Ferill 527. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 527 . mál.


Sþ.

1141. Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Guðmundar G. Þórarinssonar um fjárfestingarsjóði iðnaðarins, Iðnlána- og Iðnþróunarsjóðs.

1.     Hversu hátt hlutfall gjaldfallinna afborgana frá 1. janúar 1988 til 31. desember 1989 er nú í vanskilum hjá sjóðnum? Hve mikið var framlengt á síðasta ári?

Iðnlánasjóður:
    Ekki liggja fyrir hjá sjóðnum upplýsingar um hve stór hluti afborgana er féllu til greiðslu 1. janúar 1988 til 31. desember 1989 var í vanskilum um síðustu áramót. Hins vegar voru heildarvanskil hjá sjóðnum 31. desember 1988 1.033 millj. kr., eða 17,1% af heildarútlánum og 1.589 millj. kr., eða 17,8% 31. desember 1989. Á árinu 1989 var skuldbreytt vanskilum að fjárhæð 225 millj. kr.

Iðnþróunarsjóður:
    Upplýsingar um hlutfall gjaldfallinna afborgana frá 1. janúar 1988 til 31. desember 1989, sem nú eru í vanskilum, liggja ekki fyrir. Hins vegar liggja fyrir heildarvanskil afborgana og vaxta í árslok 1988 og 1989 og hlutfall vanskila af heildarútlánum í lok hvers árs. Þær upplýsingar er að finna á fskj. I.

2.     Hvaða reglur gilda um vanskil hjá sjóðunum, hve lengi má einstakur skuldari vera í vanskilum án þess að gengið sé að honum? Sitja allir skuldarar við sama borð í þessu efni?

Iðnlánasjóður:

    Sú regla hefur verið viðhöfð, ef vanskil hafa staðið í fulla tvo mánuði, að hafnar eru innheimtuaðgerðir á hendur skuldara, enda hafi skuldari eigi samið um lúkningu vanskila með ákveðnum hætti. Í þessu efni sitja allir skuldarar við sama borð.

Iðnþróunarsjóður:
    Greiði skuldari Iðnþróunarsjóði ekki vexti, verðbætur og afborgun á gjalddaga er send ítrekun að 10 dögum liðnum. Hafi skuldari eigi greitt 60 dögum eftir gjalddaga, fær skuldari bréf frá lögfræðingi, þar sem honum er gefinn 30 daga frestur á að koma lánum sínum í skil, ella verði beðið um uppboð á þeim eignum sem eru til tryggingar fyrir umræddu láni eða gengið að ábyrgðaraðilum. Sé láninu ekki komið í skil eða samið um greiðslu 120 dögum eftir gjalddaga er beðið um uppboð á eign þeirri sem stendur til tryggingar láninu. Hversu langur tími líður þar til veðsett eign er endanlega seld á nauðungaruppboði fer eftir ýmsu. Í lengstu lög er reynt að komast hjá því að selja endanlega hina veðsettu eign eða ganga að ábyrgðaraðilum. Er samningaleið reynd til þrautar, en þó aldrei svo lengi að hún stefni hagsmunum sjóðsins í hættu. Þá ræðst það einnig nokkuð af uppboðshaldara í hverju tilviki, hve langur tími líður þar til að þriðja og síðasta nauðungaruppboði kemur. Allir skuldarar eiga að sitja við sama borð í þessum efnum.

3.     Hversu hátt hlutfall af útistandandi lánum Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs er bundið hjá tíu stærstu skuldurum hvors sjóðs? Hversu hátt hlutfall af eigin fé hvors sjóðs um sig er þetta?

Iðnlánasjóður:
    Tíu stærstu lántakendur hjá sjóðnum um síðastliðin áramót skulduðu sjóðnum 1.906 millj. kr. og var það 20% heildarútlána sjóðsins á sama tíma. Sú útlánafjárhæð var 79% af eigin fé sjóðsins 31. desember 1989.

Iðnþróunarsjóður:
    Sem svar við þessum tölulið vísast til fskj. II.

