Ferill 143. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 143 . mál.


153. Tillaga til þingsályktunar



um átak í atvinnumálum á Suðurnesjum og aðgerðir vegna mikils atvinnuleysis kvenna þar.

Flm.: Anna Ólafsdóttir Björnsson, Ólafur Ragnar Grímsson,


Steingrímur Hermannsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera átak í atvinnumálum á Suðurnesjum með sérstöku tilliti til mikils atvinnuleysis kvenna þar.

Greinargerð.


    Atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum hefur verið mjög alvarlegt á undanförnum missirum. Skráð atvinnuleysi kvenna þar var í október 8,4%. Ætla má að þar eins og annars staðar sé auk þess töluvert dulið atvinnuleysi. Atvinnuleysi á landinu öllu var á sama tíma að meðaltali 1,2% og atvinnuleysi karla á Suðurnesjum 1,7%.
    Orsakir mikils og langvarandi atvinnuleysis kvenna á Suðurnesjum eru margvíslegar. Samdráttur hefur verið meiri í fiskvinnslu á Suðurnesjum en annars staðar, m.a. vegna þess að kvóti hefur flust þaðan í aðra landsfjórðunga.
    Á árunum 1981 til 1989 varð verulegur samdráttur í fiskvinnslu á Suðurnesjum en þó hefur keyrt um þverbak á undanförnum tveimur árum og við blasir hrun í þessari atvinnugrein. Árið 1981 voru 15% starfa í Keflavík í fiskvinnslu en 8% 1989. Í Njarðvík fækkaði störfum í fiskvinnslu á sama tíma úr 13% í 6%.
    Forsvarsmenn sveitarfélaga á Suðurnesjum og samtaka þeirra hafa bent á ýmis úrræði í atvinnumálum kvenna þar. Aðrir aðilar hafa einnig bent á nýja atvinnumöguleika. Flutningsmenn tillögunnar telja að atvinnuástand meðal kvenna á Suðurnesjum sé svo alvarlegt að ástæða sé til að gera sérstakt átak til að styðja sveitarfélög og einstaklinga í því að fjölga störfum fyrir konur þar.
Fylgiskjal I.


Úr Svæðisskipulagi Suðurnesja 1987–2007,
riti samvinnunefndar um skipulagsmál á Suðurnesjum:



Atvinnuskipting á Suðurnesjum.


(Tafla 11.)




Sundurliðun
1975
1984 Til samanburðar ársverk
launþega á Suðurnesjum

Fjöldi

(%)

Fjöldi

(%)

Fjölgun


ársverka

ársverka

1975–84

1984

(%)

Mism. '84


(1)

(2)

(3 = 2–1)

(4)

(5 = 2–4)



1.        Sjávarútvegur o.fl.
    1.1. Landbúnaður      70 1% 30 0% -40 30 0% 0
    1.2. Fiskeldi      0 0% 5 0% 5 5 0% 0
    1.3. Fiskveiðar      735 12% 855 11% 120 645 9% 210
    1.4. Fiskvinnsla      1.255 21% 1.480 19% 225 1.200 17% 280
2.        Iðnaður og byggingar
    í sveitarfélögum

    2.1. Iðnaður      460 8% 750 10% 290 770 11% -20
    2.2. Byggingar      500 8% 580 7% 80 585 8% -5
    2.3. Veitur o.fl.      40 1% 80 1% 40 75 1% 5
3.        Viðskipti, samgöngur,
    þjónusta og stjórnun
    í sveitarfélögum

    3.1. Viðskipti      410 7% 590 8% 180 650 9% -60
    3.2. Samgöngur      270 4% 270 3% 0 260 4% 10
    3.3. Opinber þjónusta
          og stjórnun      530 9% 700 9% 170 695 10% 5
    3.4. Önnur þjónusta      150 2% 210 3% 60 275 4% -65
4.        Starfsemi á Keflavíkur-
        flugvelli og varnarsvæðum

