Ferill 236. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 236 . mál.


Ed.

338. Frumvarp til laga



um Héraðsskóga.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



1. gr.


     Tilgangur laga þessara er að stuðla að ræktun nytjaskóga á Fljótsdalshéraði og umhirðu þess skóglendis sem þar er fyrir og treysta með því byggð og efla atvinnulíf á Héraði.
     Héraðsskógar merkja í lögum þessum sjálfstætt skógræktarverkefni um ræktun nytjaskóga á jörðum á Fljótsdalshéraði samkvæmt sérstakri áætlun.

2. gr.


     Kostnaður við starfsemi Héraðsskóga greiðist úr ríkissjóði með sérstakri fjárveitingu sem færð er undir landbúnaðarráðuneytið.
     Landbúnaðarráðherra skipar þriggja manna stjórn Héraðsskóga til tveggja ára í senn. Skal einn stjórnarmanna tilnefndur af Félagi skógarbænda á Fljótsdalshéraði, annar af Skógrækt ríkisins og sá þriðji skipaður án tilnefningar. Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn Héraðsskóga og samþykkir starfs - og fjárhagsáætlanir verkefnisins. Hún ræður framkvæmdastjóra og setur honum erindisbréf.

3. gr.


     Gera skal sérstaka áætlun, Héraðsskógaáætlun, um nýtingu þess lands á Fljótsdals-héraði sem er vel fallið til skógræktar. Áætlunin skal ná yfir 40 ár, skipt í 10 ára tímabil, og taka til allt að 15.000 ha lands.
     Gera skal samninga, sem landbúnaðarráðherra staðfestir, við alla þátttakendur í Héraðsskógum. Samningarnir skulu taka til afmörkunar lands sem tekið er undir ræktun í hverju tilviki, kveða á um kostnaðarþátttöku ríkisins, hlutdeild ríkissjóðs í væntanlegum afrakstri skógræktarinnar og annað sem þurfa þykir.

4. gr.


     Ríkissjóður greiðir kostnað við Héraðsskóga sem hér segir: Undirbúnings - og rekstrarkostnað verkefnisins, laun stjórnar og fastra starfsmanna. Enn fremur 90% samþykkts kostnaðar við skógrækt á jörðum í ábúð og 70% á eyðijörðum. Landbúnaðarráðuneytið samþykkir skógræktarkostnað að fengnum tillögum Skógræktar ríkisins.

5. gr.


     Af heildarframleiðsluverðmæti trjáviðar úr skógunum skulu allt að 5% lögð á endurnýjunarreikning í vörslu Héraðsskóga. Þeim fjármunum skal innan fimm ára frá skógarhöggi varið til endurnýjunar skóglendis á viðkomandi jörð. Þetta gjald skal nánar ákveðið í reglugerð með hliðsjón af kostnaði við endurnýjun skóglendis á hverjum tíma. Af hreinum hagnaði skulu 15% greidd í ríkissjóð og skal því fé varið til ræktunar nýrra skóga.
     Undanþegin ákvæðum 1. mgr. er fyrsta grisjun, enda sé hún skóginum nauðsynleg að mati Skógræktar ríkisins og verði hagnaður af fyrstu grisjun skal hann renna óskiptur á endurnýjunarreikning jarðarinnar.

6. gr.


     Ábúendur jarða, sem teknar eru til skógræktar samkvæmt samningi við Héraðsskóga, skulu hafa forgang að vinnu á vegum verkefnisins á þeim jörðum er þeir sitja. Forgang að annarri vinnu á vegum Héraðsskóga skulu þeir bændur hafa sem láta af sauðfjárrækt samhliða aðild sinni að Héraðsskógum. Að þeim frágengnum hafa aðrir bændur, sem aðild eiga að Héraðsskógum, forgang að vinnu við verkefnið.
     Þá skulu ábúendur jarða, sem aðild eiga að Héraðsskógum, eftir því sem við verður komið, hafa forgang að vinnu sem tengist skógræktinni, svo sem ýmiss konar þjónustustörfum eða úrvinnslu úr afurðum skóganna.
    Þá skulu þær jarðir, þar sem sauðfjárbúskapur dregst verulega saman eða er lagður niður, hafa forgang að verkefninu umfram aðrar jarðir.
    Ef gerðir eru samningar milli ríkisvaldsins og sauðfjárbænda, sem aðild eiga að verkefninu, um að láta af sauðfjárrækt eða draga hana verulega saman til lengri tíma skulu slíkir bændur og jarðir þeirra hafa forgang að vinnu og þátttöku í verkefninu.