4.     Hvernig skiptast útlánin á tíu stærstu skuldarana sem hlutfall af heildarútlánum og eigin fé (nöfn skuldaranna skipta ekki máli í þessu sambandi)?
Iðnlánasjóður:
    Stærsti lántakandi sjóðsins um síðastliðin áramót var með 3,2% heildarútlána, eða 12,8% af eigin fé sjóðsins. Tíundi stærsti var með 1,3% útlána og 5,2% af eigin fé að láni hjá sjóðnum.
Iðnþróunarsjóður:
    Sem svar við þessum tölulið vísast til fskj. II.

5.     Á hve löngum tíma hafa þessar skuldir myndast?

Iðnlánasjóður:
    Lán ofangreindra aðila hafa verið veitt síðastliðinn áratug og var elsta lánið veitt árið 1980. Óhætt er þó að fullyrða að um 85% af heildarútlánum sjóðsins til tíu stærstu lántakenda hafi verið veitt á síðustu fimm árum.

Iðnþróunarsjóður:
    Sem svar við þessum tölulið vísast til fskj. II.

6.     Hvernig er fjárhagsstaða þessara skuldara, eru þeir í skilum og ef ekki, hve mikil eru vanskilin? Hve miklu hefur verið skuldbreytt fyrir þessa aðila? Hve mikið hafa þeir endurgreitt miðað við upphafleg lán?

Iðnlánasjóður:
    Þar sem umræddir lántakendur hafa átt viðskipti við sjóðinn í mörg ár býr sjóðurinn yfir margvíslegri vitneskju um fjárhagsstöðu þeirra en á þær upplýsingar er litið sem trúnaðarmál. Ástæða er til að vekja sérstaka athygli á því að Iðnlánasjóður tekur fullar tryggingar fyrir fjárfestingarlánum, bæði í fasteignum og vélum. Auk þess hefur sjóðurinn á síðustu árum verið að byggja upp sérstakan afskriftareikning útlána en hann nam um síðustu áramót um 280 millj. kr. Að öðru leyti vísast til ársskýrslu sjóðsins fyrir árið 1989 sem nýverið var send öllum alþingismönnum.

Iðnþróunarsjóður:
    Upplýsingar um fjárhagsstöðu tíu stærstu skuldara sjóðsins liggja fyrir í ársreikningum nokkurra þeirra sem borist hafa fyrir árið 1989. Að svo miklu leyti sem þeir eru ekki birtir opinberlega, telja starfsmenn sjóðsins ekki heimilt að birta fjárhagsstöðu hvers og eins. Varðandi fjárhagslega stöðu þeirra gagnvart Iðnþróunarsjóði vísast til fskj. II. Þá skal tekið fram varðandi síðustu spurningu þessa töluliðs að níu af þessum fyrirtækjum hafa átt viðskipti við sjóðinn í allt að tuttugu ár og sum tekið mörg lán og er hluti þeirra lána uppgreiddur, önnur ekki, en upplýsingar um hvað endurgreitt hefur verið af hverju einstöku láni liggja ekki fyrir með aðgengilegum hætti.

7.     Yfirlit óskast um hlutabréfaeign Draupnis hf. Hvaða sjónarmið liggja til grundvallar hlutabréfakaupum Draupnis?
    Sem svar við þessum lið fyrirspurnarinnar vísast til fskj. III.



Fylgiskjal I.


Iðnþróunarsjóður:

Vanskil í árslok 1988 og 1989


(Fjárhæðir í þús. ISK miðað við gengi í lok hvers árs.)



