Ferill 50. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 50 . mál.


51. Frumvarp til laga



um stofnun sjóðs til að styrkja efnilega íslenska íþróttamenn.

Flm.: Ingi Björn Albertsson, Guðni Ágústsson, Lára Margrét Ragnarsdóttir,


Hjálmar Jónsson, Steingrímur Hermannsson, Svavar Gestsson, Össur Skarphéðinsson,


Guðmundur Hallvarðsson, Árni Johnsen, Hermann Níelsson, Stefán Guðmundsson,


Sturla Böðvarsson, Árni R. Árnason, Guðmundur Árni Stefánsson,


Eyjólfur Konráð Jónsson, Elínbjörg Magnúsdóttir, Eggert Haukdal,


Árni M. Mathiesen, Guðjón A. Kristjánsson, Kristinn H. Gunnarsson,


Finnur Ingólfsson, Rannveig Guðmundsdóttir,


Sigbjörn Gunnarsson, Tómas Ingi Olrich.



1. gr.


    Stofna skal sjóð til að styrkja efnilega íslenska íþróttamenn. Skal stofnfé sjóðsins samsvara árslaunum fjögurra háskólakennara.
     Tilgangur sjóðsins er að skapa efnilegum íþróttamönnum fjárhagslegan grundvöll til að helga sig íþrótt sinni.

2. gr.


    Fjárveiting skv. 1. gr. skal í fyrsta sinn veitt í fjárlögum fyrir árið 1992.
     Í fjárlögum ár hvert skal sjóðnum síðan ætluð fjárveiting er nemi eigi lægri fjárhæð en í 1. gr. greinir. Fjárhæðin skal endurskoðuð ár hvert við undirbúning fjárlaga með tilliti til breytinga á launum háskólakennara.

3. gr.


    Rétt til greiðslu úr sjóðnum hafa þeir íþróttamenn sem að mati stjórnar sjóðsins hafa sýnt ótvíræða hæfileika í íþróttagrein sinni og eru því líklegir til afreka á því sviði.
     Sérsambönd innan ÍSÍ skulu senda stjórn sjóðsins fyrir upphaf hvers fjárhagsárs tilnefningar um íþróttamenn er hljóta skulu styrk það ár.

4. gr.


    Menntamálaráðherra skipar stjórn sjóðsins til þriggja ára í senn. Í henni skulu sitja þrír menn, einn tilnefndur af framkvæmdastjórn Íþróttasambands Íslands, einn af íþróttanefnd ríkisins og einn skipaður án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður. Varamenn eru skipaðir á sama hátt.

5. gr.


    Menntamálaráðherra setur reglugerð um framkvæmd laga þessara þar sem m.a. skal kveðið á um vörslu sjóðsins og úthlutun úr honum.

6. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Íþróttir eru sívaxandi hluti daglegs lífs hjá almenningi hér á landi. Daglega leggja þúsundir manna á öllum aldri stund á íþróttir um land allt bæði innan dyra og utan. Með auknum frítíma og áhuga á einstökum greinum íþrótta hefur mikilvægi íþrótta margfaldast fyrir fólkið í landinu. Íþróttahreyfingin og keppnisíþróttirnar eru aflvakinn að íþróttaiðkuninni og fullyrða má að almenningur ætti þess ekki kost að iðka ýmsar íþróttagreinar í hinum fjölmörgu íþróttamannvirkjum ef ekki hefði notið við dugmikilla og fórnfúsra einstaklinga sem lagt hafa á sig ómælt erfiði og oft og tíðum mikil útgjöld.
    Jafnframt aukinni íþróttaiðkun hefur geta íslenskra íþróttamanna í keppni aukist ár frá ári og árangur þeirra vakið athygli víða um heim.
    Afreksíþróttir eru viðurkenndur og þýðingarmikill þáttur í almennri uppbyggingu íþrótta. Flestar þjóðir telja afrek á alþjóðavettvangi bestu og ódýrustu landkynningu sem völ er á og þar með hlýtur að vera tímabært fyrir okkur Íslendinga að meta að verðleikum kynningar- og áróðursgildi afreksíþrótta. Gott dæmi um kynningar af þessu tagi er frábær árangur nýbakaðra heimsmeistara okkar í brids.
    Það hefur háð markvissri uppbyggingu og langtímaþjálfun afreksmanna okkar að þeir hafa ekki getað gefið sig óskipta að æfingu t.d. fyrir Ólympíuleika og heimsmeistarakeppni vegna baráttu fyrir daglegu brauði. Óhugsandi er að í framtíðinni verði unnt að treysta alfarið á dugnað og atorku nokkurra forustumanna íþróttahreyfingarinnar til þess að unnt verði að ná afreksárangri. Við verðum að gera átak í þessum efnum.
    Fjárframlög ríkisins til íþróttahreyfingarinnar eru sáralítil og hafa verið skorin rösklega niður sl. ár. Ef við berum okkur saman við aðrar Norðurlandaþjóðir geta alþingismenn ekki litið kinnroðalaust framan í æskufólk sem leggur sig í líma við að hefja nafn Íslands til vegs á erlendum vettvangi. Nú er og komið fordæmi fyrir því að afreksmenn njóti náðar Alþingis, en með samþykkt stjórnarfrumvarps um Launasjóð stórmeistara í skák er brautin rudd og ber að fagna því. Frumvarp þetta er af sömu rótum runnið og sniðið að þörfum íþróttahreyfingarinnar.