Persaflóadeilan
Mánudaginn 28. janúar 1991


     Ásgeir Hannes Eiríksson :
    Virðulegur forseti. Það er ekki neinum blöðum um það að fletta, því miður, að Ísland er komið í stríð. Það þurfti 20.000 árásarferðir á Mesópótamíu til þess að ná fram umræðu hér á Alþingi um kjarnann í varnarmálum Íslendinga og er það út af fyrir sig skelfileg þróun. Umræðan er eigi að síður hin gagnlegasta og hana ber að þakka.
    Ég er sammála hæstv. utanrrh. að Íslendingar eiga allt sitt öryggi komið undir túlkun á 5. gr. NATO-sáttmálans. Hingað til hefur því verið haldið fram að ef á eitt ríkið væri ráðist muni hin sjálfkrafa bregðast til varnar og á þann hátt sem það ríki sem ráðist er á telur nauðsynlegt. Utanrrh. hefur aftur á móti túlkað það svo hér að engin sjálfvirkni sé í þessari 5. gr., það sé ekkert það í greininni sem kalli á sjálfkrafa viðbrögð frá félögum okkar í NATO ef til að mynda yrði ráðist á Ísland heldur yrði sest niður og metið til hvaða aðgerða skuli gripið. Þetta er hans túlkun á 5. gr. sáttmálans, sem er því miður mjög tyrfin, en ég vil, með leyfi forseta, lesa hana:
    ,,Aðilar eru sammála um að vopnuð árás á einn þeirra eða fleiri í Evrópu eða Norður-Ameríku skuli talin árás á þá alla. Fyrir því eru þeir sammála um að ef slík vopnuð árás verður gerð, þá muni hver þeirra í samræmi við rétt þann til eigin varna og sameiginlegra, sem viðurkenndur er í 51. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, aðstoða aðila þann eða þá sem á er ráðist með því að gera þegar í stað hver um sig og ásamt hinum aðilunum þær ráðstafanir sem hann telur nauðsynlegar.``
    Hér á landi hefur fram að þessu verið túlkað að aðilinn sem sagt er um: ,,sem hann telur nauðsynlegar`` sé sá sem ráðist er á. Í því er kjarni okkar varna fólginn, okkar öryggis, að það verði gripið til þeirra ráðstafana sem við teljum nauðsynlegar ef á okkur er ráðist.
    Nú er aftur komið fram það sjónarmið hjá hæstv. utanrrh. að þær ráðstafanir sem grípa á til séu þær ráðstafanir sem verndararnir telja nauðsynlegar og það er allt, allt annar hlutur. Við sáum það t.d. í Víetnamstyrjöldinni hversu lítið gagn Suður-Víetnömum reyndist að vera í hernaðarbandalagi þegar á reyndi.
    Ég get tekið undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram um að sú ákvörðun Tyrklands að leyfa árásir frá tyrkneskum flugvöllum hafi í rauninni firrt NATO-þjóðirnar ábyrgð skv. þessari 5. gr. og framhaldið sé algerlega komið undir Tyrkjum og þeim þjóðum sem í dag skipa hinn fjölþjóðlega her. NATO geti á engan hátt blandað sér í málin úr því sem komið er. Ef Tyrkir hefðu aftur á móti orðið fyrir árás frá Írökum áður en þessar árásarferðir voru hafnar af tyrkneskri grund þá hefði komið til kasta NATO-bandalagsins að verja Tyrki og bregðast til varnar. En Tyrkir hafa þarna gefið tilefni og NATO-þjóðirnar geta undir engum kringumstæðum blandað sér inn í þá eftirmála sem kunna að fylgja í kjölfarið samkvæmt þeim ákvæðum sem eru í 5. gr. samningsins. Ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa

komið fram í þá áttina.
