Ferill 167. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 167 . mál.


181. Frumvarp til

laga

um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)



I. KAFLI


Um breytingu á lögum nr. 49/1991, um grunnskóla.


1. gr.


    Eftirtalin ákvæði laganna skulu ekki koma til framkvæmda á árinu 1992:
    3. mgr. 4. gr.
    2., 3., 4. og 5. mgr. 9. gr.
    2. mgr. 32. gr.
    1. og 6. mgr. 46. gr.

2. gr.


    Við 72. gr. laganna bætist ný málsgrein, 3. mgr., er orðist svo:
     Þar sem að mati sveitarstjórna er nauðsynlegt að ætla sérstakt húsnæði í skóla fyrir heilsugæslu og/eða tannlækningar telst byggingarkostnaður húsnæðis til stofnkostnaðar viðkomandi skóla. Um stærð þessa húsnæðis fer samkvæmt reglum (normum) er menntamálaráðuneytið setur í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Um kostnað við tæki og búnað, svo og rekstur, fer samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu.

3. gr.


    Í stað 1.–6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða komi þrjár nýjar málsgreinar svohljóðandi:
     Greiðslur ríkissjóðs, sbr. 75. gr., skulu miðast við 22 nemendur í 1. og 2. bekk og 29 nemendur í 3.–10. bekk.
     Til viðbótar því sem kveðið er á um í 78. og 79. gr. skulu þeir grunnskólar, sem ríkið rekur fyrir fötluð börn (sérskólar), vera reknir áfram á vegum þess þar til grunnskólar geta veitt fötluðum nemendum sambærilega eða betri þjónustu.
     Menntamálaráðuneytið setur í reglugerð ákvæði um vikulegan kennslutíma á bekk í grunnskóla, þar með taldar valgreinar, og leyfilega aukningu nemendastunda vegna skiptitíma.

Um breytingu á jarðræktarlögum, nr. 56/1987.


4. gr.


    Við 12. gr. laganna, eins og henni var breytt með 3. gr. laga nr. 65/1989, bætist ný málsgrein, 3. mgr., sem orðist svo:
     Allur réttur til framlaga samkvæmt lögum þessum er háður fjárveitingu Alþingis.

Um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða.


5. gr.


    Eftirtaldar breytingar verði á 18. gr. laganna:
     Orðin „að hálfu“ í lok 2. málsl. 1. mgr. falli niður.
     Í stað hlutfallsins „0,2%“ í 3. málsl. 2. mgr. komi: 0,4%.
     Í stað fjárhæðarinnar „1.000 kr.“ í 4. málsl. 2. mgr. komi: 2.000 kr.
     Í stað fjárhæðarinnar „5.000 kr.“ í 1. málsl. 3. mgr. komi: 10.000 kr.

Um breytingu á lögum nr. 80/1987, um kosningar til Alþingis.


6. gr.


    2. mgr. 42. gr. laganna orðist svo:
     Þegar landskjörstjórn hafa borist gögn frá öllum yfirkjörstjórnum og hún afgreitt framboðslista á þennan hátt skal hún þegar í stað gera almenningi kunna listana með auglýsingu í Lögbirtingablaði, útvarpi og dagblöðum. Í auglýsingu skal tilgreina bókstaf hvers lista og fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann er boðinn fram.
     Í auglýsingu í Lögbirtingablaði skal auk þess tilgreina nöfn frambjóðenda á hverjum lista í réttri röð, stöðu þeirra og heimili. Auglýsingu samkvæmt þessari málsgrein skal birta eigi síðar en 10 dögum fyrir kjördag.

7. gr.


    Við 78. gr. laganna bætist ný málsgrein, 2. mgr., sem orðist svo:
     Þar skal enn fremur festa upp lista með öllum framboðum í kjördæminu er yfirkjörstjórn lætur í té.

8. gr.


    Í stað „78. gr.“ í 79. gr. laganna komi: 1. mgr. 78. gr.

Um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota.


9. gr.


    Setja skal á fót ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota sem ábyrgist greiðslu vinnulaunakröfu launþega á hendur vinnuveitanda við gjaldþrot.

10. gr.


    Sjóðurinn skal fjármagnaður með sérstöku ábyrgðargjaldi af greiddum vinnulaunum, þóknun og reiknuðu endurgjaldi hvaða nafni sem nefnist sem skattskylt er skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981.
     Ábyrgðargjaldið skal vera allt að 0,2% af gjaldstofni. Hlutfallið skal ákveðið með reglugerð sem félagsmálaráðherra setur fyrir eitt ár í senn að fengnum tillögum þriggja manna stjórnar sem skipuð er af félagsmálaráðherra til fjögurra ára samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og sá þriðji án tilnefningar. Ákvæði laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, eiga við um gjaldstofn, gjaldskyldu, greiðslutímabil, álagningu og innheimtu.
     Ábyrgðargjald telst rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að því leyti sem það er ákvarðað af launum sem teljast rekstrarkostnaður samkvæmt sömu grein.

Um breytingu á lögum nr. 41/1983, um málefni fatlaðra.


11. gr.


    Á eftir 3. mgr. 34. gr. laganna komi ný málsgrein sem orðist svo:
     Auk þess að leggja fé til framkvæmda, sbr. 2. og 3. mgr., er heimilt að verja allt að þriðjungi af ráðstöfunarfé sjóðsins til meiri háttar viðhalds á stofnunum fatlaðra, sbr. 3.–14. tölul. 7. gr., enda séu þær stofnanir eingöngu ætlaðar fötluðum.

Um breytingu á lögum nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins,


með síðari breytingum.


12. gr.


    Við 58. gr. laganna, eins og henni var breytt með h-lið 3. gr. laga nr. 70/1990, bætist ný málsgrein, 2. mgr., sem orðist svo:
     Sveitarfélag skal auk þess leggja fram, sem sérstakt óafturkræft framlag, 3,5% af kostnaðarverði eða kaupverði hverrar félagslegrar íbúðar í sveitarfélaginu.

13. gr.


