Fóstureyðingar
Föstudaginn 01. mars 1991


     Hulda Jensdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að láta í ljós þakklæti til heilbr. - og trn. fyrir drengileg störf í þágu lífsins með því að taka fóstureyðingarmálið úr nefnd og koma því til umræðu á hinu háa Alþingi. Hver svo sem skoðun okkar er á þessu viðamikla og vandmeðfarna máli er það ljóst að umræða um það er mjög mikilvæg. Hún er nauðsyn til þess að fyrirbyggja að það falli í skuggann, fyrnist eða kaffærist, stundum í orðagjálfri. Því hvernig sem afstaða okkar er, bæði við ígrundun þess eða afskiptaleysi, fer það ekki milli mála að hvernig við meðhöndlum lífið í mikilleik þess eða smæð skiptir sköpum.
    Við erum að tala um líf, líf um og yfir 700 Íslendinga ár hvert. Sumir líta á það sem frelsi að fá að ráðskast með þetta líf, aðrir líta á það sem fjötra og mistök og telja að allt beri að gera til að fyrirbyggja að slysið eigi sér stað og taka þá allt með inn í myndina, barnsvísinn, fóstrið, barnið, konuna, manninn og samfélagið allt. Ef íslensk þjóð ætlar að halda reisn sinni, tungu sinni og arfleifð þarf hún að standa vörð um allt líf, líf í móðurlífi og líf utan þess. Um það geta varla verið skiptar skoðanir --- nema þá í stjórnmálum þar sem raunveruleikanum er stundum stungið undir stól til þess að ná einstaklings eða flokkspólitískum árangri þar sem atkvæði skipta höfuðmáli.
    Eins og venja er þegar taka skal ákvarðanir á hinu háa Alþingi eru kvaddir til kunnáttumenn eða leitað álits faghópa. Svo hefur og verið gert í þessu máli eins og þegar hefur komið fram. Sitt sýnist hverjum eins og gengur. Sumir styðja frv. heils hugar, aðrir taka ekki afstöðu, enn aðrir mótmæla því. Þetta eru auðvitað viðbrögð sem mátti búast við og teljast án vafa eðlileg.
    Landlæknisembættið og Læknafélag Íslands taka faglega á málinu og fyrir það er ég þakklát, mjög þakklát. Margt kemur fram sem er til bóta ef eftir væri farið. Sumar athugasemdir sem gerðar eru skipta þó í raun engu máli, þ.e. orðalag og orðalagsbreytingar ásamt skoðanamismun á því hver á að standa fyrir þeim fyrirbyggjandi aðgerðum sem ég legg afar mikla áherslu á. Að ég tilnefni landlæknisembættið sem leiðandi aðila er einfaldlega vegna þess að í fylgiritum með lögunum frá 1975 er það embætti kallað til ábyrgðar. Hvaðan gott kemur skiptir að sjálfsögðu alls ekki máli fyrir mig, heldur hitt að fyrirbyggjandi aðgerðir verði að raunveruleika. Í þessu sambandi er ástæða til að beina sjónum manna að þeim möguleika að áhugafélög um málið, skipuð fagfólki e.t.v. í samvinnu við kirkjuna, til viðbótar því sem áður er nefnt, tel ég að gæti gefist mjög vel.
    Eins og áður sagði ber ég virðingu fyrir og er þakklát fyrir fagleg og málefnaleg vinnubrögð þeirra fyrirtækja eða þeirra einstaklinga sem ég nefndi hér að framan en tel mér þó skylt að gera athugasemdir við nokkur atriði. Þar er athugasemd m.a. gerð við hugtakið líf, mannlegt líf, og sagt að sú skilgreining sé mjög umdeild og í annan stað gerð athugasemd við

setningu um að líf sem kviknað hefur í móðurlífi sé friðheilagt því það standist ekki vísindalega skilgreiningu. Og við hljótum að spyrja: Hvað eru vísindi? Við berum virðingu fyrir vísindum að sjálfsögðu. Vísindi í dag hafa þó oftar en ella sannað sig sem ekki vísindi á morgun og hitt, sem er alkunna, að það sem fyrir sumum eru augljósar staðreyndir getur tekið vísindamenn ár og áratugi að sanna að séu vísindi til þess að staðreyndirnar verði viðurkenndar og um leið er þá kastað á glæ dýrmætum tíma meðan beðið er. Dæmin sem sanna þetta eru fjölmörg.