    4.1. Flugstörf, stjórnun,
          viðskipti      370 6% 450 6% 80 330 5% 120
    4.2. Varnarframkvæmdir      440 7% 650 8% 210 525 8% 125
    4.3. Í þjónustu varnarliðs      800 13% 1.100 14% 300 815 12% 285     4.4. Þjónustuverktakar
          hjá varnarliði      70 1% 100 1% 30 40 1% 60

    Alls      6.100 100% 7.850 100% 1.750 6.900 100% 950


Framtíðin.
    Gert er ráð fyrir að mannaflinn á Suðurnesjum aukist um 140 manns á ári næstu árin. Til þess að svæðið haldi sínum hlut í fólksfjölda er líklega mikilvægast að starfsemi í ýmiss konar þjónustu á svæðinu aukist.
    Hvað er það sem ræður þróuninni í atvinnulífi svæðisins? Eru það aðgerðir stjórnvalda eða almenn markaðsþróun? Eða er það sjávarafli og efnahagsþróun á svæðinu og í landinu? Ljóst er að þar er um að ræða samspil margra þátta. Ef nefna ætti nokkur markmið sem stefna bæri að í þessum efnum koma eftirfarandi atriði til greina:
    Hlúa að núverandi atvinnurekstri á svæðinu.
    Nýta þá kosti sem svæðið hefur upp á að bjóða. Þeir eru:
                  Alþjóðaflugvöllur (til flutninga og ferðaþjónustu).
                  Aðstaða til fiskeldis.
                  Orkulindir (til iðnaðarframleiðslu).
                  Hafnaraðstaða (fyrir meiri háttar iðnað).
    Í töflu 14 er giskað á fjölda starfa og skiptingu þeirra á atvinnugreinar árið 1994. Þessi ágiskun miðast við eftirfarandi:
    Störf við fiskveiðar og fiskvinnslu standi í stað að fjölda til.
    Störf hjá varnarliði og við varnarframkvæmdir standi í stað að fjölda til.
    Ársverkum við starfsemi innlendra stofnana á Keflavíkurflugvelli og við almenna flugstarfsemi fjölgi um 20% á 10 árum, m.a. vegna tilkomu nýju flugstöðvarinnar.
    Fjölgun starfa verði að öðru leyti í fiskeldi, iðnaði (og byggingum) og í greinum viðskipta, samgangna, þjónustu og stjórnsýslu.


Fylgiskjal II.


Umræður á Alþingi um fyrirspurn Önnu Ólafsdóttur Björnsson


til forsætisráðherra um atvinnumál á Suðurnesjum.


(342. mál, þskj. 605, á 113. löggjafarþingi.)



     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson):
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér hér að bera fram fsp. til hæstv. forsrh., sem er að finna á þskj. 605. Fsp. er í tveimur liðum og hljóðar svo, með leyfi forseta:
   „1. Hvaða áætlanir hefur ríkisstjórnin gert í atvinnumálum á Suðurnesjum til að mæta þeim samdrætti í umsvifum Bandaríkjahers sem fyrirsjáanlegur er?
    2. Hafa stjórnvöld látið gera áætlanir um atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum sem yrðu notaðar við brottför Bandaríkjahers frá herstöðvum þar?“
    Varðandi þá umræðu sem hér var á undan þá vil ég taka það fram að ég geri ekki ráð fyrir að lausn íslenskra stjórnvalda á atvinnumálum á Suðurnesjum eigi að felast í að festa Bandaríkjaher í sessi hér á landi í einhvers konar dulargervi með aukinni íslenskri aðild og ég vona að það séu ekki þær lausnir sem boðið er upp á.
    Í sambandi við upplýsingar um atvinnuástand á Suðurnesjum eru nú samkvæmt tölum frá 31. jan. sl. starfandi á Keflavíkurflugvelli 1.035 Íslendingar hjá varnarliðinu, auk þess hjá Aðalverktökum 529 og 126 hjá undirverktökum. Þetta gera samanlagt 1.690 manns. Samsvarandi tala árið 1984 mun hafa verið um 1.850 en þá voru alls um 2.400 störf í kringum völlinn af ýmsu tagi. Það hefur jafnan og allt of lengi viljað brenna við að Suðurnesjamönnum hafi verið vísað upp á Völl til þess að finna lausnir á sínum atvinnumálum og það hafi átt að vera einhvers konar töfralausn sem kannski hefur tafið fyrir því að þær áætlanir sem ég er hér að leita eftir hafi verið gerðar.
    Nú er fyrirsjáanlegt að einhvers konar samdráttur hlýtur að verða á Keflavíkurflugvelli, vonandi sem allra mestur í ljósi þeirra friðarstrauma sem sem betur fer hafa aðallega verið ríkjandi að undanförnu. Því kalla ég eftir raunhæfum atvinnuáætlunum sem byggjast á einhverju öðru en töfralausnum, eins og álveri, sem ekkert leysa.

