneyti, Ingimar Sigurðsson frá heilbrigðismálaráðuneyti, Ólafur Davíðsson frá Félagi ísl. iðnrekenda, Ólafur Pétursson frá Hollustuvernd ríkisins, Pálmi Gíslason frá UMFÍ, Tryggvi Felixson frá samtökum skáta, Þórður Þorbjarnarson frá sorpeyðingu höfuðborgarsvæðis og Þóroddur Þóroddsson og Davíð Egilsson frá Náttúruverndarráði.
    Fram kom hjá fyrrgreindum aðilum stuðningur við markmið frumvarpsins. Flestir töldu rétt að frumvarpið yrði sem fyrst að lögum þótt þeir hefðu kosið að sjá gerðar á því nokkrar breytingar.
    Fulltrúi iðnaðarráðuneytis gerði nefndinni grein fyrir undirbúningi að stofnun hlutafélags skv. 2. gr., en fyrirhugað er að það verði stofnað fyrir lok þessa mánaðar. Ráðgert er að móttaka á umbúðum til endurvinnslu geti hafist í júnímánuði nk.
    Nefndin telur að til greina hefði komið að ákvæði frumvarpsins væru víðtækari og tækju til fleiri tegunda umbúða, m.a. pappaumbúða um drykkjarvörur. Einnig telur nefndin að athugandi hefði verið að taka inn í frumvarpið ákvæði um umhverfisgjald til að örva skil á einnota umbúðum til endurvinnslu eða förgunar líkt og tillögur voru gerðar um af endurvinnslunefnd iðnaðarráðuneytis. Nefndin hvetur til þess að á næstunni verði unnið að því að koma svo sem frekast er unnt í veg fyrir mengun af völdum einnota umbúða.
    Nefndin telur að með lögfestingu þessa frumvarps og framkvæmd á ákvæðum þess náist markverður áfangi til að draga úr umhverfismengun. Vegna aðstæðna flytur nefndin ekki breytingartillögur við frumvarpið og mælir með því að það verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 10. maí 1989.



Hjörleifur Guttormsson,

Kristín Einarsdóttir,

Friðrik Sophusson.


form., frsm.

fundaskr.



Páll Pétursson.

Kjartan Jóhannsson.

Benedikt Bogason.



Finnur Ingólfsson.