    Hvenær líf byrjar bögglast enn fyrir mörgum vísindamanninum af einhverjum ástæðum. En það eru sannarlega fjölmargir viðurkenndir vísindamenn í dag sem velkjast ekkert í vafa um hvenær líf byrjar. Og ég hlýt að spyrja: Hvers vegna má ekki taka mark á þeim? Nóbelsverðlaunahafar í erfðafræði og prófessorar í fósturfræði, viðurkenndir kennimenn og fræðimenn. Að þessu slepptu langar mig gjarnan til að við spyrjum okkur sjálf, okkar eigin dómgreind smástund og heyra hverju hún svarar.
    Hvað er fóstur í móðurlífi? Er það mannlíf? Eða er það eitthvað annað? Hvað annað getur það verið? Hvað er mannleg vera? Ólík öllum öðrum lífverum sem saman stendur af 46 litningum. Er það eitthvað annað en mannleg vera? Hvað er að vera á lífi? Er það ekki að vaxa, að endurnýja sellur sínar? Hvað gerist hjá því lífi sem tekur sér bólfestu í móðurlífi? Það vex, það endurnýjast. Ef upphaf manns er ekki við frjóvgun, hvar er þá upphaf mannlífs? Hver er munurinn á fóstri í móðurlífi, barni í móðurlífi, nýfæddu barni, fimm ára barni, 15 ára unglingnum og öldungnum níræða? Manneskjan ólík öllum öðrum lífverum. Samsett af erfðaeiginleikum, engu öðru lík er á lífi, vex, endurnýjast, eldist og hverfur til moldar við enda lífsgöngunnar. Er þá ekki eðlilegt að spurt sé: Hvers virði er í raun mannlegt líf? Fagfólk með sjálfa mig í þeim hópi í yfir 40 ár veit
mjög vel að hjarta þess lífs sem hér er til umræðu og farið er að slá þriggja vikna er hjarta manns, ekki neinnar annarrar dýrategundar. Myndir sanna óumdeilanlega að 12 vikna gamalt fóstur er fullkomin manneskja í allri gerð og útliti nema það að hún er smágerð. Það er enginn annar munur þar á og þeir sem hafa unnið við fóstureyðingar, eins og ég hef sjálf gert um skeið á starfsferli mínum, hafa að sjálfsögðu séð þessar litlu mannverur í raun með eigin augum, ekki aðeins á mynd. Þarf annarra vitna við? Hvað eru þá vísindi, hvar er vísindaleg skilgreining? Er það eitthvað sem er raunveruleikanum meira og því sem augu og eyra sjá og heyra?
    Meginákvæði í íslensku stjórnarskránni um mannréttindi eru að stofni til allt frá lokum 18. aldar. Á þeim tíma datt engum í hug að setja þyrfti sérstök lög til verndar ófæddum börnum, svo sjálfsagt þótti það að lífsréttur þeirra væri tryggður. Í dag krefjumst við lagabókstafs til þess að geta ráðist inn í helgustu vé mannlegs lífs, móðurlífið. Þar sem áður var öruggasti og besti griðastaður mannlegs lífs er nú hættulegasti staðurinn. Þar gerast slysin hroðalegust og flest. Jafnvel hér á Íslandi fara þær slysatölur marghundraðfalt fram úr öllum öðrum slysatölum. Úrræði til verndar mannlegu lífi er að finna í almennum hegningarlögum þar sem lögð er refsing við þeirri háttsemi að verða öðrum að bana. Tortíming á mannlegu lífi af ásetningi varðar þyngri refsingu en önnur afbrot og afhafnaleysi, að gera ekkert til bjargar, getur einnig verið refsivert.
    Í almennum hegningarlögum stendur skýrum stöfum að fósturástand sé byrjað þá þegar er frjóvgun á sér stað. Í ýmsum löndum er barni áskilinn eða geymdur réttur ef fósturástand er byrjað. Fóstrið hefur skilorðsbundinn erfðarétt. Fóstri, þ.e. barni í móðurlífi, er geymdur réttur til bóta fyrir missi á framfæri þannig að barnið nýtur réttar frá getnaði. Hvers konar rugl er það réttarkerfi sem í einu orðinu afneitar barninu í móðurlífi og fellst á að með lögum sé hægt að tortíma því en í annan stað er því tryggður erfðaréttur, réttur til bóta allt frá getnaði?
