Flugmálaáætlun 1992--1995

94. fundur
Miðvikudaginn 04. mars 1992, kl. 15:19:00 (3970)

     Þuríður Backman :
    Virðulegi forseti. Ákvörðun um staðsetningu varaflugvallar var mörkuð með því að undirbyggja Egilsstaðaflugvöll með tilliti til lengingar síðar. Hv. 3. þm. Suðurl., Árni Johnsen, nefndi hérna tölur og ef ég tók rétt eftir voru það 300 millj. sem voru aukalega settar í völlinn með endurhönnun svo völlurinn gæti borið þyngri vélar sem þyrftu þá 2.400 m braut. Þessar 300 millj. hefði ekki þurft að leggja út eða kosta til þess að leggja núverandi 2.000 m braut. Því tel ég, og get tekið undir orð hæstv. samgrh., að það eigi að fara vel með almannafé og það sé illa farið með okkar fé ef endurskoða á áætlun Flugmálastjórnar og byggja upp varaflugvöll fyrir millilandaflug annars staðar. Þá erum við búin að kasta þeim peningum á glæ sem þegar er búið að kosta til að undirbyggja þennan völl.
    Miklar athuganir hafa verið gerðar um staðsetningu varaflugvallar fyrir millilandaflug, bæði hvað varðar veðurfar og aðra þætti. Sem betur fer kom Lagarfljótið lítið inn í þá mynd því að þó svo völlurinn yrði lengdur í 2.700 m, þá sleppur hann við það að lenda úti í Lagarfljóti en vissulega þarf þá að breyta vegarstæðinu. Aðrar hindranir sem hv. þm. Árni Johnsen nefndi hér áðan, svo sem landakaup, hafa alltaf legið fyrir og eru varla meiri en yrðu í öðrum fjórðungum. En eins og ég nefndi í stuttu andsvari í gær, tel ég að svo háir liðir eins og þessi liður sem er uppbygging nýs flugvallar eigi að vera sérliðir á fjárlögum. Það er hægt að kalla þetta forgangsverkefni eða annað, en ef farið er í verkefni eins og þetta, þá tel ég að það eigi að standa myndarlega að því og ljúka því í staðinn fyrir að dreifa áfram fé þannig að það sé verið að smálagfæra hér og þar. Ef langtímaáætlun er lögð fram og vel er að henni staðið og hún faglega unnin og ef það er hægt að treysta því að hún stendur, þá veit ég að við sem búum í öðrum landshlutum, sem fáum ekki þetta sérstaka framtak í okkar landshluta, munum bíða róleg eftir því að það komi að uppbyggingu á okkar svæði.
    Ég vil bara enn og aftur leiðrétta misskilning hjá hæstv. samgrh. að ég hef hvorki sjálf hér í gær né heyrt frá öðrum þingmönnum Austurl. þann tón að við séum að kvarta undan því stóra framlagi sem ætlað er að komi í okkar fjórðung. Við erum náttúrlega ánægð með það en það er bara spurningin um að taka völlinn í notkun eftir að búið er að malbika hann. Með þetta mikla fjármuni og með svo stórt framtak í huga sem þetta er, þá held ég að peningunum sé illa varið að koma flugvellinum ekki í notkun.
    En það er ekki bara þessi flugvöllur. Við erum ánægð með úthlutunina í ár og næsta ár en við vildum líka fá að sjá annað en tóm núllin í áætluninni fyrir 1994 og 1995 svo að Austfirðingar geti búið sig undir það að fá völlinn í fulla notkun og með þeirri uppbyggingu sem er í kringum slíkan völl. Það er ekki bara flugvöllur. Þetta varðar allt atvinnulíf á Austfjörðum og í fjórðungnum.
    Hæstv. samgrh. nefndi réttilega að það verði að horfa til allra þátta í samgönguleiðum, þ.e. í lofti, láði og legi, til þess að ná skynsamlegri nýtingu og hagræðingu. Þetta er auðvitað rétt og sérstaklega núna þegar framkvæmdafé er svo lítið sem raun ber vitni.