Ferill 297. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 297 . mál.


Sþ.

723. Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um undirbúning vegna álbræðslu.

    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
     Hver er orðinn heildarkostnaður við undirbúning Atlantal-álbræðslu frá því samningur um hagkvæmnikönnun var undirritaður 4. júlí 1988:
         
    
     á vegum iðnaðarráðuneytis,
         
    
     á vegum Landsvirkjunar,
         
    
     á vegum markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytis og Landsvirkjunar?
     Hversu miklu fjármagni hefur Landsvirkjun þegar varið til einstakra þátta eða ákveðið ráðstöfun á til undirbúnings virkjana og stofnlína á grundvelli heimilda í lögum nr. 74/1990?
     Hvaða verksamningar hafa verið gerðir eða eru í undirbúningi á vegum Landsvirkjunar vegna virkjanaundirbúnings í þágu Atlantal-álbræðslu? Óskað er eftir yfirliti um hvern verksamning eða tilboð, umsamið verð eða kostnaðaráætlun eftir því á hvaða stigi útboð er.
     Hvaða fyrirvarar eru í verksamningum með tilliti til þess að samningar verði ekki gerðir um álbræðslu eða upphaf framkvæmda frestist frá því sem iðnaðarráðuneyti og Landsvirkjun hafa lagt til grundvallar í áætlunum?
    Beðið er um kostnaðartölur á verðlagi hvers tíma og færðar til verðlags í ársbyrjun 1991.

    


Tafla í gut








    Upphæðir eru í þúsundum króna. Notuð er byggingarvísitala til að færa kostnað til verðlags í desember 1990 (byggingarvísitala 174,1). Í upphæðinni hefur ekki verið áætluð hlutdeild Atlantsálsverkefnisins í launum starfsmanna og í öðrum föstum kostnaði. Verulegur hluti kostnaðar markaðsskrifstofunnar árið 1990, eða um 20 millj. kr. er vegna staðarvals- og umhverfisathugana, en gert er ráð fyrir að Atlantsál hf. endurgreiði verulegan hluta þess kostnaðar þegar samningar hafa tekist.

     Landsvirkjun hefur á árinu 1990 varið alls 367,0 millj. kr. á verðlagi í desember 1990 til undirbúnings virkjana og stofnlína á grundvelli heimilda í lögum nr. 74/1990, sbr. eftirfarandi sundurliðun:


tafla í gut








    Framangreind heildarfjárhæð nemur um 330 millj. kr. á verðlagi hvers tíma og er það nokkru hærri fjárhæð en heimiluð var í bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 74/1990, um breytingu á lögum um raforkuver, en ráðuneytið vísaði að sjálfsögðu til þess ákvæðis er það veitti heimild fyrir framkvæmdum 17. júlí 1990.

     Til þess að hægt verði að tryggja orkuafhendingu til nýrrar álbræðslu í árslok 1994 hefur Landsvirkjun unnið að undirbúningi útboða á virkjunum og háspennulínum og hafið byrjunarframkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun. Eftirtaldir tveir verksamningar hafa verið undirritaðir vegna þessara framkvæmda að undangengnu útboði:

Verksamningur um vinnuvegi á Fljótsdalsheiði samkvæmt útboðsgögnum FDO-11.


    Um er að ræða veg frá Grenisöldu inn að Laugará og vegi að fyrirhuguðum hliðargöngum við Ljósá og Laugará. Samið var við lægstbjóðanda, Klæðningu hf., Garðabæ. Samningsupphæð er 47,7 millj. kr. Verkinu var að mestu lokið í desember 1990.

Verksamningur um aðkomugöng að stöðvarhúsi samkvæmt útboðsgögnum FDV-61.


    Verkið var boðið út í nóvember 1990, en í útboðsgögnunum er gert ráð fyrir að því sé skipt í þrjá sjálfstæða verkáfanga, a) gangamunn ásamt 100 m göngum, b) 500 m göng, c) 1.000 m göng. Samið var við lægstbjóðanda, Höjgaard & Schultz a/s, Danmörku, í samvinnu við Klæðningu hf., Gunnar og Guðmund sf., Garðabæ og Ármannsfell hf., Reykjavík, um fyrsta áfanga verksins, þ.e. verkáfanga a. Samningsupphæð er 44,8 millj. kr. en verkinu á að ljúka vorið 1991. Verktaki er bundinn af tilboði sínu í áfanga b og c til 20. mars 1991.

    Ekki hefur verið gengið frá samningum um kaup á vél- og rafbúnaði (BFO-01-03) í stækkun Búrfellsvirkjunar, en fyrirtæki, sem Landsvirkjun telur hagkvæmast að semja við um þessi verk, hafa framlengt gildistíma tilboða sinna til 1. apríl 1991.
    Í framhaldi af þeim útboðum, sem hér eru talin upp, koma útboð á háspennulínum og tengivirkjum. Fyrstu útboð vegna háspennulínu eru áætluð vorið 1991, en þar er lagning vegslóða meðfram hluta Fljótsdalslínu 1 (Fljótsdalur - Akureyri) og Búrfellslínu 3 (Búrfell - Svartárkot), en í kjölfarið koma síðan steypa á undirstöðum, jarðvinna, útboð á efni, samsetning og reising mastra, strenging leiðara o.fl. Þessi útboð dreifast á fjögurra ára tímabil 1991 1994. Framkvæmdir við tengivirki hefjast ekki fyrr en á árinu 1993.
    Undirbúningur Landsvirkjunar vegna virkjanaframkvæmda miðast við eftirfarandi útboðsáætlun:






tafla í gut.





















    Vegna viðskiptalegra hagsmuna Landsvirkjunar er einungis unnt að greina frá áætluðu verði í þau verk þar sem útboðsfrestur er liðinn.

     Eins og komið er fram hér á undan hafa tveir verksamningar þegar verið undirritaðir vegna byrjunarframkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Engir fyrirvarar eru í þessum samningum og er öðru verkinu nær lokið, þ.e. vegagerð á Fljótsdalsheiði, en hinu, vinnu við fyrsta áfanga aðkomuganga (100 m göng), lýkur vorið 1991.

    Með útboðsgögnum, sem þegar hafa verið send út eða verða send út á næstunni vegna umræddra framkvæmda, fylgir bréf þar sem væntanlegum bjóðendum er gert ljóst að tilboðstaka og undirritun verksamninga sé háð því að samkomulag náist um byggingu Atlantal - álbræðslunnar og nauðsynlegum heimildum Alþingis og stjórnvalda.