Frelsi í útflutningsverslun
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Flm. (Björgvin Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 534 svofellda till. til þál.:
    ,,Alþingi ályktar að fela utanrrh. að breyta reglugerð nr. 27 11. jan. 1988, um útflutningsleyfi o.fl., á þann veg að útflutningsverslunin verði frjáls.``
    Till. gerir ráð fyrir því að sá vöruútflutningur sem heyrir undir utanrrn. verði frjáls. Ég mun síðar í máli mínu víkja að vörum sem háðar eru leyfum skv. sérstökum lögum, svo sem lagmeti og saltsíld, en vík að öðru fyrst.
    Við lifum á tímum frjálsræðis í viðskiptum milli þjóða. Tollmúrar hafa verið brotnir niður, viðskiptahöft hafa verið afnumin. Ísland tekur, sem aðili að EFTA, þátt í viðræðum við Evrópubandalagið um að koma á fót Evrópsku efnahagssvæði þar sem m.a. er gert ráð fyrir algeru frelsi í vöruviðskiptum milli aðildarríkja svæðisins. Ísland knýr fast á um að fá tollfrjálsan og hömlulausan aðgang fyrir sínar afurðir að hinu Evrópska efnahagssvæði. Það er meginkrafa Íslands í viðræðunum. Á sama tíma viðheldur Ísland miklum viðskiptahömlum, svo sem á útflutningi saltfisks, saltsíldar og ísfisks. Þessar hömlur standast ekki í hinu Evrópska efnahagssvæði. Þær eru óheimilar og verða því að falla brott. Það má undarlegt teljast að Ísland skuli ekki fyrir löngu hafa afnumið þessar viðskiptahömlur. Þær þjóna engum tilgangi og ganga í berhögg við þá frjálsræðisstefnu sem nú ríkir í milliríkjaviðskiptum.
    Þróun utanríkisviðskipta Íslands hefur verið í átt til aukins frjálsræðis undanfarin ár og áratugi. Innflutningsverslunin hefur að mestu verið gefin frjáls, en þróun í utanríkisverslun hefur ekki verið eins hröð í frjálsræðisátt. Þar eru enn stórir vöruflokkar háðir útflutningshöftum og jafnvel einokun. Þannig er ástatt um saltfisk, saltsíld og ísfisk að verulegu leyti svo stærstu vöruflokkar séu nefndir. SÍF hefur í raun haft einkaleyfi til útflutnings á saltfiski og síldarútvegsnefnd hefur haft lögbundið einkaleyfi til útflutnings á saltsíld. Þó hafa stór skref verið stigin í frjálsræðisátt, einnig á sviði útflutningsverslunarinnar. T.d. hefur útflutningur á freðfiski verið gefinn frjáls. Það var Jón Sigurðsson viðskrh. sem reið á vaðið í því efni. Hann heimilaði árið 1987 nokkrum útflutningsfyrirtækjum að flytja út freðfisk til Bandaríkjanna en fram að þeim tíma hafði aðeins einn aðili haft leyfi til að flytja út freðfisk þangað við hliðina á hinum stóru sölusamtökum SH og SÍS.
    Þegar viðskrh. hafði kunngjört ákvörðun sína ráku stóru samtökin SH og SÍS upp mikið ramakvein. Töldu þau að ákvörðun ráðherra væri stórskaðleg og gæti spillt mjög markaðnum fyrir freðfisk í Bandaríkjunum. En þrátt fyrir hrakspár reyndist ákvörðun ráðherra til góðs og ýmsir talsmenn SH hafa viðurkennt síðar að þeir hafi haft á röngu að standa þegar þeir töldu að aukið frjálsræði í útflutningi freðfisks mundi stórskaða Bandaríkjamarkað. Nú gagnrýnir enginn frjálsræði í útflutningi á freðfiski, nú telja menn það sjálfsagt.

    Ég spái því að hið sama verði upp á teningnum ef útflutningur saltfisks verður gefinn frjáls. Samkeppnin mun styrkja SÍF en jafnframt fá aðrir útflytjendur að spreyta sig og sýna hvort þeir ná sömu verðum eða betri en þau samtök. Þeir sem ekki standa sig munu heltast úr lestinni.
    Næst vík ég að ísfiski. Útflutningur ísfisks er háður margvíslegum útflutningshömlum og ef eitthvað er þá hafa höft á útflutningi ísfisks verið aukin fremur en hitt. Sett hefur verið á fót skrifstofa undir heitinu Aflamiðlun sem skammtar útflutning á ísfiski. Engin leið er að úthluta réttlátlega útflutningsleyfum á þann hátt sem Aflamiðlun hefur tekið sér fyrir hendur að gera. Hefur það einnig verið svo að störf Aflamiðlunar hafa verið mjög umdeild og á stundum hefur ríkt stríðsástand í kringum starfsemi hennar. Eina lausnin á þessu máli er að gefa útflutninginn frjálsan, láta framboð og eftirspurn ráða. Mér er kunnugt um að iðulega hafa kaupendur ísfisks í Þýskalandi snúið sér til Norðmanna og annarra þjóða í Vestur-Evrópu þegar þeir hafa ekki fengið nægan ísfisk héðan. Það er því alls ekki eins og margir halda að með því að takmarka framboð héðan sé hægt að halda verðinu uppi úti. Það er sjálfsblekking. Það er eðlilegast að láta markaðinn stjórna þessum málum. Ég útiloka þó ekki að allur íslenskur ísfiskur væri látinn fara í gegnum fiskmarkaði hér á landi til þess að íslenska fiskvinnslan gæti ávallt boðið í fiskinn áður en hann væri sendur út. En skömmtunarskrifstofuna á að leggja niður.
    Nokkur orð um lagmetið. Með lögum nr. 58 frá 4. júní 1981 er Sölustofnun lagmetis veitt einkaleyfi til útflutnings á niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum til landa þar sem ríkisstofnun, ríkið sjálft, eða aðili fyrir þess hönd, er aðalkaupandinn. Þó má viðskrh. veita undanþágur frá ákvæði þessu. Framangreint ákvæði var bundið í lög til að vernda viðskipti með lagmeti við Austur - Evrópu. En nú þegar Austur - Evrópuríkin hafa horfið frá miðstýringu og stefna að markaðsbúskap í viðskiptum er engin þörf á þessu lagaákvæði lengur. Vil ég því beina því til ríkisstjórnarinnar að lögum þessum verði breytt þannig að útflutningur á lagmeti verði algerlega frjáls.
    Ég hef áður getið þess að ég teldi eðlilegt að útflutningur saltsíldar verði gefinn frjáls. Vil ég einnig beina því til ríkisstjórnarinnar að þeirri breytingu verði hrundið í framkvæmd.
    Virðulegi forseti. Það má undarlegt teljast að Ísland skuli ekki fyrir löngu hafa afnumið hömlur á útflutningi íslenskra sjávarafurða svo mjög sem Ísland berst fyrir frelsi á því sviði í viðræðum þeim sem nú fara fram um aukið frelsi í viðskiptum í Evrópu. Stóru sölusamtökin hér á landi hafa unnið gott starf á erlendum vettvangi en þau hafa gott af samkeppni. Hætt er við að stór sölusamtök sem hafa einokunaraðstöðu staðni. Það getur styrkt þessi samtök að hafa aðhald og samkeppni. Ef frjálsir útflytjendur sýna hugkvæmni og dugnað í starfi, afla nýrra markaða og ná jafngóðum eða betri verðum en stóru samtökin er það þjóðarbúinu til góðs og eykur tekjur þess.
    Virðulegur forseti. Ég legg til að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og atvmn.