    Hverjar eru og verða afleiðingar fóstureyðinga? Hluti svarsins liggur í augum uppi. Þótt þarna sé um mjög flókið ferli að ræða, fyrst hið augljósa að mannsvísinum er fyrirmunað að vaxa, dafna og verða að manneskju. Og hitt einnig svo augljóst, þau langtímaáhrif sem þær geta haft og hafa á aðra þolendur verknaðarins, móður, föður, börn, fjölskylduna og samfélagið allt. Fóstureyðingar auka sjálfkrafa virðingarleysi gagnvart lífinu. Það fer ekki á milli mála og er vert að nefna í þessu samhengi t.d. Japan, þar sem u.þ.b. annað hvert barn í móðurlífi fær ekki að lifa, þar er ofbeldi gagnvart börnum í slíkum mæli og eykst stöðugt, að stjórnvöld standa ráðalaus, ráða ekki við neitt, alls ekki við neitt. Hið sama er að gerast í Kína þar sem jafnvel upp undir 80 -- 90% barna í móðurlífi sjá aldrei dagsins ljós samkvæmt tilskipunum stjórnvalda og hrottalegum hegningaraðgerðum þar að lútandi.
    Í Bandaríkjum Norður-Ameríku eru þekktir læknar og vísindamenn og í þeirra hópi Nóbelsverðlaunahafar sem telja að öll börn eigi að gangast undir ákveðið ,,test`` eða rannsókn við fæðingu. Ef þær rannsóknir gefa ekki nægilega jákvæða útkomu eigi viðkomandi börn að deyja. Menn tala um þrjá til fimm daga eða jafnvel upp í heilan mánuð. Þannig gæti ég tínt fram fjölda dæma, en læt þetta nægja, að því viðbættu að virðingarleysi gagnvart börnum í móðurlífi hlýtur að leiða til virðingarleysis gagnvart lifandi fæddum börnum og svo ótal mörgu öðru í daglegri lífsframvindu.
    Við á Íslandi erum heppin í fámenni okkar og smæð og þeirri viðleitni stjórnvalda og almennings að búa vel að mæðrum og börnum en sannarlega þurfum við að halda vöku okkar svo að ekki fari illa, einnig hjá okkur.
    Næst hlýtur spurningin að vakna: Hefur sú staðreynd að um og yfir 700 Íslendingar fá ekki að sjá dagsins ljós hvert einasta ár, áhrif á afkomu okkar og eðlilega fólksaukningu? Árið 1950 töldu Evrópubandalagsríkin 8,8% af íbúum jarðar. Árið 2000 er reiknað með að talan verði komin niður í 4,5% og

árið 2030 í 2,3%. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku fækkaði skólabörnum á áratugnum 1970 -- 1980 um 6,5 milljónir og 9000 skólum var lokað. Árið 1982 var fæðingartíðnin komin niður í 1,68. Alþekkt eru vandamálin t.d. hjá Þjóðverjum og nágrönnum okkar Svíum. Öll ráð eru reynd til þess að uppörva fólk til barneigna vegna þess hættuástands sem fólksfækkun þessara landa og margra annarra dregur í kjölfar sitt. Til þess að viðhalda stofni þarf lágmarksendurnýjunarmörk sem talin eru vera á bilinu 2,1 til 2,3 lifandi fædd börn á konur á barneignaraldri til þess að halda óbreyttum íbúafjölda. Staðreyndin er sú að Norðurlöndin öll ásamt Vestur-Evrópu að Írlandi fráskildu eru samkvæmt þessu útfjarandi þjóðir.
    Árið 1970 var talan hjá okkur 2,8 sem var glæsileg og um leið nauðsynleg til þess að við getum haldið utan um arfleifð okkar, menningu og hvert annað. Árið 1985 er talan komin niður í 1,9 og á því ári er spáð að innan örfárra ára yrðum við komin í töluna 1,7 sem eru auðvitað alvarleg hættumörk samkvæmt því sem áður segir. Nú hefur fæðingum fjölgað aðeins sem við að sjálfsögðu fögnum af margvíslegum ástæðum. Því miður tókst mér ekki að fá upplýsingar um hvar við stöndum nákvæmlega tölulega séð á þessari stundu.
    Fóstureyðingar hafa langtímaáhrif í margvíslegri mynd. Fram hjá þeirri staðreynd getum við ekki skotið okkur og verðum að viðurkenna að það er hryggileg staðreynd meiri en það að nokkur orð nái yfir til þess að lýsa því að samfélag líðandi stundar skuli ekki sjá aðra lausn en þá að hindra og eyða mannlegu lífi vegna tímabundinna erfiðleika.