    En þá má kannski spyrja: Fyrir hvern er þetta stríð háð? Sameinuðu þjóðirnar samþykktu á sínum tíma að það mætti grípa til vopna til þess að endurheimta fullveldi og sjálfstæði í Kúvæt. Undir þetta getum við örugglega öll tekið. Írakar höfðu undir forustu Husseins lagt þetta ríki undir sig og í rauninni afmáð það úr samfélagi þjóðanna. Við erum öll sammála um að hér varð að taka í taumana. Ofbeldi af þessu tagi er ekki hægt að líða því það sér ekki fyrir endann á því. Þess vegna hlutum við öll að vera sammála um að það yrði gripið til vopna til að frelsa Kúvæt. En hvar hefst frelsun Kúvæts? Hefst hún á því að rústa Írak? Erum við ekki komin út fyrir þá hugsun, þann anda sem lá að baki þessari samþykkt Sameinuðu þjóðanna og Íslendingar skrifuðu undir? Er það nauðsynlegur aðdragandi að frelsun Kúvæts að leggja Mesópótamíu í rúst með 20.000 eða 50.000 eða 100.000 árásarferðum? Hvað þá með aðra aðila? Hvað með þá aðila sem hafa selt Írökum vopn? Er þá ekki sjálfsagt að leggja Þjóðverja í rúst til þess að koma í veg fyrir að þeir geti selt þangað frekari efnavopn eða rústa einhverjar aðrar þjóðir? Hvar tekur svona aðdragandi enda, hversu langt má hann ná, án þess að við förum út fyrir andann á bak við hugsunina um að frelsa Kúvæt? Hversu mörg lönd er hægt að leggja í eyði í nafni þess að við séum að frelsa Kúvæt?
    Það er alveg ljóst að stór hluti af bandarískum ráðamönnum, þingmönnum, hefði kosið að doka við og rasa ekki um ráð fram í þessu sambandi heldur reyna til þrautar einhverjar aðrar leiðir, diplómatískar eða efnahagslegar þvinganir sem þegar var byrjað að beita. En af hverju lá svo mikið á að á fyrstu 24 klukkustundunum eftir að heimilt var samkvæmt ályktun Sameinuðu þjóðanna að ráðast inn í Írak var gripið til vopna? Var það gert vegna þess að það voru fleiri keilur sem átti að slá í þessari frelsun Kúvæts heldur en að frelsa Kúvæt? Átti í leiðinni að rústa allan vígbúnað Íraka? Og átti í leiðinni að tryggja einhvern aðgang að olíu? Voru það hin upphaflegu markmið Bandaríkjanna sem síðan eru fóðruð með frelsun Kúvæts? Eftir að hafa horft á 20.000 árásarferðir fer maður að velta því fyrir sér hvert sé hið raunverulega markmið og fyrir hvern stríðið sé háð.
    Virðulegur forseti. Arabaheimurinn er nokkuð heildstæður heimur fólks sem býr að vísu í mörgum löndum en er stolt af sínum sameiginlega uppruna og fornri frægð, sem kannski náði hámarki einmitt í Mesópótamíu, því landi sem nú þolir 1000 -- 2000 flugferðir árásarsveita á dag. Þessi Arabaheimur er líka niðurbeygður í dag því honum finnst illa komið sinni fornaldarfrægð og að hann leiki ekki í dag sama hlutverk og hann gerði til forna. Það er draumur allra Araba að endurreisa þessa frægð sína og komast aftur til þeirra mannvirðinga sem þeir nutu á sínum tíma. Þetta stolta fólk hugsar allt öðruvísi en við Vesturlandabúar. Og mikill hluti þessa fólks hefur alla tíð staðið á bak við Saddam Hussein í hugsun því það lítur á hann sem von um að mega endurheimta sína fornu frægð. Því miður fer fylgi við hann vaxandi

innan Arabaheimsins með hverjum deginum sem líður og hverri árásarferðinni á Írak. Með hverjum deginum sem þetta stríð dregst á langinn mun fjölga stuðningsmönnum Husseins á meðal Araba.
    Ég man sérstaklega eftir einni frásögn af njósnum sem Bandaríkjamenn glímdu við fyrir nokkrum áratugum þegar maður nokkur var gripinn fyrir að njósna í þágu Sovétríkjanna. Þegar hann var spurður: Af hverju, hvað kom þér til að njósna, hvað kom þér til að afhenda Sovétríkjunum skjöl og leyndarmál sem snertu öryggi Bandaríkjanna? Þá sagði maðurinn: Þegar ég var unglingur í Þýskalandi í borginni Dresden og lá þar í rústunum og horfði á hverja bandaríska sprengjuflugvélina af annarri fljúga yfir borgina og varpa sprengjum nótt eftir nótt og oft sömu nóttina, þá hugsaði ég með mér: Fyrr eða síðar skal ég ná mér niðri á Bandaríkjunum, fyrr eða síðar skal ég ná mér niðri á þeim. Þess vegna greip hann fyrsta tækifærið sem honum gafst þegar honum var trúað fyrir bandarískum leyndarmálum og afhenti þau erkióvininum.
