Aðgerðir til stuðnings íslenskum skipasmíðaiðnaði

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 12:09:00 (1626)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Vegna þess sem fram kom hér hjá hv. fyrirspyrjanda 5. þm. Vesturl. um þá merku athugun og úttekt á íslenskum skipaiðnaði sem breska fyrirtækið A. P. Appeldore gerði á sínum tíma vil ég taka fram að það var fyrirrennari minn, hæstv. núv. fjmrh., sem stofnaði til þessarar athugunar en ég fylgdi henni eftir og ræddi við þetta fyrirtæki um það að þeir bættu við úttektina tillögum um það sem helst kæmi til álita að gera til úrbóta. Þeim tillögum reyndi ég síðan að fylgja eftir í fyrrv. ríkisstjórn. Sumt af því náði fram að ganga, annað ekki eins og gengur. Ég bind nú vonir við það að margt af því sem þar var lagt til, m.a. um lánshlutföll og fleira af því tagi sem hér hefur orðið að umræðuefni í dag, nái nú fram að ganga og fagna því sem fram kom hjá hv. 3. þm. Vesturl. að um þetta mál gæti nú tekist víðtæk samstaða.
    En vegna þess sem kom fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. e. þar sem hann virtist draga í efa að úr niðurgreiðslum eða styrkjum til skipaiðnaðarins drægi á hinu Evrópska efnahagssvæði á næstu árum vil ég benda á það sem er einfalt að það er fyrst með samkomulaginu um Evrópskt efnahagssvæði sem Íslendingar fá einhvern aðgang að þessu máli og Norðmenn, okkar höfuðkeppinautar í þessari grein, eru aðilar að skuldbindandi yfirlýsingum um að fella þessa styrki niður. Þetta er mjög mikils virði en auðvitað er það rétt hjá hv. 5. þm. Norðurl. e. að ekkert í þessu máli er alveg víst en þetta er þó í fyrsta sinn sem Íslendingar fá beinan aðgang að ákvörðunum um málið. Það er þannig og aðeins þannig sem alþjóðasamningar hafa gildi fyrir aðildarríki að slíkum samningum.
    Vegna þess sem kom fram hér hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. og reyndar hjá hv. 4. þm. Austurl., þá finnst mér því miður örla enn á þeirri skoðun að ríkið eigi að ábyrgjast afkomu atvinnufyrirtækja. Það á ríkið ekki að gera. Það á að reyna að skapa þeim eðlileg og hæfileg samkeppnisskilyrði en ekki að ábyrgjast afkomuna eða brúa bil í henni vegna þess sem menn ætla að gerast muni í framtíðinni. Því miður er aðalskýringin á erfiðleikunum í skipaiðnaðinum og öðrum stoðgreinum sjávarútvegs erfiðleikar sjávarútvegs. Þetta er jafneinfalt og það er sagt og þess vegna, virðulegu þingmenn, sem tekið hafa þátt í þessari umræðu, hefur eins og hv. 5. þm. Vesturl. orðaði það fjarað ört undan þessari grein á undanförnum árum. Það er einfaldlega af því að verkefnunum hefur fækkað vegna vandræða þeirra sem kaupa þau.