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki endurtaka þær tölur sem hv. fyrirspyrjandi fór með um þann fjölda sem starfar hjá varnarliðinu eða í tengslum við það. Þær voru allar réttar.
    Ég skil að áhyggjur hv. fyrirspyrjanda stafa m.a. af því að nú horfir friðvænlegar milli austurs og vesturs og ég geri ráð fyrir að það dragi úr umsvifum varnarliðsins og vil ég taka undir, sem ég veit að hún hlýtur að vera mér sammála um, vonir um að svo reynist.
    Þær upplýsingar, sem ég hef nýjastar um vinnu á vegum varnarliðsins, eru til viðbótar við það sem hv. fyrirspyrjandi nefndi, að Aðalverktakar muni ráðgera að ráða 70 manns til starfa nú á háannatímanum og er þá í raun það starfslið sem er tengt varnarliðinu mjög svipað því sem verið hefur. Ekki hafa fengist upplýsingar um ráðgerða fækkun hjá varnarliðinu á fjárhagstímabili þess fram til 1995 umfram það sem þegar er orðið með þeirri frystingu á nýráðningu sem ákveðin var í janúar sl. Út af fyrir sig held ég að ekki sé um að ræða umtalsverða fækkun í störfum hjá varnarliðinu nú á næstunni. Það er vissulega áhyggjuefni á þessu svæði að mjög erfitt hefur reynst að fá fólk til fiskvinnu. Það virðist meiri áhugi fyrir því að sækja vinnu á vegum varnarliðsins. Atvinnuástand á þessu svæði hefur því út af fyrir sig ekkert verið lakara nú heldur en víða annars staðar um landið.
    Engu að síður tek ég undir það með hv. fyrirspyrjanda að sannarlega þarf að efla ýmsa aðra atvinnu á svæðinu. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að ríkisstjórn fyrir sitt leyti eigi að gera áætlun um hvað skuli byggjast upp á svæðinu. Ríkisstjórn og stofnanir hennar eiga að skapa grundvöll fyrir dugmikla heimamenn til að ráðast í ýmiss konar framkvæmdir á svæðinu og að því hefur verið unnið. Þegar í upphafi þessa áratugar fékk Framkvæmdastofnun ríkisins, sem þá hét svo og Byggðastofnun var þáttur í, það verkefni að skapa samráð og grundvöll á Suðurnesjum til þess að vinna þar að annarri atvinnuuppbyggingu. Leiddi það til þess að Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja var sett á fót. Það hefur síðan starfað í ýmsu formi og starfar nú að ég tel í góðu samstarfi við öll sveitarfélögin á Suðurnesjum og vinnur einmitt það verkefni sem hv. fyrirspyrjandi spurði um.
    Hins vegar hafa stjórnvöld m.a. rætt um atvinnuástand á Suðurnesjum í tengslum við byggingu álbræðslu, sem ég er ekki sammála hv. fyrirspyrjanda að leysi engin vandamál. Við álbræðslu þá sem fyrirhuguð er munu starfa um 600 manns og þá eru ekki talin þau fjölmörgu verkefni sem tengd eru álbræðslu. M.a. var Byggðastofnun fengin til að skoða hvaða áhrif það mundi hafa á atvinnuþróun á Suðurnesjum. Byggðastofnun telur að stór hluti af því starfsliði kæmi frá Suðurnesjum og mundi fara jafnt og þétt vaxandi, ekki síst þegar dregur úr starfsemi á vegum varnarliðsins.
    Stjórnvöld hafa einnig rætt um ýmsar leiðir til að auka atvinnu á Suðurnesjum, eins og hefur verið rætt hér utan dagskrár. Ég ætla nú ekki að fara að rekja þær hugmyndir hér en sumar þær hugmyndir a.m.k. eru mjög raunhæfar. Það er einlæg von mín að úr flýtingu byggingar fjölbrautaskóla verði, sem þingmenn þessa kjördæmis þekkja mjög vel og nýtur stuðnings menntmrn. Einnig er í athugun hvort ekki megi stuðla að því að Flugleiðir flýti byggingu flugskýlis. Það er mjög stórt mál fyrir Suðurnesin því það mun skapa aðstöðu til að taka viðhald flugvéla Flugleiða hingað til landsins og ekki aðeins það heldur reyndar viðhald erlendra flugfélaga. Þetta er hið athyglisverðasta mál.
    Þá vil ég geta þess að ég skipaði á sl. vori nefnd til að athuga hvort ekki væri tímabært að koma upp fríverslunarsvæði á Suðurnesjum, sem í tengslum við flugvöllinn gæti orðið mjög mikið atvinnuspursmál og skapað fjölmarga möguleika til atvinnuaukningar á Suðurnesjum. Af hálfu stjórnvalda hafa því verið lögð drög að mikilli atvinnuuppbyggingu á þessu svæði. En ég endurtek að heimamenn sjálfir verða fyrst og fremst að velja það úr sem þeir telja að henti þar best og til þess treysti ég þeim mjög vel.

