Ferill 24. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 24 . mál.


24. Beiðni um skýrslu



frá iðnaðarráðherra um þróun íslensks iðnaðar, án stóriðju, framtíðarhorfur og stefnu ríkisstjórnarinnar.

Frá Svavari Gestssyni, Guðrúnu Helgadóttur, Hjörleifi Guttormssyni,


Jóhanni Ársælssyni, Kristni H. Gunnarssyni, Önnu Kristínu Sigurðardóttur,


Ólafi Ragnari Grímssyni, Ragnari Arnalds og Steingrími J. Sigfússyni.



    Með tilvísun til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis óskum við undirritaðir alþingismenn eftir því að iðnaðarráðherra gefi Alþingi skýrslu um þróun hins almenna iðnaðar í landinu, án stóriðju, og um stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum iðnaðarins.
    Í skýrslunni komi fram meðal annars:
    Yfirlit yfir mannafla sem starfar í einstökum greinum iðnaðarins frá 1980 og til þessa árs samkvæmt skýrslum og áætlunum sem fyrir liggja.
    Yfirlit yfir framleiðslu iðnaðarins í heild og einstakra iðnaðargreina á föstu verðlagi á sama tímabili.
    Yfirlit yfir markaðshlutdeild iðngreinanna á sama tíma.
    Yfirlit yfir framleiðniþróun í iðnaði á sama tímabili.
    Yfirlit yfir fjármagnskostnað iðnaðarins á sama tímabili.
    Yfirlit yfir launakostnað iðnaðarins á sama tímabili.
    Yfirlit yfir stöðu samkeppnisiðnaðarins sérstaklega og samanburð á þróun hans við útflutningsiðnaðinn.
    Yfirlit yfir skiptingu iðnaðarfyrirtækja og þróun iðngreina eftir landsvæðum.
    Yfirlit yfir stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum iðnaðarins í heild og í málefnum einstakra iðngreina.
    Mat ríkisstjórnarinnar á kjörum iðnverkafólks og framtíðarhorfum.
    Þess er óskað að skýrslan verði tekin til umræðu er hún liggur fyrir og að skýrslubeiðnin verði prentuð með skýrslunni þannig að samhengi skýrslu og skýrslubeiðni verði ljóst er málið kemur til umræðu á Alþingi.

Greinargerð.


    Á undanförnum árum hefur orðið verulegur samdráttur í íslenskum iðnaði. Það sést glöggt af meðfylgjandi skjölum sem hér eru birt með skýrslu þessari til upplýsingar. Vissulega má segja að hluta þeirra spurninga, sem bornar eru fram í skýrslubeiðninni, sé svarað í yfirlitsskjölum þessum. Þó ber að taka fram að þau eru frá Félagi íslenskra iðnrekenda og vissulega verður að reikna með þeim möguleika að ríkisstjórnin hafi annað mat á forsendum iðnþróunar en Félag íslenskra iðnrekenda þó að það sé engan veginn víst.
    Markaðshlutdeild íslensks iðnaðar hefur farið mjög ört minnkandi á síðustu áratugum í ýmsum greinum.
    Með þessari greinargerð eru birt eftirfarandi fylgiskjöl:
    Minnisblað frá Félagi íslenskra iðnrekenda sem nefnist Afkoma iðnfyrirtækja árin 1989 og 1990.
    Töflur um iðnaðarframleiðslu miðað við framleiðslu 1980 = 100.
    Töflur um þróun ársverka í iðnaði frá 1975 til og með 1989.
    Töflur um markaðshlutdeild iðnaðar og breytingar á henni frá 1978 til og með 1991 eins og markaðshlutdeildin er að mati Félags íslenskra iðnrekenda.



Fylgiskjal I.


Afkoma iðnfyrirtækja árin 1989 og 1990.



    Félag íslenskra iðnrekenda kannaði sl. vor afkomu áranna 1989 og 1990 meðal nokkurra félagsmanna sinna. Í úrtakinu voru 17 fyrirtæki úr ýmsum greinum iðnaðar.
    Hagnaður af reglulegri starfsemi jókst milli áranna eða samanlagt úr 0,7% af rekstrartekjum í 3,3%. Ástæða þessa er fyrst og fremst gengishagnaður og/eða minna gengistap fyrirtækjanna á síðasta ári miðað við árið 1989. Meðalgengisvísitalan hækkaði um tæp 28% frá upphafi til loka ársins 1989 en var svo til óbreytt 1990. Þá var verðbólgan mun minni á síðasta ári miðað við 1989. Frá upphafi til loka árs hækkuðu lánskjara-, framfærslu- og neysluvöruvísitölur um 21–25% árið 1989 en aðeins um 7–8% árið 1990. Þetta kemur fram í vöxtum og verðbreytingafærslum sem lækkuðu úr 7,4% árið 1989 í 1,3% af rekstrartekjum árið 1990.
    Hlutfall hagnaðar fyrir vexti og verðbreytingafærslur lækkaði um tæp 4% milli ára en hlutfall annarra rekstrargjalda hækkaði um rúm 4%. Hlutfall hráefnisnotkunar, launakostnaðar og afskrifta var hins vegar svipað á milli ára. Veltufjárhlutfall þessara fyrirtækja var svipað milli ára eða 1,02 árið 1989 og 1,06 árið 1990.
    Þjóðhagsstofnun hefur unnið úr ársreikningum 193 iðnfyrirtækja fyrir árið 1989 og 1990 og er hér til fróðleiks birt tafla yfir niðurstöður beggja kannananna. Þá má geta þess að eiginfjárhlutfall þeirra 17 iðnfyrirtækja sem tóku þátt í könnun FÍI hækkaði úr 41% í 44% á milli ára. Eiginfjárhlutfall iðnfyrirtækjanna í könnun Þjóðhagsstofnunar hækkaði úr 36% árið 1989 í 38% árið 1990.


Félag ísl. iðnrekenda Þjóðhagsstofnun

Hlutfall af

1990

1989

1990

1989


rekstrartekjum

%

%

%

%



Hráefnisnotkun      48
,6 48 ,9 39 ,8
36 ,5
Laun og tengd gjöld      19
,2 19 ,3 25 ,8
26 ,2
Önnur rekstrargjöld      21
,8 17 ,7 22 ,8
25 ,9
Afskriftir      5
,8 5 ,9 5 ,7
5 ,3
Hagnaður fyrir vexti og verðbreytingafærslur.      4
,6 8 ,1 5 ,8
6 ,2
Vextir og verðbreytingafærslur      -1
,3 -7 ,4 -2 ,1
8 ,1
Hagnaður af reglulegri starfsemi      3
,3 0 ,7 3 ,7
-1 ,9

Fylgiskjal II.


Töflur.


(Texti ekki til í tölvutæku formi.)



Fylgiskjal III.



Töflur.


(Texti ekki til í tölvutæku formi.)




Fylgiskjal IV.


Markaðshlutdeild.





Töflur.


(Texti ekki til í tölvutæku formi.)