Almennar stjórnmálaumræður

140. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 21:45:33 (6273)



     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti, góðir áheryendur. Nýlega kom fram í Morgunblaðinu að bandarískt þjóðfélag væri í vaxandi mæli að skiptast í tvennt, hina ríku og hina fátæku, og millistéttin væri að hverfa. Þar kom fram að hlutur 1% efnuðustu fjölskyldnanna hafi á sex árum aukist úr 31% í 37% af heildareign meðan hlutur annarra hafi minnkað og í stefni að 4% hinna hæst launuðu hafi sömu heildarlaun og 60% launamanna í landinu. Því er haldið fram að í Bandaríkjunum standi yfir mesta eignatilfærsla í sögu Bandaríkjanna. Þessa þróun megi rekja til leikreglna sem þingið og ríkisstjórn setji. Meðal annars hafi skattkerfinu verið breytt þannig að það sé millistéttinni mjög óhagstætt en auðveldi tekjuháum einstaklingum svo og fyrirtækjum að komast hjá skattgreiðslum. Með löggjöf sem sett hafi verið hafi sérhagsmunahópum tekist að tryggja stöðu sína og tekjuháu fólki sé gert kleift að komast létt frá skattgreiðslum, þó alveg sérstaklega fyrirtækjunum sjálfum. Margvísleg fjármálalöggjöf hafi einnig gert fjármálasnillingum kleift að hagnast gífurlega á kostnað fátækra. Í leiðara Morgunblaðsins var því síðan haldið fram að bandarískt þjóðfélag væri