7. gr.


     Stjórn Héraðsskóga eða framkvæmdastjóri í umboði hennar annast daglegan rekstur. Skógrækt ríkisins veitir Héraðsskógum aðstoð og faglegar leiðbeiningar samkvæmt samstarfssamningi er aðilar gera þar um.

8. gr.


     Ársskýrsla og ársreikningar Héraðsskóga skulu samþykkt af stjórn og staðfest af landbúnaðarráðherra. Þar komi m.a. fram staða framkvæmda á hverjum tíma og yfirlit yfir ráðstöfun fjármuna.
     Reikninga Héraðsskóga skal birta í Stjórnartíðindum , endurskoðaða af Ríkisendurskoðun.

9. gr.


     Að öðru leyti en greinir í lögum þessum fer um ræktun og meðferð Héraðsskóga eftir ákvæðum skógræktarlaga, nr. 3/1955, eftir því sem við á.
     Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði er nauðsynleg þykja um framkvæmd laga þessara.

10. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Alþingi samþykkti 11. maí 1988 ályktun þar sem landbúnaðarráðherra er falið að láta semja tíu ára áætlun um eflingu skógræktar á Fljótsdalshéraði og skyldi áætlunin m.a. taka til ræktunar nytjaskóga og viðhalds og hirðingar skóglendis sem fyrir er. Í ágúst sama ár skipaði landbúnaðarráðherra nefnd til þess að vinna að framgangi ályktunarinnar og skilaði nefndin skýrslu í nóvember 1988. Hinn 7. mars 1989 skipaði ráðherra síðan verkefnisstjórn um eflingu skógræktar á Fljótsdalshéraði sem tók við af fyrrgreindri nefnd.
    Fyrstu tillögur verkefnisstjórnar lágu fyrir í maí og 27. maí 1989 samþykkti ríkisstjórnin eftirfarandi:
    „Ríkisstjórnin ákveður að hrinda í framkvæmd stórátaki í ræktun nytjaskóga á Fljótsdalshéraði sem miði að því að fullnýta skógræktarland þar á næstu 40 árum. Á þessu ári verður varið 12 milljónum króna til undirbúningsvinnu og byrjunarframkvæmda, svo sem kortlagningar, áætlanagerðar, undirbúnings plöntuframleiðslu, hirðingar skóglendis og undirbúnings að flutningi aðalstöðva Skógræktar ríkisins.
    Stefnt skal að því að frumáætlun um ræktun og kostnað liggi fyrir 1. október nk.“
    Þegar fyrrgreind samþykkt lá fyrir var hafist handa við undirbúningsvinnu og nánari tillögugerð af hálfu verkefnisstjórnar, sjá fskj. I. Verkefnisstjóri var ráðinn í ágúst og í september voru tillögur um fyrirkomulag skógræktarátaksins Héraðsskóga kynntar ráðherra og sendar á alla bæi í hreppunum sex sem ætlað er að átakið nái að einhverju leyti til, sjá fskj. II. Frumáætlun um ræktun og kostnað næstu tíu árin var síðan lögð fyrir fjárveitinganefnd Alþingis í nóvember. Áætlunin var endurskoðuð í mars 1990, sjá fskj. III. Þá lágu einnig fyrir drög að samningum milli einstakra bænda og Héraðsskóga og byggja þau á því að frumvarp þetta verði að lögum, sjá fskj. IV. Frumvarpið er nær óbreytt frá því sem lagt var fram á síðasta þingi en við hefur bæst starfsskýrsla verkefnisins frá janúar til september 1990, sjá fskj. I B.
    Markmiðið með ræktun Héraðsskóga er að rækta, þar sem skilyrði eru til á Fljótsdalshéraði, nytjaskóg, þ.e. skóg sem skilar afurðum í framtíðinni, jafnframt því að bæta aðstæður annarra atvinnugreina og ræktunar og þar með efla atvinnulíf og treysta byggð á Héraði.
    Tilgangur sérstakrar lagasetningar um Héraðsskóga er að marka stefnu og heildaráætlun um þetta átaksverkefni í skógrækt. Um er að ræða verkefni sem yrði byggt á langtímasamningum fjölmargra einstaklinga við ríkisvaldið og því nauðsynlegt að umboð þeirra, sem frá málum ganga fyrir hönd ríkisins, sé sem skýrast og einstakir bændur hafi sem öruggastan grunn að byggja á er þeir taka ákvarðanir sem binda nýtingu jarða þeirra í framtíðinni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin skýrir tilgang og markmið frumvarpsins og skilgreinir hvað Héraðsskógar eru.