    1. mgr. 68. gr. laganna, eins og henni var breytt með s-lið 3. gr. laga nr. 70/1990 og 1. gr. laga nr. 24/1991, orðist svo:
     Lán til félagslegra íbúða veitir húsnæðismálastjórn úr Byggingarsjóði verkamanna. Lánshlutfall má nema allt að 90% af byggingarkostnaði eða kaupverði, þó aldrei meira en 90% af þeim kostnaðargrundvelli að lánveitingu sem húsnæðismálastjórn hefur samþykkt, að frádregnu 3,5% sérstöku framlagi sveitarfélaga til hverrar félagslegrar íbúðar, sbr. 2. mgr. 58. gr. Heimilt er húsnæðismálastjórn að veita sérstök lán til allt að þriggja ára til þeirra sem eiga í verulegum erfiðleikum með útborgun við kaup á íbúð ef um er að ræða sérstaklega erfiðar fjölskyldu- eða fjárhagsaðstæður, enda sýni umsækjandi fram á greiðslugetu skv. c-lið 1. mgr. 80. gr.

14. gr.


    Ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 47/1991 orðist svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. og 5.–7. gr. laga þessara skulu 1.–2. tölul. 11. gr.,12. gr., 13. gr. og 14. gr. laga nr. 86/1988, sbr. lög nr. 76/1989 og nr. 70/1990, halda gildi sínu gagnvart þeim umsækjendum sem fengið höfðu lánsloforð á þeim tíma er lög nr. 47 27. mars 1991 öðluðust gildi.

Um breytingu á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar,


með síðari breytingum.


15. gr.


    C-liður 1. mgr. 39. gr. laganna, eins og honum var breytt með 11. gr. laga nr. 87/1989 og 1. gr. laga nr. 122/1989, orðist svo:
c.    Að veita styrk til aðgerða hjá tannlækni, umfram það sem 44. gr. nær til, vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Ráðherra setur reglur um framkvæmd þessa ákvæðis að fengnum tillögum tryggingaráðs.

16. gr.


    Eftirtaldar breytingar verða á 43. gr. laganna eins og henni var breytt með 14. og 15. gr. laga nr. 87/1989 og 3. gr. laga nr. 122/1989:
    A-liður 1. mgr. orðist svo:
                  Almenna læknishjálp utan sjúkrahúsa hjá lækni sjúklings sem Tryggingastofnunin hefur gert samning við. Með reglugerð má ákveða gjald sem hinn sjúkratryggði greiði fyrir hvert viðtal á læknastofu og hverja vitjun til sjúklings. Heimilt er að ákveða með reglugerð að gjaldið skuli vera hlutfallsgjald. Sjúkratryggingar hafa heimild til að ákveða að sjúklingur greiði læknisreikninga að fullu og endurgreiða sjúkratryggingar þá sjúklingi sinn hluta.
    Lokamálsliður b-liðar 1. mgr. orðist svo: Fyrir hverja komu til sérfræðings greiði sjúklingur gjald sem ákveðið skal með reglugerð og er heimilt að hafa gjaldið hlutfallsgjald.
    Annar málsliður c-liðar 1. mgr. orðist svo: Af öðrum nauðsynlegum lyfjakostnaði greiðir sjúkratryggður gjald sem ákveðið skal með reglugerð og er heimilt að hafa gjaldið hlutfallsgjald.
    2. mgr. orðist svo:
                  Ráðherra er með reglugerð heimilt að breyta greiðslum sjúkratryggðra samkvæmt þessari grein, svo og að ákveða með reglugerð hámark eininga í lyfjaávísunum. Þá er ráðherra og heimilt með reglugerð að ákveða greiðsluþátttöku sjúkratryggðra fyrir sérhæfða göngudeildarþjónustu skv. b-lið.

17. gr.


    44. gr. laganna, sem síðast var breytt með 15. gr. laga nr. 87/1989 og 4. gr. laga nr. 122/1989, orðist svo:
     Fyrir tannlæknaþjónustu, aðra en tannréttingar, greiða sjúkratryggingar sem hér segir:
    Fyrir börn og unglinga 15 ára og yngri 90% kostnaðar við tannlækningar, aðrar en gullfyllingar, krónu- og brúargerð. Sjúkratryggingar skulu þó aldrei greiða tannlæknakostnað hjá almennum tannlæknum vegna barna og unglinga 6–15 ára á svæðum þar sem skólatannlækningar eru skipulagðar og starfræktar. Á svæðum, þar sem tannlæknaþjónusta hefur verið boðin út, skulu sjúkratryggingar þó aldrei greiða tannlæknakostnað barna og unglinga 15 ára og yngri hjá öðrum tannlæknum en þeim sem aðilar eru að samningum sem leiða af útboði.
    Fyrir 16 ára unglinga 50% kostnaðar við tannlækningar aðrar en gullfyllingar, krónu- og brúargerð.
    Heimilt er að greiða allt að 50% kostnaðar við gullfyllingar, krónu- og brúargerð hjá börnum og unglingum, 16 ára og yngri samkvæmt reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum tryggingaráðs. Því aðeins kemur til greiðslna samkvæmt þessum tölulið að fyrir liggi sérstök umsókn og samþykki sjúkratrygginga.
    Fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, sem njóta tekjutryggingar, 75% kostnaðar, en fyrir aðra elli- og örorkulífeyrisþega 50% kostnaðar, þó ekki fyrir gullfyllingar, krónur eða brýr. Heimilt er að hækka greiðslur fyrir þessa bótaþega í allt að 100% eftir reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum tryggingaráðs.
     Tryggingaráð ræður tannlækni sem hefur eftirlit með framkvæmd ákvæða laga þessara er lúta að tannlækningum.
     Greiðslur sjúkratrygginga samkvæmt þessari grein skulu vera í samræmi við samninga sem Tryggingastofnun gerir eða samkvæmt samningum sem leiða af útboði. Séu samningar ekki fyrir hendi skal greitt samkvæmt gjaldskrá sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur.
     Ætíð skal framvísa reikningi á því reikningsformi sem Tryggingastofnun ákveður.

18. gr.


    Eftirtaldar breytingar verða á 46. gr. laganna eins og henni var síðast breytt með 12. gr. laga nr. 112/1972 og 18. og 19. gr. laga nr. 87/1989:
    1. mgr. orðist svo:
                  Tryggingastofnun ríkisins gerir samninga um greiðslur samkvæmt þessum kafla.
    1. málsl. 2. mgr. orðist svo: Náist ekki samningar skal gerðardómur ákveða samningskjörin.
    3. mgr. orðist svo:
                  Daggjöld sjúkrahúsa, sem ekki eru á föstum fjárlögum, svo og gjaldskrár fyrir slysa- og röntgendeildir, skulu ákveðin af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Daggjöld og gjaldskrár skulu ákveðin þannig að samanlagðar tekjur stofnunar standi undir eðlilegum rekstrarkostnaði á hverjum tíma miðað við þá þjónustu er heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að stofnunin veiti.
    4. mgr. orðist svo:
                  Sé um sjálfseignarstofnun eða einkaaðila að ræða jafngildir það samningi ef hlítt er ákvörðun ráðherra um daggjöld er vera skulu í einu lagi fyrir vist og þjónustu. Að öðrum kosti getur Tryggingastofnun ákveðið, þrátt fyrir ákvæði 41. gr., að sjúklingum skuli greidd tiltekin upphæð fyrir hvern legudag upp í kostnaðinn.
    Hvarvetna þar sem í öðrum greinum laganna stendur „daggjaldanefnd“ komi: heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

19. gr.


