Ferill 524. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 524 . mál.


Ed.

1098. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 60/1981, um raforkuver o.fl.

(Eftir 2. umr. í Ed., 28. apríl.)



1. gr.

    Niðurlag 1. mgr. 1. gr. laga nr. 60/1981 breytist þannig að við bætast tveir málsliðir sem orðist svo:
—     að stækka Búrfellsvirkjun í allt að 310 MW afl,
—     að stækka Kröfluvirkjun í allt að 60 MW afl.

2. gr.


    Á eftir 2. mgr. 1. gr. laga nr. 60/1981 komi ný málsgrein sem orðist svo:
    Iðnaðarráðherra er heimilt að veita Hitaveitu Reykjavíkur leyfi til að reisa og reka jarðvarmavirkjun til raforkuframleiðslu á Nesjavöllum með allt að 76 MW afli, í tveimur áföngum (38 MW hvor áfangi), enda liggi fyrir samningur um rekstur hvors áfanga virkjunarinnar um sig sem hluta af raforkukerfi landsins.

3. gr.

    2. gr. laga nr. 60/1981 orðist svo:
    Röð framkvæmda við virkjanir og aðrar stórframkvæmdir í raforkumálum skal ráðast af væntanlegri nýtingu orkunnar og skal þess gætt að orkuöflunin verði með sem hagkvæmustum hætti fyrir þjóðarbúið. Við val á virkjunarkostum skal einnig leitast við að auka öryggi í vinnslu og flutningi á raforku um landið. Áður en iðnaðarráðherra ákveður röð framkvæmda skulu liggja fyrir greinargerðir frá Landsvirkjun, Orkustofnun og öðrum aðilum sem hann kveður til.

4. gr.

    Á eftir 1. mgr. 6. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun, komi tvær nýjar málsgreinar sem orðist svo:
    Landsvirkjun reisir og rekur samkvæmt lögum nr. 60/1981 eftirtalin raforkuver, að fengnu leyfi iðnaðarráðherra skv. 7. gr. þessara laga: Búrfellsvirkjun með allt að 310 MW afli, Sultartangavirkjun með allt að 130 MW afli, Hrauneyjafossvirkjun með allt að 280 MW afli, Sigölduvirkjun með allt að 200 MW afli og Kröfluvirkjun með allt að 60 MW afli.
    Landsvirkjun er heimilt, að fengnu samþykki iðnaðarráðherra, að gera ráðstafanir til að tryggja rekstur orkuvera á Þjórsársvæðinu, m.a. með Kvíslaveitu, stækkun Þórisvatnsmiðlunar og stíflu við Sultartanga.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Takist samningar um að reisa nýtt álver á grundvelli yfirlýsingar, dags. 13. mars 1990, milli ríkisstjórnarinnar og Atlantal-aðilanna um ásetning að ljúka samningum um nýtt álver með um 200 þús. tonna framleiðslugetu á ári skal mæta orkuþörf þess með því að ráðast auk Blönduvirkjunar í eftirtaldar framkvæmdir, sbr. 1. og 2. gr. þessara laga og 6. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun:
1.     Fljótsdalsvirkjun.
2.     Stækkun Búrfellsvirkjunar, 5. áfanga Kvíslaveitu og stækkun miðlunar í Þórisvatni.
3.     Stækkun Kröfluvirkjunar og 1. áfanga Nesjavallavirkjunar takist samningar við Hitaveitu Reykjavíkur um samrekstur virkjunarinnar við raforkukerfi landsins.

II.


    Landsvirkjun er heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, að verja allt að 300 milljónum króna á árinu 1990 til undirbúnings Fljótsdalsvirkjunar, stækkunar Búrfellsvirkjunar, 5. áfanga Kvíslaveitu og stofnlína eins og nauðsynlegt er til þess að unnt verði að sjá nýju álveri fyrir nægri raforku árið 1994 og taka að láni þá fjárhæð eða jafnvirði hennar í erlendri mynt.