    Mig langar svo í áframhaldi að fjalla um fleiri faghópa, þ.e. þeir aðrir faghópar í andstöðu við frv. mitt sem hafa sent inn til nefndar umsögn um frv. það til laga sem ég hef lagt fyrir hið háa Alþingi Íslendinga, eru konur. Þar kveður við allt annan tón en það sem ég hef áður vitnað í. Öll fagmennskan er fokin út í veður og vind, þó eilítið mismunandi eftir því hvaða kvennahópur á í hlut. Á frv. er ráðist með mikilli fyrirlitningu og fúkyrðum svo sem að allt í þessu frv. stangist á við raunveruleikann og alla almenna heilbrigða skynsemi. Það var svo sem ekki lítið sagt og svo stend ég hér og hef alltaf haldið að ég hefði talsverðan slatta af almennri heilbrigðri skynsemi og jafnvel fengið orð fyrir það.
    Í einni umfjölluninni, sem að auki er óundirskrifuð, sem mér finnst nú afskaplega undarleg vinnubrögð, segir orðrétt: ``Slíkt er fjarstæðukennt og ekki í samræmi við þjóðfélagsþróun síðustu 60 ára.`` --- Og nú leyfi ég mér að spyrja og í raun svara: Hvað er það sem ekki samræmist ,,þjóðfélagsþróun síðustu 60 ára``? Sú skoðun mín að allt eigi að gera til þess að hjálpa konum sem telja sig hafa erfiðar félagslegar ástæður svo þær þurfi ekki að ganga undir aðgerðina fóstureyðing, og í annan stað, að kona sem á í andlegum og/eða líkamlegum erfiðleikum fái fóstureyðingu á þeim forsendum. Ég legg hvergi til í frv. mínu að banna eigi fóstureyðingar, það er hrein fjarstæða og vísvitandi rangtúlkun. Það sem ég legg áherslu á

er að íslenskar konur eigi kröfu til þess í því allsnægtasamfélagi sem við búum í, að þeim sé hjálpað þegar þær eiga í erfiðleikum vegna þungunar. Að hvorki þær sjálfar þurfi að stíga sporið til fóstureyðingar né að aðrir geti þvingað þær vegna þess hvernig lögin eru. Varla getur það talist þjóðfélagsþróun til að hrópa húrra fyrir að konur séu þvingaðar með lögum í fóstureyðingar á tímum slíkrar velsældar sem aldrei hefur önnur eins þekkst á Íslandi.
    Í sama plaggi, plagginu sem gleymdist að skrifa undir, er talað um vanmat, og þá að sjálfsögðu mitt vanmat, og fyrirlitningu á dómgreind og tilfinningu kvenna. Afskaplega stórt sagt en tæplega staðið við. Ekkert er fjær mér en fyrirlitning á konum eða dómgreind þeirra. Höfundur þessarar fullyrðingar gleymir að ástæðan fyrir baráttu minni konum og börnum til handa í þessu sambandi og í þessu máli sem svo mörgum öðrum og í tengslum við þetta stafar af tuga ára starfi á þessum vettvangi og þekkingu minni á málinu. Því getur varla nokkur neitað að einhverja þekkingu hlýt ég að hafa eftir 40 ára reynslu í þessu starfi. Staðreyndin er sú að fóstureyðingalöggjöf er verk karla víðast úr heiminum, og ég bið konur að taka eftir því. Fóstureyðingarlöggjafir víðast hvar í heiminum, ef ekki alls staðar, eru verk karla, nema kannski á Íslandi. Og má ég benda á í leiðinni að gerð var könnun á Íslandi 1974 sem sýndi að 26% konur sögðu já í sambandi við það frv. sem þá lá frammi, en 34% karlar sögðu já, 61% kvenna sagði nei, 50% karla nei. Svo út af fyrir sig var það gott. Árið 1984 var niðurstaðan ósköp svipuð í þeirri könnun sem þá var gerð.
    Nú er það svo að leiðir manna að settu og réttu marki eru margar. Verðum við ekki að ganga út frá því sem vísu að öll séum við að gera okkar besta, skjólstæðingum okkar til góðs? Órökstuddar fjarstæður eiga því ekki heima í umfjöllun um svo alvarlegt mál sem hér er til umræðu. Góður málstaður þarf ekki að slá um sig með svo lágkúrulegum vopnum. Ég þekki mörg tilfelli þar sem konur erum þvingaðar í fóstureyðingu vegna þess hvað leiðin er opin og leyfi mér aðeins að nefna lítið dæmi, það er reyndar sigurdæmi þó:
    Kona hringir til mín, hún hefur búið með manni í tvö og hálft ár. Þegar hún segir honum glöð og hamingjusöm að þau eigi von á barni --- hvernig bregst hann við? ,,Ef þú ferð ekki í fóstureyðingu er ég farinn.`` Og maðurinn fór.
    Hver var maðurinn? Við búum í litlu samfélagi og því ætla ég ekki að nefna nafn hans, en segi ykkur eigi að síður að hann er sonur einnar alríkustu fjölskyldu þessa lands. En þetta var samt félagsleg ástæða. Einstæð móðir með barn. Opin leið til fóstureyðingar.
