Ferill 35. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 35 . mál.


35. Frumvarp til laga



um stofnun hlutafélags um Skipaútgerð ríkisins.

Flm.: Jón Helgason, Finnur Ingólfsson, Guðmundur Bjarnason,


Guðni Ágústsson, Halldór Ásgrímsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson,


Jón Kristjánsson, Ingibjörg Pálmadóttir, Ólafur Þ. Þórðarson,


Páll Pétursson, Stefán Guðmundsson, Steingrímur Hermannsson,


Valgerður Sverrisdóttir.



1. gr.


    Ríkisstjórnin skal beita sér fyrir stofnun hlutafélags er heiti Skipaútgerðin hf. Í því skyni er ríkisstjórninni heimilt:
    að leggja allar eignir Skipaútgerðar ríkisins, þ.e. skip, fasteignir og allt fylgifé, til hins nýja hlutafélags,
    að ákveða fjárhæð einstakra hluta með það í huga að einstaklingar og lögaðilar geti keypt hlut í félaginu,
    að selja 40 af hundraði hlutafjár í félaginu með þeirri takmörkun að enginn einn aðili geti eignast meira en 10 af hundraði hlutafjár.

2. gr.


    Tilgangur félagsins skal vera að annast áætlunarferðir skipa með vörur, póst og farþega meðfram ströndum Íslands og til og frá landinu. Einnig skal félaginu heimilt að halda uppi áætlunarferðum á landi milli hafna í tengslum við áætlunarferðir skipanna eða semja við aðra aðila um að annast þær.

3. gr.


    Heimili og varnarþing félagsins skal vera í Reykjavík en heimilt er að starfrækja útibú á öðrum stöðum.

4. gr.


    Samgönguráðherra annast fyrir hönd ríkisstjórnarinnar undirbúning og stofnun hlutafélagsins skv. 1. gr. og fer með eignarhlut ríkisins í hinu nýja félagi, þar með talda sölu hlutabréfa.

5. gr.


    Samgönguráðherra er heimilt að semja um að hlutafélagið, sem stofnað verður, skuli gefa fastráðnu starfsfólki Skipaútgerðar ríkisins kost á sambærilegum störfum og þeir hafa gegnt hingað til. Taki þeir starfinu skulu ákvæði 14. gr. laga nr. 38 14. apríl 1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, ekki ná til þeirra starfsmanna Skipaútgerðar ríkisins sem nú njóta lögkjara samkvæmt þeim lögum.

6. gr.


    Samgönguráðherra skal gera þjónustusamning við hið nýja hlutafélag þar sem kveðið skal á um þjónustuskyldur félagsins við afskekktar hafnir landsins og um endurgjald fyrir þá þjónustu.

7. gr.


    Samgönguráðherra skal gera Alþingi grein fyrir sölu hlutafjár í Skipaútgerðinni hf. Verði hlutabréf ríkissjóðs boðin til sölu, öll eða að hluta, skal leita samþykkis Alþingis fyrir þeirri sölu.

8. gr.


    Ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga um hlutafélög, nr. 32/1978, gildir ekki um tölu stofnenda í hlutafélaginu, né heldur ákvæði 1. mgr. 17. gr. sömu laga um tölu hluthafa.
     Samgönguráðherra skal skipa þriggja manna undirbúningsnefnd, þar af einn samkvæmt tilnefningu starfsmanna Skipaútgerðar ríkisins, til að annast nauðsynlega samningsgerð fyrir hönd væntanlegs hlutafélags og leggja fram drög að stofnsamningi og samþykktum fyrir félagið á stofnfundi sem skal haldinn ekki síðar en 31. desember 1991.

9. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Hlutafélag skv. 1. gr. yfirtekur Skipaútgerð ríkisins 1. janúar 1992 og falla þá jafnframt úr gildi lög nr. 40/1967, um Skipaútgerð ríkisins.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Við stofnun hlutafélagsins skulu starfsmenn Skipaútgerðar ríkisins, umboðsmenn og viðskiptavinir hennar hafa forkaupsrétt að 40 af hundraði hlutafjár en ríkissjóður eiga a.m.k. 60 af hundraði.

Greinargerð.


