Ferill 83. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 83 . mál.


85. Tillaga til þingsályktunar



um þorskeldi.

Flm.: Ragnar Arnalds.



    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðuneytinu og Hafrannsóknastofnun að láta hefja tilraunir með seiðaeldi í stórum stíl til eflingar þorskstofninum við Ísland.


Greinargerð.


    Á þeim tímum þegar þjóðin verður fyrir miklum tekjusamdrætti af völdum minnkandi þorskveiði hlýtur að vera tímabært að verulegu fé sé varið til að reyna að styrkja þorskstofninn við strendur Íslands.
    Í Noregi og Danmörku eru rannsóknir á þorskeldi í fullum gangi og tækni og þekkingu á þessu sviði fleygir fram. Til að hjálpa náttúrunni svo um munar við ræktun fiskstofna þarf vissulega að framleiða gífurlegt magn seiða. Reiknað er með að í hverjum þorskárgangi kunni að jafnaði að vera 200 milljónir fiska sem vaxa upp af 1.000 milljónum seiða, en til samanburðar má geta þess að nú mun vera sleppt árlega um 10 milljónum laxaseiða til hafbeitar. Til að ná árangri þarf því seiðaeldi í mjög stórum stíl sem þó gæti margborgað sig ef vel tækist til.
    Sjálfsagt er að sjávarútvegsráðuneytið og Hafrannsóknastofnun eigi samstarf um þetta mikilvæga rannsóknarverkefni við ýmsa aðila og stofnanir og má þar sérstaklega nefna Háskólann á Akureyri, Háskóla Íslands og fyrirtæki eins og Fiskeldi Eyjafjarðar. Eins liggur beint við að rannsóknirnar beinist einnig að öðrum botnfisktegundum eftir því sem málin þróast þótt hér sé aðeins nefnd sú fisktegund sem okkur er verðmætust.
    Rétt er geta þess að fyrir nokkrum árum var ekki talið tímabært fyrir Íslendinga að hefja tilraunir með seiðaeldi á þorski og var það upplýst í kjölfar ráðstefnu í Noregi sem haldin var um þessi mál í júní 1983. Þessar upplýsingar komu fram í greinargerð með þingsályktunartillögu um fiskeldi og rannsóknir á klaki og eldi sjávar- og vatnadýra sem flutningsmaður þessarar tillögu flutti ásamt fleiri þingmönnum árið 1983 en fyrsti flutningsmaður tillögunnar var Hjörleifur Guttormsson. Í þessari tillögu veturinn 1983 var lögð áhersla á að gagna yrði aflað um rannsóknir og reynslu hérlendis og erlendis. Í þingsályktun, sem Hjörleifur Guttormsson o.fl. höfðu frumkvæði að 1988 og samþykkt var á Alþingi það ár, var áhersla lögð á eldi sjávarlífvera. Ljóst er af þeim fréttum, sem berast af rannsóknum í Noregi og Danmörku, að nú er fyllilega tímabært að hefja þessar rannsóknir hér á landi og því er þessi tillaga flutt.
    Með tillögu þessari er að því stefnt að Alþingi lýsi vilja sínum til þess að Hafrannsóknastofnun fái þá aðstöðu sem til þarf til að koma rannsóknum á þorskeldi í fullan gang sem fyrst.