Ferill 259. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 259 . mál.


Sþ.

459. Beiðni um skýrslu



frá viðskiptaráðherra um fyrirhuguð kaup Landsbanka Íslands á hlutabréfum Sambands íslenskra samvinnufélaga í Samvinnubankanum hf.

Frá Þorsteini Pálssyni, Kristínu Einarsdóttur, Inga Birni Albertssyni,


Friðrik Sophussyni, Birgi Ísl. Gunnarssyni, Þórhildi Þorleifsdóttur,


Pálma Jónssyni, Ragnhildi Helgadóttur og Eyjólfi Konráð Jónssyni.



    Fjölmiðlar hafa að undanförnu birt á ný fregnir um fyrirhuguð kaup Landsbanka Íslands á hlutabréfum Sambands íslenskra samvinnufélaga í Samvinnubankanum hf. Með skírskotun til almannahagsmuna er málinu tengjast og þeirra umræðna, sem fram hafa farið, er þess óskað að viðskiptaráðherra birti Alþingi skýrslu um málið. Þess er óskað að í skýrslunni verði m.a. gerð grein fyrir eftirtöldum atriðum:
1.     Hvert er efni fyrirhugaðs kaupsamnings Landsbanka Íslands á hlutabréfum í Samvinnubankanum hf.? Hvert er kaupverðið og hver eru kjörin? Hvaða skuldbindingar mundi Landsbankinn taka á sig ef kaupin yrðu samþykkt?
2.     Í bréfi viðskiptaráðherra, dags. 19. september 1989, er frá því greint að viðskiptaráðuneytið hafi óskað eftir álitsgerðum bankaeftirlits Seðlabanka Íslands og Ríkisendurskoðunar í málinu. Þess er óskað að í skýrslunni verði gerð rækileg grein fyrir þessum álitsgerðum.
3.     Hvert var eigið fé Landsbanka Íslands og Samvinnubankans hf. 1. desember 1989? Hvert er hlutfall útlána og ábyrgða þessara tveggja banka af eigin fé vegna Sambands íslenskra samvinnufélaga?
4.     Eru líkur á að Landsbanki Íslands og Samvinnubankinn hf. þurfi að afskrifa lán vegna SÍS og fjárhagslega tengdra fyrirtækja?
5.     Forsætisráðherra segir í viðtali við Morgunblaðið 17. sept. sl. að hann skilji það þannig að skuld Sambandsins við Samvinnubankann (að upphæð 1.600 millj. kr.) verði „parkerað“ í Seðlabankanum í 15 ár. Af þessu tilefni er þess óskað að í skýrslunni verði gerð grein fyrir því hvort bankaeftirlit Seðlabankans hafi, að því er varðar viðskipti Sambands íslenskra samvinnufélaga við Landsbanka Íslands og Samvinnubankann hf., rækt skyldur sínar skv. 15. gr. l. nr. 36 frá 5. maí 1986, um Seðlabanka Íslands.
6.     Munu ríkissjóður eða Seðlabanki þurfa að greiða fyrir umræddum viðskiptum og þá með hvaða hætti?
    Þess er óskað að skýrslan verði tekin til umræðu á fundi sameinaðs þings svo fljótt sem verða má og a.m.k. áður en hugsanleg ákvörðun verður tekin skv. 50. gr. l. nr. 86 frá 4. júlí 1985, um viðskiptabanka.

Alþingi, 21. des. 1989.



Þorsteinn Pálsson.


Kristín Einarsdóttir.


Ingi Björn Albertsson.


Friðrik Sophusson.


Birgir Ísl. Gunnarsson.


Þórhildur Þorleifsdóttir.


Pálmi Jónsson.


Ragnhildur Helgadóttir.


Eyjólfur Konráð Jónsson.