Listamannalaun
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Eins og öllum er kunnugt held ég að menn hafi verið nokkuð sammála um að það fyrirkomulag sem gilt hefur hingað til um laun til listamanna, sumir hafa kallað það styrki til listamanna, hefur ekki verið til fyrirmyndar og þessi úthlutun á listamannalaunum sem við höfum orðið vitni að snemma á hverju ári allmörg undanfarin ár hefur í hvert skipti vakið upp spurningar um að fyrirkomulaginu þurfi að breyta.
    Nú liggur hér fyrir frv. um breytt fyrirkomulag. Ég ætla ekki að ræða það mjög ítarlega þar sem ég á sæti í nefndinni sem fjallar um málið og fær það til meðferðar. Ég vek athygli á að hér er gert ráð fyrir allverulegri breytingu frá því sem nú er. Gert er ráð fyrir að Launasjóður rithöfunda sem þegar er fyrir hendi haldi sér. Einnig starfi Starfslaunasjóður myndlistarmanna sem nú er til en annast fyrst og fremst úthlutun fylgiréttargjalds vegna listmunauppboða. Gert er ráð fyrir að stofna sérstakan tónskáldasjóð og eins og fram kom hjá hæstv. menntmrh. er það í samræmi við mjög eindregnar óskir til margra ára frá tónskáldum um sérstakan tónskáldasjóð. Þá er gert ráð fyrir að stofna nýjan sjóð, þ.e. Listasjóð, sem á þá væntanlega að taka við hlutverki hinna gömlu listamannalauna og hann veiti auk starfsstyrkja bæði verkefnastyrki, náms - og ferðastyrki og jafnframt sérstök framlög til listamanna sem hlotið hafa listamannalaun undanfarin ár og hafa náð vissum aldri.
    Auðvitað má endalaust um það ræða hvernig best sé að koma fyrir launum til listamanna og ég vil á þessu stigi ekki gera neinar sérstakar athugasemdir við það fyrirkomulag sem hér er lagt til. Ég vil hins vegar lýsa mig andvígan nú þegar einu atriði í þessu frv. og það er varðandi þau sérstöku heiðurslaun sem Alþingi veitir. Alþingi hefur nú um langt árabil veitt listamönnum sérstök heiðurslaun. Það er venjulega gert í tengslum við afgreiðslu fjárlaga undir áramótin og það eru menntamálanefndir beggja deilda sem koma saman til þess að gera tillögur til þingsins um hverjir skuli njóta sérstakra heiðurslauna. Venjan hefur verið sú að þegar menn einu sinni hafa komist á þessa skrá yfir heiðurslaunalistamenn hafa þeir notið heiðurslauna svo lengi sem þeir lifa. Um þetta er gjarnan tekist á í menntmn. og sem betur fer hefur --- ég vil segja oftast nær, með örfáum undantekningum --- náðst góð samstaða í nefndinni þó að auðvitað hafi ekki allir náð sínum sjónarmiðum fram.
    Ég hygg að það séu 17 listamenn á þessari heiðurslaunaskrá. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það eigi að takmarka þessa tölu frekar en hitt. Ég hef ekki viljað útvatna þennan sérstaka heiðurstitil til listamanna sem Alþingi útdeilir og því eigi að fara mjög varlega í að stækka þennan lista. Mér líst hins vegar ekki á þá tillögu sem fram kemur hér í 2. gr., að með lögum eigi að binda hendur Alþingis við tiltekinn aldur. Hér stendur nú að nýir heiðurslaunahafar skuli hafa náð 65 ára aldri. Það eru auðvitað rök fyrir því að listamenn sem hafa gegnt sínu starfi við góðan

orðstír í hvaða listgrein sem er á langri starfsævi eigi að loknum vinnudegi að geta átt kost á sérstökum heiðurslaunum sem Alþingi veitir. Það eru hins vegar líka mörg dæmi um það að listamenn eigi fyllilega skilið að fá heiðurslaun frá Alþingi þó að þeir hafi ekki náð 65 ára aldri, enda hefur reynslan sýnt að Alþingi hefur þótt ástæða til að heiðra listamenn, ég vil segja langt undir þessum aldri sem þarna er lagt til að miðað verði við. Þess vegna segi ég það strax í upphafi meðferðar þessa máls að ég er andvígur því að takmarka þetta við þetta aldursmark og tel að Alþingi eigi að hafa óbundnar hendur hverju sinni þegar það ákveður hvaða listamenn eigi að hljóta þessi heiðurslaun.