Ferill 134. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 134 . mál.


143. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)



1. gr.


    2. mgr. 10. gr. laganna orðist svo:
     Gjaldskyldur aðili skal ótilkvaddur greiða tryggingagjald til innheimtumanns ríkissjóðs, eða eftir því sem nánar kann að vera ákveðið í reglugerð, sbr. 2., 3. og 4. mgr. 109. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

2. gr.


    Lög þessi öðlast gildi nú þegar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1992 er boðaður sparnaður með hagræðingu í innheimtu á opinberum gjöldum, m.a. með því að sameinuð verði á einum gíróseðli staðgreiðsla af launum, staðgreiðsla af reiknuði endurgjaldi og tryggingagjald. Þessi innheimta er nú gerð með aðskildum seðlum þrátt fyrir að gjalddagi gjaldanna sé sá sami, þ.e. 15. dagur hvers mánaðar. Til þess að þetta sé framkvæmanlegt verður sami innheimtuaðili að annast innheimtu staðgreiðslu og tryggingagjalds. Innheimtumenn ríkissjóðs annast innheimtu þessara gjalda beggja nema þar sem fyrir er sameiginleg innheimta á gjöldum til ríkis og sveitarfélaga. Í þeim tilvikum annast gjaldheimtan innheimtu á staðgreiðslu en innheimtumenn ríkissjóðs innheimtu á tryggingagjaldi. Þetta fyrirkomulag er í Reykjavík, Mosfellsbæ, Garðabæ, á Seltjarnarnesi og á Suðurnesjum.
     Samkvæmt þessu frumvarpi er lagt til að gerð verði breyting á lögunum um tryggingagjald þannig að fjármálaráðherra geti ákveðið að þeir aðilar, sem innheimta staðgreiðslu tekjuskatts, skuli jafnframt annast innheimtu tryggingagjalds. Sparnaður af þessari breytingu er áætlaður vera að minnsta kosti 11 milljónir króna á ári.