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Þessi fsp. lýsir áhyggjum út af atvinnuástandi á Suðurnesjum, næstfjölmennasta kjördæmi landsins. Jafnframt lýsir fyrirspyrjandi yfir þeirri ósk sinni að sá dagur renni hið fyrsta upp að varnarliðið hverfi af landi brott með allt sitt hafurtask og þar með falli niður 1.825 störf íslenskra manna sem þar vinna. Jafnframt lýsir hv. fyrirspyrjandi því yfir að hún telji áform um byggingu álvers á Keilisnesi og þá atvinnusköpun sem því tengist, bæði á meðan á byggingartíma stendur og í starfrækslu, hið versta mál og leysi engan vanda. Þá er hv. fyrirspyrjandi búinn að lýsa því yfir að hún telji það raunhæfan kost núna á næstunni að skapa atvinnuleysi á Suðurnesjum fyrir á fjórða þúsund manna. Þetta er dálítið þversagnarkennt og er ástæða til að spyrja hv. fyrirspyrjanda: Hvaða hugmyndir hefur hv. fyrirspyrjandi og þingmaður Reyknesinga um atvinnumál á Suðurnesjum?
    Nú er ástæða til þess, vegna þess að fólk kann að hafa nokkrar áhyggjur af afkomu sinni og atvinnuöryggi, að lýsa því yfir hér úr þessum ræðustól, vegna þess að það er alið nokkuð á þeim áhyggjum, að menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því, sem vinna í þágu verktakastarfseminnar, Aðalverktaka og Keflavíkurverktaka og annarra, eða vinna í þágu varnarliðsins að þar komi til einhverra fyrirvaralausra uppsagna. Það er upplýst og staðfest að það verður ekki og kemur ekki til uppsagna eða niðurfellingar starfa út þetta fjárhagsár. Og í annan stað. Það gerist ekki, hvað svo sem gerist í alþjóðamálum, að varnarliðið hverfi af landi brott fyrirvaralaust.
    Meginatriðið í svari við spurningu hv. fyrirspyrjanda er að sjálfsögðu það að ef og þegar til þess kemur, þá er verið eftir 15 ára hlé að gera ráðstafanir til þess að byggja álver á Suðurnesjum, nýta aðra meginorkulind okkar og skapa störf þannig að Suðurnesjamenn geti verið öruggir um það, ef þetta gerist á sama tíma, að þeir sitji ekki uppi atvinnulausir þúsundum saman.