    48. gr. laganna orðist svo:
     Sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins er heimilt að leita útboða um þá þjónustu sem henni ber að veita samkvæmt lögum þessum. Nú gerir sjúkratryggingadeild samninga um tiltekna þjónustu í framhaldi af útboði og er deildinni þá óheimilt að greiða öðrum aðilum vegna slíkrar þjónustu.

20. gr.


    1. málsl. 57. gr. laganna orðist svo: Bætur skal greiða þriðja virkan dag hvers mánaðar.

Um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu.


21. gr.


    Við 42. gr. laga nr. 97/1990, sbr. lög nr. 128/1990, bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og orðist svo:
42.2     Ráðherra er heimilt að leita útboða um rekstur heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum þessum.

Um breytingu á lögum um eiturefni og hættuleg efni.


22. gr.


    Eftirtaldar breytingar verða á lögum nr. 52/1988, sbr. lög nr. 103/1988:
    2. gr. laganna orðist svo:
                  Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins skal vera ráðherra til ráðuneytis um framkvæmd laga þessara.
                  Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins gerir tillögur um röðun efna á lista yfir eiturefni og hættuleg efni í samræmi við skaðleg áhrif og notkunarsvið þeirra. Ráðherra staðfestir tillögur eiturefnaeftirlitsins með reglugerð.
                  Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins skal veita stjórnvöldum, einstaklingum eða fyrirtækjum upplýsingar um meðferð eiturefna og hættulegra efna svo sem eftir er leitað og kostur er á. Eftirlitið skal enn fremur gera tillögur um viðbrögð við slysum af völdum eiturefna og hættulegra efna eða við vá af þeirra völdum vegna hernaðar eða náttúruhamfara.
    Fyrirsögn 2. gr. verði: Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins.
    2. mgr. 12. gr. laganna orðist svo:
                  Eiturefnadeild Hollustuverndar ríkisins setur, að fengnu áliti samtaka hlutaðeigandi seljenda, reglur um varðveislu hættulegra efna í matvöruverslunum. Sams konar reglur má og setja um varðveislu hættulegra efna í öðrum almennum verslunum.
    Í stað „Hollustuverndar ríkisins og eiturefnanefndar“ í síðasta málslið 16. gr. og í síðasta málslið 2. mgr. 17. gr. laganna komi: eiturefnaeftirlits Hollustuverndar ríkisins.
    Í stað „Eiturefnanefnd og Hollustuvernd ríkisins“ í 20. og 21. gr. laganna komi: Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins.
    Í stað „eiturefnanefndar, Hollustuverndar ríkisins“ í 2. mgr. 22. gr. laganna komi: eiturefnaeftirlits Hollustuverndar ríkisins.
    Í stað „Hollustuvernd ríkisins“ í a-lið 3. mgr. 23. gr. laganna komi: Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins.
    Í 1. málsl. 6. mgr. 23. gr. laganna falli niður orðið „eiturefnanefndar“.
    1. málsl. 2. mgr. 24. gr. laganna orðist svo: Eiturefnaeftirliti Hollustuverndar ríkisins er heimilt, ef skjótra aðgerða er þörf, að setja á lista tiltekin efni og efnasamsetningar og kveða á notkun eða bann við notkun þeirra í allt að því eitt ár.
    1. málsl. 1. mgr. 27. gr. laganna orðist svo: Ráðherra skipar samstarfsnefnd þeirra aðila sem tilgreindir eru í a–c-liðum 3. mgr. 23. gr.
    2. mgr. 28. gr. laganna falli niður.
    Hvarvetna þar sem í öðrum greinum laganna stendur „eiturefnanefnd“ komi í viðeigandi beygingarfalli: eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins.

Um breytingu á lögum nr. 94/1976, um skráningu og mat fasteigna.


23. gr.


    14. gr. laganna orðist svo:
     Fasteignamat ríkisins aflar og lætur í té upplýsingar og veitir þjónustu við úrvinnslu á þeim gegn gjaldi.
     Gjaldskrá skv. 1. mgr. skal taka mið af því umfangi upplýsinga sem keyptar eru og þeim tekjum sem notendur hafa af þeim. Fjármálaráðherra staðfestir gjaldskrána.

Um breytingu á lögum nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð.


24. gr.


    Úr lögunum falli brott:
    2. tölul. 5. gr.
    3. tölul. 9. gr.

II. KAFLI


25. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 22. og 23. gr. laga nr. 68/1985, útvarpslaga, skulu tekjur á árinu 1992 vegna aðflutningsgjalda af innfluttum hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum renna í ríkissjóð.

26. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 3. gr. laga nr. 71/1990, um Listskreytingasjóð ríkisins, skal framlag ríkissjóðs til sjóðsins eigi vera hærra en 12.000 þús. kr. á árinu 1992.

27. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 46. gr. laga nr. 88/1989, þjóðminjalaga, skal framlag ríkissjóðs í Húsafriðunarsjóð eigi nema hærri fjárhæð en 10.500 þús. kr. á árinu 1992.

28. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1984, um kvikmyndamál, skal framlag ríkissjóðs til Kvikmyndasjóðs eigi nema hærri fjárhæð en 91.500 þús. kr. á árinu 1992.

29. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. laga nr. 50/1957, um Menningarsjóð, skal framlag ríkissjóðs til sjóðsins eigi nema hærri fjárhæð en 6.000 þús. kr. á árinu 1992.

30. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, skal á árinu 1992 heimilt að ráðstafa fé af sérstökum eignarskatti samkvæmt lögunum til framkvæmda við Bessastaði.

31. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 5. tölul. 4. gr. laga nr. 45/1971, sbr. 1. gr. laga nr. 41/1982, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, skal framlag ríkissjóðs til Stofnlánadeildar landbúnaðarins eigi nema hærri fjárhæð en 60.000 þús. kr. á árinu 1992 og er framlagið vegna Lífeyrissjóðs bænda.

32. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laga nr. 32/1979 um framlög ríkissjóðs til greiðslu kostnaðar af forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum falla þær greiðslur niður á árinu 1992.

33. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. 9. gr. laga nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, og 7. gr. laga nr. 57/1990, um flokkun og mat á gærum og ull, er landbúnaðarráðherra heimilt að innheimta gjald af sláturleyfum til greiðslu kostnaðar sem af yfirmati samkvæmt lögunum leiðir.

34. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvöru, sbr. breytingu með 2. gr. laga nr. 29/1987, skal framlag ríkissjóðs til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins á árinu 1992 vera 340.000 þús. kr.

35. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði d-liðar 3. gr. laga nr. 44/1976, um Fiskveiðasjóð Íslands, skal framlag ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs falla niður á árinu 1992.

36. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 26. gr. laga nr. 21/1963, um kirkjugarða, sbr. lög nr. 89/1987, skal hlutdeild kirkjugarða í óskiptum tekjuskatti lækka um 20% á árinu 1992.

37. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laga nr. 21/1981, um kirkjubyggingasjóð, skal framlag ríkissjóðs eigi nema hærri fjárhæð en 1.000 þús. kr. á árinu 1992.

38. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði laga nr. 51/1972, um Bjargráðasjóð, sbr. lög nr. 57/1980, skal framlag ríkissjóðs falla niður á árinu 1992.

39. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 36. gr. laga nr. 67/1971, almannatryggingalaga, skal framlag ríkissjóðs til varasjóðs slysatrygginga falla niður á árinu 1992.

40. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 17. gr. laga nr. 39/1965, um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, skal framlag ríkissjóðs til Gæsluvistarsjóðs falla niður.

41. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 42. gr. laga nr. 49/1978, lyfjalaga, skal framlag ríkissjóðs til Lyfsölusjóðs eigi nema hærri fjárhæð en 900 þús. kr. á árinu 1992.

42. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 31. gr. laga nr. 69/1984, um Hafnabótasjóð, skal framlag ríkissjóðs ekki nema hærri fjárhæð en 90.000 þús. kr. á árinu 1992.

43. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 8. og 26. gr. laga nr. 79/1985, um skipulag ferðamála, skal framlag ríkissjóðs til Ferðamálasjóðs og til sérstakra verkefna Ferðamálaráðs samkvæmt fyrrnefndum lögum ekki nema hærri upphæð en 68.000 þús. kr. á árinu 1992.

44. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 35. gr. laga nr. 19/1964, skipulagslaga, sbr. lög nr. 42/1974, skal mótframlag ríkissjóðs falla niður á árinu 1992.

III. KAFLI


45. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1992.
     Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu er heimilt að fella ákvæði I. kafla inn í meginmál þeirra laga sem þau breyta og gefa þau lög út svo breytt.


Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Þrátt fyrir ákvæði 17. gr. laga þessara (44. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum) skulu þeir sem njóta eiga endurgreiðslna á árinu 1991 samkvæmt reglum nr. 63/1991 um endurgreiðslur sjúkratrygginga af tannréttingakostnaði samkvæmt lögum um almannatryggingar njóta þess réttar áfram, enda teljist sannað að þeir hafi átt þennan rétt. Tryggingastofnun ríkisins skal fyrir 15. janúar 1992 auglýsa með áberandi hætti eftir þeim aðilum sem telja sig eiga rétt samkvæmt framansögðu og ber þeim sem ekki hafa þegar sent inn umsóknir að gera það fyrir 15. febrúar 1992 á eyðublöðum sem stofnunin lætur í té. Að öðrum kosti fellur rétturinn niður. Greiðslum samkvæmt bráðabirgðaákvæði þessu skal ljúka 31. desember 1993.

II.


     Teljist nauðsynlegt til þess að tryggja endurgreiðslur skv. I er ráðherra heimilt að setja sérstaka gjaldskrá.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


     Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1992 hefur ríkisstjórnin boðað samdrátt heildarútgjalda ríkisins sem nemur 4 1 / 2 % frá þessu ári. Til þess að unnt verði að standa við það fyrirheit er nauðsynlegt að breyta nokkrum lögum. Rétt þótti að safna breytingartillögum saman í eitt frumvarp til þess að leggja á það áherslu að öll tengjast þau stefnu ríkisstjórnarinnar um lækkun ríkisútgjalda og viðleitni til þess að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum. Á vegum ríkisstjórnarinnar er að störfum nefnd til þess að gera tillögu um útfærslu á áformum, sem kynnt eru í fylgiskjali með fjárlagafrumvarpi, þess efnis að ekki skuli stofnað til skuldbindinga ríkissjóðs vegna bóta fyrir eyðingu refa og minka umfram 9.700 þús. kr. á árinu 1992. Niðurstöður þeirrar nefndar verða væntanlega lagðar fyrir þingnefnd við meðferð þessa frumvarps.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Frestað er framkvæmd ákvæðis um að nemendur skuli eiga kost á málsverði á skólatíma.
    Frestað er framkvæmd ákvæðis um stofnun grunnskólaráðs, en gert er ráð fyrir að það sé skipað 11 fulltrúum.
    Hér er fjallað um heimild til að ráða aðstoðarskólastjóra án þess að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 32. gr., en þar er gert ráð fyrir að aðeins þeir skólar, sem rétt eiga á tíu kennurum eða fleiri í fullu starfi auk skólastjóra, geti ráðið aðstoðarskólastjóra. Einnig er í 2. mgr. heimilað að ráða fleiri en einn aðstoðarskólastjóra vegna sérstakra aðstæðna. Framkvæmd þessa ákvæðis er frestað.
    Frestað er að lengja kennslutíma nemenda í grunnskóla að því marki sem gert er ráð fyrir í 1. mgr. 46. gr. og verður fyrst um sinn miðað við þann kennslutíma sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga 1992. Enn fremur er frestað framkvæmd á 6. mgr. 46. gr. þar sem kveðið er á um að komið skuli á skólaathvörfum við hvern grunnskóla.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.


