Ferill 228. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 228 . mál.


Sþ.

506. Svar


viðskiptaráðherra við fyrirspurn Guðna Ágústssonar um yfirtekin lán Útvegsbankans.

    Spurt er:
1.     Hversu hárri fjárhæð nema þær skuldbindingar, þar á meðal lífeyrisskuldbindingar, sem ríkissjóður tók á sig við sölu Útvegsbankans?

    Svar:

                      
Millj. kr.

                     
Verðlag 17. maí 1987

    a. Neikvætt eigið fé á uppgjörsdegi 1. maí 1987     
384,0
    b. Viðbótarafskriftir vegna biðreiknings ......     298,9
    c. óinnheimtar kröfur áætlaðar ................    
– 100,0

                     
——-

     Samtals vegna útlána         
582,9

    d. Lífeyrisskuldbindingar Eftirlaunasjóðs
     starfsmanna Útvegsbanka Íslands, áætlaðar ..     
550,0

                     
——-

                     
Alls 1.132,9


    Hækkun lánskjaravísitölu frá maímánuði 1987 til ársloka 1989 er 63,8%. Þannig nema framangreindar skuldbindingar á verðlagi desembermánaðar sl. um 1.850,0 millj. kr.

    Spurt er:
2.      Hversu mikið af útistandandi útlánum Útvegsbankans fylgdu ekki með til kaupenda bankans? Hversu mikið af þessum útlánum skiptist eftir meðfylgjandi flokkun og hversu há er fjárhæðin í hverjum flokki fyrir sig:
    a.      sjávarútvegur,
    b.      verslun,
    c.      skipafélög,
    d.      iðnrekstur,
    e.      flugfélög,
    f.      þjónusta hvers konar önnur en að framan greinir?
          Þess er farið á leit að innan hvers flokks verði greint frá framreiknaðri upphæð skulda og áfallins kostnaðar þriggja stærstu skuldara, hvers um sig.

