Ferill 495. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 495 . mál.


Sþ.

1167. Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um endurskoðun á rafmagnssamningi Landsvirkjunar og Ísals.

    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
     Hefur Landsvirkjun tilkynnt Ísal að hún ætli að láta reyna á endurskoðun skilmála í rafmagnssamningi þessara aðila, sbr. 28. gr. e ftir breytingar 5. nóvember 1984?

    Samkvæmt 28. gr. rafmagnssamnings Landsvirkjunar og Ísals, sbr. þriðja viðauka við þann samning, dags. 5. nóvember 1984, skal hvort heldur Landsvirkjun eða Ísal heimilt að tilkynna hinum aðilanum með skriflegri tilkynningu sem sé gefin eigi minna en sex mánuðum fyrir fimmta, tíunda eða fimmtánda árdag þess dags er þriðji viðauki rafmagnssamningsins tekur gildi að orðið hafi teljandi ófyrirsjáanleg breyting til hins verra á aðstæðum, að frátöldum og breytingum á valdi Landsvirkjunar eða Ísals, er hafi haft í för með sér alvarleg áhrif á efnahagsstöðu Landsvirkjunar eða Ísals, hvort sem í hlut á, þannig að hún raski bæði jafnvæginu í samningi þessum og valdi óeðlilegu harðrétti fyrir þann aðila sem í hlut á. Jafnskjótt og slík skrifleg tilkynning er komin fram skulu Landsvirkjun (í samráði við ríkisstjórnina) og Ísal (eða Alusuisse fyrir þess hönd) eiga með sér samningaviðræður í góðri trú og reyna að ná samkomulagi um breytingu á samningi þessum er leysi aðilann, sem í hlut á, undan afleiðingum umræddrar breytingar á aðstæðum eins og lýst er í málsgrein 28.01 í rafmagnssamningum. Ef aðilunum tekst ekki að ná samkomulagi um tilvist eða áhrif þess konar breytingar á aðstæðum er hvorum þeirra um sig heimilt að vísa þeirri deilu, hvort sú breyting hafi orðið, til gerðardóms skv. 47. gr. aðalsamnings ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Limited, dags. 28. mars 1966. Ef gerðardómurinn úrskurðar að slík breyting hafi orðið á aðstæðum skulu aðilarnir reyna í góðri trú að ná samkomulagi um breytingu á samningi þessum í ljósi niðurstaðna gerðardómsins. Ef þeim tekst ekki að semja um slíka breytingu á samningnum er hvorum þeirra um sig heimilt að vísa málefninu til gerðardóms skv. 47. gr. í aðalsamningnum.
    Í samræmi við framangreint getur Landsvirkjun óskað eftir endurskoðun rafmagnssamningsins við Ísal í fyrsta sinn með tilkynningu sem sé gefin sex mánuðum fyrir þann dag þegar fimm ár eru liðin frá því að þriðji viðaukinn við rafmagnssamninginn tók gildi, en gildistökudagur hans var 30. nóvember 1984. Slíka tilkynningu þarf því að gefa út fyrir 30. maí 1989.
    Landsvirkjun hefur undanfarið haft til athugunar hvort þau skilyrði séu fyrir hendi sem 28. gr. rafmagnssamnings Landsvirkjunar og Ísals setur fyrir rétti Landsvirkjunar til að krefjast endurskoðunar rafmagnssamnings Landsvirkjunar og Ísals. Réttarstaða Landsvirkjunar hefur nú verið könnuð að þessu leyti til hlítar og hafði fyrirtækið meðal annars samráð við sérfræðinga varðandi mat á stöðunni og viðeigandi aðgerðir. Niðurstöður þessarar könnunar liggja nú fyrir og hefur Landsvirkjun nú ákveðið að óska endurskoðunar á grundvelli 28. gr. samningsins.