    Og má ég aðeins nefna eina sögu í viðbót, annars eðlis af fjölda slíkum sem ég gæti sagt ykkur klukkutímum saman. Ungt par í sambúð, bæði búin með skóla, barn verður til, of snemmt finnst þeim. Ekkert mál að fá fóstureyðingu. Félagslegar ástæður. Fimm ár eru liðin, hún er 25 ára, hann er 27 ára gamall.

Fullorðið fólk og var það reyndar líka fyrir fimm árum, að sjálfsögðu. Allt frá þeirri stundu er barnið hvarf úr móðurlífi fyrir fimm árum hafa þessi hjón átt þá ósk heitasta að eignast barn. Í dag eru líkurnar mjög litlar að þau geti eignast barn.
    Auðvitað eru þetta mistök vegna þess að á Íslandi eru í framkvæmd frjálsar fóstureyðingar. Því er ekki hægt að neita. Það er aðeins sá munurinn að viðkomandi þarf að skrifa undir blað að hann óski eftir fóstureyðingu, það er það eina sem þarf.
    Í annarri umsögn er talað um að hverfa aftur til fortíðar, þá er ég að tala um þær umsagnir sem bárust inn gegn frv. Talað um að hverfa aftur til fortíðar í læknisfræðilegum skilningi og að við Íslendingar séum að skilja okkur frá öllum siðmenntuðum þjóðum. --- Takið vel eftir þessu, góðir hv. þm., skilja okkur frá öllum siðmenntuðum þjóðum ef sú stefna yrði tekin upp að ekki væri sjálfsagður hlutur að börn í móðurlífi, sem teldust gölluð yrðu látin deyja eða öllu heldur líf þeirra stytt þegar í móðurkviði svo þau fengju engan möguleika til lífs.
    Það er nú svo að einum finnst gott og sjálfsagt það sem öðrum finnst hroðalegt. Ég er sannarlega í þeim hópi sem finnst það hroðalegt að við skulum taka okkur slíkt vald. Ég fer ekki dult með þá skoðun mína að ég tel að barn sem er e.t.v. eitthvað gallað eigi nákvæmlega sama rétt og við, nákvæmlega sama rétt, enda alls staðar í kringum okkur fólk, bæði hér heima og erlendis, sem er afburðafólk og fólk sem skarar fram úr þrátt fyrir meðfædda fötlun. Það er þörf fyrir það fólk og það er rúm, það er pláss fyrir það fólk. Hver erum við að nýta okkur krafta og heilsu sem okkur hlotnaðist til þess að hindra aðra í því að fá að nýta þá krafta sem þeim hlotnuðust þótt minni séu að okkar mati? Og hvert erum við komin á þroskabrautinni sem vogum okkur að tala um það sem siðmenntun og framför í læknisfræði að hindra líf í því að ganga sitt skeið til enda? Markmið læknisfræðinnar er að viðhalda lífi, hlúa að, lækna, breyta vanlíðan í vellíðan svo sem kostur er. Læknisfræði er að verja líf frá getnaði til grafar, læknisfræði er ekki að taka líf. Okkar allra er að hjálpa þeim foreldrum sem í þeim erfiðleikum standa að ala upp fötluð börn. Kerfið er of þungt og skilningsvana, því þarf að breyta og hugsunarhætti okkar sem er fjandsamlegur börnum í velmegunarbröltinu öllu. Enginn óskar neinum þess að eignast fatlað barn, en ef það gerist þá á félagslega samfélagshjálpin að sýna sína bestu hlið. Margt gott hefur áunnist en betur má ef duga skal.
    Í annarri grg. er orðrétt sagt að ,,það sé að fótum troða grundvallarmannréttindi að fólk fái ekki að gera sína eigin fjölskylduáætlun.`` Þarna er allt samhengi sundurtætt. Að sjálfsögðu undirstrika ég sem flm. nefnds frv. sem hef, eins og áður hefur komið fram, mestan hluta ævi minnar unnið einmitt á einn eða annan veg í tengslum og beinlínis í þessum málum, nauðsyn fjölskylduáætlunar. Þarna er hreint hugsanabrengl eða kannski vísvitandi, ég veit það ekki, eitthvað sem hefur ekkert með málið sjálft að gera.
