Ferill 362. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 362 . mál.


Sþ.

762. Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Jóns Kristjánssonar um lagningu háspennulínu frá Fljótsdal til Norðurlands.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig var háttað undirbúningi ákvarðanatöku um hönnun háspennulínu frá væntanlegri Fljótsdalsvirkjun til Eyjafjarðar, og samráði við Náttúruverndarráð og náttúruverndarsamtök þeirra landshluta sem línan liggur um, vegna þessarar framkvæmdar?
     Eru uppi áform hjá Landsvirkjun um að endurskoða ákvörðun um línustæði sunnan Herðubreiðar?
     Hver er kostnaðarmunur á lagningu háspennulínu sunnan Herðubreiðar eða á línustæði norðar sem næst núverandi byggðalínu?
     Hvað er lagning vega áætlaður stór hluti af kostnaði við línulögnina?

    1. Fyrstu hugmyndir að línuleið frá fyrirhugaðri Fljótsdalsvirkjun til Akureyrar er að finna í skýrslu raflínunefndar, fjórðu framvinduskýrslu, dagsettri í nóvember 1985. Á fundi raflínunefndar í ársbyrjun 1979 er rædd hugmynd að þessari línuleið. Í nefndinni, sem skipuð var af iðnaðarráðherra, eiga sæti fulltrúar frá Orkustofnun, Landsvirkjun, Rafmagnsveitum ríkisins og Veðurstofu Íslands.
    Tillaga raflínunefndar gerir ráð fyrir að línan liggi frá fyrirhuguðu stjórnhúsi virkjunarinnar í Norðurdal inn af Fljótsdal niður dalinn að Bessastöðum, þveri Fljótsdalsheiði og fari yfir Jökulsá á Brú nokkuð neðan við Eiríksstaði í Jökuldal. Línunni var síðan ætlað að liggja rétt sunnan Þríhyrningsvatns um Ytramynni og þvera Kreppu við Þorlákslindir, liggja sunnan Herðubreiðar og Kollóttudyngju um Ódáðahraun og Suðurárhraun og norður Bárðardal að vestanverðu. Línunni var síðan ætlað að liggja um Hellugnúpsskarð og þaðan að fylgja Kröflulínu 1 og liggja henni samsíða eftir endilöngum Fnjóskadal í Bíldsárskarð. Frá Bíldsárskarði vestanverðu var línunni ætlað að liggja til suðurs ofan við byggð í Kaupangshverfi suður fyrir Garðsá og þvera Eyjafjörð og Eyjafjarðará á móts við fjárrétt sveitarinnar. Línan lægi síðan ofan við Kjarnaskóg og færi sem leið liggur í tengivirki Landsvirkjunar að Rangárvöllum við Akureyri. Línuleið sú, sem lýst er hér að framan, var kynnt Náttúruverndarráði á fundi í febrúar 1983.
    Í fimmtu framvinduskýrslu raflínunefndar dagsettri í febrúar 1990 er sama línuleið sýnd frá Fljótsdalsvirkjun vestur í Bárðardal.
    Skýrslur raflínunefndar eru opinber gögn og hefur þeim verið dreift til fjölmargra aðila sem beint eða óbeint hafa hagsmuna að gæta varðandi lagningu háspennulína.
    Eftir að ákveðið var á árinu 1989 að hefja undirbúning að byggingu Fljótsdalsvirkjunar vegna orkuöflunar fyrir nýtt álver hefur Landsvirkjun unnið að enn frekari athugun á þessari línuleið jafnframt því sem aðrar línuleiðir voru kannaðar.
    Náttúruverndarráði voru kynntar áætlanir Landsvirkjunar og síðla sumars 1989 var farinn leiðangur eftir umræddri línuleið. Í honum tóku þátt starfsmenn Landsvirkjunar og verkfræðilegir ráðgjafar fyrirtækisins auk starfsmanns Náttúruverndarráðs.
    Allnokkrar breytingar voru gerðar á línuleiðinni í þessum leiðangri sem leiddi til þeirrar niðurstöðu um legu línunnar sem með formlegum hætti var send Náttúruverndarráði til umsagnar með bréfi Landsvirkjunar dagsettu 5. desember 1989. Jákvæð umsögn ráðsins barst Landsvirkjun með bréfi dagsettu 10. janúar 1990. Á meðfylgjandi skjali er nákvæm lýsing á þeirri leið sem endanlega varð fyrir valinu.
    Tekið skal fram að Landsvirkjun kynnti í júlí 1989 hugmyndir að línuleiðinni forsvarsmönnum þeirra sveitarfélaga sem hlut áttu að máli auk viðkomandi landeigenda. Þá gekkst Landsvirkjun fyrir kynningu á Fljótsdalslínu 1 á almennum borgarafundum í Valaskjálf á Egilsstöðum, Skjólbrekku í Mývatnssveit og í Freyvangi í Eyjafjarðarsveit í janúar og febrúar á þessu ári.
    Þeir aðilar sem Landsvirkjun hefur haft samráð við vegna málsins eru Náttúruverndarráð, Skipulag ríkisins og viðkomandi landeigendur og sveitarstjórnir og hafa samskipti verið með þeim hætti sem að framan er lýst.
    Landsvirkjun hefur með bréfi dagsettu 20. desember 1990 farið þess á leit við Skipulag ríkisins að það hlutist til um að línuleiðin verði auglýst í samræmi við skipulagslög og leiðin verði staðfest sem skipulag.
    Landsvirkjun hefur ekki kynnt náttúruverndarsamtökum í einstökum landshlutum þessa línuleið, enda talið það hlutverk Náttúruverndarráðs að standa fyrir slíkri kynningu.