     Karl Steinar Guðnason:
    Hæstv. forseti. Mér sýnist þessi umræða vera dálítið undarleg að því leyti til að á sama tíma og spurt er hvað gera skuli vegna væntanlegrar fækkunar starfsmanna á Keflavíkurflugvelli þá komi fram ósk um að störfin sem þar eru verði öll lögð niður og jafnframt lýst andstöðu við að byggja álver sem Suðurnesjamenn binda vonir við að bjargi miklu í atvinnumálum þar. Þetta er þversagnarkennt og undarlegt. Ég vil taka það fram að á atvinnuleysisskrá bara hjá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur eru nálægt 150 manns í dag fyrir utan það sem er í öðrum byggðarlögum og auðvitað skiptir það máli.
    Ég tel að helsta ástæðan fyrir því sé sú að kvótinn hefur streymt í burtu frá byggðarlögunum. Skipin hafa streymt í burtu. Ég vona að þar sé að verða breyting á því nú í næstu viku mun hefja veiðar togari sem var verið að kaupa þangað og vænti ég þess að öfugþróuninni hafi verið snúið við.
    Hvað varðar varnarliðið þá varð það ljóst núna síðustu dagana vegna aðgerða utanrrh. að um fækkun verður ekki að ræða nema kannski hvað varðar þá sem sjálfir vilja hætta. Þar er ekki að skapast það ástand sem menn áttu von á. Það voru hugmyndir um það hjá Bandaríkjastjórn að fækka borgaralegum starfsmönnum um 25% í öllum sínum herstöðvum. Það verður ekki hér. Ég vil líka koma því að hér að verði um eitthvað slíkt að ræða, sem ég tel að verði ekki, og kannski hvort sem er, þá eigi íslensk stjórnvöld að gera kröfu til þess að fleiri störf verði íslensk þarna, að Íslendingar vinni þau störf sem erlendir menn vinna núna og þannig verði hægt að tryggja betur atvinnuöryggið þar.

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Mér finnst þessi fsp. eðlileg en ég held að það hljóti að vera eðlilegt að spurt sé í því sambandi: Hvað hafa íslenskir ráðherrar gert til þess að tryggja að fraktflug um Keflavíkurflugvöll geti verið með eðlilegum hætti? Hvað hafa þeir gert? Þar liggja möguleikarnir að auknum umsvifum í atvinnulífi Suðurnesja umfram flest annað. Hins vegar mun það eiga sér stað þar eins og víða að það er atvinnuleysi þó ekki takist að fá fólk til fiskvinnslu. Ég hygg að hv. 4. þm. Reykn. sé það ljóst að sú þróun hefur verið víða á Íslandi að Íslendingar gefa sig ekki í fiskvinnslu en skrá sig heldur atvinnulausa.

