Meðferð mála á Alþingi
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson) :
    Virðulegur forseti. Góður þingheimur. Ég flyt hér í annað sinn till. til þál. um þinglega meðferð allra mála á Alþingi. Flutningur þessa máls kemur ekki til af góðu. Stöðugt er verið að gera grín að þingmönnum með því að leyfa þeim að leggja fram mál sem aldrei fá þinglega meðferð, aldrei eru rædd, þeim er aldrei lokið í þingsölum. Þegar ég tala um þinglega meðferð á ég ekki við að málin eigi endilega að hljóta samþykki þingsins heldur það að þingheimur fái að fjalla um málin, hafna þeim eða samþykkja þau.
    Það er sama hversu mikið ég velti fyrir mér eðli Alþingis, ég kemst alltaf að þeirri niðurstöðu að það sé hlutverk þingsins að fjalla um málin frá upphafi til enda, ekki að láta þau sofna í nefndum þar sem ríkisstjórnin hefur sett þungavigtarmenn til þess að gæta þess að mál fari ekki úr nefndunum heldur sofi þar vært og verði aldrei tekin til lokaafgreiðslu í þingsölunum. Þess í stað megum við alþingismenn stöðugt vera kallaðir á vettvang til þess að greiða atkvæði með málum sem ríkisstjórnin sjálf leggur fram. Við sem styðjum ríkisstjórn á hverjum tíma erum kölluð til á hvaða tíma sólarhringsins sem atkvæðagreiðsla er til þess að flýta fyrir afgreiðslu mála. Stjfrv. eru stöðugt tekin og sett fremst á dagskrá á meðan mál þingmanna sjálfra mega bíða. Það er á þennan hátt sem stöðugt er verið að gera grín að alþingismönnum. Þess vegna hef ég lagt fram þessa tillögu til að reyna að rétta þeirra hlut á þinginu, til þess að reyna að losa þá undan því ægivaldi sem ríkisstjórnir og stjórnarandstaðan hafa yfir hinum einstöku þingmönnum.
    Það er til gömul regla sem ég lærði þegar ég var að byrja að læra veitingahúsarekstur og hljóðar svo á ensku: First comes first gets, þ.e. þann fyrsta í röðinni á að afgreiða fyrst. Það er engin undantekning til frá þeirri reglu. Hér hef ég hins vegar lýst þeim undantekningum sem gilda að ríkisstjórnin hefur stöðugan forgang á þingmenn. Þessi regla hefur því miður fengið að þróast hér og ég er alveg hissa á því að þingmenn hafi ekki einhvern tíma á þeim ferli síðan þing var endurreist reynt að rétta sinn hlut.
    Í greinargerðinni með þessari tillögu segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,    Alþingi er löggjafarþing og hlutverk þess er að setja íslensku þjóðinni lög. Alþingi lýsir líka vilja sínum með ályktunum sem eru bindandi fyrir þingið og aðra valdhafa í landinu. Alþingi er málstofa fyrir umræður og fyrirspurnir. Þingheimur er kallaður saman til þessara verka og önnur verk alþingismanna eru því hjáverk. Alþingismenn fá greitt þingfararkaup fyrir setu í þingsölum og störf í þingnefndum. Þetta er hlutverk Alþingis og alþingismanna.
    Alþingismenn gegna líka ýmsum öðrum trúnaði á vegum þingsins. Ráðherrar eru oftast valdir úr hópi alþingismanna og þingmenn sitja einnig í fjölþjóðanefndum, svo sem Norðurlandaráði og ýmsum þingmannasamtökum. Ýmis annar trúnaður er alþingismönnum sýndur. Þessi trúnaðarstörf þingmanna eru

hins vegar öll hjáverk og mega því ekki hafa áhrif á hlutverk Alþingis.``
    Þrátt fyrir það hefur þinghald verið fellt niður heilu vikurnar vegna þess að erlend mót á borð við Norðurlandaþing eða eitthvað slíkt stendur einhvers staðar yfir og fjöldi þingmanna er þar bundinn. Ekki er það til þess að liðka fyrir því að mál gangi í gegnum þingið með því að gefa þingheimi frí á þennan hátt.
    Oft hefur verið gert að skilyrði að viðkomandi ráðherra sé í sal þegar mál eru flutt sem undir hann heyra. Þetta er að mínu mati hinn mesti óþarfi. Það ætti að vera nóg að formaður viðkomandi þingnefndar eða þingnefnda fylgdist með málflutningi á hverjum tíma. Ráðherra veitir ekkert af sínum tíma til þess að sinna ráðuneytunum. Það er liðin sú tíð að menn á borð við Gissur Ísleifsson biskup fæðist með þessari þjóð en um biskupinn var sagt að úr honum mætti auðveldlega gera þrjá menn: Bónda, víkingahöfðing og kennimann og gæti hann sinnt öllum þessum þremur verkefnum jafn vel. Ég sé ekki fyrir mér þá þingmenn sem geta bæði sinnt þingmennsku og ráðherradómi og jafnvel formennsku í sínum eigin flokki án þess að það bitni á starfinu á einhverjum af þessum þrem póstum.