    2. Landsvirkjun hefur haft að leiðarljósi að velja Fljótsdalslínu sem bestu leið frá Fljótsdalsvirkjun til Akureyrar og í því sambandi haft til margvíslegrar athugunar ýmsa þætti sem varða öryggi línunnar, svo sem ísingu, legu í landi, eldgosahættu auk ýmissa hagvæmnisatriða, svo sem kostnað og áhrifa á gróður. Þá hefur Landsvirkjun með eðlilegum hætti haft samráð við þá aðila sem lögum samkvæmt ber að hafa samráð við.
    Með hliðsjón af framansögðu mun Landsvirkjun ekki hafa frumkvæði að endurskoðun á línuleiðinni.

    3. Yrði Fljótsdalslínu 1 valin leið meðfram byggðalínu frá Fljótsdalsvirkjun um Fljótsdalsheiði og Jökuldalsheiði um Mývatnssveit að Hellugnúpsskarði lengist línan um 8 kílómetra.
    Þar að auki hefði þessi breyting það í för með sér að Búrfellslína 4 (Sprengisandslína) mundi lengjast um 23 kílómetra (frá Svartárkoti norður Bárðardal að Sunnuhvoli) að nýju tengivirkisstæði Fljótsdalslínu 1 og Búrfellslínu 4 á móts við Sunnuhvol. Þessi lenging beggja línanna mundi auka kostnað um 450 millj. kr. miðað við óbreytta leið Fljótsdalslínu 1 sunnan Herðubreiðar.

    4. Kostnaður við lagningu vegslóða meðfram Fljótsdalslínu 1 er áætlaður 10 15% af heildarkostnaði við línuna eða um 300 400 millj. kr.

    Kostnaðartölur í þessari greinargerð eru á verðlagi í desember 1990.



Fylgiskjal.


Fljótsdalslína 1.



220 kV háspennulína.


Fljótsdalsvirkjun Rangárvellir Akureyri.


Leiðarlýsing.



    Línunni er ætlað að liggja frá aðkomugangamunna Fljótsdalsvirkjunar inn undir Teigsbjargi í Norðurdal. Þaðan upp á bjargbrún Teigsbjargs og síðan norðvestur yfir Fljótsdalsheiði fyrir norðan Gilsárvötn og Eyvindarfjöll. Línan kæmi niður í Jökuldal nærri ármótum Hölknár og Jökulsár á Brú og þverar þá síðarnefndu skammt austan Brúar. Þaðan lægi hún upp á Fiskidalsháls norðan Brúar með stefnu fyrir sunnan Þríhyrning og sveigir þar til suðvesturs um Fremramynni og þverar Kreppu og Jökulsá á Fjöllum skammt sunnan Kreppubrúar. Þaðan lægi línan rétt sunnan Herðubreiðartagla, sveigði þar til norðvesturs fyrir norðan Vikrafell, færi syðst í rótum Svörtudyngju norðan við Stórukistu og um Fjárhóla. Línan lægi um Útbruna og Frambruna sunnan Suðurárbotna og um Suðurárhraun. Þar sveigði línan til norðurs, þveraði Suðurá suðvestan við Svartárkot, færi austan í Háutungum, þveraði Svartá austan við Svartárgil með stefnu fyrir ofan Bjarnastaði og Rauðafell. Þaðan sveigði línan vestur fyrir Kálfborgarárfell og austan við Brunnvatn og Brunnfell og sveigði síðan til vesturs um 2 km fyrir norðan Brunnfell. Þar mundi línan þvera Bárðardal norðan við Sunnuhvol og sunnan við Hlíðskóga um Vallafjall og kæmi að Kröflulínu 1 í Hellugnúpsskarði. Línan lægi sunnan og vestan við, samsíða Kröflulínu 1 um Fnjóskadal allt í Bíldsárskarð. Þar þveraði hún Kröflulínu 1 og lægi norðan við hana á um tveggja kílómetra kafla, en færi síðan suður fyrir hana á ný. Þegar hún kæmi vestur úr Bíldsárskarði sveigði línan frá Kröflulínu 1 til suðurs og lægi í brekkurótum fyrir ofan Brekku, Hjarðarhaga og Syðrahól og færi yfir Þverá á milli bæjanna Garðsár og Syðra - Hóls og kæmi þar saman á einni staurastæðu við Búrfellslínu 4 (Sprengisandslínu). Línurnar lægju síðan saman til norðvesturs rétt norðan Þverár yfir Eyjafjarðará skammt norðan við hitaveitulögnina. Línurnar færu upp á hjallana norðan við Vagla og ofan við Kjarnaskóg, vestan við Miðhúsaklappir og ásamt fleiri línum að aðveitustöð við Rangárvelli á Akureyri.