    Í annan stað er í þessu samhengi talað um konu

sem hefur verið nauðgað og sagt orðrétt að ,,því sé algjörlega hafnað að kona sem hefur verið nauðgað geti ekki tekið ákvörðun um það sjálf hvort hún fái fóstureyðingu eða ekki.`` Þarna er aftur fjarstæða á ferð. Staðhæfing, sem svo margt annað, hreint út í hött. Í frv. mínu tek ég þennan skelfilega þátt alveg sérstaklega fyrir. Þessar konur eiga alla mína samúð og hafa alltaf átt. Ég tel það svo alvarlegt mál að engin spurning sé um hvernig það mál verður að leysa svo slíku þvaðri hlýt ég auðvitað að vísa til föðurhúsa. Hins ber að geta, fyrst komið er inn á þetta hroðalega mál, að allt frá árinu 1938, þegar heimild til fóstureyðinga af þessum sökum kom inn í íslensk lög, og allt fram til ársins 1975 liggur ekki frammi ein einasta beiðni um fóstureyðingu af þessum ástæðum. Guði sé lof. Og svo virðist vera allt fram til ársins 1983. Ég hef reyndar aðeins upplýsingar fram að þeim tíma, ekki síðari upplýsingar. Hins vegar er víða litið svo á að þessi staða geti tæpast komið upp. T.d. var þannig litið á málið í Nýja Sjálandi árið 1977 þegar endurskoðuð var löggjöf um fóstureyðingar þar. Í tölum um fóstureyðingar í Bandaríkjunum 1968 kemur fram að talin er vera hugsanleg ein fjölgun á móti 300 nauðgunum. Enn aðrar rannsóknir benda til að um eina nauðgunarþungun sé að ræða á 100 þús. þunganir. Eins hryllileg lífsreynsla eins og nauðgun er í sjálfu sér bendir margt til þess að sjálft líkamskerfið verji sig gegn frjóvgun.
    Samnefnari þess sem ég hef nú tínt til úr umsögnum þriggja stéttarfélaga kvenna
er sú staðreynd að lögð er megináhersla á ekki faglegt mat heldur að ég í frv. mínu leggi fram hugmyndir sem samræmist ekki þróun fóstureyðingarlöggjafar í nágrannalöndum, sé afturför á þróun læknavísinda og að allt frv. stangist á við raunveruleikann og alla almenna skynsemi, svo ég vitni nú aftur orðrétt í þessa setningu. Spurningin snýst að sjálfsögðu ekki um það hvort einhverjir aðrir gera alvarlegar skyssur og mistök og að nauðsynlegt sé að taka það til fyrirmyndar né getur það talist afturför í þróun læknavísinda að leggja áherslu á að læknavísindin hindri ekki framgang lífs. Vísindi sem í dýpt sinni byggja á þeim grunni að bjarga lífi. Og þær fjarstæðukenndu fullyrðingar að óskir um að börn í móðurlífi njóti þeirra mannréttinda að fá að lifa stangist á við raunveruleikann og almenna heilbrigða skynsemi dæma sig að sjálfsögðu úr leik. Því er augljóst að í slíkum fullyrðingum er enga almenna skynsemi að finna, svo ég vitni aftur í orð úr áður nefndu óundirskrifuðu plaggi. Hins vegar er auðvitað sárt til þess að vita að enn skuli vera til konur sem telja sig vera að berjast fyrir kvenréttindum með því að krefjast frjálsra fóstureyðinga. Þetta er hrikaleg blekking því frjálsar fóstureyðingar eru fjötrar á konur, hreinlega hlekkir á konur.
    Þegar ég því leyfi mér að fara þess á leit að hv. Alþingi Íslendinga endurskoði lögin um fóstureyðingar frá árinu 1975 þá er ég ekki aðeins að reyna að bjarga lífi 700 Íslendinga ár hvert, eða fremur til að lækka þá tölu mikillega, heldur einnig að bjarga jafnmörgum konum frá þeim vandamálum sem fylgja í kjölfarið fyrir allflestar þeirra. Ég er sannarlega ekki að setja stein í götu í frelsisbaráttu kvenna, síður en svo og að sjálfsögðu alls ekki og það vita allar konur, heldur hið gagnstæða. Þótt því miður virðist vera að sumar konur skilji það ekki. En ég trúi því að sá tími muni koma innan tíðar að þær skilji. Ég er ekki óvön því í gegnum mitt starf að sumt af því sem ég er að tala um og hef gild rök fyrir hafi ekki verið skilið í fyrstunni. En ég stend hér og hef upplifað það, sem kannski ekki svo margir aðrir hafa upplifað, að fólk hefur skilið og viðurkennt. Og ég vona að það komi líka að því með þetta þó það verði kannski ekki fyrr en eftir minn dag þótt ég voni að sjálfsögðu að það verði miklu fyrr.
