Ferill 399. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 399 . mál.


Sþ.

776. Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Þórhildar Þorleifsdóttur um hagsmunaárekstra í stjórnum peningastofnana ríkisins.

1.    Hverjir þeirra sem sitja í stjórnum peningastofnana ríkisins, sbr. þskj. 550 á þessu þingi, eiga jafnframt verulegan hlut í, vinna hjá eða sitja í stjórnum fjármála- og atvinnufyrirtækja sem eiga mikil viðskipti við peningastofnanir ríkisins eða eru í samkeppni við þær?
    Vísað er til þskj. 550 en þar er að finna þær upplýsingar sem viðskiptaráðuneytinu hefur tekist að afla um störf og aukastörf umræddra stjórnarmanna. Ekki liggja fyrir upplýsingar um viðskipti fyrirtækja sem þeim eru tengd.

2.    Hvernig er háttað eftirliti ráðuneytisins með því að ekki eigi sér stað hagsmunaárekstrar í þeim stjórnum peningastofnana sem undir það heyra? Hvernig skilgreinir ráðuneytið „hagsmunaárekstur“? Hefur það sett einhverjar reglur til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra eða ríkja einhverjar vinnuvenjur þar að lútandi í ráðuneytinu? Hve oft hefur það gert athugasemdir um hættu á hagsmunaárekstrum í stjórnum peningastofnana á undanförnum fimm árum?
    Ráðuneytið hefur ekki eftirlit ex officio með því hvort stjórnarmenn í peningastofnunum, sem undir ráðuneytið heyra, séu almennt vanhæfir til starfans. Tekið skal fram að stjórnarmenn eru í langflestum tilvikum ekki valdir af viðskiptaráðherra.
    Í lögum eru ekki ákvæði um hæfi eða almennt vanhæfi manna til þess að sitja í slíkum stjórnum en gera verður þá kröfu til þeirra aðila sem kjósa eða tilnefna stjórnarmenn að þeir gæti þess að velja ekki menn sem eðli máls samkvæmt kunna að vera vanhæfir til starfans sökum mikilla viðskipta eða samkeppni við viðkomandi stofnanir.
    Hins vegar er í lögum ákvæði um vanhæfi til meðferðar einstaks máls. Var lögum um viðskiptabanka og lögum um sparisjóði breytt á síðasta vori að frumkvæði viðskiptaráðherra, sbr. lög nr. 32/1989 og nr. 34/1989. Þar er að finna samhljóða ákvæði um vanhæfi til meðferðar einstaks máls, sbr. 3. gr. laga nr. 32/1989 (2. mgr. 33. gr. laga nr. 86/1985) og 7. gr. laga nr. 34/1988 (3. mgr. 38. gr. laga nr. 87/1985, um sparisjóði) og segir þar að bankaráðsmenn (stjórnarmenn sparisjóðs) og varamenn þeirra „skulu ekki taka þátt í meðferð máls er varðar viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir eiga hlut í, sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta í. Sama gildir um þátttöku stjórnarmanna í meðferð máls er varða aðila sem eru þeim tengdir, persónulega eða fjárhagslega“.
    Ráðuneytið mun hafa eftirlit með framkvæmd þessara ákvæða á þann hátt að það tekur við kærum eða kvörtunum um að gegn þeim hafi verið brotið og kveður upp úrskurði um hvort rétt hafi verið staðið að afgreiðslu einstakra ákvarðana. Getur ráðuneytið þá eftir eðli máls veitt viðkomandi stjórn ávítur og lagt fyrir hana að taka upp breytt vinnubrögð og í einstökum tilvikum lagt fyrir stjórnina að taka ákvörðun fyrir á nýjan leik án þátttöku þess stjórnarmanns sem vanhæfur er. Þá er einnig rétt að geta hér 139. gr. almennra hegningarlaga sem fjallar um refsingu við misnotkun manns í opinberu starfi á stöðu sinni sér eða öðrum til ávinnings.
    Ráðuneytið telur að stjórnarmönnum í peningastofnunum eigi að vera framangreind ákvæði kunn og með tilvísun til þeirra muni þess almennt vera gætt í stjórnum peningastofnana að ákvarðanir séu ekki teknar með þátttöku stjórnarmanna sem vanhæfir eru til þátttökunnar vegna þess að hagsmunir þeirra og hagsmunir stofnunarinnar rekist á. Ef það gerist hins vegar er reiknað með því að einhver annarra stjórnarmanna eða annar aðili, sem með málinu fylgist, muni gera við það athugsemd og vekja athygli ráðuneytisins á ólöglegri afgreiðslu þess. Ráðuneytið telur erfitt að koma annarri skipan við hvað þetta atriði snertir.
    Eins og að framan greinir eru ákvæðin nýlega sett og ráðuneytinu hafa ekki borist kærur vegna brota á þeim. Því hafa enn ekki myndast neinar vinnureglur í ráðuneytinu um meðferð kærumála, en þær munu væntanlega þróast eftir því sem kærumál berast og álitaefni eru úrskurðuð.
    Slík er reynslan af ákvæðum svipaðs eðlis á öðrum sviðum stjórnsýslunnar, sbr. t.d. áhrif úrskurðar félagsmálaráðuneytisins um framkvæmd sveitarstjórnarlaga þar sem ráðuneytið hefur með úrskurðum sínum smám saman þróað verklagsreglur um framkvæmd sveitarstjórnarmála.

3.     Óskað er sömu upplýsinga og tilgreindar eru í 2. tölul. um bankaeftirlitið, bankaráðin og stjórnir sparisjóða, eftir því sem við á.
    Svarið er hið sama og við 2. lið.