Ferill 222. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 222 . mál.


Nd.

769. Nefndarálit



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 39/1988, um bifreiðagjald.

Frá 2. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, liggur nú loks fyrir í endanlegri mynd, þ.e. með breytingartillögum þeim sem meiri hl. nefndarinnar leggur fram. Er þá lokið langri og krókóttri leið bifreiðagjalds í þetta sinn. Annar minni hl. er í sjálfu sér ekki andvígur þeirri tekjuöflun að leggja gjald á bifreiðar en hefur þó margt við framkvæmd þessarar skattlagningar að athuga og ekki síst það hvernig þessum skattpeningum skal varið.
    Kvennalistakonur hefðu kosið að bifreiðagjald ákvarðaðist ekki einungis af þyngd bifreiða heldur einnig verðmæti. Með því móti væru tekjujöfnunaráhrif meiri en með því fyrirkomulagi sem nú er boðað. Einnig telja kvennalistakonur hæpið að leggja bifreiðagjald með fullum þunga á bifreiðar sem eru atvinnutæki þar sem skattlagning er ærin fyrir. En það sem vegur þó þyngst er að þrátt fyrir hækkun allra bifreiðaskatta er dregið úr framlögum til vegamála.
    Samkvæmt nýjum upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu eru áætlaðar heildartekjur af bifreiðasköttum 5.395 m.kr. árið 1990, sjá fskj. Á fjárlögum fyrir árið 1990 eru framlög til vegamála 4.575 m.kr. Í fjáraukalögum fyrir árið 1990 var sú upphæð lækkuð um 79 millj. kr. Framlög til vegamála eru nú 4.496 m.kr.

    Dæmið lítur þá svona út (í m.kr.):

    Áætlaðar heildartekjur af bifreiðasköttum
5.395

    Framlög til vegamála árið 1990
4.496

    Mismunur
899


    Þegar áætlaðar tekjur af bifreiðagjaldi eru um 100 m.kr. hærri en þessi mismunur þykir 2. minni hl. fráleitt að styðja þetta frumvarp um bifreiðagjald þar sem ekkert af innheimtunni mun renna til vegamála heldur
fara beint í ríkissjóð. Kvennalistakonur munu því greiða atkvæði gegn frumvarpinu.

Alþingi, 20. mars 1990.


Þórhildur Þorleifsdóttir.





Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneytið, tekju- og lagasvið:

Lækkun á sköttum af bifreiðum í tengslum við kjarasamninga.


(16. mars 1990.)



    Í frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, voru veittar upplýsingar um áætlaðar tekjur ríkissjóðs af bifreiðagjöldum, þ.e. bensíngjaldi, þungaskatti og bifreiðagjaldi á árinu 1990.
    Nú hefur verið ákveðið að leggja til að fallið verði frá hækkun á umræddum gjöldum að hluta vegna nýgerðra kjarasamninga. Miðað við það er reiknað með að tekjur ríkissjóðs á árinu 1990 verði eftirfarandi (í m.kr.):

    Bifreiðagjald (sérstök hækkun 350 m.kr.)......         1.000
    Tekjur af þungaskatti .............................         1.205
    Tekjur af bensíngjaldi ............................         3.190
    Heildartekjur af bifreiðasköttum eru áætlaðar
    (bensíngjald, þungaskattur og bifreiðagjald) ......         5.395