    Svar:
    Með lögum nr. 7/1987, um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands, segir í a-lið 1. gr.: „Að leggja Útvegsbanka Íslands, þ.e. eignir, skuldir og skuldbindingar bankans, til hins nýja hlutafélagsbanka, sbr. þó 2. mgr. 6. gr.“ Í lagagreininni segir enn fremur að stefna skuli að því að hlutafé hlutafélagsbankans verði allt að 1.000 milljónir króna. Þá segir m.a. í 4. gr. nefndra laga: „Viðskiptaráðherra skal skipa sérstaka matsnefnd til að meta eiginfjárstöðu Útvegsbanka Íslands miðað við þann dag sem hlutafélagsbanki skv. 1. gr. yfirtekur hann, sbr. 1. mgr. 12. gr.“
    Samkvæmt framansögðu gera lögin ráð fyrir að Útvegsbanki Íslands hf. yfirtaki öll útlán Útvegsbanka Íslands eftir að fram hafi farið mat á virði eigna og skulda, þar á meðal útlánum Útvegsbanka Íslands við stofnun hins nýja hlutafélagsbanka.
    Niðurstaða matsnefndar um eigið fé Útvegsbanka Íslands á yfirtökudegi er að það sé neikvætt um 384 millj. kr. Í þeim hluta skýrslu matsnefndar, er fjallar um afskriftir útlána bankans, segir m.a.:
    „Hinn 29. desember 1987 var gerður samningur milli ríkissjóðs og Útvegsbanka Íslands hf. um að færa skuldbindingar tiltekinna lánþega að frádregnum afskriftum útlána á sérstakan viðskiptareikning hjá Útvegsbanka Íslands hf. Samningur þessi var gerður strax og fyrir lá niðurstaða matsnefndar um afskriftaþörf vegna skulda þessara lánþega. Eru fjárhæðir, sem færðar eru á viðskiptareikninginn, í samræmi við niðurstöðu matsnefndar. Samtala skuldbindinga, sem hér um ræðir, nemur tæplega 976 millj. kr., að frádregnum afskriftum. Endanlegt uppgjör þeirra útlána, sem færð eru á hinn sérstaka viðskiptareikning, á síðan að fara fram í síðasta lagi í árslok 1988 samkvæmt nánari ákvæðum í samningum.
    Greinargerð matsnefndar um afskriftir útlána til einstakra lánþega kemur fram í sérstöku fylgiskjali. Þar sem gert er ráð fyrir að álit matsnefndar verði birt og með hliðsjón af ákvæðum laga um bankaleynd, sbr. 25. gr. laga nr. 86/1985, um viðskiptabanka, er greinargerð um sérstakar afskriftir útlána aðskilin frá meginefni álits matsnefndar.
    Sumir lánþegar, sem falla undir sérstakar afskriftir útlána, eru gjaldþrota. Flestir aðrir eru á barmi gjaldþrots eða svo illa á vegi staddir fjárhagslega að rekstrarstöðvun eða greiðsluþrot blasir við. Við ákvörðun afskrifta útlána varð nefndin því að meta virði trygginga sem bankinn hafði 30. apríl 1987. Afskriftaþörf er þannig mismunur á annars vegar skuldbindingum lánþegans og hins vegar virði trygginga, að teknu tilliti til áhvílandi veðkrafna á undan veðkröfum bankans.“
    Sú tilhögun að setja ákveðinn fjölda viðskiptavina Útvegsbanka Íslands á svokallaðan biðreikning byggðist á því að veruleg taphætta væri fyrir hendi og ef matsnefndin hefði átt að leggja endanlegt mat á útlán hefði orðið um verulegar afskriftir að ræða til viðbótar sem hefði komið fram í enn neikvæðari eiginfjárstöðu bankans á yfirtökudegi. Þar með hefði skuldabréf útgefið af ríkissjóði orðið hærra til að mæta enn neikvæðari eiginfjárstöðu bankans.
    Í upphaflegu samkomulagi var gert ráð fyrir að biðreikningnum yrði lokað um áramótin 1988–1989, en þá ákváðu báðir aðilar að þar sem ekki væri lokið endanlegu uppgjöri fjölda stórra mála, sem tilheyrðu biðreikningi, skyldi samkomulagið gilda út árið 1989. Niðurstaða á uppgjöri biðreikningsins í árslok 1989 sýnir tæplega 300 millj. kr. viðbótarafskrift og hafa því heildarafskriftir útlána orðið um 716 millj. kr. miðað við verðlag í aprílmánuði 1987 í stað 416 millj. kr. afskrifta við uppgjör á Útvegsbanka Íslands í aprílmánuði 1987. Er þá ekki tekið tillit til óinnheimtra krafna sem áætlaðar eru um 100 millj. kr.

    Spurt er:
3.      Hvert er álit skilanefndar Útvegsbankans á raunvirði þeirra útlána Útvegsbankans er ekki fylgdu með í sölu ríkisins á bankanum og féllu til ríkissjóðs?

    Svar:
    Þessu er til að svara. Eins og fram kemur hér að framan tók Útvegsbanki Íslands hf. yfir öll útlán Útvegsbanka Íslands frá 1. maí 1987 eftir að fram hafði farið mat á virði þeirra eins og lög nr. 7/1987 gerðu ráð fyrir, að teknu tilliti til samkomulags aðila um svonefndan biðreikning. Við lokauppgjör biðreiknings í árslok 1989 voru nokkur mál sem ekki var með öllu lokið innheimtu á, svo sem úthlutun úr þrotabúum, mál í innheimtu hjá lögfræðingum og sala fasteigna sem gengið höfðu til bankanna vegna nauðungarsölu. Andvirði framangreindra mála komu ríkissjóði til góða og áætlað er að 100 millj. kr. verði það lágmark sem kemur í ríkissjóð í þessu sambandi. Þá voru í nokkrum tilvikum yfirtekin útlán af ríkissjóði samkvæmt sérstöku samkomulagi. Áætla má að raunvirði þeirra útlána geti verið á bilinu 40–50 millj. kr.

    Spurt er:
4.      Hver er kostnaður orðinn við störf skilanefndar Útvegsbankans?

    Svar:
    Unnið er nú að lokauppgjöri og gert er ráð fyrir að því ljúki í lok þessa mánaðar. Alþingismenn munu fá í hendur sérstaka skýrslu um lokauppgjörið þar sem m.a. mun fram koma heildarkostnaður vegna starfa og uppgjörs í tengslum við Útvegsbanka Íslands.