    Virðulegi forseti. Flm. þessarar tillögu hefur talað fyrir mörgum þingmálum hér í salnum og án þess að viðkomandi ráðherrar hafi heiðrað hann með nærveru sinni í þingsal. Það kemur ekki að sök því að ég tel að þingmenn eigi fyrst og fremst erindi hver við annan og við fólkið í landinu, ekki endilega við ráðherra. Þingmönnum er leyft að leggja fram ný þingmál allt undir lok hvers þings. Þó er ljóst að þau þingmál fá aldrei afgreiðslu. Þau verða tæplega afgreidd í nefndum og tæplega tekin fyrir í nefndum, enda eru þess mörg dæmi að mál sem hafa verið lögð fram í þinginu hafi ekki einu sinni verið sett á dagskrána og fylgt úr hlaði. Samt sem áður er þingmönnum gefinn kostur á þessu. Það er haldið áfram að gera grín að þingmönnum. Fyrir bragðið leggja þingmenn ekki fram sín mál öll til þess að sjá fyrir endann á þeim, heldur til þess að sýnast í fjölmiðlum. Þetta er orðið eitt allsherjar fjölmiðlaþing frekar en löggjafarþing. Menn vita það ósköp vel að hin ýmsu mál sem eru lögð fram, seint fram komin, geta af tæknilegum ástæðum aldrei náð fram að ganga, aldrei hlotið endanlega afgreiðslu í þingsal. Samt eru málin lögð fram. Þau eru ekki lengur lögð fram sem þingmál heldur sem ódýr auglýsingamálflutningur. Þetta er blettur á Alþingi og þetta er til vansa. Þetta er eitt af því sem þarf að laga í meðförum þings á málum þingmanna.
    Andinn á bak við þingræðið er sá að Alþingi ráði málum til lykta með lögum. Þannig tryggir þjóðin lýðræði
sem Íslendingar hafa kosið í landi sínu og skiptir í þrjá þætti: Löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Þingheimur velur sér svo ráðherra til þess að stjórna ríkinu í umboði Alþingis og framkvæma vilja þingsins. Alþingi er hin raunverulega valdastofnun fólksins í landinu og alþingismaðurinn er þar hornsteinn.

    Nú stendur yfir 113. löggjafarþing. Það eru liðin 1060 ár frá stofnun Alþingis. Fyrsti ráðherrann tók hins vegar ekki við embætti á Íslandi fyrr en fyrir 87 árum og fyrsta ríkisstjórnin fyrir 74 árum. Þannig er Alþingi miklu, miklu eldri stofnun en bæði ráðherrar og ríkisstjórn. Alþingi getur vel stjórnað án ráðherra, en ráðherrar geta aldrei stjórnað án Alþingis. Löggjafarvaldið er æðra en framkvæmdarvaldið. Þetta er andi þingræðisins og honum mega alþingismenn aldrei glata. Hins vegar hefur framkvæmdarvaldið því miður vaxið stöðugt í þjóðfélaginu og seilst til meiri áhrifa á hlut og kostnað löggjafarvaldsins. ( KrP: Með þinni aðstoð.) Með minni aðstoð --- og þinni líka, Kristinn. Ég hef séð þína hönd hér oft á lofti.
    Alþingismenn hafa því ekki staðið vörð um Alþingi sem löggjafarþing og eru stöðugt að afhenda stærri hlut af valdi þingsins umboðsmönnum sínum í ríkisstjórn. Það er komin slagsíða á löggjafann með þessu móti. Ráðherrar sæta lagi að leggja fram lagabálka sem enda oft að viðkomandi ráðherra eða ráðuneyti sé falið að semja reglugerð þar sem nánari útfærsla og oft það sem skiptir höfuðmáli í viðkomandi lagabálki er fest á blað. Síðan er það afhent einum starfsmanni í ráðuneytinu og Alþingi sér aldrei þessa niðurstöðu. Reglugerðir eru aldrei bornar undir Alþingi. Þær eru þó oft veigamesti hluti laganna. Þetta er eitt af því sem þarf að breyta. Alþingi þarf að fjalla um allar reglugerðir því að þær eru stór hluti af viðkomandi lögum.