     Allt frá stofnun Skipaútgerðar ríkisins árið 1929 hefur hún þjónað landsbyggðinni með ágætum. Á þessum tíma hafa aðstæður breyst og hefur verið reynt að laga starfsemi hennar að þeim. Breytingar hafa að undanförnu verið það hraðar að flutningsmenn telja rétt að breyta rekstrarforminu nú í hlutafélag. Slík breyting gerði nánara samstarf við viðskiptamenn mögulegt með eignaraðild þeirra og auðveldaði stjórnendum að taka ákvarðanir sem stuðluðu að hagræðingu í rekstri.
    Benda má á eftirfarandi atriði:
—    Rekstur fyrirtækisins verður sjálfstæðari þannig að ákvarðanataka getur gengið fljótt og stjórnendur hafa frjálsari hendur um aðgerðir sem geta leitt til betri afkomu fyrirtækisins.
—    Fjárútlátum ríkisins vegna strandferða yrðu settar fastari skorður.
—    Áhrif starfsmanna, umboðsmanna og viðskiptavina, m.a. á landsbyggðinni, á rekstur og þjónustu fyrirtækisins yrðu aukin.
    Tilgangur með þessari breytingu er í fyrstu ekki að afla ríkinu beinna tekna við sölu á eignum Skipaútgerðarinnar, heldur sá að renna traustum stoðum undir þá þjónustu sem Skipaútgerðin veitir og gera henni kleift að auka og bæta hana í framtíðinni. Ef vel tekst til getur ríkið hagnast af sölu hlutabréfa í fyrirtækinu þegar slík sala á almennum markaði kynni að verða tímabær.
    Fyrirtækið hefur ákveðnar þjónustuskyldur en á jafnframt í samkeppni á meginhluta þess markaðar sem það starfar á.
    Stjórnendur og starfsmenn eru áhugasamir um slíka breytingu og hafa sjálfir gert tillögu um hana. Sama er að segja um ýmsa hagsmunaaðila, svo sem umboðsmenn, samstarfsfyrirtæki og viðskiptavini. Má þar t.d. nefna Félag íslenskra stórkaupmanna og Kaupmannasamtökin.
    Fyrirtækið stendur framarlega í ýmiss konar rekstrarhagræðingu og ætti því að hafa góðar forsendur fyrir áframhaldandi rekstri.
    Einn þáttur í hagræðingu hjá Skipaútgerðinni hefur verið að fela einkaaðilum ýmsa hluta starfseminnar sem það sjálft hefur ekki talið sig hafa næga sérþekkingu í, svo sem akstursþjónustu, viðgerðarþjónustu, rekstur frystigáma og framleiðslu og sölu hugbúnaðar sem það hefur þróað.
    Væri þjónusta fyrirtækisins boðin út, lögð niður eða afhent stærstu keppinautum er hætta á tvennu:
    Alvarlegum bresti í þjónustu við landsbyggðina sem yrði þungt högg á atvinnurekstur sem á næsta ári þarf að glíma við afleiðingar aflasamdráttar og hárra vaxta.
    Einokun í flutningum, bæði innan lands og milli Íslands og annarra landa. Í erindi, sem dr. Madsen Pirie, formaður Adam Smith Institute í Bretlandi, hélt á aðalfundi VSÍ sl. vor, lagði hann mikla áherslu á að einkavæðing opinberra fyrirtækja mætti ekki verða til þess að styrkja samkeppnisstöðu þess aðila sem stærstur væri fyrir í viðkomandi atvinnugrein.
    Ljóst er að hugmyndin um að breyta Skipaútgerð ríkisins í hlutafélag nýtur stuðnings starfsmanna hennar. Að frumkvæði starfsmanna var nýlega safnað undirskriftum 93 af um 100 starfsmönnum Skipaútgerðarinnar undir viljayfirlýsingu þar að lútandi. Með því að selja starfsmönnum hlutabréf má ætla að þeir styðji málið og verði fúsir til að taka þátt í hagræðingu og eflingu fyrirtækisins. Við sölu opinberra fyrirtækja í Bretlandi tíðkast að bjóða starfsmönnum hlutabréf á sérstökum kjörum.
    Ljóst er að fyrst um sinn mun fyrirtækið þurfa á opinberum stuðningi að halda vegna þjónustunnar við afskekkta staði. Sá stuðningur gæti verið á tvennan hátt, annars vegar með ákveðnum árlegum greiðslum úr ríkissjóði, og hins vegar með lægra mati á hlutabréfum við stofnun þess.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með þessari grein er ríkisstjórninni gert að stofna hlutafélag um Skipaútgerð ríkisins. Allar eignir Skipaútgerðarinnar færast yfir til hins nýja hlutafélags. Öll hlutabréfin verða í eign ríkissjóðs við stofnun hlutafélagsins. Nauðsynlegt er að fram fari mat á eignum til þess að unnt sé að ákveða fjárhæð einstakra hluta. Ekki þykir þó rétt að leggja til að ríkissjóður selji meiri hluta hlutafjár nema að fenginni nokkurra ára reynslu. Verðgildi hlutafjár þarf í raun ekki að merkja hvers virði viðkomandi fyrirtæki er. Þar koma inn í myndina atriði eins og samkeppnisaðstaða, arðsemi, eftirspurn eftir hlutabréfum o.fl. Til að koma í veg fyrir meirihlutaaðstöðu einstakra aðila er sú takmörkun sett að enginn einn aðili geti eignast meira en 10 af hundraði hlutafjár.