    Frestað er að fækka nemendum í bekkjum í samræmi við 75. gr. og ákvæði til bráðabirgða. Nemendafjöldi verður mestur 22 í 1. og 2. bekk og 29 í 3.–10. bekk.
     Fellt er niður ákvæði um að 35. gr. um námsráðgjafa við einstaka grunnskóla eða fræðsluskrifstofur komi til framkvæmda á næstu fimm árum.
     Fellt er niður ákvæði 3. gr. um að einsetinn skóli komi að fullu til framkvæmda á næstu tíu árum. Fellt er niður ákvæði um að 4. gr. um málsverði á skólatíma komi til framkvæmda á næstu þremur árum.
     2. mgr. hins nýja ákvæðis til bráðabirgða er samhljóða 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum eins og þau eru nú.
     Í 3. mgr. er ráðuneytinu veitt heimild til að setja reglugerð um vikulegan kennslutíma á bekk í grunnskóla, þar með taldar valgreinar, og leyfilega aukningu nemendastunda vegna skiptitíma.

Um 4. gr.


    Ástæða breytinga er skýringarvandi 10. gr. varðandi rétt bænda til framlaga vegna skurðgraftar og túnræktar.

Um 5. gr.


    Hér er lagt til að veiðieftirlitsgjald, sem veiðileyfishafar greiða, standi að öllu leyti undir kostnaði af rekstri veiðieftirlits sjávarútvegsráðuneytis í stað helmings eins og verið hefur.

Um 6. gr.


    Auglýsingar eru einn stærsti kostnaðarliður ríkisins við alþingiskosningar og hefur oft komið til umræðu að draga úr þeim kostnaði.
     Telja verður nægilegt að auglýsing landskjörstjórnar um öll framkomin framboð, þ.e. listabókstafi og heiti stjórnmálasamtaka, en án nafna frambjóðenda, birtist í Lögbirtingablaði, útvarpi og dagblöðum.
     Auglýsingu, þar sem jafnframt eru tilgreind nöfn frambjóðenda, staða þeirra og heimili, er talið fullnægjandi að birta í Lögbirtingablaði eingöngu, minnst 10 dögum fyrir kjördag.

Um 7. gr.


    Jafnframt þessu er yfirkjörstjórnum ætlað að sjá um að í hverju kjördæmi verði útbúinn listi með öllum framboðum í kjördæminu. Sá listi verði festur upp á kjörstöðum á kjördegi svipað og kosningaleiðbeiningar þær sem settar eru upp skv. 78. gr. kosningalaga.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að komið verði á fót sérstökum sjóði til að standa undir ábyrgð á vinnulaunakröfum sem launþegi á hjá vinnuveitanda er verður gjaldþrota.

Um 10. gr.


    Sjóður þessi verður fjármagnaður af gjaldi sem allir atvinnurekendur, einnig ríki og sveitarfélög, greiði á sama hátt og tryggingagjald. Umfang sjóðsins og ábyrgð er hann veitir verða skilgreind í frumvarpi til laga um réttindi launþega við gjaldþrot sem lagt verður fyrir Alþingi á næstunni. Fyrirkomulagið er eins og algengast er í nágrannalöndum okkar, þ.e. að slík launatrygging sé greidd með skylduframlögum atvinnurekenda.
     Samkvæmt áætlunum, sem lagðar eru til grundvallar í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1992, er gjaldstofninn, sem lagt er til að miðað verði við, 187 milljarðar króna og skiptist þannig:


TAFLA repró









    Þótt hér sé lagt til að komið verði á fót sérstökum sjóði til að standa straum af þessum kostnaði er engu að síður gert ráð fyrir að ákvæði um réttindi launþega við gjaldþrot verði þrengd verulega. Það verði einkum gert með eftirfarandi breytingum: Felld verði niður ábyrgð á kröfum lífeyrissjóða, ábyrgðin miðist við almenna vexti í stað dráttarvaxta nú, þak verði sett á greiðslur til lögmanna og heildargreiðslur til hvers launþega og tíminn sem ábyrgðin nær til styttur.
     Samhliða þessu er gert ráð fyrir að í samráði við dómsmálaráðuneytið og viðskiptaráðuneytið verði unnið að öðrum lagabreytingum til að draga úr hættu á að stjórnendur og eigendur fyrirtækja komist undan ábyrgð við gjaldþrot.
     Hér er valinn annar þeirra tveggja kosta sem getið er í frumvarpi til fjárlaga til að stemma stigu við síauknum útgjöldum ríkissjóðs vegna ríkisábyrgðar á launum við gjaldþrot.
     Hinn kosturinn var óbreytt fyrirkomulag í fjármögnun, þ.e. að ríkissjóður stæði einn undir útgjöldum vegna ríkisábyrgðar á launum við gjaldþrot, en ábyrgðin yrði þrengd verulega frá því sem nú er, og áætluð útgjöld ríkissjóðs 100 milljónir króna á fjárlögum næsta árs.
     Til þess að ná því markmiði þyrfti að mati fjármálaráðuneytisins að gera eftirfarandi breytingar á lögunum um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot:

Almenn vinnulaun.
    Krafa launþega um vinnulaun miðist við þrjá síðustu starfsmánuði í stað sex í gildandi lögum.
    Til frádráttar bóta fyrir launamissi vegna riftunar eða uppsagnar vinnusamnings komi lögmætur uppsagnarfrestur atvinnurekenda.
    Hámark ábyrgðar ríkissjóðs skv. 1. og 2. tölul. nemi ekki hærri fjárhæð en sexföldum atvinnuleysisbótum.

Lífeyrissjóðsiðgjöld.
    
Greiðslur lífeyrissjóðsiðgjalda falli niður.

Vextir.
    
Í stað dráttarvaxta verði vextir miðaðir við almenna sparisjóðsvexti.

Lögfræðikostnaður.
    
Ákvæðið verði þrengt.
Orlof.
    
Orlofslaun komi til útborgunar vegna síðustu þriggja mánaða í stað sex.
     Leitað hefur verið álits Vinnuveitendasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands á því hvor fyrrgreindra kosta yrði valinn en þeir hafnað viðræðum á grundvelli þessara kosta.

Um 11. gr.


