Ferill 485. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 485 . mál.


Ed.

843. Frumvarp til laga



um að leggja Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins niður og ráðstafa eignum hans til lagmetisframleiðenda og samtaka þeirra.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)



1. gr.

    Starfsemi Þróunarsjóðs lagmetisiðnaðarins skal lögð niður miðað við 31. desember 1990 og skulu þá falla úr gildi lög nr. 58 4. júní 1981, um lagmetisiðnað og Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins, með áorðnum breytingum.

2. gr.

    Eignum Þróunarsjóðs lagmetisiðnaðarins skal ráðstafað þannig:
a.    Þróunarsjóður lagmetis greiði Sölusamtökum lagmetis 50 milljóna króna styrk við gildistöku laga þessara.
b.    Eignarhlutur sjóðsins í fasteigninni að Síðumúla 37, Reykjavík, verði seldur og andvirði eignarinnar varið til að styrkja Sölusamtök lagmetis og lagmetisframleiðendur utan Sölusamtakanna.
c.    Tekjum sjóðsins á árinu 1990 skal varið til styrkja, hlutafjárframlaga og lána í samræmi við tilgang hans.
d.    Hlutabréf, lausafé og skuldabréfaeign sjóðsins 31. desember 1990 skulu renna í Iðnlánasjóð og mynda sérstakan sjóð innan vöruþróunar- og markaðsdeildar er nýttur skal til vöruþróunar og markaðsmála á sviði lagmetis. Heimilt skal að breyta útlánum í hlutafé í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu einstakra fyrirtækja.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt til að greiða úr fjárhagserfiðleikum lagmetisframleiðenda og til þess að einfalda og bæta rekstrarskilyrði lagmetis með því að fella niður sjóði og sjóðagjöld. Aðdragandi málsins er sá að Sölusamtök lagmetis lentu í verulegum fjárhagserfiðleikum á árunum 1988 og 1989 þannig að gjaldþrot samtakanna blasti við þegar sl. haust. Fulltrúar Sölusamtakanna áttu síðan fundi með iðnaðarráðherra í desember 1989 og janúar 1990 og óskuðu eftir styrk úr ríkissjóði til að leysa fjárhagserfiðleika samtakanna. Í framhaldi af því áttu fulltrúar Sölusamtakanna fund með fulltrúum iðnaðarráðuneytisins og var niðurstaðan að leggja Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins niður miðað við 31. desember 1990. Við það falla niður 1% gjald á lagmeti og 3% fullvinnslugjald á söltuð og fryst matarhrogn. Með frumvarpinu er lagt til að eignum sjóðsins verði að hluta varið til þess að greiða niður skuldir Sölusamtakanna og til sérstakra markaðsaðgerða fyrir lagmetisfyrirtæki, samtals um 80 milljónir króna. Afganginum, um 40–60 milljónum króna eftir því hve hátt hlutfall útlána verður að afskrifa, verði ráðstafað til Iðnlánasjóðs til þróunar- og markaðsmála lagmetis. Verði frumvarpið að lögum lýkur beinum og óbeinum afskiptum ríkisins af sölumálum lagmetis sem hófust árið 1972 með stofnun sérstakrar sölustofnunar sem ríkið var stofnaðili að.
    Þróunarsjóður lagmetisiðnaðarins var stofnaður samkvæmt lögum frá 26. maí 1972 og starfar nú eftir endurnýjuðum lögum nr. 58 frá 1981 og reglugerð nr. 175 frá 1984. Hlutverk hans er að efla lagmetisiðnaðinn, m.a. með því að stuðla að tæknilegri uppbyggingu, þróun vinnsluaðferða og markaðsöflun erlendis með lánum og styrkjum. Þá hefur sjóðurinn nýverið fengið heimildir til að leggja fram hlutafé í framleiðslu- og markaðsfyrirtæki á sviði lagmetis.
    Þróunarsjóður hefur sérstaka stjórn undir yfirstjórn iðnaðarráðherra sem skipar formann án tilnefningar og fjóra samkvæmt tilnefningu eftirtalinna aðila: Sölustofnunar lagmetis, Iðntæknistofnunar Íslands, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og sjávarútvegsráðherra með hliðsjón af ábendingu Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda. Iðnlánasjóður er þjónustuaðili sjóðsins, en hann er varðveittur í Íslandsbanka hf.
    Eignir Þróunarsjóðs lagmetisiðnaðarins voru samkvæmt bráðabirgðayfirliti 31. des. 1989 sem hér segir (í millj. kr.):

    – Bankainnstæður .................
10,5

    – Verðbréfaeign ..................
34,1

    – Skammtímakröfur ................
2,4

    
————————
    
47,0

    – Fasteign .......................
26,5

    – Hlutabréf .....................
4,7

    – Útlán .........................
70,4

    
————————
    
101,6
    
————————
    Samtals
148,6


    Vegna erfiðrar stöðu nokkurra lagmetisfyrirtækja má búast við að afskrifa verði hluta af útlánum 31. desember sl. Vegna þessa er erfitt að leggja endanlegt mat á raunverð eigna sjóðsins en 29,3 milljónir króna voru í vanskilum 31. desember sl.

