Ferill 216. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 216 . mál.


Ed.

258. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 50/1984, um Lífeyrissjóð bænda, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verði á 19. gr. laganna:
a.    Í stað „1989“ í 1. málsl. 1 mgr., sbr. 2. gr. laga nr. 20/1985, komi: 1991.
b.    Í stað „1990“ í 2. málsl. 1. mgr., sbr. 2. gr. laga nr. 20/1985, komi: 1992.

2. gr.


    Í stað „1989“ í 24. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 20/1985, komi: 1991.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verði á ákvæði til bráðabirgða:
a.    Í stað „1989“ í 2. málsl. 1. mgr., sbr. 4. gr. laga nr. 20/1985, komi: 1991.
b.    Í stað „1989“ í 2. mgr., sbr. 4. gr. laga nr. 20/1985, komi: 1991.
c.    Í stað „97/1979“ í 2. mgr. komi: 2/1985.

4. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt í tengslum við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 2/1985, um eftirlaun til aldraðra, sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi. Þau lög gilda til ársloka 1989, en í samræmi við fyrirheit ríkisstjórnarinnar við gerð almennra kjarasamninga á liðnu vori er nú gert ráð fyrir framlengingu þeirra um tveggja ára skeið. Á þeim tíma verði þau tekin til endurskoðunar í tengslum við heildarendurskoðun málefna lífeyrissjóðanna.
    Í meðfylgjandi frumvarpi er lagt til að tímabundin ákvæði laganna um Lífeyrissjóð bænda um fjármögnun útgjalda skv. II. kafla laganna og verðbætur á lífeyri verði framlengd til ársloka 1991, en samkvæmt núgildandi lögum rennur gildistími þessara ákvæða út í árslok 1989.
    Þegar samið var um stofnun hinna svonefndu almennu lífeyrissjóða árið 1969 gaf þáverandi ríkisstjórn fyrirheit um sérstök réttindi aldraðra félaga í stéttarfélögum, þ.e. manna sem fæddir voru árið 1914 eða fyrr, og skulu útgjöld borin af Atvinnuleysistryggingasjóði og ríkissjóði. Voru ráðstafanir þessar lögfestar árið 1970. Sama ár voru sett lög um Lífeyrissjóð bænda, en í II. kafla þeirra laga voru ákvæði um réttindi aldraðra bænda, hliðstæð þeim réttindum sem öldruðum launþegum voru veitt með lögunum um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum. Skyldu útgjöld vegna þessara réttinda aldraðra bænda borin af Stofnlánadeild landbúnaðarins og ríkissjóði.
    Árið 1976 var verðtrygging lífeyrisgreiðslna samkvæmt lögunum um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögunum stóraukin og útgjöld vegna hinnar auknu verðtryggingar borin af lífeyrissjóðum á samningssviði Alþýðusambands Íslands. Var þá Lífeyrissjóður bænda látinn taka á sig útgjöld vegna hliðstæðrar verðtryggingar lífeyrisgreiðslna skv. II. kafla laga sjóðsins, en vegna aldursskiptingar bænda urðu þessi útgjöld sjóðnum afar þungur baggi. Með lögum nr. 97/1979, um eftirlaun til aldraðra, var þeirri skipan komið á að Lífeyrissjóður bænda skyldi eins og aðrir lífeyrissjóðir leggja ákveðinn hundraðshluta iðgjaldatekna sinna til þessa eftirlaunakerfis sem nú var ekki lengur takmarkað við félaga í stéttarfélögum, en á hinn bóginn skyldi útgjöldum til hinnar sérstöku uppbótar á lífeyri skv. II. kafla laga sjóðsins af honum létt og þau greidd með framlagi skv. 25. gr. laga nr. 97/1979 (nú lög nr. 2/1985).
    Samkvæmt reikningum Lífeyrissjóðs bænda fyrir árið 1988 námu eftirlaunagreiðslur skv. II. kafla það ár 141 millj. kr. og skiptust útgjöldin sem hér segir:

    Framlag ríkissjóðs .......................         59 millj. kr.
    Framlag Stofnlándeildar landbúnaðarins ...    35 millj. kr.
    Framlag skv. lögum nr. 2/1985 ............         47 millj. kr.

    Á næstu árum dregur mjög úr ellilífeyrisgreiðslum skv. II. kafla, en mun hægar dregur úr útgjöldum til makalífeyris.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í grein þessari er kveðið á um að Stofnlánadeild landbúnaðarins og ríkissjóður skuli leggja fram fé til eftirlaunagreiðslna skv. II. kafla, með óbreyttum hætti til ársloka 1991, sbr. almennar athugasemdir hér að framan.

Um 2. gr.


    Í grein þessari felst að skipting framlaga milli 19. gr. laga um Lífeyrissjóð bænda og 25. gr. laga um eftirlaun til aldraðra verður með sama hætti og undanfarin ár og sama gildir um þátttöku lífeyrissjóðsins í útgjöldum þegar lífeyrisþegi skv. II. kafla á jafnframt rétt skv. I. kafla.

Um 3. gr.


    Í fyrri málsgrein þessarar greinar er kveðið svo á að lífeyrisfjárhæðir skuli til ársloka 1991 breytast með sama hætti og undanfarin ár. Í síðari málsgreininni felst tveggja ára framlenging á núgildandi ákvæðum um framlög til hinnar sérstöku uppbótar á greiðslur skv. II. kafla, sbr. almennar athugasemdir hér að framan.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.