Um 2. gr.


     Greinin kveður á um fjármögnun Héraðsskóga og stjórn og hlutverk hennar.

Um 3. gr.


     Gert er ráð fyrir að unnin verði 40 ára áætlun um ræktun nytjaskóga á Fljótsdalshéraði. Áætlunin skiptist í tíu ára tímabil en af hálfu sérfræðinga Skógræktar ríkisins er lögð áhersla á að heildaráætlun nái til a.m.k. 40 ára þar sem við ræktun nytjaskóga er nauðsynlegt að eðlileg hringrás náist í ræktuninni svo að nýting timburs úr skógunum verði hagkvæm. Gera verður sérstaka áætlun fyrir hverja jörð sem gerist aðili að Héraðsskógum.
    Ræktun skóganna er ætlað að byggja á samningum sem hver einstakur eigandi eða ábúandi með samþykki eiganda gerir við Héraðsskóga og landbúnaðarráðherra staðfestir fyrir hönd ríkisins. Tekin eru fram helstu atriði sem nauðsynlegt er að fram komi í samningunum. Samningarnir mega í heild ná til ræktunar 15.000 ha lands á 40 ára tímabili og takmarkast heimild landbúnaðarráðherra til staðfestingar samninga við þá landstærð.

Um 4. gr.


     Greinin kveður á um þann kostnað við Héraðsskóga sem greiðast skal úr ríkissjóði. Annars vegar er um að ræða almennan rekstrarkostnað, þ.e. undirbúning verkefnisins og síðan rekstur og laun stjórnar og fastra starfsmanna. Gera verður ráð fyrir að til að byrja með verði um nokkurn undirbúningskostnað að ræða meðan verkefnið er að komast á skrið, t.d. vegna gagnasöfnunar, þróunarvinnu og áætlanagerðar. Af föstum starfsmönnum er fyrst og fremst reiknað með framkvæmdastjóra, en þar sem gert er ráð fyrir að Héraðsskógar hafi ætíð í sinni þjónustu skógfræðimenntaðan mann gæti komið til þess að um tvo starfsmenn yrði að ræða. Ljóst er að þörf fyrir faglega aðstoð við bændur verður umtalsverð fyrst um sinn á meðan verkþekking í þessari nýju búgrein er að eflast. Erfiðara er að spá um framhaldið en það getur m.a. ráðist af þróun í úrvinnslu afurða skóganna.
    Hins vegar er tekið fram að skógrækt á jörðum, sem eru í ábúð, verði greidd 90% úr ríkissjóði, en 70% kostnaðar við skógrækt á eyðijörðum. Ljóst er að bændur á þessu svæði hafa fæstir bolmagn til þess að leggja af takmörkuðum launum sínum í fjárfestingu sem ekki er að vænta að skili arði í búskapartíð þeirra. Margir hverjir hafa engan eða mjög lítinn fullvirðisrétt til sauðfjár - eða mjólkurframleiðslu og þurfa því á öðrum verkefnum að halda sem skila reglubundum tekjum.
    Á eyðijörðum er aftur á móti ekki talin ástæða til meira en 70% fjármögnunar af hálfu ríkissjóðs þar sem eigendur þeirra hafa væntanlega sínar tekjur annars staðar og ekki er um það að ræða að verið sé að gera mönnum kleift að halda jörðum í byggð. Engu að síður er mikilvægt að eyðijarðir, einkum þær sem falla innan samfelldra skógræktarsvæða, séu þátttakendur í ræktuninni til þess að jaðaráhrif verði í lágmarki auk þess sem ætla má að í mörgum tilfellum skapi ræktun þar atvinnu fyrir bændur.
    Í öllum tilvikum er gert ráð fyrir að um sé að ræða samþykktan kostnað, þ.e. kostnað sem byggir á mati Héraðsskóga og Skógræktar ríkisins á eðlilegum útgjöldum við einstaka ræktunarþætti og samþykkt hefur verið af landbúnaðarráðuneytinu. Sem dæmi má nefna að gert er ráð fyrir að vinna við skógræktina verði greidd samkvæmt kjarasamningum ASÍ. Gert er ráð fyrir að ræktunarkostnaður verði greiddur af Héraðsskógum þar til fyrstu grisjun hvers ræktunaráfanga er lokið.