    Undanfarinn áratug hefur átt sér stað mikil uppbygging stofnana og heimila í þágu fatlaðra. Segja má að frá setningu laganna um málefni fatlaðra 1983 hafi orðið bylting í þessum málaflokki.
     Nú er komið að því að brýn þörf er orðin á fjármagni til viðhalds ýmissa bygginga fyrir fatlaða, enda hefur það verið vanrækt mjög á undanförnum árum vegna fjárskorts. Hér er lagt til að heimilt verði að verja allt að þriðjungi af ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs fatlaðra til meiri háttar viðhalds á byggingum stofnana og heimila fatlaðra. Jafnframt er í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1992 fallið frá hugmyndum um skerðingu á ráðstöfunarfé sjóðsins. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1992 er fjárveiting til sjóðsins 320 m.kr.
     Í fjárlögum fyrir árið 1991 var fjárveiting til Framkvæmdasjóðs fatlaðra 225 m.kr. og var þá gert ráð fyrir 35 m.kr. skerðingu á framlagi til sjóðsins. Fallið var frá þeirri skerðingu við afgreiðslu lánsfjárlaga fyrir árið 1991, enda yrði reglugerð um verkefni sjóðsins breytt og honum heimilað að leggja fé til meiri háttar viðhalds á byggingum stofnana og heimila fyrir fatlaðra. Hér er lagt til að ákvæði þetta verði lögfest.

Um 12. gr.


    Lagt er til að við 58. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins bætist ný málsgrein sem felur í sér að sveitarfélög leggi fram sérstakt óafturkræft framlag sem nemi 3,5% af kostnaðarverði eða kaupverði hverrar félagslegrar íbúðar í sveitarfélaginu. Bygging félagslegra íbúða er ótvírætt hagsmunamál sveitarfélaganna. Þykir eðlilegt að þau leggi fram upphæð sem samsvarar gatnagerðargjaldi af íbúð í fjölbýlishúsi.

Um 13. gr.


    Í greininni er lagt til að lán til félagslegra íbúða nemi aldrei hærri upphæð en 90% af þeim kostnaðargrundvelli að lánveitingu sem húsnæðismálastjórn hefur samþykkt, að frádregnu 3,5% sérstöku framlagi sveitarfélaga til hverrar félagslegrar íbúðar, sbr. 2. mgr. 58. gr. Þetta mun í raun leiða til lækkunar á kostnaðarverði íbúðanna og þar með minni greiðslubyrði íbúðarkaupenda.

Um 14. gr.


    Markmiðið með ákvæði þessu er að um næstu áramót verði almennum lánveitingum til einstaklinga úr Byggingarsjóði ríkisins hætt, en nái ekki til 1. mars 1994 eins og lög nr. 47/1991 gera ráð fyrir. Lagt er til að það verði gert með þeim hætti að þeir einir fái lán úr Byggingarsjóði ríkisins sem þegar hafa fengið lánsloforð. Frumvarpið gerir ráð fyrir að 2. tölul. núgildandi bráðabirgðaákvæðis I verði felldur brott og að þeir sem aðeins hafa fengið svar almenns eðlis um lánsrétt fái ekki almenn lán úr Byggingarsjóði ríkisins.
     Í lögum nr. 47/1991 segir í 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða I að þeir sem fengið hafi almenn svör um lánsrétt geti staðfest umsóknir sínar við Húsnæðisstofnun ríkisins og þannig haldið rétti sínum til almennra lána úr Byggingarsjóði ríkisins fram til 1. mars 1994 með sama hætti og þeir sem fengið hafa lánsloforð. Þetta er að sjálfsögðu háð því að lífeyrissjóðir kaupi skuldabréf af Húsnæðisstofnun ríkisins. Á árinu 1990 voru lagðar fram tvær skýrslur um fjárhagsstöðu byggingarsjóðanna, önnur frá nefnd sem félagsmálaráðherra skipaði en hin frá Ríkisendurskoðun. Í báðum skýrslunum kemur í ljós að eigið fé sjóðanna lækkar ört á næstu árum verði ekkert að gert. Nefnd félagsmálaráðherra lagði því til að hætt verði að veita almenn lán úr Byggingarsjóði ríkisins og öllum umsækjendum, sem ekki hefðu fengið lánsloforð, vísað á húsbréfakerfið. Útreikningar hafa sýnt að það mundi kosta Byggingarsjóð ríkisins um 12 milljarða króna að veita lán þeim 5.000 umsækjendum sem fengið hafa svör almenns eðlis um lánsrétt. Lánin þyrfti sjóðurinn að óbreyttu að borga út á næstu þremur árum. Vegna fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins og þeirra aðstæðna, sem þjóðarbúskapurinn býr nú við, er ljóst að halda verður almennum útlánum sjóðsins í algjöru lágmarki. Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða ríkisstjórnarinnar að framhald á útlánum úr Byggingarsjóði ríkisins verði að takmarkast við þá sem fengið hafa lánsloforð.
     Er fjárhagur Byggingarsjóðs ríkisins var athugaður sl. sumar kom í ljós að þegar hafði verið ráðstafað öllu því fé er sjóðurinn hafði yfir að ráða á árinu 1991. Ekki hafa verið gerðir samningar við lífeyrissjóðina um skuldabréfakaup eftir árslok 1991. Fjárframlög ríkissjóðs hafa farið minnkandi á sl. árum og var ekkert veitt úr ríkissjóði á þessu ári. Ekki er gert ráð fyrir framlögum til Byggingarsjóðs ríkisins í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1992. Það er því ljóst að fjárhagsleg geta Byggingarsjóðs ríkisins til frekari lánveitinga en þegar hafa verið bundnar í lánsloforðum er ekki fyrir hendi.
     Í þessu sambandi skal áhersla á það lögð að fólk, sem fengið hefur svör um lánsrétt, hefur ekki eignast kröfu á hendur Byggingarsjóði ríkisins. Í tilkynningu um lánsrétt er tekið fram að lánsréttur geti breyst eða fallið niður verði gerð breyting á gildandi lögum. Allir, sem sótt hafa um lán, en ekki fengið lánsloforð frá Húsnæðisstofnun, hafa átt kost á að nýta sér fyrirgreiðslu húsbréfadeildar Húsnæðisstofnunar ríkisins. Vextir af almennum lánum Byggingarsjóðs ríkisins hafa nú hækkað í 4,9%. Vextir í húsbréfakerfinu eru nú 6% en með vaxtabótum er vaxtakostnaður meðaltekju- og lágtekjufólks greiddur niður.
     Með lagabreytingu þessari, ef af verður, hafa húsbréf í reynd tekið við af almennum lánum Byggingarsjóðs ríkisins. Húsbréfakerfið hefur þegar sýnt að það leysir þau fyllilega af hólmi. Allir þeir, sem hafa greiðslugetu til að koma sér upp húsnæði á hinum almenna markaði, eiga aðgang að húsbréfum. Verði frumvarpið að lögum mun almennum lánveitingum úr Byggingarsjóði ríkisins verða lokið 31. desember 1991.
     Seðlabankinn hefur í umsögn sinni um útgáfu á 1. flokki húsbréfa á árinu 1991 bent sérstaklega á vandkvæði þess að hafa tvö lánakerfi í gangi á sama tíma. Endanleg lok almennra lánveitinga úr Byggingarsjóði ríkisins draga úr lánsfjárþörf sjóðsins hjá lífeyrissjóðunum og munu um leið efla starfsskilyrði húsbréfakerfisins. Staða ríkisfjármála er með þeim hætti að nauðsynlegt er að hverfa strax frá þeirri beinu niðurgreiðslu vaxta af húsnæðislánum sem á sér stað með almennum útlánum úr Byggingarsjóði ríkisins. Húsbréfakerfið hefur þegar sýnt að það leysir almenn lán Byggingarsjóðs ríkisins fyllilega af hólmi.
     Rétt er að Húsnæðisstofnun tilkynni þeim sem fengið hafa svör almenns eðlis um lánsrétt að vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu og lagabreytinga í kjölfar þeirra komi réttur til húsbréfa í stað almennra lána frá Byggingarsjóði ríkisins.

