Greiðsla kostnaðar á fundaferðum ráðherra
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það að setja þarf reglur og reyndar eru til reglur um ferðalög ráðherra og ferðalög ríkisstarfsmanna. Hins vegar kann oft að vera mjög erfitt að draga mörkin, hvar er um almennan upplýsingafund að ræða og hvar kemur pólitíkin og skoðun viðkomandi flokks inn. Það fer m.a. eftir því hvernig spurt er á slíkum fundum. Þarna standa menn upp og koma með ýmsar athugasemdir sem ráðherra á erfitt með að skorast undan að svara. Ég lít svo á t.d. að upplýsingafundir um EFTA-EB séu mjög nauðsynlegir. Mér hefur hins vegar heyrst og hef séð í sjónvarpi að þar hafi eitthvað annað borið á góma. Það er erfitt að koma í veg fyrir slíkt.
    Ég hef sótt einn fund um atvinnumál. Ég get hins vegar upplýst að ég man ekki til þess að minnst væri á pólitík á þeim fundi og ekki spurt um viðhorf nokkurs einasta aðila, hvorki stjórnarandstöðu eða stjórnarsinna. Það hefur líklega ekki verið eins skemmtilegur fundur eins og sumir fundir sem utanrrh. heldur og lætur ýmislegt fjúka. Ég er ekkert að áfellast hann fyrir það út af fyrir sig. En það er erfitt að draga mörkin. Það vildi ég láta koma hér fram.
    Hins vegar væri mjög fróðlegt að skoða miklu betur það sem kom fram hér áðan um utanlandsferðir hjá hv. þm. Geir Haarde og reyndar hef ég látið draga saman upplýsingar um það sem ég vil mjög gjarnan að verði athugaðar. Um þetta gilda hinar ólíkustu reglur erlendis. Það er rétt að hér hefur verið greiddur kostnaður af ferðum ráðherra á fundi ýmissa pólitískra samtaka, jafnvel hálfpólitískra eins og Bilderberg-klúbbsins og fleira. Þetta hef ég látið skoða í gegnum árin. En víða erlendis eru stórar fjárfúlgur veittar af þingum til alþjóðlegra samskipta stjórnmálaflokka og það vantar hér. Ég tek undir það, ekki síst nú þegar við erum að auka okkar samskipti í Evrópu, að vitanlega á að gera hinum almenna þingmanni, þingflokkum, bæði stjórnarsinnum og stjórnarandstöðu, kleift að taka þátt í þeirri umræðu em þar er. Ég tel það afar mikilvægt í því lýðræðisskipulagi sem við höfum. Þetta vantar og ég hef látið draga saman upplýsingar um þetta og get væntanlega lagt fram tillögu um hvernig þessu megi hátta.