Ferill 67. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 67 . mál.


68. Tillaga til þingsályktunar



um könnun á tíðni og orsökum sjálfsvíga.

Flm.: Hjálmar Jónsson, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Ragnar Arnalds,


Steingrímur Hermannsson, Kristín Einarsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir,


Pálmi Jónsson, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Geir H. Haarde,


Kristín Ástgeirsdóttir, Tómas Ingi Olrich.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að kanna tíðni og orsakir sjálfsvíga á Íslandi. Leiti nefndin jafnframt leiða til að snúa við þeirri ógnvekjandi þróun sem skýrslur sýna að nú á sér stað.
    Nefndin verði skipuð aðilum úr þeim stéttum er sérfróðar geta talist í þessum og skyldum efnum.

Greinargerð.


    Frá því sögur hófust hafa sjálfsvíg átt sér stað í mannlegu samfélagi. Lífslöngunin hverfur og löngunin til að deyja verður svo sterk að fólk stígur skrefið og tekur líf sitt. Eitt það þungbærasta, sem hent getur í fjölskyldum, er að missa ástvini sína með þessum hætti. Sjálfsagt þekkja flestir landsmenn til slíkra mála, sumir af sárri reynslu.
    Í nýútkomnu yfirliti Hagstofu Íslands um sjálfsvíg á Íslandi fyrir tímabilið 1951–1990 getur að líta ógnvænlega þróun. Hver sem sér þessar tölur hlýtur að spyrja sig hvað sé að gerast í íslensku þjóðfélagi. Tíðni sjálfsvíga hefur aukist verulega, miklu meira en sem nemur hlutfallslegri aukningu mannfjölda á Íslandi. Það sem vekur þó sérstaka athygli er gífurleg fjölgun sjálfsvíga ungra karlmanna á aldrinum 15–24 ára. Á tímabilinu 1951–1990 verður áberandi hliðrun niður á við í aldri. Nú er svo komið að tíðni sjálfsvíga er langmest í hópi ungmenna og hefur hún margfaldast á áðurnefndu árabili. Á síðustu tveimur áratugum hafa 547 Íslendingar fyrirfarið sér, svo vitað sé, þar af 107 ungmenni, 99 karlar og 8 konur.
    Á nýliðnum áratug frömdu 250 karlmenn sjálfsvíg á landinu. Af þeim voru 64, eða rúmur fjórðungur, á aldrinum 15–24 ára. Til samanburðar var hlutur þessa aldurshóps í sjálfsvígum karla á sjöunda áratugnum tíundi hluti. Þessi aukning er ógnvænleg og engin einhlít skýring virðist liggja í augum uppi.
    Mikil umræða hefur átt sér stað um umferðarslys og varnir gegn þeim með áróðri fyrir bættri umferðarmenningu. Það er mjög þarft, enda farast og slasast margir í umferðinni, ekki síst ungmenni. Hitt hefur hins vegar legið í þagnargildi allt of lengi hversu mörg ungmenni farast fyrir eigin hendi. Virðist svo sem sjálfsvíg sé algengasta dánarorsök ungmenna á síðustu árum. Árið 1989 létust alls 18 karlmenn á aldrinum 15–24 ára. Þar af voru sex sem frömdu sjálfsvíg. Árið 1990 létust 28, þar af 10 fyrir eigin hendi.
    Vitað er að tíðni sjálfsvíga meðal ungmenna hefur aukist á Vesturlöndum síðustu áratugina. Þó virðist Ísland skera sig verulega úr hvað aukningunni við kemur. Því miður bendir ekkert til þess að lát sé á þeirri þróun. Á þessu ári bendir margt til þess að hlutur ungmenna sé enn meiri.
    Ýmislegt er vitað um þann feril sem leiðir til sjálfsvíga. Vitað er að sjúklegt þunglyndi (depression) er oft undanfari sjálfsvígs. Fleiri ástæður eru þekktar, svo sem misnotkun áfengis og annarra vímuefna, arfgengi, félagslegar kringumstæður, vonbrigði o.fl. Jafnframt þessu er vitað að fyrirbyggjandi aðgerðir bera árangur. Viðleitni til bættrar umferðarmenningar er sjálfsögð. En nú, þegar fleiri ungir piltar láta lífið fyrir eigin hendi en í umferðarslysum, er tímabært og nauðsynlegt að hefja hliðstæðar aðgerðir til að kanna orsakir sjálfsvíga í því skyni að fyrirbyggja þau eftir megni.
    Á sama tíma og þessi ógnvænlega þróun á tíðni og aldursdreifingu sjálfsvíga hefur átt sér stað hefur orðið bylting á ýmsum sviðum þjóðfélagsins. Efnahagur hefur batnað og ytri kjör. Kanna þarf hvað það er í menningu og þjóðfélagsgerð Íslendinga sem veldur sífellt aukinni tíðni sjálfsvíga og einkum þeirra sem ættu að vera í blóma lífsins, hvort eitthvað skorti á í heilbrigðiskerfi, menntakerfi, félagsþjónustu o.s.frv.
    Hin aukna tíðni sjálfsvíga bendir til vaxandi lífsleiða ungmenna, einmitt þess aldurshóps sem að öllu eðlilegu ætti að vera hvað lífsglaðastur. Margir á þessu aldursskeiði, sem af ýmsum ástæðum þjást af andlegri vanlíðan, virðast líta á sjálfsvíg sem mögulegan valkost til lausnar lífsvanda sínum. Því er eðlilegt og nauðsynlegt að Alþingi skipi nefnd sérfróðra manna sem grafist fyrir um orsakir þessarar þróunar og leiti bestu leiða til úrbóta.
    Til frekari glöggvunar fylgja hér súlu- og línurit sem skýra þróunina frekar og þann vanda sem Íslendingar standa frammi fyrir. Allir hljóta að sjá að ekki má við svo búið standa án þess að á sé tekið með ábyrgum hætti.
    Þess skal getið að Grétar Sigurbergsson geðlæknir vann meðfylgjandi súlu- og línurit úr tilgreindum heimildum.


Fylgiskjal.