Um 15. gr.


    Greiðsluþátttöku í almennum tannréttingum verður hætt samkvæmt þessu frumvarpi. Nauðsynlegt þykir í framhaldi þess að breyta orðalagi c-liðar 39. gr. til að taka af allan vafa um það að með stoð í honum megi styrkja tannréttingar sem leiðir af alvarlegum meðfæddum göllum, slysum eða sjúkdómum. Þetta hefur í för með sér að færa þarf hluta II. flokks í reglum nr. 63/1991 um endurgreiðslur sjúkratrygginga af tannréttingakostnaði samkvæmt lögum um almannatryggingar undir reglur c-liðar 1. mgr. 39. gr. almannatryggingalaga þannig að í stað greiðslna samkvæmt samningum við Tannlæknafélag Íslands komi styrkir samkvæmt reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum tryggingaráðs.

Um 16. gr.


    Breytt framkvæmd kallar á lítils háttar orðalagsbreytingu á a-lið 1. mgr. 43. gr. laga um almannatryggingar. Þessa breytingu er að finna í a-lið 15. gr. frumvarpsins.
     Rétt þykir að heimilt sé að hafa gjaldið hlutfallsgjald. Gert er ráð fyrir slíkri heimild í b- og c-liðum 15. gr. frumvarpsins.
     Í d-lið 15. gr. er 2. mgr. 43. gr. laga um almannatryggingar breytt. Fyrri málsliðurinn er óbreyttur. Hinn síðari er nýmæli sem í felst rýmkun á heimild ráðherra til að setja gjaldskrár. Þetta þykir nauðsynlegt í ljósi sívaxandi aðgerða og rannsókna sem gerðar eru utan sjúkrahúsa. Eðlilegt þykir að heimilt sé að setja gjaldskrár fyrir þessa þjónustu óháð greiðsluþátttöku fyrir sérfræðilæknisþjónustu.

Um 17. gr.


    Ákveðið hefur verið að breyta greiðsluþátttöku almannatrygginga í tannlækningum. Þannig verður greiðsluþátttöku í tannréttingum hætt að öðru leyti en sem fram kemur í breyttum c-lið 1. mgr. 39. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 15. gr. þessa frumvarps. Þá hefur einnig verið ákveðið að greiðsluþátttaka almannatrygginga í tannlækningum barna 15 ára og yngri verði 90% í stað 75% hjá börnum 5 ára og yngri og 100% hjá börnum 6–15 ára. Í þessu felst samræming á greiðsluþátttöku vegna tannlækninga barna og ungmenna. Þess er vænst að aukningin á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í tannlæknakostnaði barna 5 ára og yngri úr 75% í 90% skili sér í enn betri tannheilsu eldri barna og unglinga. Verulega hefur þokast í rétta átt í þeim málum á undanförnum árum.
     Þá hefur og verið ákveðið að breyta greiðsluþátttöku á þann veg að á þeim svæðum, þar sem skólatannlækningar eru skipulagðar og starfræktar sem er einkum í Reykjavík, taki sjúkratryggingar ekki þátt í almennum tannlækningum barna á aldrinum 6–15 ára utan skólatannlækninganna. Þetta þýðir að foreldrar, sem kjósa að notfæra sér ekki skipulagðar skólatannlækningar, munu greiða tannlæknakostnað barna sinna á aldrinum 6–15 ára að fullu sjálfir.
     Í ljósi ráðagerða um að bjóða tannlæknaþjónustu út þykir eðlilegt að láta sömu reglur gilda um tannlækningar þar sem samningar nást um tannlæknaþjónustu í kjölfar útboðs og eiga að gilda þar sem skólatannlækningar eru skipulagðar. Í þessu felst að sjúkratryggingar munu ekki greiða tannlæknakostnað barna og unglinga 15 ára og yngri hjá öðrum tannlæknum en þeim sem aðilar eru að samningum í kjölfar útboðs. Kjósi forráðamenn barna að notfæra sér tannlæknaþjónustu annarra tannlækna munu sjúkratryggingar ekki taka þátt í tannlæknakostnaðinum.

Um 18. gr.


    Í a- og b-liðum eru gerðar leiðréttingar á 46. gr. almannatryggingalaga.
     Í c- og d-liðum eru gerðar nauðsynlegar breytingar á 46. gr. sem leiðir af því að daggjaldanefnd verður lögð niður. Daggjaldaákvörðun er færð í hendur ráðherra. Lítill hluti sjúkrahúsarekstursins fellur undir daggjaldakerfið eða einungis sem svarar u.þ.b. 10% af heildarkostnaði við sjúkrahús. Benda má á að síðasta áratuginn hafa ráðherrar fjármála og heilbrigðismála ætíð staðfest ákvarðanir daggjaldanefndar.

Um 19. gr.


    Hér er um að ræða nýmæli vegna ráðagerða um að leita í ríkari mæli útboða vegna þeirrar þjónustu sem sjúkratryggingum ber að veita. Í breytingunni felst að ef sjúkratryggingadeildin gengur til samninga um ákveðna þætti þjónustu þá verður henni óheimilt að greiða öðrum aðilum en þeim sem aðilar eru að samningum fyrir þá þjónustu. Kjósi sjúkratryggður að leita annað um þjónustuna en til þess sem samningur hefur verið gerður við verður hann því að bera kostnaðinn sjálfur. Sem dæmi um þjónustu sem til greina kemur að bjóða út má nefna utanspítalarannsóknir og tannlækningar.