Um 5. gr.


     Í greininni er sagt fyrir um hvernig fara skuli með tekjur af skógunum eftir að fyrstu grisjun er lokið. Gert er ráð fyrir að hver jörð hafi sérstakan sjóð eða endurnýjunarreikning í vörslu Héraðsskóga og þeim fjármunum, sem þangað koma, verði varið til endurnýjunar skóglendis á viðkomandi jörð. Eins og sakir standa er ekki reiknað með að fyrsta grisjun skóganna skili tekjum umfram gjöld, en fari svo er þeim hagnaði ætlað að renna óskiptum á endurnýjunarreikning jarðarinnar. Þegar að síðari grisjunum og skógarhöggi kemur skulu allt að 5% af heildarframleiðsluverðmæti lögð á endurnýjunarreikninginn. Þetta gjald skal nánar ákveðið í reglugerð með hliðsjón af kostnaði við endurnýjun skóglendis á hverjum tíma. Verði um að ræða tekjuafgang að öllum kostnaði greiddum skulu 15% af honum greidd til ríkissjóðs. Því fé, sem fellur til ríkissjóðs með þessum hætti, skal varið til ræktunar nýrra skóga á Íslandi.
    Ógerlegt er að segja fyrir um framtíðararðsemi væntanlegra Héraðsskóga, þar verður einungis byggt á líkum. Nokkrar tilraunir hafa þó verið gerðar til þess að meta arðsemi íslenskrar nytjaskógræktar. Má þar nefna grein Baldurs Þorsteinssonar frá 1968, „Útreikningur á kapítalverðmæti lerkis“, sem gefur til kynna 4 6% arðsemi og einnig skýrslu Einars Gunnarssonar og Ragnars Árnasonar til landbúnaðarráðuneytisins í janúar 1987, en þar eru innri vextir fjárfestingar í greni - og asparskógi áætlaðir 2 3%. Sjá einnig töflu 7.5. í viðauka 1 um vaxtargetu skógræktarsvæðis á Fljótsdalshéraði.

Um 6. gr.


     Þessi grein kveður á um forgang að vinnu við Héraðsskóga. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að ábúendur jarða eigi alltaf forgang að þeirri vinnu sem í boði er á jörðinni. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að vinna, sem ábúendur nýta sér ekki sjálfir, standi fyrst til boða þeim bændum sem hætta sauðfjárrækt samhliða því að þeir gerast þátttakendur í Héraðsskógum. Að þessum tveimur atriðum uppfylltum skulu aðrir bændur, sem gert hafa ræktunarsamninga við Héraðsskóga, hafa forgang að vinnu við verkefnið, sem og vinnu sem því tengist, verði því við komið. Þegar um forgang að vinnu er að ræða er gert ráð fyrir að allir þeir, sem lögheimili og búsetu hafa á jörðum sem hér er vísað til, falli undir forgangsákvæðin, en ekki bara skráður ábúandi.
    Í þriðja lagi hafa jarðir þær, sem hætta eða draga verulega úr sauðfjárbúskap, möguleika á að njóta forgangs við sjálfa skógræktarframkvæmdina. Þarna gefst bændum og ríkisvaldi svigrúm til samninga um samdrátt í sauðfjárbúskap gegn forgangi við skógræktarframkvæmdir.

Um 7. gr.


     Hér kemur fram að Héraðsskógar og Skógrækt ríkisins skulu gera með sér samstarfssamning þar sem aðstoð og faglegar leiðbeiningar og önnur afskipti Skógræktar ríkisins af Héraðsskógum verða ákvarðaðar nánar.

Um 8. gr.


     Greinin kveður á um gerð ársskýrslu og ársreikninga og hvernig með skuli farið.

Um 9. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringa.



    REPRÓ af fylgiskjölum.