    Til upplýsingar skal þess getið að tekjur og gjöld Þróunarsjóðs voru sem hér segir árin 1986–1988 (í þús. kr.):
    
1988
1987 1986
    Tekjur .....................
36.650
35.940 23.988
    Rekstrargjöld ..............
(25.216)
(13.403) (13.370)
    Hagnaður ...................
11.434
22.537 10.617
    Eignir .....................
87.638
71.599 46.559
    Skuldir ....................
(110)
(17) (3)
    Eigið fé ...................
87.528
71.582 46.556

    Rekstrargjöld áranna voru að mestu leyti greiddir styrkir, en þeir skiptast þannig á verðlagi hvers árs (í þús. kr.):
    
1988
1987 1986

1. Styrkir vegna tæknilegrar uppbyggingar,
    þróunar vinnsluaðferða og vörutegunda.
1.314
0 1.140
2. Lán vegna tæknilegrar uppbyggingar,
    þróunar vinnsluaðferða og vörutegunda.
3.000
3.631 8.061
3. Styrkir vegna markaðssetningar.
11.210
11.926 22.996
4. Lán vegna markaðssetningar.
0
0 11.258     
    Tekjur sjóðsins af innheimtum gjöldum skiptust þannig á árunun 1986–1988 (í þús. kr.):

    
1988
1987 1986

1. Fullvinnslugjald af lagmeti .........
13.244
10.560 8.505
2. Fullvinnslugjald af matarhrognum ....
9.134
9.457 5.346
3. Fullvinnslugjald af þorskhrognum ....
1.530
3.713 3.568


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að Þróunarsjóður lagmetisiðnaðarins verði lagður niður í árslok 1990 og falla þá niður 1% gjald á útflutt lagmeti og 3% fullvinnslugjald á söltuð matarhrogn.

Um 2. gr.


a.    Í greininni er lagt til að mestum hluta af lausum eignum sjóðsins verði varið til að greiða niður skuldir Sölusamtaka lagmetis. Neikvætt eigið fé Sölusamtakanna var samkvæmt efnahagsreikningi 31. desember 1989 um 50 milljónir króna og þykir rétt að styrkja samtökin um þá fjárhæð þegar við gildistöku laganna.
    Stærsta aðildarverksmiðja Sölusamtakanna, Niðursuðuverksmiðja K. Jónsson & Co. hf. á Akureyri hefur sagt sig úr Sölusamtökunum miðað við næstu áramót. Niðursuðuverksmiðja K. Jónsson & Co. hf. ber hins vegar ábyrgð á skuldum samtakanna ef til gjaldþrots kæmi og nýtur því góðs af aðgerðum þessum til jafns við aðra aðila að þeim.
b.    Í greininni er lagt til að hlutur sjóðsins í fasteigninni Síðumúla 37 verði seldur og andvirðinu ráðstafað til Sölusamtaka lagmetis og lagmetisframleiðenda utan samtakanna samkvæmt ákvörðun sjóðsstjórnar. Um 90% af lagmeti hefur á síðustu árum verið flutt út af Sölusamtökum lagmetis og er því eðlilegt að meginhluti af eignum sjóðsins renni til Sölusamtakanna og aðildarverksmiðja. Hins vegar er rétt að sjóðsstjórn meti hvort rétt sé að greiða einhvern hluta til starfandi verksmiðja utan samtakanna.
c.    Eðlilegt er að verja tekjum ársins 1990 til styrkja, lána eða hlutabréfakaupa er samræmast tilgangi sjóðsins. Hafa ber í huga að hluti af tekjum sjóðsins á liðnum árum hefur verið fullvinnslugjald á útflutt matarhrogn og því væri full ástæða til að huga sérstaklega að fullvinnslu þeirra.
d.    Fyrirtæki í lagmetisiðnaði greiða iðnlánasjóðsgjald og eiga rétt til fyrirgreiðslu úr Iðnlánasjóði eins og önnur iðnfyrirtæki. Því er lagt til að hlutabréf, lausafé og skuldabréfaeign Þróunarsjóðs renni til Iðnlánasjóðs til vöruþróunar og markaðsaðgerða á sviði lagmetis.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.