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Þessi fsp. hefur að vissu leyti gefið hæstv. forsrh. tækifæri til þess að halda hér smáframboðsræðu í Suðurnesjakjördæmi og ekkert nema gott um það að segja í sjálfu sér. En það er merkilegt að við skulum vera hér á hv. Alþingi og standa frammi fyrir því að það er friðvænlegra í heiminum, allir vonast eftir því að herstöðvar og annað slíkt verði lagt niður, það er merkilegt að á sama tíma erum við að fjalla um hvort ekki sé hægt að koma í veg fyrir að það umstang sem herinn veldur á Keflavíkurflugvelli dragist nú saman. Hæstv. utanrrh. telur það sér til ágætis hér í ræðustól að nú hafi enn tekist að fresta því að úr umsvifum hersins verði dregið á Keflavíkurflugvelli. Því var reyndar spáð fyrir mörgum árum að þannig mundu Íslendingar standa við einhverjar sérstakar aðstæður, sem nú eru upp komnar, að þeir sem voru að lýsa því yfir að allir vildu losna við herinn og það væri hið versta mál að vera hér með herstöð mundu segja, jafnvel hinir sömu: Nú þarf að fresta þessu vegna þess að það er staðreynd að hann er þarna og Íslendingar hafa þar atvinnu o.s.frv. Mér finnst það vera af hinu verra að forustumenn þjóðarinnar skuli koma hér nærri hver á fætur öðrum og lýsa því yfir að það þurfi að andæfa gegn þessari þróun sem á sér stað í heiminum í dag.

     Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Það má segja að það sé viss mótsögn í þessari fsp. sem hv. þm. ber hér fram. Ég vonast auðvitað til þess að sá tími komi að svo verði í heiminum að varnarliðið geti farið héðan. Ég sé nú ekki fram á þá þróun alveg á næstu árum. Ég held að það hljóti að vera, jafnvel þótt gott samkomulag náist á milli stórveldanna um afvopnun í heiminum, að nauðsynlegt verði talið að hafa eftirlitsstöðvar víðar í heiminum, jafnvel hugsanlega reknar af alþjóðlegum stofnunum, til þess að hafa eftirlit með því að þeir samningar sem gerðir eru standi.
    Um atvinnumál á Suðurnesjum er hægt að hafa langt mál en það er ekki tími til þess í svona stuttum athugasemdatíma sem ég hef hér. Ég vil þó vekja athygli á því að það er ýmislegt í gangi suður frá sem vekur nokkra bjartsýni hjá fólki. Það er mikið rætt um nýtingu Bláa lónsins. Það er mikil von bundin við þá uppbyggingu sem nú er að hefjast úti á Reykjanesi með saltverksmiðjunni. Það eru taldar góðar vonir til þess að Flugleiðir hefji framkvæmdir við þetta flugskýli sem getur skapað mikla vinnu hjá flugvirkjum og öðrum þeim sem nálægt slíkum verkum koma, að annast viðhald flugvéla. Og ýmislegt fleira í þessum dúr mætti hér upp telja en ég ætla ekki að gera það núna.
    Gallinn á störfum hjá varnarliðinu hefur undanfarin ár verið fyrst og fremst sá að það hefur verið pressa frá bandarískum þingmönnum að koma á sparnaði í þeim rekstri. Það hefur að sjálfsögðu valdið vissri spennu, sem hefur orðið við skiptingu á fjárlagaárinu, að það hefur verið bannað að ráða í störf sem hafa losnað meðan menn hafa beðið eftir nýjum fjárlögum. Ég legg hins vegar á það megináherslu í þessu sambandi að við þann samning verði staðið, sem gerður var 1974 af þáv. utanrrh. Einari Ágústssyni heitnum, að stefnt verði að því að Íslendingar taki yfir flest þau störf á vellinum sem kostur er og þess verði gætt, sem alltaf kemur upp umræða um öðru hverju og skal ég ekkert fullyrða um það hér og nú hvort á rétt á sér, að við takmörkun á ráðningu Íslendinga í störf verði ekki ráðnir Bandaríkjamenn til þeirra starfa sem Íslendingar hafa sinnt fram að þessu.

    Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson):
    Virðulegi forseti. Mér var ekki ljóst að röðin væri komin að mér. Það voru svo margir búnir að biðja um orðið. Ég ætla að drepa á nokkur þau mál sem hafa komið fram á þessum fundi sem er að taka á sig mynd framboðsfundar en það var ekki ætlunin.
    Ég vil í fyrsta lagi geta þess að mér finnst það áhyggjuefni ef ekki er búist við samdrætti á Keflavíkurflugvelli á næstu árum. Þeir sem tala hér um þversagnir tala fyrir sjálfa sig, ekki fyrir mig. Mér þykir nefnilega að herinn og tilvist hans á Suðurnesjum hafi verið lamandi hönd á atvinnulífi og atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum og ég óttast það að álverið muni verða önnur eins lamandi hönd sem stendur öllum öðrum hugmyndum fyrir þrifum. Ég vil vekja athygli á að atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum er yfir 6% á meðan karlarnir eru í allt of miklu atvinnuleysi með 1 2% að jafnaði. ( Gripið fram í: Þetta er rangt.) Þetta eru tölur sem eru hér fyrir febrúar í þessu plaggi og þú getur skoðað það á eftir sjálfur.
    Í öðru lagi var hér beint til mín fyrirspurn. Því miður hef ég ekki sama tíma til að svara og þeir sem svara fyrirspurnum, en hér hefur þegar komið fram að það er og ætti að vera að gerast ýmislegt í atvinnumálum á Suðurnesjum annað en það að líta á álver sem einhverja allsherjarlausn því það er hún ekki og það endurtek ég. Þá vil ég nefna, auk þess sem hér hefur verið nefnt í sambandi við Bláa lónið og flugskýlið, ylrækt, ég vil nefna ferðaþjónustu, sem á mikla framtíð fyrir sér þarna, og aðra nýtingu orkunnar heldur en til álvers.
    Í þriðja lagi er óhjákvæmilegt annað en að nefna það, sem hv. 4. þm. Reykn. kom inn á, hversu mjög kvóti hefur farið af svæðinu. Þetta tel ég að sé í beinum og óbeinum tengslum við tilvist flugvallarsvæðisins á Reykjanesi og síðan þess að nú hafa allir mænt á álver sem einhverja allsherjarlausn. Ég er nefnilega hrædd um að Suðurnesingar sitji ekki við sama borð og aðrir einmitt vegna þessarar staðreyndar sem ég hef hér rakið.
    Ég vildi mjög gjarnan hafa hér lengra mál en býst ekki við að ég megi það. Ég vil ítreka það að lokum að ábyrgð ríkisstjórnar er mikil vegna þess að það er af hennar völdum að atvinnulíf á Suðurnesjum er með þeim hætti sem það er í kringum herinn og Keflavíkurflugvöll. Því er ekki hægt að segja, eins og hæstv. forsrh. sagði hér, að þetta sé ekki mál ríkisstjórnarinnar.

     Níels Árni Lund:
    Virðulegi forseti. Það hefur margt komið fram í þessari umræðu eins og mátti búast við þar sem um er að ræða slíkt málefni. Ég vildi aðeins bæta við það sem sjálfsagt flestir hugsa mikið um, alla vega eins og hér hefur komið fram, frambjóðendur á þessu svæði, hvað mætti gera til að bæta atvinnuástand eða auka atvinnumöguleika á Suðurnesjum. Ég vitna aftur til þess fræga Bláa lóns sem hér hefur verið í umræðunni. Það var samþykkt þáltill. um það að skipuð yrði nefnd til að kanna margháttaða nýtingu þess lóns á síðasta löggjafarþingi. Í fyrirspurnatíma á þinginu í vetur kom fram frá heilbrrh. að hann hygðist skipa nefnd til að fjalla sérstaklega um nýtingu Bláa lónsins og lít ég björtum augum til þeirrar vinnu sem sú nefnd mun fjalla um. Í viðbót við þetta vildi ég sérstaklega benda á aukna ferðamannaþjónustu á Suðurnesjum. Til skamms tíma var ekkert hótel á svæðinu. Nú eru þau a.m.k. tvö eða þrjú og ágæt nýting á þeim. Ég vil einnig benda á að ein af forsendum þess að laða ferðamannastrauminn til Suðurnesja er að gera greiðan veg með suðurströnd Reykjanesskaga, eins og ég flutti þáltill. um fyrir einum tveimur þingum síðan. Ég held að slíkur vegur mundi opna gífurlega möguleika og ýta undir það að hægt væri að auka þarna verulega ferðamannastraum og bjóða þeim sem koma til landsins upp á aðrar ferðir heldur en eingöngu Gullfoss og Geysi. Nú þegar er Bláa lónið orðið vinsæll ferðamannastaður, en með tilkomu slíks vegar sem þessa væri hægt að auka þessa atvinnugrein mikið á Suðurnesjum.