    Virðulegi forseti. Á þingfundum á hv. Alþingi í fyrra leið mér oft eins og hverjum öðrum merktum grip í eigu ríkisstjórnarinnar, nákvæmlega eins og myndirnar sem hanga á veggjunum, og ísskápurinn frammi er með litlum límmiða á sem stendur á Alþingi og eitthvert númer. Á sama hátt fannst mér ég stundum vera eins og eins konar bandingi í klóm stjórnarandstöðunnar, sérstaklega fyrir jólin þegar stjórnarandstaðan setti þau skilyrði að menn skyldu ekki búast við sæmilegum friði hér um jól við afgreiðslu fjárlaga og annarra mála nema hin og þessi mál fengju einhvers konar afgreiðslu. ( RH: Er nú betra að vera bandingi í klóm ríkisstjórnarinnar?) Báðir hópar eru jafnslæmir, frú Ragnhildur. Ekki geri ég upp á milli þeirra, enda eru oft hröð mannaskipti á milli hópanna. Einn getur verið stjórnarsinni í dag og stjórnarandstæðingur á morgun án þess að skipta um föt.
    Kjarni málsins er sá að stjórnarandstaðan er minnihlutahópur á Alþingi. Stjórnarsinnar á hverjum tíma og ríkisstjórnin leggja fram mál sem meiri hlutinn hefur komið sér saman um að nái fram að ganga. Þegar minnihlutahópur setur sig gegn málum á þennan hátt er hann að beita sömu vinnubrögðum og flugvélaræningar hafa gert og terroristahópar til að þröngva sínum málum fram. (Gripið fram í.) Ég bið hv. þm. Reykvíkinga úr Sjálfstfl. afsökunar. Ég heyri því miður ekki hvað þeir eru að segja því að ég er að tala sjálfur. Hvað um það.
    Hér höfum við, fyrir síðustu jól, hlustað á óskyldar kröfur stjórnarandstöðunnar sem ekki snertu þingmál. Því aðeins boðaði stjórnarandstaðan sæmilegan vinnufrið um jól að mál sem tengdust ekki Alþingi næðu fram að ganga. Þau snertu spítala, Borgarspítalann. Má rifja þetta upp í viðtali við Ólaf G. Einarsson þingflokksformann í Morgunblaðinu, að ég held 21. des. í fyrra. Þar kemur fram hvað ég á við. Því miður er ég ekki með greinina við hendina.
    Ég lýsti því áðan hvernig mér hafi liðið sem gísli og hvernig mér hafi liðið sem hverjum öðrum grip í einkaeign ríkisstjórnarinnar. Af þeirri líðan er þessi tillaga mín sprottin. Ég tel að sú meðferð sem þingmál fá sé ekki í þinglegum anda. Það hljóti að vera fyrsta og síðasta verkefni Alþingis að ljúka hverju máli, á sama hátt og það kann ekki góðri lukku að stýra í þjóðfélaginu ef fyrirtæki og stofnanir ljúka ekki sínum vinnudegi, klára öll mál sem koma upp á borð í fyrirtækjunum þann daginn áður en næsti dagur rennur upp. Þetta gerir þingið ekki. Þingið er með sérskipaða og þjálfaða menn í að svæfa mál og geyma. Stjórnarsinnarnir, nefndarformenn ríkisstjórnarinnar, hafa það eitt hlutverk að gæta þess að þingmannafrumvörp sjái ekki dagsljósið á meðan þingmönnum er smalað saman, stjórnarsinnum, hvenær sem á þarf að halda til að tryggja málum ríkisstjórnarinnar framgang. Því vil ég að öll mál hafi sama rétt, að þau verði tekin fyrir í þeirri röð sem þau berast.
    Virðulegi forseti. Ég vil ljúka þessu með því að lesa orðrétt VIII. gr. í greinargerðinni:
    Með flutningi þessarar þáltill. gerir flm. þær kröfur að öll þingmál, sem fram koma fyrir síðasta skiladag nýrra þingmála í vor, fái þinglega meðferð og sæti lokaafgreiðslu á Alþingi Íslendinga sem nú situr. Frumvörp til laga, þingsályktunartillögur, beiðnir um skýrslur og fyrirspurnir, eða önnur þau mál sem Alþingi fjallar um, hverju nafni sem nefnast. Greidd verði atkvæði um frumvörpin, tillögur og beiðnir og fyrirspurnum svarað. Forsetar Alþingis ásamt formönnum þingflokka tryggi alþingismönnum þessi málalok með breyttri skipan mála og dagskrá fram að þinglausnum. Alþingi sitji lengur en áætlað er, ef þessi gerist þörf, til að ná þessu marki.
    Virðulegi forseti. Ég þakka gott hljóð.