Um 2. gr.


    Rétt þykir að skilgreina í lögunum hlutverk hlutafélagsins. Miðast það við að hlutverk hins nýja félags verði svipað rekstri Skipaútgerðar ríkisins hingað til en setur þó engar hömlur á skipulagsbreytingar og hagræðingu í rekstrinum. Félaginu verða að sjálfsögðu settar samþykktir þar sem kveðið verður nánar á um einstök atriði.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 4. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að samgönguráðherra annist undirbúning að stofnun hins nýja hlutafélags. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. er gert ráð fyrir að hann skipi þriggja manna nefnd sér til fulltingis.

Um 5. gr.


    Núverandi starfsmönnum Skipaútgerðar ríkisins er veittur forgangur til vinnu hjá félaginu. Hins vegar þykir ekki rétt að binda hendur nýrra stjórnenda við endurráðningar, enda þótt gert sé ráð fyrir að flestir núverandi starfsmanna verði endurráðnir. Um 26 af starfsmönnum Skipaútgerðar ríkisins eru nú í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og haldast réttindi þeirra óbreytt við þá formbreytingu á rekstri sem hér er stefnt að. Vísast í því sambandi til ákvæðis í 17. gr. laga nr. 29 29. apríl 1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Um lífeyrismál annarra starfsmanna fer eftir ákvæðum kjarasamninga.

Um 6. gr.


    Gert er ráð fyrir að samgönguráðherra geri sérstakan þjónustusamning við hið nýja hlutafélag til þess að tryggja að ekki verði fyrirvaralaust hætt þjónustu við afskekktar hafnir landsins. Hugsanlegt er að samningur þessi verði tímabundinn og þar kveðið nánar á um hvernig hinu nýja hlutafélagi sé heimilt að hagræða rekstri sínum, þó þannig að tillit sé tekið til þarfa íbúa í hinum dreifðu byggðum.

Um 7. gr.


    Gert er ráð fyrir að samgönguráðherra þurfi að leita eftir sérstakri heimild fyrir sölu á hlutafé sem verður í eigu ríkissjóðs. Hins vegar eru settar meginreglur í ákvæði til bráðabirgða um hvernig staðið skuli að hlutafjárútboði og þar gert ráð fyrir að ríkissjóður eigi a.m.k. 60 af hundraði í hlutabréfum félagsins.

Um 8. gr.


    Nauðsynlegt er að veita undanþágu frá ákvæðum hlutafélagalaga um lágmarksfjölda stofnenda, en í tilvitnuðu ákvæði er gert ráð fyrir að stofnendur skuli vera minnst tveir. Hið nýja hlutafélag lýtur almennum reglum um skattlagningu. Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að skipa þriggja manna undirbúningsnefnd og lagt til að núverandi starfsmenn Skipaútgerðar ríkisins eigi þar hlut að máli. Þá eru sett tímamörk um hvenær stofna skuli félagið, en gert er ráð fyrir að félagið taki við rekstri frá og með næstu áramótum.

Um 9. gr.


    Lögin öðlast þegar gildi, en Skipaútgerðin hf. yfirtekur rekstur og eignir Skipaútgerðar ríkisins frá 1. janúar 1992. Þá falla niður lög um Skipaútgerð ríkisins sem þar með verður lögð niður.