að rotna innan frá og þar væri þörf á miklum þjóðfélagsumbótum.
    Með þessum orðum er ég ekki að jafna íslensku þjóðfélagi við það bandaríska. En þegar borið er saman bilið í eigna- og tekjuskiptingunni milli ríkra og fátækra í íslensku þjóðfélagi, sem fer vaxandi, þá spyr þjóðin réttilega eins og sú bandaríska: Eru leikreglurnar réttar sem eru settar í þessari virðulegu stofnun? Er ekki þörf á nýjum, réttlátari leikreglum sem brúa bilið milli ríkra og fátækra, leikreglum sem skipta þjóðarkökunni réttlátar, bæði milli landsmanna og landshluta? Erum við að fara inn á braut stéttaskiptingar og vaxandi tekju- og eignamunar eins og í Bandaríkjunum sem virðist vera að rotna inna frá? Á hvaða leið er íslenskt þjóðfélag þegar ríkasta sveitarfélag landsins þarf að fara að úthluta matargjöfum til sveltandi gamalmenna, vegalausra unglinga og utangarðsfólks?
    Vísbendingu um svarið við spurningunni um hvort þjóðfélag okkar sé að rotna frá eins og það bandaríska má e.t.v. sjá þegar borin er saman dreifing atvinnutekna hér á landi 1987--1990. Athyglisvert er að sömu tilhneigingar gætir hér og í Bandaríkjunum. Hlutur þeirra tekjuhæstu hefur vaxið en hlutur meðal- og lágtekjufólks minnkað. Á árinu 1990 voru launatekjur þess fimmta hluta á vinnumarkaðnum sem hæstar höfðu tekjurnar tæp 44% af heildaratvinnutekjum, meðan hlutur þess fimmta hluta fólks á vinnumarkaði sem lægstar hafði tekjurnar var innan 4%. Ef borin er saman dreifing atvinnutekna kvæntra karla, 25--65 ára, kemur í ljós fjórtánfaldur munur --- fjórtánfaldur munur á tekjum þeirra hæst- og lægstlaunuðu samkvæmt skattframtölum.
    Þessi munur er meiri ef undandráttur frá skatti væri í þessum samanburði. Hver er hann? Ef notaður er sami mælikvarði og notaður var í úttekt á skattsvikum árið 1985 má áætla að skattaundandráttur sé ekki undir 18 milljörðum króna. Þetta er hærri fjárhæð en allur tekjuskattur sem einstaklingar og félög greiða og hærri fjárhæð en öll útgjöld til menntamála og húsnæðismála úr ríkissjóði. Á hvaða leið er íslenskt þjóðfélag, hvar er réttlætið og sanngirnin í jöfnun á lífskjörum fólks? A.m.k. fjórtánfaldur launamunur er milli ríkra og fátækra og undandráttur frá skatti áætlaður 18 milljarðar króna.
    Fólkið í landinu vill ekki leiksýningar eins og iðulega eru settar á svið í þessari virðulegu stofnun, heldur að hér séu settar sanngjarnar leikreglur. Þessi ríkisstjórn er hvorki betri né verri en aðrar ríkisstjórnir sem hér hafa setið á undanförnum árum og áratugum. Hún hefur það vissulega sér til málsbóta, þegar hún er gagnrýnd, að hún hefur haft við að glíma stærri vanda í atvinnu- og efnahagsmálum en þekkst hefur um áratuga skeið. Á þessu ári er áætlaður mun meiri samdráttur í þjóðartekjum en nokkru sinni fyrr, eða um 23 milljarðar á föstu verðlagi í janúar sem þýðir um 410 þúsund kr. samdrátt fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu á þessu ári. Við þær aðstæður varð ríkisstjórnin að grípa til aðgerða til að verðbólga rýrði ekki kjör launafólks, lífeyrisþega eða skuldugra íbúðarkaupenda. Þar höfum við augljóst dæmi um árangur.
    Frá 1. jan. til 1. maí á sl. ári hækkaði höfuðstóll hjá íbúðareigendum, sem skulduðu fimm milljónir króna, um 170 þús. kr. Á sama tímabili 1989 um 338 þús. kr., en einungis um 11 þúsund kr. á sama tímabili á þessu ári. Engri ríkisstjórn hefur á síðustu áratugum tekist að ná viðlíka árangri fyrir skuldug heimili í landinu.
    Þó að stjórnarandstaðan gagnrýni niðurskurð á velferðarkerfinu er hún ekki marktæk. Hvar eru tillögur hennar um lausn á vandanum í efnahags- og atvinnumálum, sem er meginundirstaða velferðar í landinu? Töfralausn þeirra er skattur á fjármagnstekjur sem segir lítið til að leysa vandann og hefði engu skilað á þessu ári nema sem illa undirbúnum skatti á sparifjáreigendur. Spyrja má Ólaf Ragnar: Ef fjármagnstekjuskattur á að leysa allan vanda, af hverju var honum ekki komið þau þrjú ár sem hann var fjmrh.?
    Stjórnarandstaðan hefur heldur ekki frekar en ríkisstjórnin komið með tillögur sem stuðla að breyttri eigna- og tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Mér finnast sorglegar leiksýningar Framsfl. og Alþb. sem gagnrýnt hafa í vetur niðurskurð velferðarkerfisins. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var efnahagsvandinn ekki eins mikill og sá sem núv. ríkisstjórn glímir við en samdrátturinn nú er áætlaður þrefalt meiri en í tíð síðustu ríkisstjórnar. Samt voru uppi á borði fyrri ríkisstjórnar hugmyndir um að skerða framlög til velferðarmála, bæði með tekjutengingu lífeyris, barnabóta og álögum á sveitarfélögin í landinu. Niðurskurður í tíð Framsfl. og Alþb. kallaði líka á lokun deilda sjúkrastofnana. En verstur var þó niðurskurður Ólafs Ragnars Grímssonar en tillögur hans voru um að engin félagsleg íbúð skyldi byggð á sl. ári. Þá árás Ólafs Ragnars á láglaunafólkið tókst sem betur fer að koma í veg fyrir.
    Góðir áheyrendur. Fast að 3% atvinnuleysið sem við sjáum enn í nýjustu atvinnuleysistölum fyrir aprílmánuð er mikið áhyggjuefni. Engu að síður má bölmóður og svartsýni ekki ráða ferðinni því að forsendur hafa verið skapaðar til að treysta atvinnuöryggi og uppbyggingu atvinnulífs. Verkefni ríkisstjórnarinnar nú er að hefja öfluga uppbyggingu atvinnulífsins. Stækkun sveitarfélaganna, sem nú er áformuð, mun einnig leggja nýjan grunn að uppbyggingu atvinnulífsins á landsbyggðinni. Nú eru uppi hugmyndir um að óska eftir samstarfi við tvö til þrjú svæði á landinu þar sem sveitarfélögin mundu sameinast í mjög stórar einingar við næstu sveitarstjórnarkosningar 1994 og taka að sér ábyrgð á nokkrum verkefnum, sem í dag eru verkefni ríkisins, gegn umsaminni fjárveitingu í fjögur ár. Þegar hefur sýsluþing í Austur-Skaftafellssýslu tekið vel í slíkar hugmyndir.
    Góðir áheyrendur. Fortíðarvandann, sem velferðarkerfi fólksins er nú látið greiða fyrir, má að verulegu leyti rekja til velferðarkerfis fyrirtækja og fjármagnseigenda og til gífurlegrar offjárfestingar á undanförnum árum, mistaka í atvinnuuppbyggingu í loðdýrarækt, fiskeldi og offjárfestingu í landbúnaði og togaraflotanum. Niðurskurður í velferðarþjónustunni, sem er ekki faglega ígrundaður og reistur á heildaryfirsýn, getur líka verið dýrari þjóðfélaginu þegar upp er staðið. Skammtímasjónarmið vegna fjárlagagerðar eiga þar ekki að ráða ferðinni eins og gerst hefur í tíð margra ríkisstjórna.
    Hvers vegna er það að útgjöld til heilbrigðismála á meðal velferðarþjóða eru gjarnan há þar sem útgjöld til félagsmála eru mjög lág? Þetta á einmitt við um Ísland. Er ekki hugsanlegt að við séum að auka álagið og útgjöldin í heilbrigðismálum þegar niðurskurði er beint að félagslegri velferðarþjónustu? Bent hefur verið á að vaxandi innlagnir séu vegna geðsjúkdóma og félagslegra vandamála sem orsaki um fjórðung sjúkdóma í dag og muni vaxa í framtíðinni verði ekkert að gert. Öflug og margþætt félagsleg þjónusta, en ekki niðurskurður á henni, ætti einmitt að geta dregið verulega úr kostnaði við heilbrigðisþjónustuna.
    Virðulegi forseti. Launafólk sem enn einu sinni leggur fram stærstan skerf og fórnar mestu til að tryggja atvinnuöryggi, lága verðbólgu og vexti, gerir kröfur um leikreglur frá Alþingi sem komi í veg fyrir skattaundandrátt forréttindastétta, samþjöppun fjárhagslegs valds í þjóðfélaginu, leikreglur um jafnari tekju- og eignaskiptingu, um afnám á þeim fjölmörgu liðum í skattaívilnunum fyrirtækja og fjármagnseigenda sem hér eru miklu meiri en annars staðar. Um að vinda ofan af forréttindakerfi í dagpeningamálum, bílahlunnindum og laxveiðileyfum hjá opinberum stofnunum og um skatt á fjármagnstekjur hjá hinum raunverulegu fjármagnseigendum í þessu landi. Ég þakka áheyrnina. --- Góðar stundir.