Ferill 114. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 114 . mál.


Nd.

118. Frumvarp til laga



um lyfjafræðslunefnd.

Flm.: Árni Johnsen, Friðrik Sophusson.



1. gr.

    Markmið laga þessara er að skipuleggja og vinna að lyfjafræðslu til þess að draga úr því heilsutjóni sem misnotkun og ofnotkun lyfja veldur.

2. gr.

    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipar þriggja manna nefnd, lyfjafræðslunefnd, til fjögurra ára í senn. Í nefndinni eiga sæti menn með þekkingu á vandamálum sem stafa af ofnotkun lyfja. Ráðherra skipar einn nefndarmann formann. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Hlutverk lyfjafræðslunefndar er:
1.    Að gera tillögur til stjórnvalda um ráðstafanir til þess að sporna við ofnotkun og misnotkun lyfja.
2.    Að vinna í nánu samstarfi við landlæknisembættið og Lyfjaeftirlit ríkisins.
3.    Að veita alhliða leiðbeiningar varðandi lyf, m.a. með útgáfu fræðslurita og annarra fræðslugagna.
4.    Að dreifa upplýsingum um skaðsemi misnotkunar og ofnotkunar lyfja.
5.    Að gera tillögur til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um ráðstöfun fjár skv. 3. gr.

3. gr.


    Greiða skal 1% gjald af cif-verði innfluttra lyfja og 0,8% gjald af heildsöluverði ákveðins stofns innlendrar lyfjaframleiðslu samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.

4. gr.

    Ráðherra setur í reglugerð, að fengnum tillögum lyfjafræðslunefndar, nánari ákvæði um framkvæmd lyfjafræðslunnar.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.


    Lyfjaneysla Íslendinga hefur verið til umræðu síðustu missiri ekki síst vegna þess að fram hefur komið að Íslendingar neyti töluvert meira af sýklalyfjum heldur en nágrannaþjóðirnar. Nægir í þessu tilviki að benda á skýrslu norrænu lyfjanefndarinnar um notkun sýklalyfja á Norðurlöndum á árunum 1975–1983 en þar kemur eftirfarandi m.a. fram:


LÍNURIT Í GUTENBERG




    Hins vegar hefur dregið verulega úr notkun róandi lyfja á undanförnum árum og er neyslan hér svipuð því sem gerist í nágrannalöndunum.
    Skýringa á óhóflegri neyslu sýklalyfja hlýtur að vera að leita í þekkingarleysi jafnt leikra sem lærðra því að ekki verður því trúað að lyfjum sé af ásettu ráði ávísað öðruvísi hér á landi en í nágrannalöndunum. Er því fyllilega tímabært að reynt verði með fyrirbyggjandi aðgerðum að stemma stigu við þessari neyslu sem hlýtur að flokkast undir ofneyslu. Rétt er og að benda á að kostnaður samfélagsins vegna þessarar neyslu er gífurlegur og að hér ætti að vera hægt að spara verulegar fjárhæðir sé fyrirbyggjandi starfi í formi fræðslu og upplýsinga komið á fót. Mjög lítið hefur farið fyrir slíku starfi til þessa og engu sérstöku fé hefur verið varið til lyfjafræðslu. Frumvarp þetta byggist á þeirri hugmynd að hægt sé að minnka verulega skaðleg áhrif lyfjaneyslu með fyrirbyggjandi aðgerðum séu þær markvissar og skipulegar. Til þess að ná því markmiði er nauðsynlegt að fela fræðslu- og upplýsingastarfið tilteknum aðila, lyfjafræðslunefnd, sem hafi til starfans ákveðnar fjárupphæðir sem séu það háar að fræðslan verði nógu öflug til að koma að gagni.
    Samrýmist þetta þeim hugmyndum, sem fram koma í íslenskri heilbrigðisáætlun sem lögð var fram á síðasta þingi, að leggja beri áherslu fyrst og fremst á fyrirbyggjandi starf í heilbrigðisþjónustunni.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Markmiðið er að draga úr misnotkun og ofnotkun lyfja og þar með því heilsutjóni sem af slíkri neyslu hlýst. Hér getur verið um að ræða bein áhrif á heilsu manna og ávanaáhrif sem geta verið hin sömu og hljótast af neyslu áfengis og annarra vímugjafa.

Um 2. gr.


    Lagt er til að skipuð verði sérstök lyfjafræðslunefnd sem hafi það hlutverk að beita sér fyrir lyfjafræðslu til þess að sporna við misnotkun og ofnotkun lyfja. Um yrði að ræða fræðslu sem beint yrði jafnt til leikra sem lærðra og yrði hún unnin í samráði við landlækni og Lyfjaeftirlit.

Um 3. gr.


    Lagt er til að varið verði sem nemur 1% af cif-verði innfluttra lyfja og 0,8% af heildsöluverði ákveðins stofns innlendrar lyfjaframleiðslu til fræðslustarfsins. Cif-verð lyfja á árunum 1984-1987 var sem hér segir:

    1984     345 millj. kr.
    1985     460 millj. kr.
    1986     627 millj. kr.
    1987     805 millj. kr.

    Reikna má með að þáttur innlendu lyfjaframleiðslunnar sé um 10% af cif-verði innfluttu lyfjanna. Miðað við árið 1987 hefðu 8–9 milljónir króna verið til ráðstöfunar fyrir lyfjafræðslunefnd.

Um 4. gr.


    Þegar reynsla kemst á lyfjafræðslustarfið kann að reynast nauðsynlegt að setja frekari og fyllri ákvæði um starfsemi lyfjafræðslunefndar og er gert ráð fyrir því að hægt sé að setja þau með reglugerð.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.