Minning Alfreðs Gíslasonar
Mánudaginn 15. október 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Alfreð Gíslason læknir og fyrrverandi alþingismaður andaðist í fyrradag, laugardaginn 13. október, 84 ára að aldri. Alfreð Gíslason var fæddur í Reykjavík 12. desember 1905. Móðir hans var Sigríður Brynjólfsdóttir bónda á Sitjanda undir Eyjafjöllum Tómassonar, en faðir hans Alfreð Jensen, danskur sjómaður. Kjörforeldrar hans voru hjónin Gísli sjómaður í Reykjavík Gíslason og Guðrún Þorsteinsdóttir bónda í Reykjakoti í Biskupstungum Þorsteinssonar. Hann lauk stúdentsprófi í Reykjavík 1926 og læknisfræðiprófi í Háskóla Íslands 1932. Á árunum 1932 -- 1936 var hann við framhaldsnám og störf í nokkrum sjúkrahúsum í Danmörku. Árið 1936 var hann viðurkenndur sérfræðingur í tauga - og geðsjúkdómum og var starfandi læknir í Reykjavík frá og með því ári. Á árunum 1946 -- 1962 fór hann nokkrum sinnum úr landi til að kynna sér nýjungar í sérgrein sinni, dvaldist þá um tíma í Danmörku, Svíþjóð, Bandaríkjunum og Vestur-Þýskalandi. Hann var eftirlitslæknir við hressingarheimilið í Kumbaravogi 1943 - 1945, var læknir við elliheimilið Grund frá 1953 og starfaði að áfengisvörnum í Heilsuverndarstöð Reykjavíkur frá árinu 1953.
    Alfreð Gíslason sinnti ýmsum félagsmálastörfum. Hann var í stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur frá stofnun þess 1949 og formaður þess 1951 -- 1959, í stjórn Geðverndarfélags Íslands frá stofnun þess 1950 -- 1962 og var einn af stofnendum Samtaka presta og lækna árið 1953 og formaður samtakanna fyrsta árið. Í stjórn Félags sjúkrahúslækna var hann frá stofnun þess 1962 og í stjórn Öldrunarfræðafélags Íslands frá stofnun þess 1974. Árið 1954 var hann kosinn í milliþinganefnd í heilbrigðismálum, 1959 í milliþinganefnd til að athuga starfsskilyrði aldraðs fólks og 1964 í áfengismálanefnd. Hann var í tryggingaráði 1971 -- 1974 og skipaður í heilbrigðisráð Íslands í upphafi árs 1974. Hann átti sæti í borgarstjórn Reykjavíkur 1954 -- 1966, var í borgarráði 1955 -- 1956, í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkur 1959 -- 1962 og í sjúkrahúsnefnd Reykjavíkur frá 1958.
    Alfreð Gíslason var formaður Málfundafélags jafnaðarmanna frá stofnun þess 1954 og átti síðar sæti í miðstjórn Alþýðubandalagsins. Við alþingiskosningarnar 1956 var hann í kjöri fyrir Alþýðubandalagið í Reykjavík og hlaut sæti landskjörins þingmanns til vors 1959. Í haustkosningunum 1959 var hann kjörinn þingmaður Reykvíkinga og sat á Alþingi til 1967, á 11 þingum alls. Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sat hann 1971 og 1972.
    Alfreð Gíslason var mikill starfsmaður. Jafnframt annasömum læknisstörfum vannst honum tími til þátttöku í margs konar félags- og nefndastörfum. Á Alþingi átti hann jafnan sæti í heilbrigðis- og félagsmálanefnd. Þau mál sem þar var fjallað um voru honum mjög hugstæð jafnframt hvers konar velferðarmálum. Öllum þeim störfum sem honum voru falin sinnti hann af alúð og skyldurækni. Málflutningur hans hvarvetna mótaðist af hófsemd og festu.

    Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að minnast Alfreðs Gíslasonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]