    Hins vegar viðurkenni ég það mjög fúslega að mér er fyrirmunað að sætta mig við að konur geti beitt sér vísvitandi fyrir því að hindra framvindu lífs í móðurlífi nema mikla nauðsyn beri til. Slík afstaða er hættuleg þeim fjölmörgu ungu konum sem fyrr og síðar eiga eftir að spyrja sig spurningarinnar: Á ég að notfæra mér frjálsræði fóstureyðingarlöggjafarinnar?
    Virðulegi forseti. Í frv. mínu til laga er ítarlega fjallað um hvernig heppilegt sé að standa að fræðslu um þetta veigamikla mál þar sem allir hugsanlegir möguleikar eru teknir með. Einnig fjalla ég um aðstoð við foreldra, fjalla um ýmsa valkosti og fleira og fleira, að ógleymdu því að fóstureyðing sé að sjálfsögðu heimil ef heilsu konunnar andlega eða líkamlega sé hætta búin. Það er sannarlega ekki verið að loka á fóstureyðingar, alls ekki. Það er verið að höfða til raunveruleikans og að fóstureyðing sé neyðarúrræði og eigi ekki að framkvæmast nema sem slík. Að fóstureyðingar á Íslandi hafi ekki náð þeim hæðum tölulega séð sem sums staðar annars staðar er ekki íslenskri fóstureyðingarlöggjöf að þakka nema þá að því leyti að löggjöfin miðar við ákveðinn vikufjölda. Samkvæmt mínum skilningi á upplýsingum landlæknisembættisins hefur afar fáum konum verið synjað um fóstureyðingu. Þær synjanir sem liggja fyrir hafa orðið til vegna þess að viðkomandi kona er gengin of langt með sitt barn. Skýringanna á því að fóstureyðingartölur á Íslandi ná ekki hærri hæðum en raun ber vitni, þótt nóg sé, er án nokkurs vafa að finna í gömlum gildum og þjóðfélagsgjörð okkar og viðhorfum. Það er ekki ýkja langt síðan að formæður okkar eignuðust átta, tíu, tólf börn og jafnvel enn fleiri. Þrátt fyrir fátækt og örbirgð sem margt nútímafólk skilur alls ekki kom fáum konum til hugar að finna leið til þess að útrýma þessu lífi. Konur tókust á við vandann með ótrúlegri reisn og miklum sóma þrátt fyrir bágar ástæður og mikla fátækt oft á tíðum. Það skýtur því skökku við á tímum upplýsingamiðlunar, þekkingar og getnaðarvarna í margvíslegum stærðum, gerðum og tegundum auk eðlilegra hluta sem gerast í líkamskerfi konunnar sjálfrar að þá rjúki upp hópur fólks til handa og fóta og krefjist þess að það þurfi ekki að bera ábyrgð gerða sinna heldur sé sjálfsögð skylda lögvaldsins að heimila með lögum að það hafi löglegan rétt til að hlaupast frá sjálfsögðum skyldum sínum og fái löglegt leyfi til þar með, eins og áður segir, að seilast inn í helgustu vé mannlegs lífs til að fjarlægja afleiðingar gerða sinna með valdbeitingu lögvalds.
    Sú gerð sem hér um ræðir er ekki aðeins að fjarlægja vísi að manneskju heldur í flestum tilfellum er gerðin sýnileg manneskja þegar aðgerðin fer fram. Til réttlætingar slíkri lögleysu hefur síðustu ár verið gripið til varnaðarorða eins og þeirra að þetta sé líkami konunnar, að hún ein ráði yfir sínum eigin líkama og þetta sé hungraður heimur sem við lifum í og ekki við bætandi fleiri börnum. Nú er þessum fjarstæðum komið fyrir í annars konar orðatiltækjum svo sem: að konum hafi verið treyst til þess frá náttúrunnar hendi að ganga með börn og verða mæður og þeim sé því treystandi til þess að ákveða hvenær þær vilja eignast börn. Það gleymist að hér er verið að tala um þungun sem þegar er komin á veg. Sannarlega er ég sammála því að konum hefur verið falið þetta stórkostlega og mesta hlutverk allra hutverka að ganga með og ala börn en ég hef hvergi séð að þær hafi fengið nein sérstök réttindi fremur en aðrir til þess að ákveða hverjir eiga að lifa og hverjir eiga að deyja.