    Hversu mörg börn eiga eftir að liggja í rústum Mesópótamíu eða annarra Arabalanda og hugsa með sér: Einhvern tímann skal ég ná mér niðri á Bandaríkjunum eða þessum 28 þjóðum sem nú eru í fjölþjóðahernum? Hversu mörg börn liggja þar og segja: Einhvern tímann skal ég ná mér niðri á Vesturlöndum? Getum við á nokkurn hátt mælt það hatur sem er verið að rækta við Persaflóa með þessu stríði eins og það er rekið í dag, með því að rústa Mesópótamíu en leggja ekki til atlögu og frelsa Kúvæt eins og Sameinuðu þjóðirnar kváðu þó á um?
    Vilji Bandaríkjamenn eyðileggja hernaðarmátt Íraka, sem út af fyrir sig er skiljanlegt sjónarmið, og vilji þeir eiga aðgang að olíubirgðum og jafnvel á lágu verði eftir stríðið þá verða þeir að gjöra svo vel að gera það í eigin nafni, ekki undir pilsfaldi Sameinuðu þjóðanna, svo einfalt er það mál. Og þeir skulu varast, Bandaríkjamenn, að ætla sér að ná NATO bakdyramegin inn í þetta stríð með því að hefja árásir frá tyrkneskum flugvöllum og ætlast síðan til þess að NATO komi til hjálpar ef á Tyrkland verður ráðist eftir slíkar aðgerðir.
    Virðulegur forseti. Bandaríkin kunna að vinna þetta stríð við Íraka á vígvellinum en ég er hræddur um að Vesturlöndin eigi eftir að tapa þessu stríði á hinum pólitíska vettvangi. Sú spurning hefur stöðugt verið rædd hér í dag hvort Íslendingar séu aðilar að þessu stríði og ég hef sagt hiklaust já, því miður, Íslendingar eru aðilar. Það þýðir ekki að ganga í fjölþjóðasamtök eins og Sameinuðu þjóðirnar og NATO og láta svo eins og samþykktir sem þar eru gerðar komi okkur ekki við. Það gildir einu hvort Sameinuðu þjóðirnar stofna sinn eigin her, safna saman herjum undir sínum fána, eða gefa einhverjum öðrum þjóðum lausan tauminn og hleypa þeim og einhverjum málaliðaherjum inn yfir landamæri Íraks til þess að frelsa Kúvæt. Stríð sem er hafið undir þessum formerkjum með yfirlýsingu og samþykkt Sameinuðu þjóðanna er stríð sem aðildarþjóðirnar standa að. Og þverstæðurnar eru

slíkar að í þeim hópi er íraska þjóðin sjálf. Við getum á engan hátt forðað okkur undan þeirri ábyrgð sem hvílir á þessu stríði, þó svo að við höfum ekki gripið sjálf til vopna og ekki sent fólk á vígvöllinn.
    Hv. alþm. Eiður Guðnason, fulltrúi Alþfl., flokks utanrrh. í utanrmn., lýsti því svo snilldarlega í mín eyru að þó við Íslendingar höfum ekki samþykkt víxilinn þá erum við ábekingar, við erum ábyrgðarmenn á þessum víxli og undan þeirri ábyrgð getum við ekki hlaupist nema að ganga úr Sameinuðu þjóðunum og þó er það of seint vegna þess að við vorum í Sameinuðu þjóðunum þegar þetta var samþykkt. Sama gildir um NATO, við getum á engan hátt komið okkur undan þeirri ábyrgð sem NATO-ríkin kunna að bera, sem framtíðin
kann að knýja NATO - ríkin til að axla í þessu stríði. Því miður virðist þetta stríð vera að teygja anga sína í fleiri áttir en þörf er á. Með þeirri ráðstöfun einni að hefja árásarferðir frá Tyrklandi er verið að kalla þetta stríð inn í Evrópu. Og við sjáum ekki fyrir endann á þessu stríði, því miður.
    Íslendingar verða að þora að kannast við þá sáttmála sem þeir skrifa undir. Að koma hér og halda því fram að við berum ekki ábyrgð á afleiðingum gerða sem eru framkvæmdar í nafni þessara tveggja sáttmála er eins og að fylgja heim gleðikonu að nóttu til en vilja ekki kannast við hana daginn eftir þegar byrjar að birta.