Um 20. gr.


    Rétt þykir að breyta orðalagi 1. málsl. 57. gr. almannatryggingalaga til samræmis við breytta framkvæmd. Bætur almannatrygginga eru nú greiddar þriðja virkan dag hvers mánaðar. Þetta þýðir að ef fyrsta dag mánaðar ber upp á föstudag eru bæturnar greiddar út næsta þriðjudag.

Um 21. gr.


    Hér er um nýmæli að ræða vegna ráðagerða um að leita í ríkari mæli útboða um rekstur heilbrigðisþjónustu. Til álita kemur að bjóða út t.d. ýmsar rekstrarvörur og lyf.

Um 22. gr.


    Ákveðið hefur verið að leggja eiturefnanefnd niður og fela eiturefnaeftirliti Hollustuverndar ríkisins verkefni nefndarinnar. Af þessari ákvörðun leiðir nokkrar breytingar á lögum um eiturefni og hættuleg efni og eru þær raktar í þessari grein.

Um 23. gr.


    Breytingu á 14. gr. laga nr. 94/1976 er ætlað að styrkja heimild til gjaldtöku fyrir þá þjónustu er Fasteignamat ríkisins veitir. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1992 er gert ráð fyrir að fjármögnun stofnunarinnar með þjónustugjöldum aukist umtalsvert, eða úr um 55% af rekstrarkostnaði í tæplega 80%. Gjaldskrá stofnunarinnar verður væntanlega breytt í þá veru að þeir aðilar, sem hafa tekjur af upplýsingum úr fasteignaskránni, greiði meira og er þá fyrst og fremst um að ræða sveitarfélög. Fasteignamatið er gjaldstofn verulegrar innheimtu í fasteignagjöldum eða sem nemur 6 milljörðum króna fyrir árið 1991. Eignarskattsálagning ríkisins á grundvelli fasteignamats nam hins vegar um 2,5 milljörðum króna fyrir árið 1991. Þessar tölur endurspegla að innheimta sveitarfélaganna gerir mestar kröfur til vinnuframlags og nákvæmni í störfum stofnunarinnar. Af þeim sökum þykir eðlilegt að nema úr gildi fyrra ákvæðið um verðlagningu þjónustunnar sem kveður á um að sérstakt tillit skuli tekið til upplýsingasöfnunar sveitarfélaga þegar verðlagning er ákveðin. Með hliðsjón af framansögðu hefur farið fram sérstök endurskoðun á gjaldskrá Fasteignamats ríkisins fyrir árið 1992. Hún byggist á því að skipta gjaldtöku fyrir þjónustu stofnunarinnar í tvo liði, þ.e. grunnverð fyrir upplýsingar og viðbótarverð ef um tekjuöflun á grundvelli upplýsinga úr skránni er að ræða. Í grunnverðinu er tekið sérstakt tillit til upplýsingaöflunar sveitarfélaga, svo sem er í gildandi lögum. Miðað er við að almennt grunnverð verði tiltekin krónutala fyrir hverja matseiningu, en helmingi lægra verð til sveitarfélaga fyrir þær matseiningar sem þau hafa veitt réttar upplýsingar um frá 1976. Viðbótarverðið er tvíþætt. Annars vegar greiða sveitarfélög tiltekið hlutfall af álagningarstofni en hins vegar greiðist ákveðið hlutfall af stimpilgjöldum skjala vegna sölu fasteigna. Þess skal getið að gert er ráð fyrir að greiða þjónustu Fasteignamats ríkisins við embætti ríkisskattstjóra með hærra ríkisframlagi til stofnunarinnar í stað gjaldtöku áður. Þetta er gert m.a. með vísan í 94. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem kveður á um að skattyfirvöld eigi heimtingu á upplýsingum er snerta skattlagningu og eftirlit með henni endurgjaldslaust. Eftirfarandi yfirlit sýnir tekjuáætlun 1992 miðað við framangreinda tillögu borna saman við tekjuáætlun 1991 við núverandi fyrirkomulag gjaldtöku.

TAFLA repró








    Framlag ríkissjóðs í fjárlögum 1991 er um 44 m.kr., þar af 19,5 m.kr. vegna stofnkostnaðar. Í frumvarpi til fjárlaga 1992 er gert ráð fyrir að framlagið verði 51,4 m.kr., þar af 28,6 m.kr. vegna stofnkostnaðar.

Um 24. gr.


    Framlag ríkissjóðs til Iðnlánasjóðs hefur undanfarin ár verið fellt niður með ákvæði í lánsfjárlögum.

Um 25.–44. gr.


    Í samræmi við markaða stefnu í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1992, um skerðingu lögboðinna framlaga, er í þessu frumvarpi lögð til skerðing á sjálfvirkum framlögum til ýmissa aðila sem bundin eru í sérlögum.

Um 45. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


     Nauðsynlegt er að tryggja það að þeir sem rétt eiga á endurgreiðslum samkvæmt reglum nr. 63/1991 njóti þess réttar áfram. Er þetta ekki síst nauðsynlegt vegna þess að fjöldi manns varð við þeim tilmælum heilbrigðisyfirvalda að fresta tannréttingameðferð þar til samið hefði verið við tannlækna um gjaldskrá. Þegar samningar náðust sögðu allir tannréttingasérfræðingar sig undan samningnum. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins til að greiða fyrir samkomulagi hefur ekki gengið saman. Fyrir vikið hefur ekki reynst unnt að framkvæma reglurnar nr. 63/1991 um endurgreiðslur sjúkratrygginga af tannréttingakostnaði samkvæmt lögum um almannatryggingar. Stór hópur manna hefur lagt í umtalsverðan kostnað vegna tannréttinga án þess að fá endurgreiðslur. Nauðsynlegt getur reynst að ráðherra hafi heimild til setningar sérstakrar gjaldskrár til þess að endurgreiðslur geti átt sér stað náist ekki samkomulag um gjaldskrá. Gert er ráð fyrir að endurgreiðslur samkvæmt þessu bráðabirgðaákvæði geti staðið út árið 1993 en frá og með þeim tíma verði þeim að fullu lokið. Hér er oft um tímafreka og langa meðferð að ræða og verður frestur því að vera ríflegur og umfram allt sanngjarn.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga


um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992.



repró í Gut.