    Það er sannarlega rétt, eins og ég undirstrika, að konur ráða yfir sínum eigin líkama og gera það í flestum tilfellum í þeim hluta heims sem við búum í guði sé lof. En það er því miður ekki hægt að segja um allar konur. Það er einnig rétt að víða er hungur og örbirgð, já hroðaleg, en það kemur þessu máli ekkert við hér heima á Íslandi þar sem við búum í allsnægtum, auk þess sem hungrið í heiminum er pólitískt verk manna sem sjá ekki fram fyrir nef sitt í framapoti blindunnar. Hver einasta manneskja á þessari jarðarkúlu getur haft nóg í sig og á. Um það eru óyggjandi tölur og sannanir sem ekki er tími til að fara út í nánar hér.
    Þessu til viðbótar er ástæða til að benda á að ef kona, af einhverjum ástæðum, telur sig ekki geta eða vilja ala sitt barn og framfleyta því er fjöldi útréttra elskandi handa einnig hér á Íslandi sem eru tilbúnar til að umvefja þetta varnarlausa líf þessum elskandi höndum og sjá því farborða svo sem kostur er. Gæti það hugsast að það væri skortur á kærleik en ekki vöntun á nauðsynjum sem ætti sök á fóstureyðingarslysunum fremur en nokkuð annað? Er það ekki frumboðorðið, sem líf byggist á, að við elskum hvert annað? Og ég spyr: er elska í slíkum lögum sem eru varin á Íslandi og víða annars staðar?
    Virðulegi forseti. Ég tók mér það leyfi að fjalla um efnið að þessu sinni út frá áðurnefndum forsendum. Þegar ég fylgdi frv. mínu úr hlaði í upphafi þings sl. haust tók ég fyrir ákveðna þætti þess og reyndi eftir bestu getu að útskýra forsendur þess til viðbótar því sem sjálft frv. gerir. Ég dró ekki dul á þá staðreynd að konur sem hugleiða fóstureyðingu, konur sem fara í fóstureyðingu, njóta alls ekki þeirrar stuðningsþjónustu sem þeim er nauðsyn á slíkri örlagastund. Ég dró heldur ekki dul á það að fjöldi kvenna fer í fóstureyðingu á röngum forsendum, einmitt vegna skorts á stuðningi. Stuðninginn vantar á erfiðri örlagastund.

Þessu vil ég breyta með hjálp hins háa Alþingis. Ég tel mjög brýna nauðsyn til að öllum, ungum sem öldnum, sé gerð grein fyrir því hvað lífið er í raun. Það er ekki eitthvað sem má leika sér með heldur að skylda hvers og eins sé að fara um það höndum ábyrgðar þar sem virðing fyrir því helgasta sem lífið gefur sé í fyrirrúmi. Ef þessa er gætt og það dregið fram í uppeldishlutverkum heimila og skóla, eins og ég hef áður sagt, er það og verður getnaðarvörnin hin allra besta til viðbótar þeirri sjálfsögðu fræðslu sem frv., sem hér er til umræðu, leggur megináherslu á að verði að veruleika í skólakerfi landsins.
    Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi í upphafi máls míns er ég þakklát meiri hl. heilbr.- og trn. að málið komst úr nefnd þannig að það fengi virðulega umfjöllun á hinu háa Alþingi.
    Mörg eru þau mál sem um er fjallað hér sem eru mjög virðingarverð og nauðsyn, bráð nauðsyn. Og ég tel og dreg ekki af að þetta sé eitt af stóru málunum. Hins vegar vil ég ekki láta hjá líða við þetta tækifæri að láta í ljós hryggð yfir þeirri staðreynd að hafa ekki fengið tækifæri né tíma til að kanna hug og afstöðu hv. þm. í efri og neðri deild Alþingis. Það mál sem hér um ræðir er ekki dægur- eða geðþóttamál. Þetta er mál sem fjallar um mörg hundruð Íslendinga ár hvert. Á meðan við almennt eyðum dýrmætum tíma, stundum í dægurþras, bæði úti í samfélaginu og því miður e.t.v. eðlilega einnig hér á hinu háa Alþingi, vinnst ekki tími til að sinna þessu máli á þann veg sem ég hefði helst kosið. Málinu verður nú vísað til hæstv. ríkisstjórnar. Ég uni því sem áfanga á brautinni til sigurs ófæddum börnum og mæðrum þeirra til handa. Ég treysti því að hæstv. ríkisstjórn hins íslenska lýðveldis skipi nefnd til að endurskoða og fara óvilhalt yfir þau atriði sem skipta sköpum. Að hún beri gæfu til að fara um þetta mál höndum og huga visku og innsæis.
    Að lokum leyfi ég mér að minna á fleyg orð eins mesta stjórnmálamanns allra tíma: Umhyggja fyrir mannlegu lífi gagnstætt eyðingu þess er æðsta markmið góðrar ríkisstjórnar.