         1988    Afborganir    Vextir    Samtals
        USD    226.927    133.417    360.344
        DEM    14.396    17.498    31.894
        GBP    2.480    4.776    7.256
        DKK    1.573    1.543    3.116
        ECU    794    2.367    3.161
        ISK-óverðtr.    7.596    7.551    15.147
        ISK-verðtr.    0    0    0
                  —     —     —
                 253.766    167.152    420.918


    Heildarútlán og áfallnir samningsvextir         3.362.820
                      ——
    Vanskil sem hlutfall af útlánum         12,52%
                      —


         1989    Afborganir    Vextir    Samtals
        USD    343.098    196.224    539.322
        DEM    55.829    40.701    96.530
        GBP    6.175    7.832    14.007
        DKK    0    0    0
        ECU    9.582    10.514    20.096
        ISK-óverðtr.    5.244    4.268    9.512
        ISK-verðtr.    19.114    30.547    49.661
                  —–     —–     —–
                 439.043    290.086    729.129


    Heildarútlán og áfallnir samningsvextir         5.179.784
                      ——
    Vanskil sem hlutfall af útlánum         14,08%
                      —




Fylgiskjal II.


Tíu stærstu viðskiptavinir Iðnþróunarsjóðs.


(31. desember 1989.)


Fjárhæðir í þús. kr.



    Uppgreiðslu-    % af    % af        Elstu    Skuldbreytt
    virði lána    útlánum    eigin fé    Vanskil    vanskil    1989

1    413.410    7,70%    16.14%    255.766    01.03.87
2    228.818    4,31%    8,93%    61.694    01.06.87
3    194.400    3,67%    7,59%    0    —    23.976
4    146.424    2,76%    5,72%    3.162    01.11.89    4.367
5    155.309    2,93%    6,06%    12.626    23.06.89
6    112.342    2,12%    4,39%    3.329    01.11.89    3.993
7    115.400    2,18%    4,51%    33.066    01.02.88
8    102.486    1,93%    4,00%    13.039    01.02.89
9    100.761    1,90%    3,93%    4.029    01.10.89    6.043
10    91.582    1,73%    3,58%    0    —    
     —     —     —     —     —     —
    1.660.932    31,32%    64,85%    386.711        58.379


    Samtals útlán 31. des. 1989     5.303.939
                   —
    Samtals eigið fé 31. des. 1989    2.560.994
                   —
    Samtals skuldbreytingar 1989     137.698
                  —

    Einn af viðskiptavinum sjóðsins hefur nokkra sérstöðu hvað stærð varðar og því rétt að gefa skýringu á stærð hans.
    Skýringin er að hluta til sú að fyrir nokkrum árum var starfssvið sjóðsins mun þrengra en nú er og dreifing útlána því minni sem hafði í för með sér töluverða útlánaáhættu. Þetta var m.a. hvatinn fyrir því að útvíkka starfssvið sjóðsins. Auk þess þá kom til sameiningar tveggja félaga í sömu grein sem bæði voru meðal stærstu viðskiptavina sjóðsins fyrir sameiningu. Eins og sjá má á vanskilum hefur félagið átt við verulega rekstrarerfiðleika að etja, en vonir standa nú til að tekist hafi að leysa þann vanda. Í kjölfar þeirrar lausnar verður félagið í hópi sjö til tólf stærstu viðskiptavina sjóðsins.
    Þar sem endanlega verður gengið frá skuldbreytingu við félagið á þessu ári er skuldbreyting ekki talin með skuldbreytingum á árinu 1989 þó svo unnið hafi verið að þeirri skuldbreytingu allt árið 1989.



Fylgiskjal III.


Draupnissjóðurinn hf:

Til upplýsinga um Draupnissjóðinn hf. vegna fyrirspurnar


á Alþingi til iðnaðarráðherra frá Guðmundi G. Þórarinssyni.


(25. apríl 1990.)