     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Svo virðist sem hér sé nú kominn á framboðsfundur á Suðurnesjum eða í Reykjaneskjördæmi og er það út af fyrir sig vel. Þetta er ágætis vettvangur til slíks. Ég ætlaði hins vegar að leggja örfá orð í belg út af atvinnumálunum sérstaklega en ekki kannski endilega halda hér neina framboðsræðu. Mig langar til að gera eina athugasemd. Hún varðar þann misskilning sem felst í fyrirspurninni, að ríkisvaldið eitt sér skaffi öllum atvinnu. Atvinna skapast fyrst og fremst fyrir frumkvæði einstaklinganna. Það sem ríkisvaldið þarf að gera er að skapa einstaklingunum þann ramma sem gerir þeim kleift að vera með eðlilega og öfluga atvinnuuppbyggingu.
    Hins vegar er það alveg ljóst og ég er að því leytinu til sammála fyrirspyrjanda að við hljótum að gera ráð fyrir því að það verði verulegur samdráttur í herafla varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Hins vegar sé ég það fyrir mér að á Keflavíkurflugvelli verður um alla framtíð rekin öflug eftirlits - og varnarmiðstöð. Ég geri hins vegar ráð fyrir því að Íslendingar geti í mjög auknum mæli tekið við þeim störfum sem nú eru unnin af liðsmönnum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson):
    Virðulegi forseti. Þar sem enn gætti misskilnings sé ég mig knúna til þess að vekja athygli á því hve mjög ríkisvaldið hefur oft áhrif á atvinnumál. Vil ég þá sérstaklega nefna t.d. kvótamál. Tilflutningur kvóta er til kominn vegna ríkisaðgerða og vegna þess að það hefur ekki verið tekist á við þann vanda á réttan hátt, t.d. með byggðakvóta, eins og við kvennalistakonur höfum lagt til.
    Ég hef vakið athygli á því að það eru stjórnvaldsaðgerðir fyrst og fremst að Keflavíkurflugvöllur er með þeim hætti sem hann er. Jafnframt að atvinnustefna skuli byggjast í kringum stóriðju í stað þess að renna mörgum traustum stoðum undir atvinnulíf eins og alls staðar verður að vera þar sem atvinnulíf verður að vera fjölbreytt og margþætt ef það á ekki að vera háð sveiflum og áhættu sem ekkert atvinnusvæði þolir, m.a. þær sveiflur sem þensla við uppbyggingu hefur í för með sér. Þessu verð ég að vekja athygli á.

     Karl Steinar Guðnason:
    Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að bera af mér sakir. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að varnarstöðin á Keflavíkurflugvelli er talin mjög þýðingarmikil í samstarfi Atlantshafsríkjanna og þýðing hennar er síst minni heldur en áður. Þess vegna verður starfsemin á svipuðu stigi og verið hefur. Það verða breytingar þar en ég vænti þess að það komi ekki niður á atvinnustiginu eins og menn töldu að yrði.
    Hins vegar tel ég varðandi Suðurnesjamenn og atvinnuhorfur á því svæði að við getum horft bjartsýnir fram á veginn. Suðurnesin urðu fyrir miklum áföllum vegna þeirrar byggðastefnu sem var rekin hér á landi. Suðurnesin voru svelt, bæði í sjávarútvegi og á öðrum sviðum. Ég horfi fram til þess tíma að Suðurnesjamenn nái vopnum sínum og atvinnustigið þar verði betra en það er í dag.