1. Stofnun og tilgangur.
    Draupnissjóðurinn hf. var stofnaður af Iðnþróunarsjóði í desember 1987 með 150 m.kr. hlutafjárframlagi. Tilgangur félagsins er að stuðla að þróun hlutabréfamarkaðar hér á landi og gefa hluthöfum kost á hagkvæmri ávöxtun fjár með þátttöku í fjölbreyttum atvinnurekstri. Þessum tilgangi verði m.a. náð með þeim hætti að kaupa hlutabréf og önnur verðbréf atvinnufyrirtækja sem líkleg eru til að skila góðum arði miðað áhættu.
    Draupnissjóðurinn hf. er dótturfélag Iðnþróunarsjóðs sem hefur frá stofnun átt 99,95% hlutafjárins. Aðrir hluthafar í félaginu með 20 þús. kr. hlut hver eru: Iðnlánasjóður, Félag íslenskra iðnrekenda, Landssamband iðnaðarmanna og Verðbréfamarkaður Íslandsbanka hf.
    Við stofnun þótti eðlilegast að Iðnþróunarsjóður kæmi starfsemi félagsins af stað en síðar yrði leitað eftir nokkrum stórum fjárfestum til viðbótar sem eignaraðilum. Markmiðið er hins vegar að opna félagið og gera það að almenningshlutafélagi þegar frekari reynsla er komin á starfsemina og markaðurinn hefur náð að þróast frekar. Í því sambandi hefur m.a. verið rætt um að sækja um staðfestingu ríkisskattstjóra um að félagið uppfylli kröfur laga nr. 9/1984, en samkvæmt samþykktum félagsins eru engar hömlur lagðar á viðskipti með hlutabréf þess.

2. Sjónarmið til grundvallar hlutabréfakaupum.
    Hlutverk félagsins eins og stjórnin hefur skilgreint það má greina niður í þrjá meginþætti:
1.     Draupnissjóðurinn hf. festir í fyrsta lagi fé í mengi samvalinna óskráðra hlutabréfa. Félagið hefur haft augastað á:
—     Fyrirtækjum sem eru meðalstór eða stærri og eru jafnframt í vexti.
—     Fyrirtækjum sem eru óskráð en stefna að skráningu innan nokkurra ára.
—     Fyrirtækjum sem ekki leggja hömlur á viðskipti með hlutabréf sín.
—     Fyrirtækjum sem hafa fyrirmyndarstjórnun, láta endurskoða ársreikninga og gera reglubundin milliuppgjör og fullkomnar áætlanir um reksturinn og eru jafnframt reiðubúin til að veita hluthöfum allar upplýsingar hvenær sem er um stöðu félagsins.
2.     Draupnissjóðurinn aðstoðar í öðru lagi við hlutafjárútboð og veitir sölutryggingu í hlutafjárútboðum.
3.     Draupnissjóðurinn er í þriðja lagi bakhjarl á markaði með skráð hlutabréf. Draupnissjóðurinn hf. getur þannig í þeim tilvikum, sem hluthafar í skráðum félögum vilja selja hlutabréf, keypt bréf, ef aðrir kaupendur eru ekki fyrir hendi á söludegi, og boðið síðan bréfin til sölu þegar framboð hlutabréfa er lítið. Félagið mun hvað þetta atriði varðar haga þátttöku sinni þannig að einkum umfangsmeiri kaup og/eða sala á hlutabréfum komi til kasta félagsins.

    Stjórn Draupnissjóðsins hf. hefur við fjárfestingar sínar haft eftirfarandi þætti að leiðarljósi:
—     Að stefna að áhættudreifingu miðað við eigið fé sitt þannig að ekki verði meira en 20% eigin fjár félagsins fest í einu fyrirtæki eða skyldum fyrirtækjum. Þetta hlutfall mun fara lækkandi með aukningu eigin fjár.
—     Að stefna að áhættudreifingu með því að velja vænleg fyrirtæki í mismunandi atvinnurekstri til að fjárfesta í.
—     Að gerast ekki meirihlutaeigandi í nokkru fyrirtæki og almennt stefna að því að eiga minna en fjórðung hlutafjár hvers þess fyrirtækis sem fjárfest er í.
—     Að tilnefna ekki stjórnarmenn sína í stjórn þeirra fyrirtækja sem félagið á hlut í.

3. Hlutabréfaeign.
    Í árslok 1989 átti Draupnissjóðurinn hf. hlutabréf í neðangreindum félögum (þús. kr.):

              Nafnverð
    Grandi hf. ..............         30.000
    Hampiðjan hf. ...........         10.854
    Olíufélagið hf. .........         8.000
    Ármannsfell hf. .........         15.886
    Flugleiðir hf. ..........         5.330
    Skagstrendingur hf. .....         244